Eyrir ekkjunnar

Eyrir ekkjunnar

Í guðspjalli hverrar messu kemur Jesús sjálfur fram og talar. Og í guðspjallinu núna og í ljósinu frá honum þar birtist ekki neitt viðurkennt stórmenni, heldur nafnlaus kona, sem stígur eitt skref á sögulausum ævivegi sínum. En á því andartaki hvíla á henni augu, sem sjá og meta það, sem enginn annar sér né kann að meta.

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína. Mark. 12, 41-44

Hallgrímssöfnuður er 65 ára á þessu ári. Það verður alltaf þakkarhátíð í huga mér, þegar ég minnist þeirra fyrstu ára í sögu hans, sem voru mér persónulega næsta dýrmæt reynsla. Eftir að þeim árum lauk hef ég líka fengið að lifa margar hátíðarstundir með þessum söfnuði. Enn eina fæ ég að þiggja í dag. Drottinn blessi börnin hans hér og nú og um alla framtíð.

Hann ber nafn mikils manns. Sannarlega hefur kristin kirkja átt mikilmenni. Í hverri messu fáum við að heyra og taka undir orð, sem hinir miklu vottar Guðs, spámenn og postular, hafa flutt. Það er áþreifanleg uppörvun og blessun að horfa upp til tindanna og sjá þá upplýsta af ljómanum frá þeim kóngi dýrðar um eilíf ár, sem þeir lúta og benda til.

En í guðspjalli hverrar messu kemur Jesús sjálfur fram og talar. Og í guðspjallinu núna og í ljósinu frá honum þar birtist ekki neitt viðurkennt stórmenni, heldur nafnlaus kona, sem stígur eitt skref á sögulausum ævivegi sínum. En á því andartaki hvíla á henni augu, sem sjá og meta það, sem enginn annar sér né kann að meta. Augu, sem horfa þannig á gleymda, allslausa manneskju, að mynd hennar fær líf, sem varir, sem máist ekki út meðan til eru augu, sem sjá.

Er ekki sagt um jarðnesk ástaraugu, að þau segi við þann eða þá, sem þau horfa á: Þú mátt aldrei deyja?

En öll jarðnesk augu deyja, og hvað verður þá um þær óskir og vonir, sem lýstu úr þeim?

En augu hinnar eilífu ástar deyja ekki. Og þau geta skapað það, sem þau sjá í þeim, sem þau horfa á. Þess vegna átt þú von um ódauðlegt, eilíft líf, og ég, að það er einn, sem sér okkur þannig fyrir sér, að við fáum líf af því, tímanlega, jarðneska lífið fyrst og síðan nýtt líf og eilíft í ljósinu frá augunum hans.

Ef við viljum þiggja það að lifa í því ljósi.

Hún sést enn konan, sem gekk þarna um torgið og enginn sá, ekkjan, sem ekkert var, með aurinn sinn, sem ekkert var, en aleigan hennar, sem hún gaf.

En einn sá.

Og um leið varð eyrir ekkjunnar minnisstæðasti peningur veraldarsögunnar.

Hann hefur vísast fallið í gildi nú?

Hann fer víst að gleymast? Það er ekkert talið í aurum á Íslandi lengur, aurar eru ekki til hér. En milljarðar eru mikið í fréttum. Kaup og sölur upp á milljarða raunar varla neinar fréttir lengur.

En Jesús er enn sem fyrr að minna á það í kirkjunni sinni, hvað hann sér og heyrir og metur og virðir.

Það er manneskjan sjálf, sem gildir, mannshjartað.

Það hugarfar er til, sem er meiri blessun fyrir þennan heim en annar auður hvers kyns.

Þegar ég var að hugsa um þessa konu í guðspjallinu og þá í sambandi við messuna á degi Hallgríms í kirkjunni hans að þessu sinni, sótti önnur kona afar fast að mér. Hallgrímur átti móður.

Auðvitað. Það hlutu allir að eiga, bæði stórir og smáir. En það getur gleymst. Það liggur við, að svo hafi verið um móður Hallgríms. Þegar hann, tiltölulega skömmu eftir að hann kvaddi þennan heim, var að verða kunnastur og dáðastur allra samtímamanna sinna, vissi enginn neitt um hana, hún var þá ekkert nema nafnið, Solveig Jónsdóttir. Hún átti ekki neitt, sem vert var að nefna, var ekki neitt.

Samt var nú svo, að Hallgrímur, sem gaf svo mikið og hefur vakið dýpra þakklæti fyrir lífsafrek sitt en aðrir íslenskir menn, hann átti ekkert í byrjun nema móðurlíf, þar sem hann þáði lífið sitt sjálft, hvorki meira né minna. Og svo móðurbrjóst sömu gleymdu konu. Og móðurbæn, hún hefur beðið fyrir barni sínu, bæði ófæddu og fæddu. Og ætli Hallgrímur hafi ekki stafað fyrstu bænarorðin sín eftir henni og þau bænarorð sáð sér dýpst í þessa miklu sál, sem átti eftir að bera þá ávexti, sem nærðu og blessuðu börn Íslands öld af öld. Hljóðlát kona, sem enginn sá. En gaf það, sem hún átti, gaf líkama sinn og sál til þjónustu við líf, sem átti mikið erindi inn í þennan heim.

Kannski hefði því lífi verið eytt í móðurlífi á glæstri tækniöld, sem hefur frelsið og réttinn á oddi, en æði oft í merkingunni: Mitt frelsi, minn réttur, minn hagur, jafnvel án nokkurs tillits til neins annars.

Seinna, á úrslitaskeiði í lífi sínu, þegar Hallgrímur var enn ungur, átti hann aftur á tímabili ekkert nema ást einnar konu fátækrar, sem gaf honum allt sem hún átti.

Það var Guðríður Símonardóttir.

Hún gleymdist nógu lengi eftir dauða sinn til þess, að slúðurmunnar gætu síðar skemmt sér við að afskræma hana.

Við erum í stórri skuld við góðvirk mikilmenni, við skörungana, konur jafnt sem karla, sem fengu áberandi hlutverk. En alkunna er það, að margir slíkir sáust ekki á torginu, leiftrin þar beindust að öðrum. Þar til önnur birta fór að vinna á.

En Jesús er í dag að minna á hina óþekktu, gleymdu, hljóðu, og framlag þeirra.

Ætli mannlífið eigi ekki enn talsvert mikið undir hinni kyrrlátu þjónustu, já, lífshollustu margra þeirra, sem ekki sjást?

Ætli skerfur hinnar gleymdu móður geti ekki vegið nokkuð þungt, þegar um er að ræða lífið sjálft?

Alltént er það staðreynd, að það fæðist enginn án þess að eiga móður. Allir eiga einn veg að fara inn í “heimsins rann” , eins og Hallgrímur segir, það er óbreytt og breytist ekki.

Ástarbönd tveggja af sama kyni má lögfesta, en úr því að náttúran útilokar fyrirfram alveg tvímælalaust, að móðir geti orðið til af slíku ástarsambandi, þá er það band annars eðlis en hitt, sem tekur mið af og helgast í grunni af þeirri kröfu, sem er skilyrði lífsins, skaparans, fyrir því, að maður geti fæðst inn í þennan heim.

Gleym ei móður minni, segir séra Matthías við þá, sem lesa ljóðin hans. Ætli séra Hallgrímur myndi ekki hafa tekið undir þau orð fyrir sitt leyti?

Hann minnist í sálmum með þakklæti á það móðurlíf, sem Guð gaf honum.

Og í öðrum minnilegum erindum talar hann um móðurjörð sína og móðurmálið sitt. Aðrar konur hafa ekki gefið þjóð sinni meira en móðir hans, þó að hún væri tæplega sjáanleg í lífinu, eins og sú kona á torginu mikla forðum, sem Jesús sá og enginn annar.

Allt er einum að þakka. Þeim Guði, þeim frelsara, sem sér. Og gefur líf með tilliti sínu, ástarorði sínu, endurfæðir syndugan mann til lifandi vonar, til eilífs lífs.

Jesús er mér í minni, mig á hans vald ég gef... Hann er mín hjálp og hreysti, hann er mitt rétta líf.

Þetta er hið eina mikla, sem allir geta eignast jafnt og öllum dugir til fulls þegar allt hitt verður að engu.