Bænin má aldrei bresta þig.

Bænin má aldrei bresta þig.

Bænaarfur okkar íslendinga er ríkastur við rúmstokk barnanna og til þessa dags er mikill meirihluti foreldra sem biður bænir með börnum sínum að kveldi. Það er mikið þakkarefni og mikilvægi bænaiðkunnar með börnum skyldi aldrei vanmeta. Kvöldbænir leggja grundvöll að því hvernig börnum tekst að glíma við tilvistarspurningar sem fullorðnar manneskjur og veitir þeim aðgang að uppsprettu sem aldrei þrýtur.

Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmisleg. Þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að drottins náð.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Kæri söfnuður Seltjarnarneskirkju, góðir landsmenn.

Það er ekki laust við að sumarhugur sé í fólki í þeirri vorblíðu sem hefur gælt við okkur þessa helgi, að ekki sé minnst á þau jákvæðu áhrif sem að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur á þjóðarsálina og fyrir okkur höfuðborgarbúa, metnaðarfull dagskrá listahátíðar. Greina mátti glaðværð og stemningu víða á götum Reykjavíkur í gær og það var eins og að þjóðin væri nú að ná andanum eftir þennan áfallavetur, sem loks hefur hopað fyrir vorinu.

Vorsálmur hr. Karls Sigurbjörnssonar, sem sunginn var fyrir prédikun, orðar þennan veruleika vorsins.

Nú skrúða grænum skrýðist fold og skæru augun ljóma er fagna blómin frelsi' úr mold og frosts og vetrar dróma. Nú barna raddir blíðar tjá að birtan sigrað hefur og allt í náð umvefur.

Í laufi fuglinn, lamb í hjörð og lóa frjáls í heiði þá lofgjörð inna lífs sem jörð á löngum vetri þreyði. Af gleði óma götur, torg og gleði birtir sanna öll önn og iðja manna.

Sunnudagur þessi, fimmti sunnudagur eftir páska, nefnist hinn almenni bænadagur en á þessum degi kirkjuársins er hefð að kirkjan sameinist í bæn fyrir ákveðnu bænarefni. Í ár biðja söfnuðir landsins fyrir þjóðinni á tímum þar sem afkomu þúsunda heimila er ógnað.

Kirkjan biður fyrir þeim sem misst hafa atvinnu sína og eru í leit að nýrri atvinnu og nýjum tækifærum.

Kirkjan biður fyrir þeim mörgu sem berjast í bökkum fjárhagslega og sjá ekki fram úr æ vaxandi skuldum. Þeim sem örvænta um fjárhagslega afkomu fjölskyldu sinnar.

Kirkjan biður fyrir þeim sem starfa á vinnustöðum þar sem margir vinnufélagar og vinir hafa misst atvinnu sína og eru að glíma við þær flóknu tilfinningar sem því fylgir að halda vinnunni.

Kirkjan biður fyrir þeim sem fara með forráð yfir stofnunum samfélagsins, skólum, frístundavettvangi, sjúkrastofnunum, dvalarheimilum og öllum þeim stofnunum sem mæta þörfum fólks, að þau megi bera visku til að vinna úr takmörkuðum gæðum þannig að fólk sé sett í forgang.

Kirkjan biður fyrir þeim sem treyst hefur verið fyrir æðstu embættum þjóðarinnar um visku, hugrekki og réttsýni til að leiða þjóðina í gegnum þessa erfiðleika.

Guð sem er uppspretta allrar visku, allrar vonar, allrar gæfu og þekkir þörf okkar og þrár, veiti okkur það við þörfnust til líkama og sálar. Amen

Biblíutextar dagsins fjalla um eðli og leyndardóma bænarinnar. 11. kafli Lúkasarguðspjalls varðveitir kennslu Jesú um hvernig okkur kristnum mönnum ber að stunda bænalíf en guðspjallið allt leggur mikla áherslu á mikilvægi bænarinnar. Kaflinn á undan endar á frásögunni af Mörtu og Maríu, þar sem María er upphafin fyrir það að gefa sér tíma til að dvelja við fætur Jesú, þrátt fyrir að mikilvæg verkefni biðu hennar, og 11. kaflinn hefst á frásögn af því að Jesús hafi á sama hátt gefið sér tíma til að dvelja í bæn. Lærisveinarnir fylgdust með meistara sínum við bænagjörðina og þráðu sjálfir að eiga það djúpa bænasamfélag sem að líf Jesú bar svo ríkulega vitni um. Þegar ljóst var að Jesús hafði lokið við að biðja, spyr einn lærisveinanna fyrir hönd hópsins ,,Drottinn, kenndu okkur að biðja”.

Í kjölfarið kennir Jesús lærisveinum sínum þá bæn sem miðlægust er í kristinni hefð, þó að útgáfa Lúkasaraguðspjalls sé örlítið frábrugðin þekktari útgáfu Matteusar. ,,Þegar þér biðjist fyrir segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, gef oss hvern dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar syndir enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni.“

Eftir að hafa kennt þeim þessa máttugu bæn, sem gefur gaum að manneskjunni í heild, segir hann þeim dæmisögu þá sem er guðspjallstexti dagsins. Í sögunni segir Jesús, ,,Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.” Þessar ímynduðu kringumstæður, sem reikna ekki með sólarhringsopnun kjörbúða, eru það raunhæfar að við getum öll sett okkur í spor sögunnar. Ímyndið ykkur að þið væruð í þeirri stöðu að til ykkar væri komin óvæntur gestur, sem bæri langt að og þið hefðuð ekkert að bjóða honum til matar. Mynduð þið þá hika við að fara í næsta hús, þó komið væri miðnætti og biðja um að fá lánað brauð.

Það er hinsvegar í viðbrögðum nágrannans sem að tilgang sögunnar er að finna. ,,Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð?” Í augum okkar nútímalesanda væru slík viðbrögð mögulega skiljanleg, en á engan hátt kurteis ef að nágranninn ætti á annað borð brauðmola til að sjá af. Í miðjarðarhafs samfélagi fyrstu aldar væru slík viðbrögð hinsvegar óhugsandi, en þar kváðu samfélagslegar reglur á um að taka á móti gestum með húsaskjóli og fæðu og að það sé á ábyrgð þorpsins alls að þannig sé tekið á móti ferðalöngum. Annað væri sæmdarbrot. Eins og svo margar af dæmisögum Jesú hafa þessi viðbrögð nágrannans því vakið upp hneykslan.

Dæmisögunni lýkur á farsælan hátt. Þrátt fyrir neikvæð viðbrögð fær sá sem bað, þann mat sem hann þurfti til að fæða gest sinn. ,,Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.” Sú áleitni sem að dæmisagan vísar til að sá sem bað um brauð hafi sýnt, er látin liggja milli hluta, en ljóst er að í huga guðspjallamannsins telst það ekki neikvætt að hafa vakið nágranna til að fæða gesti sína. Með því að gerast áleitinn eða óskammfeilinn við nágranna sinn og krefjast þess að þörfum gesta sinna sé mætt, brást hann rétt við.

Í samhengi bænarinnar er þá boðskapur þessarar dæmisögu að sýna staðfestu í bænalífinu þrátt fyrir að bænasvör láti á sér standa. Fyrst að nágranninn, sem ekki sýndi heilindi í viðbrögðum sínum, mætti þörfum þess er bað hann, hversu miklu fremur mun þá góður Guð mæta þörfum okkar. Til að undirstrika fyrirheit dæmisögunnar heldur Jesús áfram með orðum sem einnig er að finna í Fjallræðunni svokölluðu. ,,Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.”

Í þessum kröftugu orðum er fólgið það loforð að trú er aldrei stunduð til ónýtis. Sá sem í einlægni biður, honum mun gefast, sá sem leggur af stað í það ferðaleg að leita æðri sannleika mun öðlast innsýn í hvernig lifa má frómu lífi og sá sem knýr á inngöngu í samfélag við lifandi Guð mun reyna gæsku Hans. Í beinu framhaldi af þessu ákalli til iðkunnar bæna og sannleiksleitar dregur Jesús upp mynd af því nána og kærleiksríka sambandi sem þar liggur að baki. ,,… Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“

Af mikilli mælskulist dregur Jesús upp fáránleika þess að faðir, jafvel slæmur faðir, mæti ekki þörfum barna sinna. Sá atburður að foreldri beri baneitrað skriðdýr á borð fyrir barn sitt er það biður um mat, er í huga Jesú jafn fjarstæðukennt og að Guð heyri ekki bænir okkar. Líkt og faðir leggur sig fram um að brauðfæða börn sín, þannig seðjar Guð, jafnt líkamlegar sem sálrænar þarfir, þeirra sem hans leita.

Bænaarfur okkar íslendinga er ríkastur við rúmstokk barnanna og til þessa dags er mikill meirihluti foreldra sem biður bænir með börnum sínum að kveldi. Það er mikið þakkarefni og mikilvægi bænaiðkunnar með börnum skyldi aldrei vanmeta. Kvöldbænir leggja grundvöll að því hvernig börnum tekst að glíma við tilvistarspurningar sem fullorðnar manneskjur og veitir þeim aðgang að uppsprettu sem aldrei þrýtur. Á sama hátt er í bænalífi bernskunnar unnið gríðarlegt forvarnarstarf en það hef ég margreynt í starfi með ungu fólki sem misst hefur fótana í lífinu og er að feta uppbyggingarveg, að barnatrúin og bænalífið í bernsku reynist oft fyrsta fótstigið til gæfuríkrar framtíðar.

Einar Benediktsson orðar þetta athvarf sem að bænalíf bernskunnar veitir í gegnum lífið í ljóði er hann nefndi Landið Helga. Þar segir.

Þótt allir knerrir berist fram á bárum til brots við eina og sömu klettaströnd, ein minning fylgir mér frá yngstu árum, - þar er sem bliki á höfn við friðuð lönd. Ég man. Ein bæn var lesin lágt í tárum við ljós, sem blakti gegnum vetrarhúmið. Og svo var strokið lokki af léttri hönd, sem litla kertið slökkti og signdi rúmið.

Barna- og unglingastarf kirkjunnar, það mikla og mikilvæga forvarnarstarf sem unnið er í söfnuðum landsins, í sunnudagaskólum, barnastarfi og æskulýðsfélögum, mætti síns lítils ef bænalíf heimilanna nyti ekki við. Þeir foreldrar sem sækja sunnudagaskóla með börnum sínum og skrá þau til þátttöku í barna- og unglingastarfi kirkjunnar skynja þann grundvöll sem lagður er í trúuppeldi. Það barn sem elst upp við þá heimsmynd að það er dýrmæt sköpun Guðs og lærir hvernig leita má til Hans í bæn og trúarlífi, öðlast fótfestu fyrir lífstíð. Mikilvægasta embætti kikjunnar er því í höndum foreldra, sem með uppeldi sínu, bænum og samfylgd með kirkjunni, leggja grundvöllinn að framtíð kristins átrúnaðar í landi okkar.

Bænir kirkjunnar á hinum almenna bænadegi eru með þeim sem orðið hafa fyrir atvinnumissi og þeim mörgu fjölskyldum sem eiga við fjárhagslega erfiðleika að etja. En bænir kirkjunnar væru hégómi einn fylgdi þeim ekki hið umfangsmikla starf sem unnið er í söfnuðum landsins. Hjálparstarf kirkjunnar er ásamt samstarfsaðillum sínum að styðja við bakið á þeim fjölmörgu einstaklingum sem til hennar leita; kirkjan stendur að og styður við miðstöðvar fyrir atvinnulausa; prestar og djáknar veita sálgæsluviðtöl og fara í heimsóknir til sjúkra og aldraðra; og æskulýðsstarf kirkjunnar skapar öruggann og uppbyggilegan frístundavettvang fyrir börn- og unglinga, foreldrum að kostnaðalausu. Íslenska Þjóðkirkjan er vettvangur uppbyggingar, samfélags, umræðu, stuðnings og fyrirbæna, þjóðinni til heilla.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

(Textar 5. sunnudags eftir páska)