Eilíft ljós, sem aldrei deyr

Eilíft ljós, sem aldrei deyr

Guð gefi mér eilíft ljós, sem aldrei deyr. Þannig bað fólk áður fyrr, þegar það slökkti ljós. Það rifjar Hannes skáld Pétursson upp í fallegum söguþætti um heimili í Skagafirði. Konu þekkti ég náið, skaftfellska, sem jafnan fór fyrr á fætur en aðrir á bænum og síðast í rúmið á kvöldin og slökkti á lampanum í baðstofunni um leið og hún gekk til sængur og sagði þá með sjálfri sér: Ljósið þitt lýsi mér, lifandi Jesús minn.

Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.

Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel, það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS. Matt 1.18-25

Guð gefi mér eilíft ljós, sem aldrei deyr.

Þannig bað fólk áður fyrr, þegar það slökkti ljós. Það rifjar Hannes skáld Pétursson upp í fallegum söguþætti um heimili í Skagafirði. Konu þekkti ég náið, skaftfellska, sem jafnan fór fyrr á fætur en aðrir á bænum og síðast í rúmið á kvöldin og slökkti á lampanum í baðstofunni um leið og hún gekk til sængur og sagði þá með sjálfri sér: Ljósið þitt lýsi mér, lifandi Jesús minn.

Mér þykir gott að vita þetta og að kveðja á sama hátt þau ljós, sem slokkna. Jólaljósin lifa enn og áfram um sinn en eru líklega eitthvað farin að dofna á annan í jólum. Þau eru búin að loga svo lengi og víða, þau koma svo snemma upp í seinni tíð, það liggur svo mikið á að vekja athygli á því, hvað jólin eiga að kosta, hvað við þurfum að kaupa mikið til þess að geta verið glöð og glatt aðra, til þess að vinátta, hugulsemi, ást komist til skila. Ég nefndi hér hluti, sem sannarlega kosta, verða aldrei verðlagðir of hátt. Og það veit ég og þakka, að þessi jól, eins og önnur, hafa gefið mikið af sér af góðvild og gleði og birtu í sál.

Já, gefið. Hvað er selt og hvað verður keypt? Einhverntíma var því logið upp, að íslensku norðurljósin hefðu verið seld í útlöndum. Það var hlegið að þessu úti hér, það þótti fyndið og harla gott, að íslensk snilligáfa skyldi geta leikið svona á ríka útlendinga, því öllum var ljóst, að það er ekki hægt að selja norðurljósin. Einhvern heyrði ég mann segja fyrir löngu: Það er búið að selja jólin mín. Annan heyrði ég segja nýlega: Ætli þeir selji ekki bráðum loftið og sólskinið frá mér?

Mín og frá mér? Hvað er mitt? Aldrei átti ég loftið og sólskinið, það hef ég fengið gefins, leigulaust og skattfrjálst. Og eins er um hverja virkilega hamingjustund. Alla djúpa gleði, alla heila og góða innri fullnægju, alla lífsnautn, sem auðgar varanlega og verður mikil og albjört í minningunni. Allt var það gefins, eða náð á kristnu máli. Og að sjá, meta og þakka það, sem maður þiggur og er metanlegt, það er einmitt hamingjan, lífshamingja á ekki aðra trygga uppsprettu en þetta. Vitaskuld þurfum við að borga margt, marga ómissandi þjónustu annarra, lífsnauðsynjar og heilnæman óþarfa svonefndan, en skilyrðin til að njóta eru gefins og óborganleg. Ég hef ekki keypt neitt það andartak, sem var mér dýrmætast, ég hefði ekki getað það, þó að ég hefði haft milljónir í mánaðarlaun. Ekkert trútt og hlýtt handtak hef ég keypt, ekkert uppörvandi, ástúðlegt bros, ekkert það viðmót, sem auðgaði og blessaði líf mitt, engin þau mannleg viðbrögð, sem gáfu mér birtu og yl. Já, þar mætti ég einmitt þeirri birtu og þeim yl, sem er í ætt við jólin. Þar voru englar jólanna í nánd en jólasveinar hvergi nærri.

Ég hef oft horft á lítið barn og aldrei án þess að finna, að þar voru englar hjá, þar var reyndar kominn engill með skilaboð frá Guði um þá veröld hreinleikans, friðarins, ljóssins, sem hann á og vill gefa öllum, sem fæðast, þess vegna fæddist þetta barn í Betlehem, sem birtir Guð á jörð, og þess vegna getum við sungið á jólum og allt árið reyndar: Í hverju barni sé ég þína mynd. Þína mynd, Jesús, og englanna þinna.

Englar eru sendiboðar úr heimi, sem hefur ekkert að selja en allt að gefa. Þeir eru sendir til að segja, hvað tilveran er takmarkalaust örlát, það er leyndardómur ólýsanlegrar náðar fólginn í hverju ljósi, hverjum geisla, það er leyndardómur eilífs kærleika, sem birtist þar, það er geislinn úr augum elskandi Guðs, sem mætir þér þar, það er ljós heimsins og líf allrar tilveru, sem skín þar inn í augun þín og leitar inn í hjarta þitt.

Þetta segja jólin.

Það hvíla á þér augu, heið og tær, barnsaugu, eilíflega ung. En það er þjáning í þeim augum, þar er þraut og synd og sorg þín og mín og alls heimsins. Ljós þeirra augna skín frá hæstum hæðum niður í myrkustu undirdjúp. Þetta máttu vita, líka þegar þú átt bágt, þegar þér finnst sundin lokast og allt hrynja. Þetta er satt, þó að myrkur og sorti grúfi yfir löndum og þjóðum, þó að heift og örvænting ríki í Betlehem, þar sem Jesús var nærri því orðinn úti um leið og hann kom í þennan heim, þetta er satt, þó að ofstopinn og grimmdin sé að urra og myrða í Jerúsalem, borginni, sem úthýsti honum alveg og með hrottalegasta hætti. En það var líka þar, sem hann reis upp frá dauðum. Af því að Guð er eilíf ást, eins og við sungum áðan, úthýst og krossfest æ að nýju með mismunandi aðferðum, samt að sigra, þessi blindi, þjáði mannheimur er í eitt skipti fyrir öll merktur þeim sigri og helgaður þeim sigri, sem hin eilífa ást vann, hin hógværa, hrakta, forsmáða miskunn, hin þrotlausa náð, hin krossfesta, óbilandi elska, sem sigrar með þrautum og sigrar til fulls. Og þetta megum við þiggja, þú og ég og hvert mannsbarn, við megum þiggja það að láta sigrast af sigrandi, eilífum kærleika og sigra með honum. Og að þiggja þetta, þessa trú, þessa gjöf heilags anda Guðs og heilagra engla hans, það er að þiggja eilíft ljós, sem aldrei deyr.

Maður nútímans á erfitt með að skilja, að það sé einhvers virði, sem ekki þarf að kaupa eða klófesta. Hann getur svo mikið sjálfur. Er það ekki þess vegna, sem kristin trú er svo lítils metin af mörgum? Hún er rétt eins og sólin, sem bara gefur geislana sína og heimtar ekkert annað en að fá að lýsa og verma og gefa líf.

Bakkabræður byggðu sér bæ og hann var ágætur, nema þeir gleymdu glugganum. En þeim fannst enginn vandi að bæta úr því, þeir gátu tekið sólarljósið með höndunum úti á túni og borið það inn í bæinn. Þeir hefðu auðvitað keypt slatta af sólargeislum, ef þeir hefðu verið auglýstir til sölu. En það er ýmislegt, sem Guð áskilur sér að gefa, bara gefa, og öllum jafnt, því allir eru sömu öreigar í raun. Eða öllu heldur: Eigendur sama auðs, ef þeir þekkja hann og þiggja.

Þeir frægu Bakkabræður, sem svo margir hafa hlegið að sér til heilsubótar, þeir eru skoplegir álengdar, en voru þeir ekki bara á undan sínum tíma, eða nútímamenn? Þeir höfðu takmarkalausa trú á handaflinu eða tækninni, blinda trú á það, að allt verði gripið, hrifsað, en gleymdu því, að það sem mestu skiptir verða menn að hafa auðmýkt til að þiggja blátt áfram. Maður hvorki kaupir né gleypir sólina en hún skín inn á mann, ef glugginn gleymist ekki. Maður gómar ekki hamingju sína eða lífslán sitt með neinum tæknibrögðum eða fjármunum, þar er allt komið undir því að hafa gluggann í lagi eða hjartað opið og þiggja. Og láta svo aftur í té eitthvað úr þeim sjóði, sem hjartað þiggur.

Trúin sem við eigum, kristnir menn, hún er ekkert að miklast af, hún er ekkert annað en að við viljum lofa Guði að lýsa á gluggann, inn í hjartað.

Lítil stúlka horfði á kerti brenna út. Hvert fór ljósið, spurði hún? Ætli það hafi ekki farið inn í þig? svaraði ég. Var ég að skrökva? Ég var ekki að kenna barninu eðlisfræði. En þarna var ljósþyrst sál, opin á móti því ljósi, sem eitt lýsir upp allt myrkur í lífi og dauða. Það er sjálft ljós heimsins, Jesús Kristur. Ég var að biðja fyrir henni, alveg eins og fyrir ykkur núna, að hún héldi áfram að taka á móti því ljósi, að líf hennar mætti helgast af þeirri trú, sem í rauninni felst öll í þessum fáu og auðlærðu bænarorðum: Guð gefi mér eilíft ljós, sem aldrei deyr. Ljósið þitt lýsi mér, lifandi Jesús minn.

Sigurbjörn Einarsson er biskup. Þessi prédikun var flutt í Hallgrímskirkju á öðrum jóladegi, 26. desember 2002.