Fötluð guðfræði

Fötluð guðfræði

Hin hefðbunda túlkun á þessum áhrifamiklu sögum af fötluðum einstaklingum sem Jesús mætir, leggur áherslu á að þau öðlast lækningu og verða þarmeð ófötluð. Sá lestur er að mínu áliti fatlaður [...] ef eitthvað er að marka vitnisburð guðspjallanna, þá geta fatlaðir kennt ófötluðum meira um Guð og samhengi lífsins en nokkur annar.

Til messu í Laugarneskirkju voru sérstaklega boðnir íbúar í Hátúni 10 og 12. Auk fastra messuþjóna, las Kristinn G. Guðmundsson meðhjálpari í Hátúni ritningartexta og Guðrún K. Þórsdóttir djákni í Hátúni fjallaði um starfið þar.

Nýja testamentið fjallar um aðstæður fólks og fá umfjöllunarefni fá meira rými í frásögnum þess en kjör og heilsa.

Samfélagsgerð Ísrael á tíma Jesú á um margt skylt með okkar aðstæðum í dag, þó menningin sé okkur fjarlæg og framandi. Hugðarefni fólks á öllum tímum snúa að kjörum þeirra, heilsu og þjóðfélagsstöðu og sú glíma endurspeglast jafnt í frásögnum Biblíunnar og í orðræðu samtímans.

Afstöðu Jesú til hinna ólíku hópa samfélagsins má greina af því hvernig að hann umgekkst fólk, en Jesús er ítrekað að vekja upp hneykslan samborgara sinna með því að umgangast sem jafningja þá sem almennt voru á jaðrinum í samfélaginu. Þannig fengu konur, útlendingar, holdsveikir, bersyndugir, fatlaðir og snauðir heiðurssess á meðan þeir sem höfðu völdin, heilbrigðir gagnkynhneigðir karlmenn í valdastöðum, sérstaklega prestar, voru miskunnarlaust gagnrýndir fyrir að sjá ekki út fyrir eigin skilgreiningar á tilverunni.

Fatlaðir og sjúklingar fá í hjálpræðissögu guðspjallanna heiðurshlutverk og þjóna því hlutverki að opna augu hinna heilbrigðu fyrir eigin staðalmyndum og fordómum. Dæmi um þetta er frásögnin af blinda manninum í Jóhannesarguðspjalli en Jesús gefur honum sjónina og vitnisburður hans verður til þess að ögra fordómum trúarlegra yfirvalda um að fötlun sé afleiðing synda. Þeir sem telja sig sjá og upphefja sig á kostnað annara reynast blindir á meðan hinn blindi veitir þeim sjónina í gegnum vitnisburð sinn. Sambærileg frásögn í sama guðspjalli segir frá lömum manni sem Jesús læknar og segir að taka rekkju sína og ganga heim. Þar sem hann gengur með rúm sitt fara menn úr musterinu að hnýta í hann fyrir að bera rúm sitt á hvíldardegi og opinbera þannig hversu illa trúarleg hugmyndafræði þeirra rímar við raunverulegar aðstæður fólks.

Hinir fötluðu fá hér það hlutverk að leiða hina ófötluðu til vitundar um hversu ofbeldisfull viðhorf þeirra eru í garð þeirra sem ekki njóta sömu forréttinda og þau sjálf. Eins og Jesús orðar það í guðspjalli dagsins ,,Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.”

Hin hefðbunda túlkun á þessum áhrifamiklu sögum af fötluðum einstaklingum sem Jesús mætir, leggur áherslu á að þau öðlast lækningu og verða þarmeð ófötluð. Sá lestur er að mínu áliti óviðunandi á svo marga vegu.

Í fyrsta lagi gerir hann ráð fyrir að veruleiki þeirra sem njóta fullrar heilsu sé á einhvern hátt verðmeiri en þess sem glímir við veikindi eða fötlun og að markmið allra fatlaðra, eins óraunhæft og það nú er, sé að verða eins og ófatlaður. Sá lestur tekur ómeðvitað undir með þeim tíðaranda, sem mælir verðgildi fólks útfrá staðalmyndum. Þannig er verðgildi manneskjunnar skilgreind í neyslusamfélagi útfrá æsku, fegurð, heilsu og getunni til að afla tekna og sú von sem okkur er seld byggist á þeirri blekkingu að við getum á einhverjum tímapukti staðið undir væntingum.

Í öðru lagi lítur sú túlkun framhjá þeirri staðreynd að þó þessar lækningasögur séu áberandi í frásögnum guðspjallanna, eru þær fleiri í Biblíunni sögurnar af fötluðu fólki, sem Guð notar öðrum til blessunar án þess að lækna það eða gera ófatlað. Dæmi um þetta er ættfaðir Ísrael, Jakob, sem glímdi við fötlun á fæti (1M 32), Míríam, sem var veik af holdsveiki, prédikarinn Móse, sem glímdi við talröskun (2M 4) og Ísak, sem varð blindur (1M 27).

Loks tekur sú guðfræði sem leggur áherslu á lækningarmátt trúarinnar oft á sig uggvænlegar myndir. Kirkjan biður fyrir heilsu fólks og þau sem glíma við alvarlega veikindi eða eiga sjúka ástvini standa stöðug í bæn sinni fyrir lækningu og bót meina, en auðvellt er að draga þá ályktun þegar veikindi ná yfirhöndinni að Guð sé fjarri eða að hinn trúaði hafi brugðist.

Jesús starfaði sem læknir og til hans leitaði fólk með mjög fjölbreytt veikindi og fatlanir, geðræn veikindi, líkamlegar fatlanir og smitsjúkdóma, en um þriðjungur frásagna guðspjallanna fjalla um störf hans meðal sjúkra. Lækningarfrásagnir guðspjallanna þjóna hinsvegar þeim tvíþætta tilgangi, annarsvegar að gagnrýna viðhorf og valdaskipan samfélagsins og hinsvegar að gefa innsýn inn í það ríki Guðs, sem Jesús boðar og við megum eiga hlutdeild í.

Jesús líkir ríki sínu við veislu þar sem við eigum að bjóða sérstaklega þeim sem glíma við fatlanir: ,,Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum því að þeir bjóða þér aftur og þú færð það endurgoldið. Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.“ (Lk 14) Hér sem endra nær er Jesús að kollvarpa viðteknum hugmyndum samfélagsins og boða að í augum Guðs verður ekki verðgildi manneskju metið með utanaðkomandi aðferðum. Mælikvarðar menningarinnar um æsku, fegurð, heilsu og bankainnistæður eru verðlausir í stærra samhengi tilverunnar, í augum Guðs erum við öll fötluð og öll fullkomin, enda sköpuð í hans mynd.

Köllun okkar sem fylgjendur Jesú Krists er að mæta þörfum fólks, í veikindum þeirra og fötlun, fátækt og vanmætti og leggja eyrun við hvað við getum kennt hvert öðru um kærleika hans. Guð gerir ekki þá kröfu að við pössum öll inn í staðalform samfélagsins en hann gerir þá kröfu að við sinnum hvert öðru og ef eitthvað er að marka vitnisburð guðspjallanna, þá geta fatlaðir kennt ófötluðum meira um Guð og samhengi lífsins en nokkur annar.

Kirkjan er líkami Krists og þar eigum við hvert okkar hlutverk, hver sem geta okkar og gjafir eru. Köllun okkar er að bera vitnisburð um kærleika hans og það getum við gert óháð aldri, heilsu eða þjóðfélagsstöðu. Fyrirheiti okkar er ekki að öðlast guðlega breytingu til að falla inn í form samfélagsins, heldur að við megum deila byrðum okkar með þeim Guði, sem gerir allar byrðar bærilegar.

Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Það eru forréttindi Laugarneskirkju að hafa samfélagið að Hátúni 10 og 12 innan sinna sóknarmarka og það hefur verið mér persónulega mikil blessun að kynnast því góða fólki, sem þar býr. Mörg þeirra sem hér eru komin lögðu mikið á sig til að sækja þessa messu, í guðshúsi sem er ekki hannað með þarfir fatlaðra í huga. Við sem hér störfum vonum að samfélag okkar megi vega upp á móti þeim hindrunum í aðgengi fatlaðra sem Laugarneskirkja er takmörkuð af.

Kirkja sem ekki opnar faðm sinn fólki, á öllum aldri og í öllum þeim birtingarmyndum sem lífið býður, bregst köllun sinni sem kirkja. Í húsi Guðs sitjum við öll við sama borð og við erum þakklát fyrir að deila söfnuði með ykkur.