Einhver þarf alltaf að vaska upp

Einhver þarf alltaf að vaska upp

Mörtur er nauðsynlegar að hafa með í öllum félagasamtökum, stjórnmálaflokkum, í kirkjunni. Mörturnar koma nefnilega hlutunum í framkvæmd. Þær eru ekkert að slóra og þær fara eftir öllum leikreglum, svo lengi sem þeim finnst þær skynsamar. Þú getur treyst því að verkefnum, þeim sem Mörtum er trúað fyrir, verður lokið.

Spurningin Sagan um systurnar Mörtu og Maríu er ein af þessum sögum sem alltaf eiga jafn vel við. Hún fjallar um venjulegt fólk sem er að fást við hversdagslega hluti og tilfinningar sem við þekkjum flest eða öll. Flest höfum við að öllum líkindum verið í þeirri stöðu með systkini, vini, vinnufélaga eða maka, að hann eða hún svíkst undan og við þurfum að vinna alla vinnuna. Og það er náttúrulega óþolandi. Ég er stóra systir, eins og Marta hefur að öllum líkindum verið. Ég á yngri systkini sem mér fannst oft að fengu allt upp í hendurnar, annað en ég. Litla systir mín sem er næst mér var mun dekraðri en ég...fannst mér. Þegar við áttum að laga til í herberginu okkar, sem við deildum, þá fannst mér hún alltaf reyna að koma sé undan því og ég dreif þetta þá bara af ein, því þetta var eitthvað sem þurfti að gera. En ég var óskaplega reið og svekkt út í litlu systur. Mikið skil ég Mörtu vel. Hún er ábyrgðafull kona sem sinnir öllum sínum skyldum. Enginn getur sakað hana, þennan dugnaðarfork, að svíkjast undan. Hvort er meira af Mörtu eða Maríu í þér? Mörtur er nauðsynlegar að hafa með í öllum félagasamtökum, stjórnmálaflokkum, í kirkjunni. Mörturnar koma nefnilega hlutunum í framkvæmd. Þær eru ekkert að slóra og þær fara eftir öllum leikreglum, svo lengi sem þeim finnst þær skynsamar. Þú getur treyst því að verkefnum, þeim sem Mörtum er trúað fyrir, verður lokið. Marta systir hennar Maríu hefur í nógu að snúast við að þjóna körlunum sem komnir eru til þess að hlusta á Jesú. Það þarf að laga mat, leggja á borð, þvo upp, fylgjast með því að engan vanhani um neitt. Þetta er ekki einnar konu verk. Hvar er María? Er litla dekurdúkkan að svíkjast undan? Jú, þarna er hún! Hún situr hjá körlunum og er að hlusta á Jesú. Skilur hún ekki að hún hefur engan tíma fyrir þetta. Hún getur nú verið meiri letinginn. Af hverju segir Jesús ekkert? Hann veit að konurnar eiga að sjá um mat og drykk og þjóna körlunum til borðs. Ekki sér uppvaskið um sig sjálft. Heldur hún að hún sé einhver karl? Að lokum getur Marta ekki á sér setið. Eiginlega er þetta allt Jesú að kenna. Hann á að átta sig á því að hún er látin sjá um allt ein. Er honum alveg sama? Hún finnur hvernig reiðin nær meiri og meiri tökum á henni. Að lokum gengur hún til Jesú og klagar systur sína: „Drottinn, hirðir þú ekki um að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestunum? Segðu henni að hjálpa mér.“ Segir Marta. Ég er ekki viss um að Marta hafi verið sátt við svarið sem hún fékk. Jesús segir að María litla dekurrófan hafi valið góða hlutskiptið. Hvernig má það vera?  

Svarið Jesús svarar umkvörtun Mörtu á þessa leið: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ Það var sem sagt ekki neinnar hjálpar að vænta frá honum. Eða hvað? Hvað ef Jesús hefur í raun sagt þetta einhvern veginn á þessa leið: „Elsku Marta mín. Þú ert alltaf svo dugleg og átt heiður skilinn en nú held ég að það sé kominn tími til þess að þú slappir af og hættir að þjóna okkur. Sestu hérna hjá henni Maríu. Vertu með. Ekki vera með allar þessar áhyggjur. Uppvaskið fer ekkert og við verðum ekki hungurmorða þótt þú setjist hérna hjá okkur stutta stund. Ég vil að þú heyrir líka það sem ég hef að segja.“ Hvað ef Jesús hefur sagt þetta svona? Breytir það ekki svolitlu? Þessi orð er ekki hægt að skilja sem skammir heldur sem umhyggju fyrir Mörtu. Kannski rennur henni reiðin ef hann talar til hennar á þennan hátt. Það sem Jesús var í raun og veru að segja var róttækt. Hann var að segja að konum væri frjálst að velja hlutskipti sitt. Að konur þurfi ekki eingöngu að vera í þjónustuhlutverkinu. Það sem hann var að segja var: „konur sýnið kjark og veljið það sem ykkur lystir. Ekki láta fyrirfram gefnar hugmyndir um hlutverk stoppa ykkur í leitinni að hinu góða, í leitinni að því sem skiptir máli“. Og þetta var róttækt. Á þessum tíma og í þessu samfélagi, þar sem þetta heimboð á sér stað, voru hlutverk kynjanna skýr. Konur áttu að þjóna körlum og sinna húsverkum. Karlar áttu aftur að þjóna Guði og stjórna heimili og fjölskyldu. Vera höfuð konunnar og fjölskyldunnar. Í þessari sögu hvetur Jesús konuna til þess að brjóta þetta upp og ganga þvert á ríkjandi hefðir. Hann stakk reyndar ekki upp á því að síðan myndu karlarnir sjá um matinn og uppvaskið á eftir. Það kom löngu síðar. Þetta var ágæt byrjun. Það er erfitt að giska á hvernig Marta tók þessu svari. Þetta var líklega ekki svarið sem hún hafði vonast eftir. Hún vildi að Jesús ræki Maríu inn í eldhús. Hvort hún fór að fordæmi litlu systur og hlýddi á Jesú vitum við ekki. Kannski tók það hana svolítinn tíma að melta þetta svar. Kannski tók það konur og samfélagið allt svolítinn tíma að melta þetta svar. Einhver þarf jú ávalt að sjá til þess að hlutirnir gangi upp. Einhver þarf alltaf að vaska upp.  

Eitt er nauðsynlegt Hvað er þetta eina sem er nauðsynlegt, sem Jesús talar um í svari sínu til Mörtu? Samkvæmt þessu er það ekki að standa sig alltaf. Að alltaf hafa hreint og fínt heima, að alltaf vera sú sem allir geti treyst að vinni vinnuna. Allt eru þetta góðir eiginleikar og oft nauðsynlegir en stundum er líka ágætt að átta sig á því að jörðin heldur áfram að snúast þótt þú hafir ekki vaskað upp eftir matinn eða þótt þú hafir ekki sinnt öllum sem þér finnst þú þurfa að sinna. Það eina sem skiptir máli þegar allt kemur til alls er kærleikur. Að við áttum okkur á því að við erum elskuð þótt við klikkum stundum, þótt við séum ófullkomin. Hvort sem við líkjumst Mörtu eða Maríu eða höfum blöndu af eiginleikum beggja í okkur.  

Á sama hátt verðum við að reyna að elska fólkið í kringum okkur þótt það sé oft ófullkomið. Þótt það skilji okkur stundum eftir með uppvaskið. Kærleikur er það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið! Amen.