Kirkja sem þjónar og boðar.

Kirkja sem þjónar og boðar.

Það er verkefni Þjóðkirkjunnar að vera kirkja Jesú Krists, að boða sannleikann – bæði í meðbyr og mótbyr. Boða Krist krossfestann og upprisinn, boða náð, von, kærleika og friðarveginn sem Jesú kenndi. En það er líklega ekkert í störfum Þjóðkirkjunnar sem mætir eins mikilli andstöðu og þegar starfsfólk hennar raunverulega leggur sig fram um að boða friðarveg Krists.
fullname - andlitsmynd Sindri Geir Óskarsson
09. október 2025

Í aðsendri grein á Nútímanum, "Þjóðkirkjan – hverjum þjónar hún?", veltir Ragnar Rögnvaldsson upp mikilvægum spurningum um stöðu og hlutverk íslensku Þjóðkirkjunnar.

Eftir að hafa lýst skoðun sinni að þjóðkirkjan útvatni boðskap kristinnar trúar til að þóknast samfélaginu segir hann:

Ef þjóðkirkjan vill endurheimta sitt hlutverk, þá þarf hún að svara ákveðnum grundvallar spurningum:

Hverjum þjónar hún?

Er hún fyrst og fremst stofnun sem viðheldur hefðum?

Er markmið kirkjunnar að sækjast eftir vinsældum og menningarlegri stöðu?

Eða er hún kirkja Jesú Krists, sem hefur það hlutverk að boða sannleikann – jafnvel þótt hann mæti andstöðu? Og þá sérstaklega þegar hann mætir andstöðu?

 

Þarna varpar Ragnar ljósi á eina hlið þeirrar flóknu stöðu sem Þjóðkirkjan er í.

Fyrir stórum hluta Íslendinga er Þjóðkirkjan fyrst og fremst stofnun sem viðheldur hefðum. Og við þá staðreynd hef ég oft þurft að glíma í samtölum við fólk sem vill hefðirnar en ekki endilega innihaldið, kristna athöfn, án þess að ég sé að tala neitt um Guð. Því tek ég ekki þátt í heldur finn með fólki fallega og einlæga lendingu þar sem við getum öll verið sönn því sem við stöndum fyrir. Þar upplifi ég að þjóðkirkjan sé að mæta sínu hlutverki, sem er að þjóna allri þjóðinni, þjóna öllum þeim sem vilja þjónustu hennar. Ekki með því að gefa afslátt, heldur með því að ræða saman og boða kristna lífsýn með virðingu, gleði og auðmýkt.

En ef að hluti þjóðarinnar sem vill njóta þjónustu kirkjunnar er fyrst og fremst að horfa til hefðahlutverks kirkjunnar, þá á hún sannarlega á hættu að verða aðeins kökuskraut á hátíðisdögum, það er að segja ef starfsfólk þjóðkirkjunnar er ekki meðvitað um þessa áhættu. Sem betur fer erum við meðvituð um hana og leggjum okkur fram um að starfa eftir hlutverki okkar.

Því það er verkefni Þjóðkirkjunnar að vera kirkja Jesú Krists, að boða sannleikann – bæði í meðbyr og mótbyr. Boða Krist krossfestann og upprisinn, boða náð, von, kærleika og friðarveginn sem Jesú kenndi.

En það er líklega ekkert í störfum Þjóðkirkjunnar sem mætir eins mikilli andstöðu og þegar starfsfólk hennar raunverulega leggur sig fram um að boða friðarveg Krists.

Þegar við tökum til okkar orð Krists úr fjallræðunni að vera ljós og salt jarðar, vera fólk sem leggur sig fram um að færa birtu og hlýju inn í brotinn heim, fólk sem lætur muna um sig og vinnur kærleiksverk (Matt 5:13).

Þegar við tökum til okkar það verkefni spámannanna að þora að gagnrýna samfélagið eða valdhafa og tala fyrir réttlæti og friði (Amos 5, Jesaja 1).

Þegar við tökum til okkar orð Krists að þjóna þeim sem hungrar og þyrstir, þeim sem eru útlendingar í landinu okkar, þeim sem lifa við fátækt, eru í fanglesi eða glíma við veikindi (Matt 25:36).

Þegar við reynum að leiða fólki fyrir sjónir að heimurinn var skapaður til að geta séð fyrir öllu fólki, og að hlutverk okkar á þessari jörð sé að gæta að sköpunarverkinu, náttúrunni og náunga okkar (1.Mós 2:15 og 4:9).

Þegar við reynum að benda á að Jesús kom ekki með þægilegan boðskap sem öllum getur líkað (Matt 10:34). Raunar líkaði fulltrúum valds og hefða svo illa við boðskapinn að þau létu færa Jesú á Krossinn þar sem Guð sýndi sigur lífsins yfir dauðanum, sigur kærleikans yfir hatrinu og sigur fyrirgefningar yfir því hugarfari hefndar sem býr því miður í mannkyni.


Þegar fulltrúar Þjóðkirkju, eða annarra kristinna kirkna ávarpa samfélagið þá erum við að boða. Kirkja sem talar aldrei við samfélagið sitt getur ekki verið lifandi. Kirkja sem ögrar aldrei er huglaus, en hún væri eflaust ágætis kökuskraut.

Þjóðkirkjan hefur alltaf átt í samtali við samfélag sitt, alltaf tekið afstöðu í hinum ýmsu samfélagsmálum, rétt eins og allar aðrar kirkjur í lifandi samfélögum hafa gert – þess vegna eru þær enn til. Og fordæmið að samtali er hjá Kristi sjálfum.

Í 10. kafla Lúkasarguðspjalls er ein þekktasta dæmisaga Krists, um miskunnsama Samverjann. Jesú hafði verið að boða og maður stígur fram til að reyna að réttlæta sjálfan sig, lögspekingur sem vildi finna glufuna í boðskap Jesú, finna styttri leiðina að eilífðinni, leiðina sem gerði ekki raunverulegar kröfur á hann. En Jesús notar dæmi úr samfélagi og samtíma þessa manns til að leiða honum sannleikann fyrir sjónir.

Samtal við samtímann er hluti af kristinni hefð og arfleið. Það að taka afstöðu er hluti af kristinni hefð og arfleið, en það að skiptast á skoðunum er það líka.

Því fagna ég samtali, og vona að við sem játum trú á Guð og eigum Krist að okkar frelsara getum skipst á skoðunum af virðingu og kærleika, í leit að þeirri samstöðu, samkennd og einlægni sem brotinn heimur þarf á að halda.


Höfundur er prestur á Akureyri.