Með þögninni eyðir þú öllum misskilningi

Með þögninni eyðir þú öllum misskilningi

Bæn er ekki pöntunarþjónusta. Maður tekur ekki upp tólið og pantar, svona svipað og þegar maður pantar pizzu úr Eldsmiðjunni eða spólu á amazon. Verslunarvæðum ekki bænina. Bæn er ástartengill.

Ólík hlutverk Í stóru húsi niður við sjó bjó hópur fólks. Það var góður andi í húsinu, fundir í húsfélaginu gengu vel og allar ákvarðanir voru teknar í sátt og samlyndi. Einhverju sinni - á fullu tungli og þar með stórstraumi - var spáð ofsaveðri. Húsið var í góðu standi og enginn hafði sérstakar áhyggjur. Helst var að menn hefðu áhyggjur af hárri sjávarstöðu. Veðrið skall á og flest fór á versta veg. Sjór gekk á land, kjallarinn fylltist, þakplötur fuku og rafmagnið fór af húsinu. Íbúarnir urðu skelkaðir en brugðust ólíkt við. Einn hafði samband við lögreglu. biðjið og...Annar vildi, að allir íbúar legðu á flótta. Ein hafði samband við björgunarsveit, aðrir fóru í verkin og ekki veitti af. Nokkrir urðu pirraðir þegar einn vildi draga sig í hlé og biðja til Guðs.

Björgunarstarf var unnið meðan veðrið geisaði. Svo lægði. Húsið skaddaðist, en enginn lifenda fórst eða slasaðist. Eftir storminn komu íbúarnir á húsfund til að ráða ráðum sínum. Farið var yfir hvað hafði gerst og hverjir gerðu hvað. Þegar var komið að bænamanninum var honum komið í skilning um, að hans hefði verið sárt saknað þegar mest gekk á, ausa þurfti, byrgja brotna glugga og hindra þakfok. Hann hefði betur verið komin í vinnu með hinum. En bænamaðurinn íhugaði kvartanir og sagði svo: 

“Munið þið, þegar björgunarsveitin kom gat hún ekki aðhafst, þegar lögreglan kom var hún líka bjargarlaus, þegar rúðurnar sprungu, sjórinn æddi, og þakið var um það bil að fara voru allir angistarfullur. Þá bað ég og fann að himininn var galopinn, fann fyrir kyrrunni sem allt í einu kom, fann fyrir nánd Guðs. Ég er vanur að tala við Guð, hef þjálfunina og nem slíkt vel. Þá fóru málin að ganga. Hjálparsveitirnar fóru að geta starfað, þá fyrst var hægt að byrgja glugga. Allir stóðu sig vel, allir íbúarnir gerðu gagn. En ástæðan fyrir að allt fór svona vel voru ekki bænirnar mínar heldur hin guðlega návist. Hún var ástæðan og forsenda alls hins góða sem hægt var að gera til bjargar.”
Nágrannar hins biðjandi íbúa voru nokkuð klumsa og íhugandi yfir þessum upplýsingum.

Mannveran er margflókin Hvernig á að túlka svona sögu? Húsið er ekki Lambhóll við Ægisíðu eða blokk á Eiðistorgi. Fólkið er ekki íbúar hér í Vesturbænum. Sagan af húsinu góða er dæmisaga, saga um mannveru, eina manneskju. Stórt hús með mörgum íbúum er eins og flókin mannvera með ýmsum þörfum og ólíkum eigindum og erindum. Vilji, ástríður, umhyggja, varnarleysi, varnarhættir, undirmeðvitund, dómgreind, framkvæmdavilji og ólíkir viðbragðshættir búa í okkur öllum. Öllum húsum, öllum samfélögum og öllum mönnum er gefin skynsemi, sem þó getur ekki séð eða skilið allt því margt er ofar mannlegum möguleikum, skynjun og þar með greind.

Setjum svo hjálparleitina í samhengi dæmisögunnar: Sá, sem hringdi í björgunarsveitina, er upptekinn af árangri hennar. Sú, sem stýrir austri í kjallaranum, fylgist vel með árangrinum neðra. Og sá sem byrgir glugga er meðvitaður um að illa mun fara ef ekki næst að loka. Allir eru uppteknir af sínum verkahring og sjá oft ekki út yfir þröngan hring eigin viðfangsefna. En hvað um bænamanninn? Hvað um bænina?

Við viljum fá haldbær rök, sjá hin guðlegu áhrif með skýrum hætti og helst að Guð bjóði okkur góðan daginn. Kvikmyndaleikstjórinn Woody Allen hefur alla tíð - með sínu “nervösa” og fyndna móti - glímt við gátur lífsins, líka gátuna um tilveru Guðs og tengslin. Hann sagði einu sinni: “Bara að Guð sýndi mér kristaltært teikn! Til dæmis með því að leggja inn væna summu inn á reikning með mínu nafni í svissneskum banka!”

Bænir og bænadagur Hvað um Guð? Hlustar Guð á öll orðin og hugsanir, sem berast frá biðjandi hluta heimsbyggðarinnar? Um land allt biður fólk fyrir veikum, veröldinni, fyrir náttúrunni, börnum, öldruðum, menningu, skólum, kórum, fyrir þjónum kirkjunnar, fyrir elsku í samfélaginu, fyrir svíðingum og góðmennum, fyrir sálum látinna, fyrir málleysingjum og viskumönnum, fyrir veröldinni, fyrir gleðinni. Bæn spannar innri rými mannsins, ytri rými veraldar, gildi og sorgarefni, já allt sem er. Og bænir eiga sér talanda, þau sem biðja og viðtakanda, Guð.

Bæn er ekki pöntun Of margir halda, að bæn sé eins og að hafa samband við pöntunarþjónustu. Maður bara tekur upp tólið og pantar, svona svipað og þegar maður pantar pizzu eða miða í leikhús eða bók og spólu á amazon. En bæn er ekki það að leggja inn pöntun. Verslunarvæðum ekki bænina.

Bæn er ekki kvörtun Aðrir bera sig að í bænagerð sinni, eins og þeir séu að hafa samband við kvörtunarþjónustu fyrirtækis. Maður þurfi bara að kvarta og þá verði vandinn tekinn alvarlega og til vinnslu. Síminn tekur 1-3 virka daga til að leysa úr kvörtunarmálunum. En bæn er ekki hluti af kvörtunarkerfi veraldar.

Bæn ekki fyrirskipun Stjórnlynt fólk hefur tilhneigingu til að skipa fyrir og setur sig í bænastellingum eins og viðkomandi hafi leiðbeiningarhlutverki að gegna gagnvart Guði. Bæn verður þá eins og fyrirskipun inn í stjórnunarnet himinsins. Aðeins þurfi að upplýsa viðutan eða jafnvel svolítið sljóan Guð hvernig lækna eigi sjúkdóma, frelsa fangelsaða, velta harðstjórum eða hvernig laga eigi hag einhvers í samræmi við þarfir viðkomandi, drauma eða jafnvel óra. En bænir eru ekki stjórnsýslutæki.

Til hvers bæn? Á einni bloggsíðunni las ég í vikunni þessi átakanlegu orð:

“Það hefur komið fyrir að ég hef beðið til Guðs, hingað til hefur hann ekki hlustað mikið á mig. Kannski er áhrifaríkara að skrifa nokkrar línur til hans, verst er að ég er ekki með heimilisfangið hans í Himnaríki, og hvað ætti ég að setja mörg frímerki á umslagið? ...Kannski vegna þess að hann er ekki til?”
Flestir biðja og tjá Guði eitthvað, ekki síst þegar á bjátar, en eru kannski ekki eins lagnir við að hlusta eftir návist þessa elskhuga veraldar. Bæn er ekki það að tjá duttlungafullu yfirvaldi þarfir sínar og angist og biðja um lausn mála. Við megum gjarnan losa bænir okkar úr samhengi stjórnsýslu, hernaðar eða valdastiga og opna fyrir djúpsæknari skilning. Skiljum bæn fremur sem samskipti, tjáningu og tengingu. Bæn er að opna sitt eigið innra gagnvart elskhuga. Bæn er samtal, samfélag. Bæn er tjáning hins innri manns, sálarinnar.

Viðræða þagnarinnar Fyrir rúmri viku var haldinn kyrrðardagur hér í Neskirkju. Leiðbeinandi var munkurinn William Meninger frá klaustri heilags Benedikts í Colorado í Bandaríkjunum. Hann hefur þróað einfalda bænaaðferð, sem nefnist á enskunni Centering Prayer og gjarnan nefnd á íslensku “bæn hjartans.” Aðferðin er einkum íhugun í þögn og einbeitt bæn. Hún hefur að einkunnarorðum vers úr 46. sálmi Davíðs: “Verið kyrr og viðurkennið að ég er Guð.”  Eins og við getum hrifist af undrum lífsins getum við verið frammi fyrir Guði í orðlausri bæn, hrifist  og verið eitt með elsku hans – án orða.

Skáldið Matthías Johannessen setti eitt sinn saman kvæði og vísaði m.a. í þekktan samskiptavanda austurs og vesturs á kaldastríðstímanum:

Milli Kreml og Hvíta hússins er beint símasamband samt geta þeir ekki talazt við. Milli þín og okkar er bænin. Með þögninni eyðir þú öllum misskilningi eins og sól þurrki dögg af morgungrænum blöðum. 
Já, símasamband tryggir ekki að menn geti talað, skilið og elskað. Tækni og gæði heimsins  tryggja ekki virkni og tengsl. En í þögn má miðla skilningi og tengja sálir saman. Bæn getur lifnað í þögn. Í samræðu þagnarinnar hverfur misskilningur, gufar upp.

Bænirnar eru margvíslegar Þegar þú skoðar bænagerðir, í sálmabókinni, í messunni, í vísum og ljóðum, já í lífi þínu sést vel að bænir eru með ýmsu móti. Bæn getur verið þögult hugarsamtal, hljómandi raddbæn, sunginn bænasálmur eða messusvör. Íhugunarbæn er þegar kyrran verður alger og meðvitundin flýtur á stillu hins heilaga. Þakkarbænir eru viðbragð við gjöfum og láni lífsins. Svo eru bænir, sem verða til við ýmis tækifæri: Morgunbænir og kvöldbænir. Ferðabænir alls konar. Í gamla daga báðu sjómennirnir sjóferðabænir og sumir gera það enn. Margir biðja flugbænir við upphaf millilandaferða. Þar er kannski mesti bænavöxturinn. Ýmsir biðja borðbænir, sumir festa bílabænir í bíla sína sem verða oft tilefni til skyndibænaiðju. Margir biðja fyrir fólki - fyrir ástvinum, læknum, sjúkum, fíklum, frambjóðendum, börnum, kennurum, prestum, veiklunduðum, stjórnvöldum. Biðjum, já biðjum án afláts. Lærum að bæn er ekki andstæð skynsemi, viti og þekkingu, heldur einn af íbúum hússins okkar, sem má búa í okkur og opna himininn, á stundum erfiðleika en líka á þessum venjulegu dögum, þegar allt er gott og húsfélag sálarinnar blómstrar og fundir ganga fínt.

Við viljum vera heilar manneskjur. Leyfum okkur að rækta allar víddir og sálargáfur okkar. Leyfum líka bænamanni okkar eigin lífs, okkar eigin húss, að biðja. Það verður okkur til blessunar. Leyfum okkur að hrífast frammi fyrir skaparanum og tengja við ástarnet heims og himins. Þá verður lífið litríkara og skemmtilegra. Líf í ást er betra en ástlaust líf. Og af því að hún er svo persónuleg er bænin ekki bara andardráttur trúarinnar heldur besti ástartengill veraldar.

Amen.

Bænadagshugvekja í Neskirkju, 5. sunnudagur eftir páska, 27. apríl, 2008 

Textar 2008 Bænadagurinn

Lexía. Jer. 29.11-14a Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður segir Drottinn -fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður. Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta, vil ég láta yður finna mig segir Drottinn. 

Pistill. 1.Tím. 2.1-6a. Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla.

Guðspjall. Jóh.16.23b-30 Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn. Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn. Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins. Lærisveinar hans sögðu: Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði. 

Bæn 

Þú mikli Guð Lof sé þér fyrir líf og leiðir. Lof sé þér fyrir sköpunarverkið allt, liti og ljós, sögur, orð, sólstafi og djúpsvart myrkur.

Lof sé þér fyrir fjölbreytileika veraldar, marglita menningu, ólíkt fólk, nánd og fjarlægðir, smákorn og sólir.

Lof sé þér skapari alls sem er fyrir að gefa okkur líf, leyfir okkur að lifa til að upplifa og gleðjast með þér.

Gef okkur vilja til að horfa í spegil lífssögu okkar, opna fyrir reynslu nýjunga, margbreytileika, nýrra möguleika, dýptar, - opna fyrir þér.

Hjálpa okkur góði Guð að sjá í reynslu daganna að þú ert með í för, þú gengur okkur við hlið, þú fylgir okkur í sorginni, þú brosir við okkur í augum ásvina og elskunnar. Þú ert okkur við hlið.

Hjálpa okkur að lesa sögu okkar sem samfylgdarför, að líf okkar hefur ávallt verið fólgið í sögu þinni, okkar smásaga er brot hinnar stóru sögu, sem þú hefur sagt og heldur áfram að segja okkur, meðan þú yrkir veröldina.

Þökk fyrir að við megum lifa í þeirri sögu sannleikans um okkur og þig.

Lof sé þér fyrir að þær sögur eru ekki sögur til sorgar, heldur sögur til gleði, lífsdómar og gleðigjafar.

Við komum í hús þitt til að tala við þig, bera þér ferðaefnin öll. Við biðjum þig að geyma ástvini okkar, samstarfsfólk, vinnustaði, þessa kirkju og starfsfólk. Við felum þér þau sem sjúkdómar hrjá, þau er syrgja og líða, kvíða og gráta. Við nefnum nöfn þeirra ...

Þú Guð orðsins Bið biðjum þig að blessa orð þitt í lífi fólks, orð þitt í kirkjunni, orð þitt í Ritningunni. Gef að hin nýja Biblíuþýðing mætti verða til að opna sálir fólks fyrir orði þínu að nýju.

Þú Guð réttlætis og elsku Við biðjum fyrir forseta og ríkisstjórn, fyrir löggjafa og dómstólum, fyrir öllum þeim sem stýra sveitarstjórnum. Við þökkum þér fyrir byggð okkar, fyrir alla sem hér búa og starfa. Hjálpa okkur að axla ábyrgð á velferð hvers annars, á byggð og landi, lífi og heimi, heiminum þínum, sem þú elskar og frelsar.

Guð vors lands Þú hefur skapað okkur til frelsis og ábyrgðar. Í þínar hendur felum við alla viðleitni til að byggja og móta réttlátt þjóðfélag. Kenn okkur að bera virðingu fyrir skoðunum og sjónarmiðum annarra. Öll berum við ábyrgð á brestum samfélagsins. Reis okkur upp, Drottinn, gef okkur visku og kraft til að vinna bug á þeim. Lát okkur aldrei gleyma því að heimurinn er stærri en okkar eigin byggð og land. Þú ert öllu valdi, öllum heimi æðri. Þinn er mátturinn og dýrðin að eilífu.

Amen