Gamla Ísland og nýja Ísland

Gamla Ísland og nýja Ísland

Margir tala um nýtt Ísland í þessu samhengi. Sjálfur vil ég frekar tala um það að endurheimta gamla góða Ísland og gömlu góðu gildin sem fylgt hafa þjóðinni okkar í gegnum tíðina. Við eigum að líta til baka og hugsa um það sem hefur gefið þjóðinni styrk á hverjum tíma til þess að sigrast á mótlæti og kreppum.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir.

Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. Mrk 9.2-9

Þegar ég fór að undirbúa predikun mína í vikunni þá leitaði aftur og aftur á huga minn þetta fallega ljóð eftir skáldkonuna Huldu:

Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð. Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð.

Þetta fallega ljóð hennar Huldu hefur leitað oft á huga minn síðustu vikurnar í öllu því umróti sem þjóðin okkar hefur farið í gegnum enda ekki vanþörf á því að rifja upp eitthvað fallegt og gott í allri þeirri neikvæðu umræðu sem hefur einkennt okkar samfélag að undanförnu.

Öll erum við eflaust sammála um það að fáar þjóðir eiga sér fallegra land en við íslendingar og allt fram á síðasta ár töldum við flest að friðsælt og fallegt mannlíf væri líka eitt af því sem einkenndi okkar þjóð öðru fremur. Já fallegt mannlíf í fallegu landi svo langt frá heimsins vígaslóð og auðlegð okkar landið sjálft með allri sinni fegurð og gæðum.

Og við trúðum því að ekkert gæti spillt þessari fallegu mynd lands og þjóðar nema það sem kæmi utan frá og þess vegna væri svo mikilvægt að standa vörð um landið og sjálfstæði þess og þá um leið þau lífsviðhorf sem stuðla að farsælu og fallegu mannlífi þar sem hver einstaklingur skiptir óendanlega miklu máli.

Þessu mátti alls ekki spilla og Hulda segir einmitt síðar í ljóði sínu:

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð.
En hvað gerðist. Af hverju fór svo illa fyrir þjóðinni okkar á síðasta ári.

Jú það sem brást voru hinar innri varnir, stöðuglyndið sem hún Hulda talar hér um, það hvarf okkur sjónum. Útrásin mikla hófst með ofsafenginni græðgisvæðingu þar sem gömul og góð gildi um hófsemd og ráðdeildni voru með öllu lögð til hliðar og ótrúleg mammonsdýrkun náði yfirhöndinni með tilheyrandi dansi kringum gullkálfinn. Vissulega voru ekki allir með í þessu kapphlaupi, reyndar ósköp fáir sem leiddu þessi ósköp af stað en víst er um það að peningahyggjan náði að grafa um sig í samfélaginu, sú hugsun að peningar væru það afl sem öllu góðu myndi koma til vegar og öllu bjarga. Sú hugsun síaðist inn í samfélagið allt að öll lífshamingja væri undir því komin að eignast sem mest.

Við munum öll hvernig Jesús varaði við slíkri hugsun er hann sagði: Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Síðustu mánuði hefur öll umræða snúist um þetta mikla hrun og ekki á það bætandi að eyða miklum tíma í það. Það sem skiptir hins vegar máli núna er það hvernig við sem þjóð ætlum að mæta því sem framundan er. Hvernig við ætlum að komast í gegnum tímann sem framundan er og skapa hér á ný fallegt samfélag með falleg býli, ljós og ljóð eins og Hulda yrkir um.

Já endurheimta það sem glatast hefur og endurnýja tiltrúna á okkar samfélag og okkur sjálf. Endurheimta sjálfstraustið og bretta upp ermar eins og okkur íslendingum er svo lagið og lagfæra það sem afvega hefur farið, endurreisa samfélagið okkar.

Margir tala um nýtt Ísland í þessu samhengi.

Sjálfur vil ég frekar tala um það að endurheimta gamla góða Ísland og gömlu góðu gildin sem fylgt hafa þjóðinni okkar í gegnum tíðina. Við eigum að líta til baka og hugsa um það sem hefur gefið þjóðinni styrk á hverjum tíma til þess að sigrast á mótlæti og kreppum.

Þið vitið örugglega mörg hvað ég er að tala um. Ég er að sjálfssögðu að tala um hófsemd og nægjusemi, að hafa taumhald á sjálfum sér. Gæta að sér. Að tileinka sér lítillæti og hógværð í stað þess ofmetnaðar sem hefur einkennt samfélagið á undanförnum misserum. Ísland er stórasta land í heiminum var jú sagt af hjartans einlægni á liðnu sumri.

En hvað Jesús sagði um ofmetnaðinn: Sá sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða.

Já, ég er að tala um allt það góða sem við eigum t.d. í heilræðum skálda fyrri tíma eins og þessu magnaða erindi Einars Benediktssonar.

Gengi er valt, þá fé er falt fagna skalt í hljóði. Hitt kom alltaf hundraðfallt sem hjartað galt úr sjóði.
Einar var jú talinn útrásarvíkingur á sínum tíma, fyrsti útrásarvíkingurinn og mælir því af mikilli og beyskri reynslu að ætla má.

Værum við ekki betur sett ef þessi orð skáldsins væru ennþá í heiðri höfð í okkar samfélagi í stað þeirra heilræða sem einhver ágætur maður orðaði svo:

Hafðu lúkkið heitt og flott, húkkaðu vini fína. Ætíð Mammon gerðu gott. Geym vel aura þína

Já þau góðu heilræði sem ég er að vísa til byggja öðru fremur á trúnni á forsjón Guðs og þeirri góðu og sönnu lífsspeki sem við eigum í boðskap trúarinnar þar sem umhyggjan fyrir velferð náungans er alltaf sett framar öðru. Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.

Ég átti góða stund með heimilisfólkinu á Hrafnistu hér í Hafnarfirði nú í vikunni. Þar er að sjálfssögðu fylgst grannt með gangi mála í samfélaginu og margir þar sem hrista höfuð yfir því hvernig komið er.

Þarna er jú um að ræða kynslóðina sem byggði upp þetta samfélag okkar með berum höndum. Lagði mikið á sig til þess að byggja upp okkar velferðarsamfélag.

Þetta góða fólk á Hrafnistu þekkir vel þau heilræði sem ég var að minna hér á og ekki síður þessi góðu lífsgildi sem byggja á boðskap trúarinnar.

Sannarlega hefur þetta fólk upplifað tímana tvenna og gengið í gegnum miklu erfiðari tíma en blasa við þjóðinni okkar í dag. Það er holt og gott að hitta þetta fólk og heyra þeirra viðhorf.

Ég hef stundum verið að hugsa um það að undanförnu að unga fólkið okkar sem nú kvíðir framtíðinni hefði gott af því að heimsækja Hrafnistu eða önnur dvalarheimili, líta við hjá ömmu eða afa og heyra reynslu hinna eldri samborgara okkar af því hvernig hægt er að sigrast á erfiðleikum. Heyra hjá þeim hvað raunverulega skiptir máli þegar horft er um öxl.

Slíkt samtal milli kynslóðanna myndi öllum gera gott.

Og það sama ættu ráðamenn okkar að gera, nýja ríkisstjórnin sem við óskum velfarnaðar. Leita í smiðju til hinna eldri og heyra hvað þau hafa að segja.

Hjá þeim eldri finnum við gömlu góðu lífsviðhorfin sem við þurfum að kalla fram á ný, m.a. þá hugsun sem kemur fram í ljóðinu hennar Huldu sem ég vitnaði hér til þar sem hún tjáir þakklæti fyrir það að við eigum fallegt land og þakklæti fyrir það að við höfum notið þeirrar gæfu að búa saman í sátt og friði hvert með öðru svo langt frá heimsins vígaslóð.

Það hefur eðlilega verið spurt um það hvað kirkjan hafi fram að færa við aðstæður eins og þessar. Svarið felst í því sem hér hefur verið gert að umhugsunarefni í dag.

Kirkjan bendir enn sem fyrr á gömlu heilræðin sem felast í boðskap Jesú Krists þar sem umhyggjan fyrir náunganum er alltaf í forgrunni, þar sem mælikvarðinn á heilbrigði samfélagsins felst í því hvern hug við berum hvert til annars.

Við sem störfum hér í Fríkirkjunni í Hafnarfirði höfum orðið áþreifanlega vör við það að fólk veit vel fyrir hvað kirkjan stendur og hve mikilvægu hlutverki hún hefur að gegna, ekki síst við slíkar aðstæður sem nú eru í samfélaginu. Kirkjan hér er þétt setin alla sunnudaga og það er eftirtektarvert hve vel foreldrar afar og ömmur fylgja börnunum sínum eftir, bæði þeim börnum sem koma í sunnudagaskólann og ekki síður fermingarbörnunum sem nú eru að undirbúa stóra stund í vor.

Já þegar á reynir veit fólk vel hvaða styrk hingað er að sækja og það er einmitt í þrengingum sem á það reynir hvað raunverulega skiptir máli.

Gleymum því ekki að trúin í sinni tæru mynd, kristin trú bendir á Jesú sjálfan, fordæmi hans, bæði hvað varðar andlegt líf og eins hvað siðræn efni snertir og að þiggja leiðsögn hans færir fólki innri frið og hjálpar okkur til þess að takast á við lífið á heilbrigðum og uppbyggilegum forsendum.

Okkur er óhætt að fylgja í sporin hans, óhætt að gera Jesú Krist að okkar sporgöngumanni í lífinu. Þeir gerðu það lærisveinarnir sem sagt er frá í guðspjalli dagsins. Þeir fylgdu honum eftir. Oft erfiða og torsótta leið. Fylgdu honum eftir upp fjallið og þar fengu þeir að upplifa það að hann var sannarlega sá sem hann sagði, því þarna á fjallinu ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og birtist þeim í guðdómsljóma.

Þetta getur orðið upplifun okkar allra ef við felum allt í hans hendur og fylgjum í sporin hans.

Megi góður Guð gefa að sem flestir fái að upplifa þetta og finna þann frið og siðferðilega styrk sem trúin gefur. Og megi góður Guð vekja samstöðu og samhug með okkar góðu þjóð, samstöðu og samhug til þess að komast sem fyrst í gegnum þær tímabundnu þrengingar sem nú eru framundan.

Gleymum því ekki að í dýrmætum sjóði sem borið hefur margfaldan ávöxt í gegnum aldirnar eigum við innistæðuna fyrir því sem þarf til þess að skapa hér farsælt og gott samfélag sem einkennist af manngæsku örlæti og samkennd. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Amen