“Óttastu ekki
– ég er með þér”
Það eru orð
sem við þurfum að heyra oftar en við gerum: „Óttastu ekki.“
Ekki vegna
þess að óttinn er fjarri lífinu, heldur vegna þess að hann er svo
raunverulegur, svo mannlegur.
Við óttumst
breytingar, missi, veikindi, einmanaleika, framtíðina og stundum jafnvel eigið
hjarta og eigin tilfinningar.
En Guð talar
beint inn í þetta allt. Í Jesaja 43 segir hann: „Óttast þú ekki, því að ég frelsa þig. Ég kalla þig með nafni, þú ert minn.“
Hér er engin
óvissa. Enginn efasemdartónn. Bara loforð, ást og tryggð.
Guð segir
ekki: „Ef þú ert sterkur, þá verð ég með þér.“ Hann segir ekki: „Ef þú stendur
þig vel, þá vernda ég þig.“ Hann segir einfaldlega: „Þú ert minn.“
Það eru orð
sem bjóða upp á hvíld. Þau kalla á traust.
Í heimi þar
sem svo margt getur farið úrskeiðis þá fáum við þetta öryggi. Þennan skjólvegg
trúarinnar sem umlykur ekki bara stundirnar þegar okkur gengur vel heldur
sérstaklega þegar okkur mistekst, hrösum eða týnum áttum.
Jesaja gengur
lengra: „Þegar þú ferð gegnum vatnið, er ég með þér. Þú gengur gegnum fljótin,
og þau skola þér ekki burt. Þegar þú ferð í gegnum eldinn, brennur þú ekki“
Þetta þýðir
ekki að við þurfum ekki að fara í gegnum vatn, eld eða erfiðleika heldur að Guð
fer með. Hann forðar okkur ekki alltaf frá því erfiða. En hann fer með okkur í
gegnum allt.
Við erum
kölluð með nafni.
Þetta er persónulegt. Guð lítur ekki á okkur sem fjölda í trúarsamfélagi, heldur sem einstök hjörtu. Hjörtu sem eru stundum þreytt. Stundum angistarfull. Hjörtu sem langar að elska en óttast. Hjörtu sem syrgja og þrá umfram allt að gleðjast.
Í lok
Matteusarguðspjalls, í svokallaðri “Kristniboðskipun”, segir Jesús við
lærisveina sína: „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum… og sjá, ég er
með yður alla daga allt til enda veraldar.“
Jesús gefur
þeim verkefni en ekki án þess að gefa þeim líka fylgd. Þetta er ekki bara
skipun, heldur loforð: „Ég er með ykkur.“ Ekki bara á hátíðum. Ekki bara í
guðsþjónustum. Heldur alla daga.
Það er í
hversdagsleikanum sem við þurfum mest á þessum orðum að halda.
Alla daga, þegar við vöknum kvíðin og hugurinn byrjar
strax að telja upp áhyggjur.
Alla daga, þegar við óttumst að vera of mikið, eða ekki
nóg.
Alla daga þegar við finnum fyrir sorg eða höfnun, þegar
við missum þann sem við elskum eða þegar við týnum sjálfum okkur aðeins í
daglegu amstri.
Alla daga, líka þegar við eygjum von, þegar við getum
hlustað á fuglasönginn og fundið angan af lífi í brjósti okkar.
Guð er með.
Þannig virkar
trúin ekki sem trygging gegn sársauka, heldur sem handtak í gegnum hann.
Trúin segir:
Þú mátt þora að lifa því þú ert ekki ein(n). Þú mátt þora að finna til því
tilfinningar þínar eru ekki óvinir þínir, heldur hluti af því að vera heilbrigð
manneskja.
Þú mátt gráta,
elska, syrgja og brosa, Guð býr í þessu öllu.
Við lifum á
tímum þar sem fólk einangrast í einmanaleika og erfiðleikum. Kvíði og þunglyndi
hafa áhrif á svo marga.
En boðskapur
trúarinnar er líka þessi: Talaðu við einhvern sem þú treystir, leitaðu hjálpar.
Þú þarft ekki að bera þetta ein/enn.
Það að leita
hjálpar er ekki veikleikamerki. Það er hugrekki.
Það er líka
trúarleg afstaða: Að við séum manneskjur sem lifum í samfélagi, við erum ekki
eyland heldur félagsverur.
Guð getur haft
áhrif í gegnum vin sem hlustar. Í gegnum sálfræðing, prest, nágranna eða jafnvel
einhvern ókunnugan sem kemur með góð orð á réttum tíma.
Við þurfum
stundum bara að opna aðeins, hurðina í hjartanu og segja: „Geturðu setið aðeins
með mér?“
Við heyrum orð
sem næra: „Þú ert minn.“ „Ég er með þér.“ „Ég kalla þig með nafni.“ „Ég
yfirgef þig ekki.“ „Ég er með þér alla daga allt til enda veraldar.“
Þetta eru orð
sem við getum flutt með okkur inn í hversdaginn, þegar við erum á ferðinni, með
kaffibollanum, í vinnutímanum og inn í kvöldin þegar þögnin verður of hávær og
við kunnum að finna fyrir einmanaleika. Inn í samtalið sem við vitum að við
þurfum að eiga en óttumst. Inn í þann hluta lífsins þar sem við þurfum að
sleppa tökunum eða byrja upp á nýtt. Trúin er ekki trygging gegn því að við
upplifum storma. En hún er áminning um að við erum ekki ein.
Að Guð fer með. Að Guð tekur okkur í fangið þegar við höfum ekki kraft til að ganga sjálf. Og að við þurfum ekki að vera alltaf sterk til að vera elskuð.
Þess vegna:
Óttastu ekki. við erum ekki týnd. við erum ekki gleymd. við erum kölluð með
nafni. við erum dýrmæt. Og við megum lifa. Við megum elska. við megum gráta. við
megum leita hjálpar. Guð er ekki fjarri.
Hann er nær en
hjartslátturinn þinn.
Ekki vera
hrædd, þó dagurinn virðist dimmur. Guð gengur með þér gegnum skugga og storm,
með elsku sem aldrei glatast. Þú þarft ekki alltaf að vita hvert leiðin liggur
bara halda í hönd sem sleppir þér aldrei. hann mun vera nálægur í tárunum
þínum, og lýsa þér leið í myrkrinu. Ekki loka hjartanu það býr ljós þar inni.
Ekki fela sársaukann hann er hluti af lífinu. Þú mátt þora því hann þorir með
þér. hann yfirgefur þig ekki. Alla daga – allt til enda veraldar.