Ertu að drepast úr stressi?

Ertu að drepast úr stressi?

Hlutir geta orðið byrði á margvíslega vegu. Máttur auglýsinganna er mjög mikill. Þær geta fengið okkur til þess að borða sérstaka korntegund á morgnana jafnvel þótt það bragðist eins og ofeldað gamalt dagblað!

Hvað stendur sambandi okkar við Guð fyrir þrifum?  Til þess að leitast við að svara þessari spurningu þá langar mig til þess að byrja á því að deila með ykkur þessari sögu. Eggert var á gangi eftir þverhníptri hamrabrún dag einn en gætti sín ekki, heldur fór of nálægt brúninni og féll fram af henni. Í fallinu náði hann að grípa í grein sem stóð út úr hamraveggnum og hélt í hana dauðataki. Honum varð litið niður og sá sér til mikillar skelfingar að nokkur hundruð metra fall var niður á gilbotninn. Hann gerði sér grein fyrir því að hann gæti ekki hangið í greininni mikið lengur og ekki gat hann klifrað aftur upp á hamrabrúnina. Í örvæntingu sinni tók Eggert því að hrópa á hjálp og vonaði að einhver heyrði í honum. „Hjálp! Hjálp! Er einhver þarna uppi? Hjálp!“ Hann hrópaði tímunum saman á hjálp en enginn heyrði til hans. Hann var að því kominn að gefast upp þegar hann heyrði rödd.

„Eggert. Eggert. Heyrirðu í mér?“ „Já, já! Ég heyri. Ég er hérna niðri!“ „Ég sé þig Eggert. Er allt í lagi með þig?“ „Já, en... hver ertu og hvar ertu?“ „Ég er Drottinn. Ég er allsstaðar.“ „Drottinn? Meinarðu GUÐ?“ „Einmitt.“ „Guð, hjálpaðu mér! Ég lofa að hætta að syndga, ef þú bara bjargar mér héðan. Ég skal verða svakalega góður maður. Ég skal þjóna þér það sem ég á eftir ólifað.“ „Farðu varlega í loforðin Eggert minn. Við skulum fyrst bjarga þér og svo skulum við tala saman. Nú ætla ég að segja þér hvað þú átt að gera. Hlustaðu vandlega.“ „Ég skal gera hvað sem er Drottinn.  Segðu mér bara hvað ég á að gera.“ „Slepptu greininni.“ „Ha!“

„Ég sagði slepptu greininni. Treystu mér. Slepptu henni.“ Það var löng þögn. Loks kallaði Eggert, „Hjálp! Hjálp! Er einhver annar þarna uppi?“  

Hefur þér einhvern tíma liðið eins og Eggerti? Við segjumst vilja heyra Guðs vilja en höndlum hann svo ekki þegar á hólminn er komið. Vilji Guðs virðist stundum vera erfiður og jafnvel ógnvænlegur. Þess vegna ákveðum við að leita annað eftir hjálp. Stór hluti af því að vera kristinn er að treysta Guði því hann veit hvað okkur er fyrir bestu.  

Jesús talar um ok í guðspjalli þessa næst síðasta sunnudags kirkjuársins. Ok er klafi eða helsi.Það sem erfitt er að bera og losna undan. Við getum notað orðið byrði sem kemst næst málnotkun okkar í dag. Í þessu ljósi vaknar orðið frelsari í hugskoti mínu. Kristur er frelsari mannanna. Hann tók á sig þann klafa sem mannkyn gat ekki borið öllu lengur.

Allir vita hvað byrði er. Þegar ég ferðaðist um Kenía forðum þá sá ég alls staðar fólk sem gekk með vegunum. Það bar sinn mat, vatn, hríslur og eigur sínar og fór sína leið. Ég spurði mig stundum að því hvert allt þetta fólk væri að fara á þessum tíma?

Jesús sakaði prestana og faríseana og fræðimennina og “kirkju” síns tíma um að setja óþarfa byrðar á fólk sem höfðu kúgandi áhrif á það. Þessi klafi birtist ekki síst í regluverki gyðingdómsins. Þar sem gyðingur mátti t.d. ekki banda flugu í burtu sem lenti á nefi hans eða höfði á hvíldardegi.Hann varð að bíða þar til flugan færi sína leið. Þetta reglugerðarverk kom einnig í veg fyrir að Jesús mætti lækna lamaðan mann á hvíldardegi. Jesús sagði: Hendið þessari byrði, hún er ekki góð. Takið á ykkur mína byrði sem er kærleikurinn.

Jesús sakaði pólitíska valdamenn síns tíma um að setja hlýðnisbyrðar á fólk. “Þið vitið, sagði Jesús, að þið þjáist öll, þjónar nýlenduherranna sem krefjast þess að vera herrar ykkar. Kastið þessari byrði burt því að enginn ætti að vera íþyngjandi herra ykkar á meðal. Þess í stað eigið þið að vera hvers annars þjónar í kærleika.

Jesús talaði ekki aðeins um það ok sem aðrir setja okkur á herðar. Hann talaði einnig um það ok og byrðar sem við setjum sjálf á okkar herðar sem hafa íþyngjandi áhrif á þreytta líkama okkar og sálir.

Þegar ríki ungi maðurinn kom til Jesú og steig niður úr gljáfægðum hestvagni sínum þá spurði hann Jesú: “Hvað á ég að gera?”  Þá sagði Jesús honum að fjarlægja byrði ríkidæmisins, selja eigur sínar og taka upp annað líferni því að sín byrði væri létt í samanburði við þá byrði sem hann þyrfti að bera.

Við berum svo margar ónauðsynlegar byrðar. Við höldum að við þurfum að aka um á gljáfægðum nýjum bifreiðum því að allir aðrir geri það. Við höldum að við þurfum að skipta tölvubúnaðinum út á þriggja ára fresti og hafa aðgang að háhraða nettengingu til þess að missa ekki af neinu. Þegar við vorum lítil þá langaði okkur í armbandsúr áður en við lærðum að nota það og telja tímann. Ég man það sjálfur á eigin skinni.

Eitt sinn bað drengur að nafni Samson um að sér yrði gefið armbandsúr. Hann nauðaði frá morgni til kvölds. Að lokum fékk hann ósk sína uppfyllta. Hann setti það á úlnliðinn ákaflega stoltur og sýndi það öllum. En þegar hann gekk með það eftir götunni þá kom stór strákur og reyndi að stela því af honum. Samson hljóp frá honum og af því að hann þorði ekki að ganga um göturnar framar þá ákvað hann að vera heima. Samson fannst gaman að spila fótbolta en nú gat hann það ekki lengur vegna þess að óttaðist að úrið myndi brotna. Úrið var orðið að mikilli byrði.

Hlutir geta orðið byrði á margvíslega vegu.  Máttur auglýsinganna er mjög mikill. Þær geta fengið okkur til þess að borða sérstaka korntegund á morgnana jafnvel þótt það bragðist eins og ofeldað gamalt dagblað! Auglýsingar leggja þá byrði á konur að þær þurfi að kaupa háhælaða támjóa skó sem eru stórhættulegir fyrir ökklann og tærnar sem afmyndast. Auglýsingar fyrir börn á barnatíma sjóvarpsstöðvanna fá börnin til að nauða í foreldrum sínum að kaupa leikföng. Blessaðir foreldrarnir gefast upp fyrir nauðinu í börnunum og kaupa leikföng fyrir 70 milljónir í Toy´s a rus í opnunarvikunni í Reykjavík. Við eigum ekki að leggja þessar byrðar á börn sem auglýsingarnar eru. Fjarlægjum þær úr barnatímum sjónvarpsstöðvanna. Leyfum börnunum að vera börn en ekki ungir neytendur.

Það er ljóst að Íslendingar vinna mjög mikið í neyslukapphlaupinu sem aldrei virðist ætla að taka enda. Hér áður fyrr vann annar makinn úti en hinn hugsaði um heimilið og börnin. Nú vinna báðir makarnir úti með tilheyrandi vandamálum. Sumir vinna hluta úr degi. Aðrir vinna fram á rauðar nætur. Svo eru enn aðrir sem vinna svo mikið að þeir eru aldrei heima hjá sér. Börnin þekkja þá ekki feður sína og spyrja við morgunverðarborðið: “Hvaða maður er þetta?”

Stundum getur þrýstingurinn frá vinnunni, skólanum, heimalærdómnum, fjölskyldunni og vinunum verið svo mikill að við segjum: “Hingað og ekki lengra. Ég get ekki meir”. Þá þurfum við að umvefja okkur góðum vinum og treysta Jesú því að ella drepumst við úr stressi.

Jesús segir: “Losið ykkur við þessa trúarlegu, pólitísku, neytendalegu og hagfræðilegu byrði. Verið frjáls og fylgið mér. Verið ekki áhyggjufull um morgundaginn. Treystið mér og fylgið mér og eflið samfélagið við mig með því að biðja og iðja. Leitið inná við og hvílist reglulega í mér. Ella eigið þið á hættu að klafi áhyggju leggist á ykkur sem getur orsakað magasár, þið getið unnið ykkur út í horn og dáið. Hættið að leggja byrðar á líkama ykkar með því að borða og drekka ranga fæðu. Hættið að reykja og drekka áfengi. Hristið af ykkur þessar byrðar og takið upp heilsusamlegra líferni. Verið miskunnsöm gagnvart líkömum ykkar og sálum og þið munuð lifa nægtafullu lífi í sátt við Guð og menn.

Jesús segir, „Takið á yður mitt ok og lærið af mér...því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:29-30). Þetta þýðir að Guð er ekki að reyna að gera okkur erfitt fyrir. Hann er alltaf til staðar fyrir okkur. Þegar hann segir, „Slepptu takinu á þeim hlutum sem standa sambandi okkar fyrir þrifum og treystu mér einum.“ Þetta hljómar ekki mjög spennandi en þegar við sleppum takinu öðlumst við frelsi og öryggi í hendi Guðs. Þá finnum við jafnframt fyrir aukinni ábyrgðarkennd gagnvart börnum okkar og okkar nánustu vinum og vandamönnum og ekki síst fyrir okkur sjálfum.

Já, hvert erum við að fara og hverjar eru byrðarnar okkar? Erum við frjáls undan byrðum okkar eða virka þær líkt og helsi á okkur?

Jesús segir: Takið á ykkur mína byrði, takið þá byrði sem ég vil að þið berið, því að sú byrði er létt og auðveld”. Jesús talar um sitt ok og sína byrði og gefur þar með í skyn að það sé til annað ok og byrði sem við eigum ekki að bera því að hún sé mun erfiðari að bera. Þar er frelsarinn  að vísa til syndabyrðarinnar en eins og við höfum heyrt og trúum þá dó Kristur á krossinum fyrir syndir mannanna. Við erum því frjáls guðs börn en þetta frelsi er vandmeðfarið eins og við vitum mæta vel. Því fylgir sem sagt ábyrgð að vera kristin manneskja í þessum heimi. Ábyrgðin felst í því að missa ekki sjónar á því sem er heilbrigt og uppbyggilegt og tileinka okkur það í lífi og starfi gagnvart okkur sjálfum og samferðafólki okkar. Fyrirmyndin í þeim efnum er Jesús Kristur sjálfur, gullna reglan hans og tvöfalda kærleiksboðorðið. Nú þegar aðventan er á næsta leyti þá gefst okkur tækifæri til þess að leita inná við og hvílast í Guði.  Við skulum nota það og forðast að verða neyslukapphlaupinu að bráð.

Treystum Guði því að hann veit hvað okkur er fyrir bestu. Biðjum hann að losa okkur við alls kyns íþyngjandi klafa sem binda okkur við hluti þessa heims. Biðjum hann að losa okkur við öfundina í garð þeirra sem vegnar betur en okkur sjálfum. Biðjum hann að koma reglu á líf okkar þegar útgjöldin eru annars vegar. Biðjum hann að hjálpa okkur að standast freistingar og gylliboð. Biðjum hann að vernda börnin okkar svo að máttur auglýsinganna nái ekki til þeirra. Biðjum hann að hjálpa okkur að rækta gott hugarfar, að mæta þeim sem á vegi verða og því sem að höndum ber með hugarfar velvildar, hlýju og kærleika. Höfum ætíð í huga hið góða, fagra og fullkoma og framkvæmum það í trú, von og kærleika.

Setjum okkur það takmark að gleðja einhvern á hverjum degi í einn mánuð. Biðjum fyrir þeirri manneskju að morgni og þökkum Guði fyrir hana að kveldi. Amen.