Ísland og leitin að góða hlutskiptinu

Ísland og leitin að góða hlutskiptinu

Við erum þreytt á því að bera byrðar sem aðrir hafa lagt á herðar okkar og svöng eftir réttlátu samfélagi. Það er í þessum sporum sem við stöndum og spyrjum um hið góða hlutskipti, hvar það er að finna, og hverjum það er ætlað.

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ Lk. 10.38-42.
Ein vinkona mín á fésbókinni setti á statusinn sinn nú í vikunni:

Ásdís er stundum upptekin, oft þreytt og alltaf svöng.

Ásd�s er ...

Ég veit að það koma tímar sem okkur líður einmitt svona, eins og að viðfangsefnin í lífi okkar og ytra áreiti gefi okkur ekkert svigrúm til að hlúa að okkur sjálfum. Verkefni í vinnu og einkalífi geta krafist svo mikils af okkur að það er eins og allur fókus hverfi á það sem við viljum vera að gera og það sem við viljum vera.

Á tímum eins og þeim sem við lifum núna, ríkir einnig óróleiki og óreiða í samfélaginu, sem hefur bein og óbein áhrif á okkur hvert og eitt. Allt of margir hafa upplifað það hvernig vanhæf efnahagsstjórn og framganga græðgiskarla síðustu ár hafa kollsteypt áætlunum og framtíðarsýn, hvort sem við erum námsmenn, launþegar, lífeyrisþegar, atvinnurekendur, sjómenn eða bændur. Kreppan er álag, hún er viðfangsefni, sem krefst mikils af okkur hverju og einu, hér og nú.

Kreppan veldur álagi á tvenns konar hátt. Annars vegar með þeim afleiðingum sem hún hefur á líf heimilanna í landinu, í formi atvinnuleysis, hækkandi afborganna, dýrari rekstri og skertum möguleikum á að hreyfa sig í leik og starfi. Allt hefur þetta bein áhrif á fólk, líðan þess og samskipti. Þetta er ný staða fyrir mörgum og það eru margar fjölskyldur sem þurfa að staldra við, horfast í augu við erfiðar ákvarðanir og breyttan lífsstíl. Hvernig gengur okkur að endurskilgreina, forgangsraða upp á nýtt og laga okkur að breyttum kjörum?

Þetta eru aðrar afleiðingar kreppunnar. Hinar eru kannski djúpstæðari og alvarlegri. Þær lúta að þeim trúnaðarbresti sem átti sér stað í íslensku samfélagi í aðdraganda og eftirmálum bankahrunsins. Nú er bráðum eitt ár liðið frá því að forsætisráðherrann sagði í beinni útsendingu: “Guð blessi Ísland”, og ekkert varð eins og áður. Þegar við lítum um öxl og reynum að greina tilfinningar og hegðun í samfélaginu okkar, koma ýmis konar myndir í ljós. Bandarískur guðfræðiprófessor og sálgreinir sem var hér í heimsókn fyrir skömmu, talaði um að við atburði eins og þá sem urðu hér á landi haustið 2008, upplifi fólk sig svikið. Svikið um framtíð sem það hafi séð fyrir sér og undirbúið sig fyrir og svipt trausti til þeirra sem áttu að gæta réttlætis og ganga erinda borgaranna. Þessi reynsla vekur tilfinningar sem finna sér farveg innan samfélagsins, og það er afar mikilvægt að gefa úrvinnslu á því sem gerst hefur, svigrúm.

Ein þeirra tilfinninga sem kvikna í kjölfar þess að maður finnur sig svikinn, er reiðin. Reiðin getur verið heilbrigð og heppilegri en þau viðbrögð sem birtast í skeytingarleysi og doða. Það er vegna þess að reiðin knýr til aðgerða – aðgerða sem geta verið upphafið að breytingum sem miða að því að leiðrétta ranglæti og misfellur og leiða til réttlátara samfélags. Skeytingarleysið og sinnuleysið virkar þvert á móti eins og að skrúfað sé fyrir súrefnið sem samfélagið andar að sér. Sinnulausu samfélagi er hreinlega alveg sama um sjálft sig – og það étur sjálft sig upp að innan. Það lifir ekki af því að það á ekki von.

Öryggi og traust eru grundvallarstoðir í öllum samfélögum. Þegar hriktir í þeim grundvallarstoðum skapast álag á okkur öll sem lifum í því samfélagi. Það er álag sem bætist við amstur daglega lífsins, annríki þess og kröfurnar sem við upplifum allt í kring um okkur og finnst við verðum að laga okkur að. Þess vegna skiljum við konuna á fésbókinni sem er stundum upptekin, oftast þreytt og alltaf svöng.

Í guðspjalli dagsins mætum við reyndar þannig konu. Við heyrum af heimsókn Jesú í hús tveggja systra, Mörtu og Maríu. Eins og allar frásagnir Nýja testamentisins, geymir þessi saga sjálfsmynd hinnar kristnu kirkju sem varð til í kringum líf og starf Jesú frá Nasaret. Guðspjöllin og bréfin í Nýja testamentinu, miðla sögum af lífshlaupi Jesús, dauða hans og upprisu, eins og samfélag hinna kristnu skyldi og varðveitti þær. Við getum því velt vöngum yfir því hvaða boðskap um hið kristna samfélag er að finna í sögunni um Mörtu og Maríu, og myndinni sem er dregin upp af ólíkum viðbrögðum þeirra við komu Jesú á heimilið þeirra.

Jesús er líklega á ferð með hópi manna og notar húsaskjólið til að tala og kenna. María sest þegar niður og hlustar á það sem hann hefur að segja en Marta tekur að sér að hugsa um praktísku hlutina sem óhjákvæmilega fylgja þegar hús fyllist af fólki sem hefur margvíslegar þarfir. Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu og hún er ein um að bera álagið vegna gestakomunnar. Þess vegna snýr hún sér að Jesú og segir hreint út að hann eigi að láta systur hennar hjálpa sér en ekki láta hana eina um allt stússið. Jesús svarar henni og segir þessi orð: Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.

Sem dæmisaga um kirkjuna hefur þessi saga verið túlkuð á ýmsan hátt af trúuðu fólki. Bent hefur verið á að Jesús hafi viljað gefa konum jafnan aðgang að því að hlusta, íhuga og fræðast, þar sem hann bauð Maríu velkomna í það hlutverk. Að Jesús nefnir það góða hlutskiptið, sem María fæst við, hefur líka verið túlkað á þann hátt að hin andlega iðja, trúin, kyrrðin, sambandið við Guð, sé æðri hinni veraldlegu sýslan, sem Marta stendur fyrir.

Það er svar Jesú um að góða hlutskiptið verði ekki tekið frá okkur, sem er þungamiðja sögunnar um Mörtu og Maríu, og þess vegna verðugt að hugleiða út frá okkar eigin aðstæðum í dag. Við gerum það vegna þess að sem kirkja deilum við minningum, skilningi og sjálfsmynd með því samfélagi sem skapaði sögur Nýja testamentisins um líf og starf Jesú. Orðið sem við heyrum í guðsþjónustunni og nálægð Krists í samfélaginu við skírn og kvöldmáltíðina, skapar og viðheldur þeirri kirkju sem hefur verið til í 2000 ár og við erum hluti af.

Kreppukirkjan á Íslandi árið 2009 þarf að hugleiða hvert sé góða hlutskiptið sem ekki verður tekinn frá henni. Álagið sem við lifum við, og gerir okkur upptekin, þreytt og svöng, er vissulega viðfangsefni en ekki tilgangurinn. Kúnstin er að greina þarna á milli. Viðfangsefnið má ekki taka athygli og orku frá því sem skiptir mestu máli: góða hlutskiptinu sem verður ekki tekið frá okkur. Hvað er þá þetta góða, sem verður ekki tekið frá okkur?

Eitt af því sem gerist í kreppu er að ákveðið endurmat fer fram á verðmætum og gildum samfélagsins. Stundum kemur það ekki til af góðu, heldur af því að við höfum misst eigur og stöðu sem áður tilheyrðu okkur. Slík breyting kallar líka á breytt viðhorf og getur leitt til þeirrar sýnar að tilgangur lífsins felist ekki í eigum eða stöðu. Postulinn sem skrifar úr fangelsisklefanum til kirkjunnar sinnar í pistil dagsins, segir einmitt þessa sögu. “Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.”

Hið góða sem verður ekki tekið frá þér, felst sem sagt hvorki í allsnægtum eða skorti. Allsnægtir og skortur geta verið á fleiri sviðum en hinu efnahagslega. Við getum vissulega upplifað allsnægtir og skort í ástum, heilsufari eða sköpunargáfu. Hvað er það þá sem verður ekki tekið frá okkur og er góði hlutinn?

Liggur svarið í samfélaginu sjálfu? Það er, hvernig við nálgumst þann veruleika sem birtist í samfélaginu? Að við stundum finnum okkur í stöðu, eins og systirin Marta, að þurfa að standa undir hlutum, sem við upplifum sem óréttláta, en einhver verður samt að gera? Getur góða hlutskiptið verið að umvefja samfélagið, með því hugarfari að það sé eins og líkami, sem þarf á öllum limum og öllum líffærum að halda, til að geta starfað? Getur góða hlutskiptið verið að taka ábyrgð á eigin vali og láta það ekki bitna á öðrum? Er góða hlutskiptið að hafa þá afstöðu til lífsins að standa með hvert öðru þegar við erum upptekin, þreytt og svöng?

Frá því fyrir ári síðan hefur íslenskt samfélag staðið frammi fyrir spurningum um hvernig það vill vera. Þrátt fyrir langan tíma og æpandi staðreyndir höfum við ekki komist að niðurstöðu um á hverju við viljum byggja og hvaða hlutskipti við viljum velja börnum okkar og barnabörnum. Eða landinu okkar sjálfu og náttúru þess. Fjalla ekki fréttir og fréttaskýringar um það sama og fyrir hrun, þótt með öfugum formerkjum sé – þ.e. um peninga, hagvöxt, vexti, skuldir, etc. etc. Er fólk ekki metið út frá sömu stærðum og áður – eftir því hvað það skuldar mikið, miðað við hvað það græddi mikið, fyrir hrun?

Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir, sem samfélag, liggur sem sagt í því að nota tilfinningarnar sem kvikna í kreppurótinu, að nota reiðina, til að hrista upp fyrir alvöru, í gildismati og metorðum, sem byggjast á gróðahyggju og rányrkju á náttúru og manneskjum. Ekki vegna þess að okkur mistókst að sigra heiminn að hætti ársins 2007, heldur vegna þess að þessi græðgisafstaða til hlutanna leiðir bara til eyðingar og eymdar sköpunarinnar allrar.

Við erum upptekin, þreytt og svöng. Upptekin af því að láta enda ná saman, þreytt á því að bera byrðar sem aðrir hafa lagt á herðar okkar, og svöng eftir réttlátu samfélagi. Það er í þessum sporum sem við stöndum og spyrjum um hið góða hlutskipti, hvar það er að finna, og hverjum það er ætlað.