Opin samskipti

Opin samskipti

Við lifum á tímum þar sem krafist er opinna samskipta. Þar sem ólíkar upplifanir á veruleikanum og atburðarás krefst meiri færni en áður í samskiptum. Það er góð þróun. Við þekkjum öll sem vinnum með fólki í kreppu hvernig því finnst að veruleikinn sé oft annar hjá fólki í kringum það, þó sömu tilfinningar séu á ferðinni hjá öllum aðilum.
fullname - andlitsmynd Vigfús Bjarni Albertsson
28. september 2010

Við lifum á tímum þar sem krafist er opinna samskipta. Þar sem ólíkar upplifanir á veruleikanum og atburðarás krefst meiri færni en áður í samskiptum. Það er góð þróun. Við þekkjum öll sem vinnum með fólki í kreppu hvernig því finnst að veruleikinn sé oft annar hjá fólki í kringum það, þó sömu tilfinningar séu á ferðinni hjá öllum aðilum. Í slíkri stöðu getur þurft að hjálpa fólki að hætta að bera saman birtingarmyndir á upplifunum, ólík hegðun er ekki endilega önnur líðan.

Kristur var stöðugt að hjálpa fólki að skoða eigin líðan með því að bjóða því að vitna um hið sammannlega í lífi okkar. Hann notaði ekki þá aðferð að láta fólk skilgreina sig öðruvísi en annað fólk. Hann vildi að við vissum hvaðan við vorum að koma og hvert ferð okkar var heitið.

Samskiptagerðir hafa verið umfjöllunarefni lengi. Þegar kreppir að hjá okkur getur verið hætta á því að við grípum til aðferða bæði í orðræðu og með líkamlegri tjáningu sem snúast um það að reyna ná stjórn. Það er dapurlegt þegar slík orðræða þróast upp í það að reyna ná sigri. Við þekkjum hvernig það gerist í fjölskyldu þar sem opin samskipti eru ekki í boði, að fólki er skipt upp í hópa, yfirleitt er aldrei talað um raunverulega vandamálið, miklu fremur er fólki skipt upp í hópa, hvíta og svarta sauði, sumir sauðir jafnvel brottrækir. Oft er líka bent út fyrir fjölskylduna, á aðila sem eru ógn. Það er auðveldara að tala um þá en vandamálið heima fyrir. Þessir ytri aðilar eru þá yfirleitt gerðir miklu stærri en þeir í raun eru.

Eric Berne hefur lagt stund á Transactional Analysis. Þar sem hann skoðar samskiptagerðir okkar. Það sem einkennir orðræðu sem er lokuð eru setningar eins og:

Alltaf/aldrei/gerðu/farðu/hættu…” “Átt/ættir/gleymdu ekki…” “Skiptu þér ekki af…” “Gleymdu þessu bara…” “Hugsaðu ekki um það…” “Ég skal…” “Þú skalt ekki vera reiður/dapur/hræddur…” “Þetta lagast….þetta verður allt í lagi…” “Hættu að spyrja…” “Þú ert góður/duglegur/óþekkur…” “Ef ég væri í þínum sporum þá…” “Þú skalt gera…” “Heyrðu vinur nú skal ég….segja þér…” “Hvað sagði ég ekki…”

Einkennandi í orðræðu sem þessari er viðhorfið “ég veit hvað þér er fyrir bestu” – “ég legg línurnar um hvað má og hvað má ekki.” Viðkomandi hefur þar með sett sig í foreldrahlutverk í samskiptum þar sem viðmælandi er þá barnið hans. Viðkomandi ber mikla ábyrgð og verður að hafa stöðuga yfirsýn m.a. til að geta stjórnað, verndað, haft vit fyrir öðrum og séð hvað þeim er fyrir bestu. Líkamstjáningin verður á sama hátt stíf, hrukkar ennið, ekki í augnhæð, stíft augnaráð. Sá sem iðkar opin samskipti vegur og metur hvað er gagnlegt. Viðkomandi er rólegur og yfirvegaður. Hann/hún ber eðlilega ábyrgð – treystir sér að deila ábyrgð og verkefnum. Viðkomandi treystir öðrum til að hafa vit fyrir sjálfum sér.

Allar spurningar sem hefjast á hv..”hver/hvað/hvernig/hvenær..” “Ég hugsa…” “Ég tel… “ Hvað telur þú…” “Ef til vill…” Gæti þetta verið möguleiki…” “Hvað gæti verið gagnlegt nú…” “Mögulega væri gagnlegt…” Hefur verið reynt að…” “Út frá mínum skilningi…”

það sem er svo mikilvægt og þá sérstaklega fyrir okkur sem erum hjálparstéttir, að aðferðin bendir til þess að við vitum nokkuð vel fyrir hvað við stöndum og hvað ekki. Það er ekkert að óttast við opin samskipt, ekki okkur sjálf.