Jóhannes og sólin

Jóhannes og sólin

Já, þeir spurðu hann: „Hver ertu?“ Spurning sem þessi er kannske hversdagsleg en hún getur líka verið nærgöngul og afhjúpandi.

Nú þegar vetrarsólstöður eru nýgengnar í garð lesum við í guðspjallinu um Jóhannes skírara.

Hver ertu?

Nafn hans tengist á merkilegan hátt gangi jarðar í kringum sólina og þeim árstíðaskiptum sem varða okkur svo miklu. Persónur Biblíunnar miðla okkur vísdómi hvert á sinn hátt. Jóhannes, sá sem varðaði veginn fyrir Jesú, gerir það sannarlega. Hann er í senn píslarvottur, sá sem fórnaði lífi sínu fyrir sannfæringu sína og köllun. Og, sem tengist sjálfum sólarganginum hér á norðurhveli – þá er hann fulltrúi þeirrar dygðar sem hófsemin og auðmýktin er. Lykillinn að henni er sjálfsþekkingin – það er að kunna svarið við þeirri spurningu sem menn bera upp við hann í þeim texta sem hér var lesinn.

Já, þeir spurðu hann: „Hver ertu?“ Spurning sem þessi er kannske hversdagsleg en hún getur líka verið nærgöngul og afhjúpandi. 

Ég veit ekki hvernig ég myndi sjálfur svara. Það færi eftir því hver spyrði, hvert samhengið væri. Ef einhver kæmi hingað inn í kirkjuna og spyrði á þennan hátt, myndi ég kynna mig sem prestinn. Ef ég væri á skólalóð að leita að syni eða barnabarni þá væri það pabbinn eða afinn. Gengi ég í hús að selja KR-poka og endurskinsmerki eins og ég gerði með guttanum mínum nú á dögunum þá væri ég ekki bara foreldri – heldur hluti af hinum alræmdu fótboltaforeldrum! 

Og svo ef einhver rýnir í líf mitt og hyggst brjóta tilveru mína til mergjar – þá þyrfti ég líklega svolítinn umhugsunarfrest áður en ég svarið fæddist á vörum mínum.

Nei, þetta er ekki alltaf einföld spurning og má segja að hún liggi til grundvallar flestu því sem menn hafa hugsað og spáð í gegnum aldirnar. „Þekktu sjálfan þig“ sagði véfréttin í Delfí – mikilvægari viska er vandfundin, samkvæmt þeirri speki. Sókrates þótti í þeim anda bera af öðrum íbúum Aþenu því hann vissi sjálfur hvað hann vissi í raun lítið. Að hans mati, þá höfðu vissulega aðrir margt til brunns að bera en fundu engin takmörk á þekkingu sinni og kunnáttu. Þeir rötuðu því einatt í villu.

Sjálfsagt er um við flest í þeim hópi líka. Ef við lítum okkur nær þá eigum við mögulega óþægilegar minningar um einhver glappaskot og vandræðagang sem áttu rætur að rekja til þess að við færðumst of mikið í fang. Svo er auðvitað hinn möguleikinn, að við settum markið ekki nógu hátt og misstum fyrir vikið af stórum tækifærum. Þekktu sjálfan þig – ómar í gegnum söguna, hvort heldur það er mannskynssagan eða lífssaga hvers einstaklings. 

Og þessi spurning er eins og yfirskriftin að þessum síðasta sunnudegi aðventunnar, þar sem við komum hér saman skömmu áður en við hringjum inn jólin og allt ljómar í litadýrð.

Jóhannes og sólin

Þá fjalla textar messunar um undanfarann, þann sem varðaði veginn fyrir Jesú. Jóhannes skírari er ein af mörgum litríkum persónum Biblíunnar. Þótt hann hafi ekki sagst vera „spámaðurinn“ var engu að síður spámaður og slíkir menn stóðu á jaðri samfélagsins, höfðust jafnvel við í óbyggðum. Spámenn sýndu með klæðnaði sínum og ýmsu öðru hátterni að þeir voru ekki hluti þeirrar siðmenningar sem þeir rýndu í gegnum, já gagnrýndu. Þeir voru hrópendur í eyðimörkinni eins og því er lýst í texta dagsins og hrópin sneru að siðum fólksins og hátterni. Ástæða þess að bæði konungar og alþýða lögðu eyrun við boðskap þeirra var einmitt fólkin í sjálfu eðli þeirra. 

Hverjir voru þeir? Í nafni hvers töluðu þeir? Þannig spurðu þeir Jóhannes eins og því er lýst í guðspjallinu. Það fór ekki á milli mála að þeir höfðu ýmsar hugmyndir – sumir töldu hann vera annan spámann endurfæddan, sjálfan Elí og augljóst var að þeir væntu leiðtoga sem væri tilbúinn að beina þeim brautina út úr ánauð undir oki hins erlenda valds. 

Jú, spámenn átöldu fólkið fyrir skeytingarleysi í garð fátækra, yfirstéttina fyrir að vera sérgóð og gírug og yfirstjórnina fyrir að sanka að sér meiri völdum en góðu hófi gegndu. Þeir minntu með öðrum orðum á það að líf mannsins á sér tilgang sem nær út fyrir mörk valda, auðsöfnunar og þæginda. Þeir spurðu hvers eðlis það samfélag var sem þarna hafði myndast – og það var aðkallandi spurning. 

Svo þegar allt var komið í óefni í kjölfar spillingar og ójafnaðar, þjóðin saup kveljur undir oki erlends valds – þá fluttu spámennirnir boðskap sem var hvetjandi og styrkjandi: „Huggið, huggið lýð minn!“ segir Jesaja. Í lexíu dagsins talar hann um hina yndislegu fætur fagnaðarboðans sem flytur erindi réttlætis og sanngirni hvernig sem aðstæðurnar eru.

Erindi Jóhannesar skírara var af þessum toga. Hann var hugrakkur og staðfastur í köllun sinni. Þetta var ekki hættulaus iðja og sjálfur var Jóhannes tekinn af lífi einmitt í kjölfar þess að hann gagnrýndi lífsháttu Heródesar Antípasar. 

En annað er sérstaklega tengt nafni hans. Það er einmitt vitundin um þau takmörk sem hann hafði. Þótt fólkið þyrptist að honum, legði eyrun við orðum hans og léti skírast í ánni Jórdan þá miklaðist hann ekki yfir stöðu sinni. Hann þekkti takmörk sín – og sú afstaða hefur ekki síst haldið nafni hans á lofti. Því tengdu kristnir menn gang sólar við hugsjónir Jóhannesar. Honum er eignuð Jónsmessa á þeim tímamótum sólargangsins þar sem sól er hæst á lofti og tekur svo að lækka flugið. Kristsmessan er svo auðvitað á næsta leyti – einmitt þegar sólin tekur að nýju að færast ofar á himinhvelfinguna eftir vetrarsólstöður sem voru í gær. „Ekki er ég Kristur,“ sagði Jóhannes við fólkið. 

Auðmýkt

Því miður er hófsemi ekki einkennandi fyrir þá sem standa í forgrunni í heimi okkar. Þegar við hugleiðum það þá sjáum við hversu hrokinn birtist okkur nánast hvert sem við lítum á vettvangi mannlífsins. 

Þessir tímar okkar sem eiga að vera svo upplýstir – þar sem fólk hefur aðgang að allri þekkingu og hverjum þeim upplýsingum sem völ er á – einkennast þvert á móti af meira lýðskrumi en dæmi eru um í seinni tíð. Ítrekað velja kjósendur einstaklinga sem setja sjálfa sig í efsta sætið og höfða til lægstu hvata fólks í viðleitni sinni til að tryggja sér setu á valdastóli. 

Þar vegur þyngst óttinn við hið framandlega, viljinn til að einangra sig frá umhverfinu, halda öllu því fjarri sem kann að ögra ímynduðum forréttindu og samfélagsstöðu. Hvert ríkið af öðru dregur fram valdhafa sem upphefur sjálfan sig, skeytir engu um rétt, mannúð og jöfnuð og elur á ótta og ugg hjá kjósendum sínum, að því er virðist með góðum árangri. 

Og svo, til viðbótar egómanískum þjóðarleiðtogum stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að auður heimsins færist í æ meira mæli á hendur fárra. Sú er önnur þverstæða þessarar upplýsingaraldar sem við lifum á. OECD birtir okkur þau nöturlegu staðreynd að 0,6% jarðarbúa hafa sankað að sér tæpum 40% af gæðum heimsins. Það er ótrúleg staðreynd. 

Elíta þessi býr að meiri forréttindum en kóngar og landstjórar gerðu hér forðum daga, þeir sem spámenn á borð við Jóhannes gagnrýndu og reyndu að beina á rétta braut. Næstu 4,4% eiga svo þriðjung þeirra heimsgæða sem eftir standa. Samtals eru því yfir 70% eigna jarðarinnar í höndum 5% mannkyns. Við hin, þessi 95%, skiptum á milli okkar afgangnum, tæpum 30%. 

Nei, það er full ástæða til að leiða hugann að auðmýktinni og hófsemdinni sem hefur frá fornu fari verið metin æðst allra dygða. Það boðuðu forn-Grikkir og sú afstaða birtist einnig í svari Jóhannesar við spurningum fólksins sem var sannarlega tilbúið að setja hann á annan og æðri stall en honum bar. 

Svarið okkar?

Nú þegar við undirbúum komu jólanna og prýðum umhverfi okkar sem mest við megum, þá ættum við að staldra við og spyrja okkur þeirrar spurningar sem er eins og yfirskrift þessa síðasta sunnudags aðventunnar: „Hver ertu?“ Þeirri spurningu svari hver fyrir sig – en að baki henni leynist áminning til okkar allra um að fara ekki út fyrir þau mörk sem okkur eru sett. Um leið felur spurningin í sér þá köllum sem við kjósum að fylgja, já hver er hún? Er það eftirsókn eftir enn meiri auði og völdum? Er það óttinn við hið framandlega sem gerir okkur auðsveip og leiðitöm? Eða er það sannfæringin um réttlæti og réttvísi sem við viljum fylgja? Kirkjan skilur okkur eftir með þessa spurningu nú þegar sól hækkar á lofti og við hugleiðum sigur ljóssins.