Listin að fara sér hægar

Listin að fara sér hægar

Það eru einmitt þessi öfugsnúnu skilaboð sem ekki bara fastan færir okkur heldur kristindómurinn sem slíkur. Hún er öfugsnúin í merkingu hins veraldlega þar sem allt gengur út á hraða og yfirburði – en heilbrigðari og nátengdari mennskunni heldur en asinn og hávaðinn.

Eitt sinn heyrði ég bílaframleiðanda kynna framleiðslu sína með skemmtilegum hætti. Auglýsingin var einhvern veginn svona: „Sölumenn annarra bílategunda segja frá því hversu fljótir bílarnir eru að komast frá núll og upp í hundrað. Við höfum ekki mestar áhyggjur af því. Okkur er meira umhugað um það hversu fljótur bíllinn okkar er frá hundrað og niður í núll.“

 

Listin að fara sér hægar

 

Senn göngum við inn í tímabil í kirkjunni sem við köllum fasta. Sá tími hefur einkennst af þeirri hugsun að hófsemd sé manninum gagnleg. Við erum í inngangi föstunnar sem sést á því að framundan eru þessir dýrðardagar með bollum, saltkjöti og sprelli á öskudegi. Þetta eru kjötkveðjuhátíðir og karnivöl sem marka upphafið að aðhaldi komandi vikna, allt fram til páska.

 

Á föstunni hægðist gangur tilverunnar og fólk átti að gæta hófs í mat og drykk. Sú hugsun kann að vera okkur framandleg enda erum við undantekningin í samhengi kynslóðanna allt fá öndverðu. Nægtirnar sem við njótum eiga sér enga hliðstæðu. Á þeim tímum þegar lífsgæðin voru af skornum skammti voru hitaeiningarnar ekki eitthvað sem við reynum að losa okkur við. Þvert á móti þær voru dýrmætar og auðvitað lífsnauðsynlegar.

 

Auðvelt er að sjá skynsemina í þessari taktföstu hegðun sem tengist þeirri árstíð sem nú örlar á hér á norðurhveli. Vorin voru sá tími þegar matarbirgðir á bæjum voru að þrotum komnar, nyt voru í lágmarki og gripirnir sem ekki hafði verið slátrað um haustið áttu að geta af sér afkvæmi. Fyrir vikið var það lífsnauðsynlegt að fasta, annars hefði fólk hreinilega étið sig út á gaddinn.

 

Trúarleg ákvæði

 

Hófsemdartíminn fékk trúarlegt inntak. Frásagnir Biblíunnar mynduðu bakgrunn slíkrar hegðunar. Ísraelsmenn minntust eyðimerkurgöngu forfeðranna, þegar fólkið var við dauðans dyr og kristið fólk hugleiddi föstu frelsarans í eyðimörkinni. Þannig komu inn ákvæði sem fléttuðust inn í trúarboðskapinn: Ekki mátti borða kjöt og rjóma og reyndar var miklu fleira talið upp sem fólk átti að forðast á föstutímum.

 

Síðar áttu siðbótarmenn eftir að tengja föstuna fremur hinu innra lífi. Lúther amaðist við því að tengja slíka háttsemi við náð Guðs og hélt því fram að þar skipti engu máli hvað fólk léti ofan í sig. Aftur á móti ætti kristið fólk að nýta tímann til iðrunar og þakklætis fyrir gjafir almættisins. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar tala vel inn í þá hefð: „Innra mig loksins angrið sker, æ hvað er lítil rækt í mér“ segir þegar í fyrsta sálmi.

 

Öfugsnúin skilaboð

 

Já, boðskapur föstunnar er í raun ekki ósvipaður þeim sem orðaður var í auglýsingunni hér í upphafi. Nóg er komið af derringnum í þeim sem þykjast geta farið hraðar og greiðar en allir aðrir. Við ættum fremur að hægja á ferðinni. Í samhengi umferðarinnar þá er þetta ekki spurning um kitl í magann eða sigur í spyrnukeppni á ljósum – heldur raunverulega um líf fólks og heilsu. Að fara frá hundrað og niður í núll hefur í því samhengi miklu meira vægi heldur en hið gagnstæða.

 

Það eru einmitt þessi öfugsnúnu skilaboð sem ekki bara fastan færir okkur heldur kristindómurinn sem slíkur: Öfugsnúin í merkingu hins veraldlega þar sem allt gengur út á hraða og yfirburði – en heilbrigðari og nátengdari mennskunni heldur en asinn og hávaðinn. 

 

Vissulega er auðvelt að líta til baka og skoða hegðun og háttarlag fólks á liðnum öldum sem vekja með okkur undrun og hneykslan í dag. Þar er af nógu að taka.

 

En stundum velti ég því fyrir mér hvernig afkomendur okkar muni meta þá hegðun sem við sýnum og teljum sjálfsagða. Þar verður ekki síður úrval athafna sem þau munu geta býsnast yfir. Velgengni okkar og velmegun sækjum við í sjóði liðinna tíma og við skilum af okkur úrgangi sem afkomendur okkar þurfa að losa sig við. Annars blasa við okkur hörmungartímar.

 

Bylting kristninnar

 

Enski sagnfræðingurinn Tom Holland heldur því fram í metsölubók sinni, Dominion frá árinu 2019, að kristindómurinn hafi innleitt algjörlega nýja hugsun og nýja mælikvarða. Með boðun sinni hafi Jesús snúið því við sem talið var ákjósanlegt og eftirsóknarvert. Holland þessi er sérfróður í samfélögum fornaldar. Hann bendir á stéttskiptinguna sem þá var innbyggð í menninguna. Frjálsir karlmenn höfðu í þeim anda alger yfirráð yfir þrælum, konum og undirsátum. Sú afstaða mótaði samskipti fólks og siði þar sem engar hömlur voru á því ofbeldi sem þau máttu þola sem stóðu neðar í virðingarröðinni.

 

Kristindómurinn átti eftir að ná yfirhöndinni í andlegu lífi og þaðan kemur einmitt yfirskrift bókarinar: Dominion eða Yfirráð.

 

Við sjáum engu að síður sama boðskap í orðum Amosar sem beinir spjótum sínum að fórnarathöfnum. Þar leitaðist fólk við að tryggja sér velsæld Guðs eða guða með því að færa þeim einhver verðmæti, oftast húsdýr. Þetta var einmitt hluti þessarar menningar. Þau sem voru auðug gátu látið eftir sér slíkan munað og treystu því þá um leið að frekari velsæld myndi fylgja.

 

En Amos og aðrir spámenn héldu því fram að slíkt væri andstyggð í augum Guðs. Fórnin ætti að felast í hjálpseminni og umhyggjunni fyrir þeim sem ættu sér engan málsvara í hörðum heimi. Það er í þessu samhengi sem Kristur talar.

 

Fórnir

 

Fórnir skipta máli. Hvað eru fórnir? Jú, við afsölum okkur einhverjum verðmætum í þeirri von að öðlast eitthvað miklu meira síðar. Bankinn fórnar þegar hann lánar okkur og endurheimtir svo aurana margfalda síðar – ekki satt? Því er meira að segja stundum fórnir séu framandlegar öðrum lífverum jarðarinnar – það sé einungis sú sem kennir sig við vitsmuni sem geti horft svo langt inn í framtíðina.

 

Sálfræðingar hafa gert tilraunir á börnum. Þau eru skilin eftir í herbergi með einn sykurpúða og fá að vita að þeirra bíði enn meira nammi ef þau bíða með að borða hann. Svo reyna þeir að ráða í persónuleikann eftir því hvort þau standast freistinguna eða ekki! Upptökur af þessum tilraunum eru reyndar bráðfyndnar.

 

Fastan er í raun sams konar tilraun. Eða hún á að vera það. Hér áður neitaði fólk sér um að kýla kviðinn því ella myndi það svelta þegar fram liðu stundir.

 

Fastan er okkur framandleg

 

En við lifum auðvitað enga slíka tíma í dag. Menningin á okkar dögum er eiginlega þveröfug. Við göngum á auðlindirnar til þess að geta notið allsnægtanna. Við sækjum ofan í jörðina orku sem lífverur söfnuðu úr sólarljósinu fyrir hundruðum milljóna ára.

 

Og við nýtum hana til að geta farið frá einum stað til annars. Farið frá núll og upp í hundrað. Vísbendingarnar hrannast upp um það hversu afleit sú háttsemi okkar er. En við erum eins og í fjötrum hefðarinnar. Rétt eins og misskiptingin hélt áfram þrátt fyrir boðskap Krists og erindi spámanna um breytta hugsun.

 

Sagnfræðingurinn Tom Holland hélt því fram að kristindómurinn hefði snúið öllum gildum við. Áhrif þess áttu eftir að koma fram á ýmsum tímum. Í ræðunni frægu, sem hefst á orðunum ,,I have a dream" sagði séra Martin Luther King: ,,We will not be satisfied until justice rolls down like waters and righteousness like a mighty stream." Þessi orð eru sótt í spámanninn Amos fyrir Krist og við hlýddum á hér áðan: ,,Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur."

 

Þessi breyting tók sannarlega langan tíma og á því tímabili hefur margt verið rangleitt og öfugsnúið er það sannarlega enn. Þrælahald hélt áfram, konur voru undirokaðar, stéttskipting var áfram óskapleg. Í dag horfum við upp á alls kyns vanda sem við getum rakið til mannlegrar hegðunar.

 

Hvers vegna var það? Við getum séð merki þessa í guðspjalli dagsins þar sem Kristur talar um hina æðstu fórn í þessu samhengi – sjálfan krossinn sem er uppgjör við þessa hugsun. Þar er hinn æðsti og mesti í sporum þeirra allra veikustu. Og þangað horfum við þegar við setjum nýja mælikvarða og sjáum hvernig Jesús tekur sér stöðu með öllum þeim sem beitt eru órétti og ranglæti. Þaðan streyma fram vötn réttvísi og réttlætis – sem í kristnum skilningi er ekki réttur hins sterka heldur hagur hinna kúguðu og smáðu.

 

Vík frá mér!

 

En hvers vegna tók það svo langan tíma og hvers vegna erum við ekki enn komin á þann stað að þessi boðskapur móti samskipti okkar og hugsun?  Orðin sem Jesús sagði við Pétur, sinn nánasta vin lýsa því vel hversu erfitt það er að brjótast út úr viðjum vanans: „Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“

 

Hér ávarpar hann ekki aðeins þann sem var honum kærastur. Hann talar til okkar allra. Við erum föst í þeirri hugsun að komast sem hraðast frá núll og upp í hundrað og þau sem mest æða áfram njóta vinsælda og velgengni. Sú viðleitni að fara í hina áttina verður okkur sístæð barátta og þar er föstutíminn hentugur til að hugleiða þá baráttu.