Andóf einyrkjans

Andóf einyrkjans

Og einmitt nú, þegar “hin óeðlilega bjartsýni er þorrin” rétt eina ferðina hjá þessari þjóð og við erum orðin að vaxtaþrælum veltiáranna, þá er enginn sem stendur hjarta þessarar þjóðar nær en flutningabílstjórinn, einyrkinn, sem skuldum vafinn skiptir niður og leggur ótrauður á heiðina.

Jóh 16.23b-30 [Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“ Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.“ Jóh. 16.23b-30

I

Fyrir einhverjum dögum átti ég það erindi að skutla dóttur minni og vinkonum hennar niður í miðbæ Reykjavíkur. Og sem þær eru stokknar út og ég orðinn einn í bílnum í Hafnarstrætinu heyri ég bílflaut yfir aftan mig. Er ég lít í baksýnisspegilinn heyri ég líka flautað framan við bílinn og í sömu mund upphefst mikil sinfónía þar sem margir bílstjórar þeyta flautur sínar svo ég átta mig á því að ég er lentur í mótmælakstri sem lötrar austur Hafnarstrætið og ætlar suður Lækjargötuna framhjá Stjórnarráðinu til þess að mótmæla háu olíuverði. Og ég sem ætlaði að vera fljótur heim að setja upp kartöflur fyrir kvöldmatinn verð fyrst dálítið órólegur í sætinu, en er þá hugsað til þess að þessi tíu ára gamli Subaru bíll sem er nýr í minni eigu eyðir ekki minna en 12 til 13 lítrum á hundraðið í innanbæjarakstri og enda þótt ég hafi einsett mér að mótmæla bara mannréttindabrotum með opinberu andófi en láta minniháttar mál afgreidd með öðrum hætti þá vaknar hjá mér óstjórnleg löngun til að flauta líka. Ég lít í kringum mig og sé að þarna er ekki nokkur lifandi sála sem þekkir mig á nýja bílnum mínum, svo ég læt það eftir mér. Það var góð kennd sem fyllti mitt litla hjarta eitt augnablik þar sem ég þrýsti hönd á stýri og heyrði flautið úr bifreiðinni berast upp fyrir húsþökin í samhljómi við allar hinar bílflauturnar. Ég fann að mig langaði líka til að mótmæla – einhverju. Mig langaði að segja að ég léti ekki vaða yfir mig á skítugum skónum, og væri ekki einn um það. Sem íslenskur alþýðumaður skyldi ég standa óhræddur í fæturna í þessu landi. Ég held að það hafi verið eitthvað í þessa veru sem bærðist í brjósti mínu þetta augnablik, áður en ég beygði inn á Lækjargötuna til norðurs og var fáum andartökum síðar í óðaönn að setja yfir kartöflur sem stór verslunarkeðja hefur fengið ódýrt hjá einhverjum einyrkjanum.

II

Í upphafi sögu sinnar Sjálfstæðu fólki lætur Halldór Kiljan Bjart gefa óbyggðum bæ sínum nýtt nafn. Marga mannsaldra hafði þarna heitið Veturhús, og áður Albogastaðir á Heiði, en Bjartur nefnir sjálfur sinn bæ, og lætur hann heita Sumarhús. Og sem hann gengur í fyrsta sinn um í sínu eigin túni, “rannsakar vallgrónar rústir” heiðarbýlisins, “athugar steininn í stekkjarveggjunum, rífur í huganum og byggir upp aftur” þá ávarpar hann hundstík sína Títlu og segir: “Það er ekki allt komið undir risinu, [...] eins og hann hefði hana grunaða um að gera sér of háar hugmyndir” um væntanlega bæjarsmíð. “Þú getur haft mig fyrir því, að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum, enda hef ég unnið fyrir því í átján ár. Sá maður sem sjálfur á sína jörð, hann er sjálfstæður maður í landinu. Einginn hefur yfir honum að segja. [...] Nei, það er frelsið í landinu sem við erum öll að sækjast eftir, Títla mín. Sá sem stendur í skilum er konúngur. Sá sem dregur fram sínar kindur býr í höll.” (Fyrra bindi s. 19.)

Bjartur í Sumarhúsum býr í hverri mannlegri sál. En eftir því sem lesandinn kynnist honum er Nóbelskáldið fléttar sögu sína áfram þá sjáum við hvernig viljinn til frelsis og sjálfstæðis er teygður sundur og saman í háði í persónu Bjarts. Er verð á kindakjöti hækkar af því að það er komið stríð í útlöndum og íslenski einyrkinn eignast pening þá fyllist hann ofmetnaði og fer að byggja hús. Þegar útlendingarnir svo hætta að drepa hver annan er íslensku kjöti aftur ofaukið í veröldinni. “Það var nýr þáttur í hans eilífa frelsisstríði” skrifar skáldið, “baráttan við hið venjulega ástand sem hlýtur að skapast á ný í megun þjóðarinnar, eftir að hin óvenjulega hamíngja styrjaldanna er um lok liðin; eftir að hin óeðlilega bjartsýni er þorrin, sem hefur glapið kotúnginn útí firn sem þau, að ætla að fara að eiga heima í húsi. [...] hinn frjálsi maður húnguráranna var orðinn vaxtaþræll veltiáranna. Eftir allt saman voru erfiðu tímarnir tryggari í sínu skuldaleysi, barnadauða, mold og hungri en veltiárin með sínum ástleitnu lánasstofnunum, sínu húsi.” ( Síðara bindi s. 294-5)

Í bókarlok er sjálfstæðishetjan Bjartur búinn að yfirgefa sitt þrílyfta steypta hús sem aldrei gat orðið að höll og ætlar að flytja búferlum innar og ofar á heiðina burt frá öllum álögum þjóðfélagsins. Í för er hin illa feðraða dóttir, Ásta Sóllilja börn hennar tvö og amman sem komin er yfir nírætt. Konan er löngu dáin, hesturinn er horaður og “tíkin vappaði á eftir með þessu kæringarlausa snuðri, sem hundum er títt á ilmandi vordögum. [...] Þau voru líkust flóttamönnum í herjuðu landi.” Loks segir skáldið: “Einyrkinn heldur áfram að vera samur við sig öld fram af öld. Stríð í útlöndum getur stælt í honum bakfiskinn ár og ár, en það er aðeins sýndarhjálp; blekking; einyrkinn kemst ekki úr kreppunni um allar aldir, hann heldur áfram að vera til í hörmung, eins lengi og maðurinn er ekki mannsins skjól, heldur versti óvinur mannsins.” (Síðara bindi s. 344-6)

III

Eitt okkar núlifandi skálda, Einar Kárason, hélt því fram í útvarpi um daginn að Bjartur í Sumarhúsum sé ástæða þess að þjóðin skuli þola flutningabílstjórum það andóf sem þeir hafa haft í frammi undanfarna daga. Íslenski einyrkinn, - bóndinn, trillukarlinn, flutningabílstjórinn sem sjálfur á sinn bíl og einn glímir við hina íslensku heiði. “Þau voru eins og langferðafólk, sem tekur sig upp úr lélegum næturstað á heiði. Það var heiði lífsins. Leiðin liggur til enn fjarlægari heiða.” (s. 345) Þannig er heiðin órofatengd lífi hins íslenska einyrkja í vitund þjóðarinnar og hver þekkir hana betur en flutningabílstjórinn sem glímir við þjóðveginn? Og einmitt nú, þegar “hin óeðlilega bjartsýni er þorrin” rétt eina ferðina hjá þessari þjóð og við erum orðin að vaxtaþrælum veltiáranna, þá er enginn sem stendur hjarta þessarar þjóðar nær en flutningabílstjórinn, einyrkinn, sem skuldum vafinn skiptir niður og leggur ótrauður á heiðina.

IV

Í þessu ljósi er merkilegt að íhuga lexíu dagsins sem skráð er hjá Jeremía spámanni. Því þar er sama sagan og hjá Nóbelskáldinu, þar eru flóttamenn úr herjuðu landi á ferð, sama ástandið á mannfólkinu og versti óvinur mannsins sá sami og ætíð, maðurinn sjálfur. En Guð talar til þessa fólks sem herleitt hefur verið til Babýlon:

“Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til. Biðjið Drottin fyrir henni því að hennar heill er yðar heill.” Og hann hvetur fólkið til að giftast, elskast og fjölga sér og segir svo, eins og við heyrðum frá altarinu áðan: “Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.” (Jer. 29. 7 og 11)

Vandi Bjarts í Sumarhúsum er sá að hann fjarlægir sig lífinu í sífellu. Bókina á enda er lífið að reyna að nálgast hann með gjafir sínar, en hann firrist það. Það kemur m.a. fram í því að honum er illa við kúna þótt konan hans og börnin elski hana því hún gefur mjólk. Kýrin verður í bókinni að tákni hins góða lífs en sauðkindin er aftur gerð að tákni strits og armæðu. Bjartur velur sauðkindina og vill deila kjörum með henni.

“Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til. Biðjið Drottin fyrir henni því að hennar heill er yðar heill.” Segir Guð við hina herteknu Ísraelsmenn í Babýlon. - Bjartur í Sumarhúsum lætur þessa rödd ekki villa um fyrir sér. Mannfélagið er óvinur hans og hann nálgast það bara af nauðung.

Í pistli dagsins kveður við sama tón. Við erum hvött til að biðja fyrir öllum mönnum en einkum fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir. “Til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði.”

Bjartur í Sumarhúsum býr í mér og þér og hann tekur ekki undir þessi orð. Aldrei. Fyrr skal hann dauður liggja. Aldrei skal hann nudda sér upp við konunga og fyrirfólk, biðjandi fyrir því. Hinn íslenski einyrki er höfðingjadjarfur og kaupir sér ekki friðsamlegt og rólegt líf með undirlægjuhætti. Í hans augum er allt vald illt.

Þá gerist það í guðspjalli dagsins að maður nokkur gengur fram til að skakka þennan leik. Þessi maður er einn úr okkar hópi. Einyrki á faraldsfæti, illa feðraður sem barn og aukinheldur fæddur innanum sauðfé í þennan kalda heim. Og er hann mælir þau orð sem þar eru skráð er hann í þann veginn að leggja á sína hinstu heiði. “Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.” (Jóh 16.23b-24)

Það er einyrkinn Jesús Kristur sem hér talar.

Hafi einhver staðið einn og uppréttur andspænis valdi þessa heims þá er það hann. “Veistu ekki að ég hef vald!?” spyr Pílatus hann tveimur blaðsíðum síðar í sögunni, og hann svarar: “Þú hefðir ekkert vald yfir mér ef þér væri ekki gefið það að ofan.” (Jóh. 19.10) Nei, einyrkinn Jesús frá Nasaret kaupir sér ekki friðsamlegt og rólegt líf með undirlægjuhætti frekar en Bjartur í Sumarhúsum. Hans friður er annar og glettilegt er til þess að hugsa að báðir, Jesús og Bjartur, skilja örlög sín í samhengi við örlög sauðkindarinnar þótt eðlismunur sé á nálgun þeirra.

Bjartur trúir á sauðkindina og jafnar örlög sín við hana. Hann velur sauðkindina og heiðina. Jesús tekur á sjálfan sig hlutverk lambsins sem fórnað er svo að vegir sauðs og manns megi aðskiljast varanlega.

“Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.”

V

Frá þeirri stundu sem andi mannsins biður í Jesú nafni er hann frjáls frá heiðinni og örlögum sauðkindarinnar. Hann er ekki framar útlagi því hann talar í Jesú nafni, gengur um veröldina í nafni Jesú, já, lifir í nafni hans. Hann þarf ekki að strita í átján ár fyrir sjálfstæði sínu uns hann fær að nefna sinn eigin bæ heldur er hann fæddur frjáls. Tign hans byggir ekki á því að standa í skilum og draga sjálfur fram sínar kindur, heldur stendur ting hans dýpri rótum og er grundvölluð á einyrkjanum Jesú Kristi. Þess vegna er honum ekki á móti skapi að hlýða lögum og reglu, hann veit að heill samfélagsins er hans heill. Með friði í hjarta biður hann fyrir öllum mönnum og einkum fyrir stjórnvöldum og þeim sem hátt eru sett í samfélaginu, því hann sér yfirvöld sem þátt í Guðs sístæðu sköpun sem lætur allt samverka til góðs. Og sökum þess að kristinn maður trúir því að allt vald á himni og á jörðu sé gefið einyrkjanum Jesú Kristi, þá hlýðir hann laganna vörðum ekki af ótta heldur í trú.