Kampavín og gamla Ísland

Kampavín og gamla Ísland

Ég reikna með því að þú, sem þetta lest, getir sagt svipaðar sögur af foreldrum þínum, að lífsaðstæður ömmu þinnar og afa hafi verið álíka og minna. Að í fjölskyldu þinni lifi sögur, sumar harmþrungnar sem segja frá því hvernig fátækt og skortur var meginregla en ekki undantekning hjá þjóðinni. Hvernig aðeins sparsemi, nýtni og dugnaður gerði fólki kleift að lifa af.
fullname - andlitsmynd Elínborg Sturludóttir
30. janúar 2009

Fyrir rúmu ári voru fjörutíu ár liðin síðan foreldrar mínir gengu barnungir í hjónaband. Við börnin og tengdabörnin söfnuðumst saman af því tilefni og gerðum okkur glaðan dag. Við hjónin komum með rosalega dýrt kampavín í veisluna sem okkur hafði áskotnast nokkru fyrr þegar brúðhjón ein vildu sýna okkur þakklætisvott. Þetta kampavín þótti það allra flottasta í brúðkaupsveislunum árið 2007. Okkur fannst óneitanlega nokkuð til koma að geta boðið upp á þennan fína drykk af þessu tilefni.

Foreldrar mínir rifjuðu það upp meðan við dreyptum á víninu að þjóðin hefði ekki verið búin að kynnast svo fínum veigum þegar þau gengu í hjónaband fjörutíu árum áður. Móðir mín var 18 ára og faðir minn var 21.

Brúðkaupsveislan þeirra var haldin á heimili ömmu og afa í Ólafsvík og það var Londonlamb í matinn. Það hafði aldrei áður verið eldað Londonlamb í Ólafsvík! Í veislunni var nánasta fjölskylda og það var drukkið gos með Londonlambinu.

Það eru til myndir úr veislunni og við skoðuðum þær í brúðkaupsafmælinu. Pabbi varpaði slædsmyndunum upp á vegg í stofunni. Frænkur á peysufötum og frændur í sparifötum sem þeir höfðu örugglega átt í tuttugu ár. Konurnar ýmist með túberað hár eða langar fléttur sem mynduðu lykkju undir upphlutshúfunni. Allt eftir því hvort þær voru fæddar fyrir eða eftir aldamót. Ljósmyndirnar eru mikil heimild um aldarfar. Yfir sófanum í stofunni var málverk af Snæfellsjökli. „Nei sko, þarna eru rosalega flottir stólar. Fást þeir ekki í Epal núna?“ „Jú einmitt- og kosta skvilljón!“ En fólkið á myndunum veit ekki að þetta er rosalega flott hönnun eftir Danann, Hans J. Wegner. Afi keypti þá af því að hann hafði smekk fyrir fögru handverki, enda sjálfur smiður.

Fólkið á myndunum var ánægt. Ánægt að vera í mjög fínni brúðkaupsveislu. Ánægt að hittast, syngja og gleðjast yfir framtíð hjónanna ungu. Sjálft hafði það örugglega ekki gift sig með mikilli viðhöfn. Móðuramma og afi höfðu verið gefin saman í stofunni á Hjarðarfelli. Kannski hefur langamma bakað jólaköku og borið fram rjómapönnukökur með kaffinu handa frændfólkinu sem kom af næstu bæjum til að samgleðjast þennan eftirmiðdag sem jafnframt var 25 ára afmælisdagur afa.

Þegar afi og amma giftu sig sumarið 1942 var ekki rafmagn í húsinu sem þau bjuggu í og húsið var hitað upp með mó. Afi minn og amma unnu hörðum höndum alla ævi. Sumir myndu jafnvel kalla líf þeirra strit. Þau þekktu skort og fátækt af eigin raun. Þau fæddust í torfbæ og ólust upp í kreppunni. Þau höfðu mikla námshæfileika bæði tvö. Afi minn var bóndi og var einn vetur á héraðsskóla og annan vetur á bændaskólanum á Hvanneyri. Hugur hans stóð til frekara náms en vegna stríðsins hafði hann ekki tækifæri til að fara utan. Það varð því ekkert úr meiri skólagöngu. En hann var sjálfmenntaður og víðlesinn og mér fannst hann mjög vitur maður og hygginn.

Amma mín ólst upp við Laugarvatn. Móðir hennar sem fæddist í Stíflisdal í Þingvallasveit hafði verið send í fóstur til móðursystur sinnar í Laugardal. Þrátt fyrir að vera hjá náfrænku sinni þjáðist langamma mín af heimþrá alla sína barnsæsku. Hún gleymdi því aldrei að frænka hennar hafði fengið hana til að gefa stelpu úr Reykjavík, sem var gestkomandi á heimilinu, dúkkuna sína sem móðir hennar hafði gert handa henni. Dúkkan var eina leikfangið hennar. Þessi langamma mín lærði líka að skrifa í snjó af því það var ekki til pappír. Þegar ég var lítil, sagði amma mín mér sögur sem móðir hennar hafði sagt henni. Sögur af börnum í Árnessýslu sem voru ómagar og bjuggu við afar kröpp kjör og mikið harðræði.

Ein sagan er mér sérstaklega minnisstæð. Hún var af telpu sem var látin borða mýs því fólkið á bænum tímdi ekki að gefa henni að borða! Af hverju skyldi ég vera að rifja þetta upp núna og festa þetta á blað? Jú, ég reikna með því að þú, sem þetta lest, getir sagt svipaðar sögur af foreldrum þínum, að lífsaðstæður ömmu þinnar og afa hafi verið álíka og minna. Að í fjölskyldu þinni lifi sögur, sumar harmþrungnar sem segja frá því hvernig fátækt og skortur var meginregla en ekki undantekning hjá þjóðinni. Hvernig aðeins sparsemi, nýtni og dugnaður gerði fólki kleift að lifa af.

Amma mín fór alltaf í strætó og tímdi ekki að taka leigubíl. Ekki af því að hún ætti ekki fyrir leigubíl heldur vegna þess að henni þótti það eyðslusemi. Hún fór alltaf á útsölur og gerði góð kaup. Samt keypti hún aldrei neitt nema hana vantaði það eða ætlaði að gefa það öðrum. Um þessar mundir er mikið talað um „nýtt“ Ísland, endurmat lífsgilda og jafnvel „siðbót“. Stundum er sagt að þriðja kynslóð í fjölskyldu sem komist hefur í álnir sé kynslóðin sem sólundi verðmætunum sem fyrri kynslóðir lögði grunninn að. Við tilheyrum þriðju kynslóðinni!

Ef íslenska þjóðin ætlar að endurmeta lífsgildi sín, bæta siðferði sitt og skapa „nýtt Ísland“, væri ekki rétt að rifja upp sögu genginna kynslóða og reyna að læra af lífi þeirra? Ég held að það væri ekki úr vegi að reyna a.m.k. að tileinka sér hógværð þeirra, nægjusemi og djúpa virðingu fyrir landi og þjóð. Þar var á ferðinni fólk sem var sannarlega tilbúið til að leggja mikið af mörkum til að byggja upp „nýtt Ísland“ sem það eygði 17. júní 1944. Þetta fólk bragðaði aldrei kampavínið sem var boðið upp á í brúðkaupunum 2007 og það hefði heldur aldrei kastað grjóti í Alþingi Íslendinga!