Guð elskar þig eins og þú ert

Guð elskar þig eins og þú ert

Mín elskaða, Ég mun ekki áfellast þig vegna synda þinna; Ég fyrirgef þér núna; Ég mun ekki loka dyrunum á þig; sannarlega segi Ég þér að Ég get fyrirgefið milljón sinnum og stend fyrir framan þig með opinn faðminn og býð þér að koma til Mín og finna ástina sem Ég á til handa þér, leyfðu mér að vekja hjarta þitt; komdu og kynnstu Mér; komið, öll þið sem forðist Mig og óttist Mig; öll þið sem þekkið mig ekki; komið nær Mér og þið munið skilja að Ég er Guð Kærleikans, fullur af umhyggju og miskunn.

Þegar Guð kallaði mig til þjónustu við sig var ég algjörlega óundirbúin. Ég hafði ekki notið neinnar trúfræðslu, hvað þá guðfræðimenntunar, fór aldrei í kirkju, ekki einu sinni á jólum og páskum og kunni engar bænir nema Faðir vor sem ég hafði lært í skóla. Svo gerðist það árið 1985 þegar ég var búsett í Bangladesh vegna starfa eiginmanns míns fyrir Sameinuðu þjóðirnar að Guð ávarpaði mig á mjög sérstakan hátt. Fyrst var það engillinn minn – við eigum okkur öll engla – sem vitraðist mér og sagði við mig: „Guð elskar þig.“ Bara þetta sem segir svo óendanlega mikið.

Miskunn Guðs Ég varð mjög hissa þar sem ég lifði algjörlega veraldlegu og sjálfhverfu lífi, var í klúbbum, spilaði tennis og málaði. Með englinum gekk ég í gegn um gríðarlega erfitt þriggja vikna tímabil þar sem ég sá sjálfa mig með augum Guðs og fann sterka þörf fyrir að iðrast. Mér fannst ég vera fullkomlega óverðug þess að Guð nálgaðist mig og spurði hann: Hvers vegna valdir þú mig, sem veit ekki neitt um þig og kann ekki einu sinni að biðja? Svar Guðs var að einmitt þess vegna hefði hann valið mig, þegar í móðurkviði; ég væri ómálaður strigi sem biði þess að Guð málaði á mig mynd sína.

Svo sagði Guð mér að ég ætti að lesa í Biblíunni. Þá kom babb í bátinn því ég átti enga Biblíu og vissi ekki hvar ég ætti að fá hana þar sem ég bjó í múslimalandi. Guð benti mér á ameríska skólann og þar fann ég Biblíu. Þegar ég fór að lesa, það var í Sálmunum, skildi ég ekki eitt einasta orð. Það var eins og orðin væru á ókunnu tungumáli. Þannig sýndi Guð mér hvað ég átti eftir að læra mikið. Guð sagði mér einnig að biðja bæn Jesú, Faðir vor. Fyrst bað ég of hratt og ekki með nógu mikilli innlifun. Okkur hættir til að gera það, jafnvel að hugsa um eitthvað annað á meðan við þyljum bænarorðin. Guð var ekki ánægður fyrr en ég hafði beðið bænarinnar að minnsta kosti fimmtíu sinnum! Mér fannst eins og ég væri að bæta Guði upp öll þau skipti sem ég hafði ekki beðið til Hans, míns Himneska Föður.

En Guð er fljótur að fyrirgefa. Jafnvel áður en iðrunarbænin er komin fram á varir okkar, um leið og hún verður til í hjartanu, fyrirgefur Jesús. Og hann réttlætir okkur líka í eigin augum. Þannig sagði hann við mig að það væri ekki mín sök að ég hefði lifað veraldlegu lífi og hunsað Guð öll þessi ár. Enginn hafði kennt mér, enginn sagt mér frá.

Þannig var mér sýnd miskunn þó að ég hafi hagað mér heimskulega fram að þeim tíma að ég varð nothæft verkfæri Guðs. Drottinn Jesús Kristur ætlaði sér að sanna óþrjótandi þolinmæði sína og kærleika á mér á undursamlegan hátt, kærleika til allra annarra sem síðar myndu setja traust sitt á hann, traust til eilífs lífs. Já, og slást í för með Guði sem er eilífur konungur [Jer 10.10a].

Í upphafi, þegar Jesús var að móta mig, sagði hann við mig: „lækkaðu róminn enn meira svo að þú heyrir aðeins Mína rödd; hneigðu höfuð þitt þannig að Mitt höfuð sjáist; lægðu sjálfa þig svo að Ég geti lyft þér upp til Mín.“ 26.9.91

Ég þakka Kristi fyrir að gefa mér styrk og þrautsegju til að halda áfram að þjóna honum.

Eining kirkjunnar Fyrsta spurningin sem Jesús var upp við mig var: „Hvaða hús er mikilvægara, húsið þitt eða húsið Mitt?“ Svar mitt var: „Húsið Þitt, Drottinn,“ það er Kirkjan. Hann sagði: „endurlífgaðu húsið Mitt, fegraðu húsið Mitt, og sameinaðu húsið Mitt...“

Þannig beindist opinberun Guðs þegar í upphafi að málefni sem ekki bara varðar minn persónulega trúarþroska heldur á erindi við heiminn allan og Kirkju Krists sérstaklega. Aftur spurði ég Guð: „Hver er ég að flytja þennan boðskap áfram sem ekkert kann og veit um kristna trú?“ En með innri eyrum mínum heyrði ég skýrt og greinilega að einmitt ég ætti að fara og segja frá. Hér er dæmi um nýleg skilaboð sem sýna hvað þetta er mikilvægt:

„til þess að þið getið sameinast kringum eitt altari og átt saman hlutdeild í líkama Mínum verðið þið að læra að elska, því að þið vitið öll að einn er líkaminn og einn andinn, einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og Faðir allra, sem er yfir öllum með öllum og í öllum [Ef 4.4-6] – og þið hryggið anda Minn með því að halda áfram að vera dreifð og ófús að gefa hvert öðru hlutdeild í sakramentum Mínum og leyndardómi Heilagrar kvöldmáltíðar, vitandi þetta; (...) því hversu oft hef Ég ekki sagt að Ég sé einn Guð?“ 2.6.15

„Ég býð ykkur öllum í dag að biðja um einingu; til að eining geti orðið þurfið þið að elska hvert annað, forsenda einingar er að þið séuð auðmjúk og hlýðin.“ 8.1.91

En ástina vantar. Eining verður aðeins möguleg þegar kirkjurnar læra elska Jesú Krist heilum huga.

Að gefa Guði hjarta sitt

„hvorki fórnir né bænavökur, erfiðisvinna né hverskyns lofsamleg verk Mér til heiðurs gleðja Mig jafnt og sál sem kemur með hjarta sitt í hendi sinni og býður Mér það og gerir þannig ást sína á Mér kunna, jafnvel þó að það hljómi eins og hjal barnsins...“ 9.9.97
Þannig er það, því að Guð sér og les hjarta þitt og huga [Sálm 26.2]. Hann gleðst yfir einfaldleika, auðmýkt og barnslegri trú. Hann gleðst þegar við erum eins og börn því að, eins og hann sagði mér, börn leyfa honum að móta sig til þess sem hann vill að þau séu.

„Mitt ríki er gefið fátækum í anda og þeim sem hrópa: „Guð, miskunna þú mér, syndaranum.“ Mitt ríki er aðeins gefið börnum og lítillátum, þeim sem kunna að hrópa: „Abba!“ [Róm 8.15b-16] 19.6.95
„sá sem finnur Mig finnur lífið [Orðskv 8.35], sæll er sá maður sem finnur Mig [Préd 7.27] og lærir að þekkja Mig; nú hef Ég gefið þér brauð lífsins til þess að á þeim degi sem þú stendur frammi fyrir hásæti Mínu getir þú komið með hendur þínar fullar af góðum ávöxtum og fært Okkur fórn þína.“ 9.9.97

Fráfall Á hinn bóginn, ef fráfallið kemur yfir þau sem eru trúuð er ein ástæðan að margir reyna linnulaust að skilgreina Guð fræðilega, einhver staðar ofar öllu, aðrir hafa gert úr honum kaldranalegan guð; sumir hafa gert Guð að múmíu á safni á meðan aðrir sjá hann sem prentað og líflaust orð sem þeir lesa eftir að hafa snúið Heilagri ritningu í sagnfræðirit. Á sama tíma hafa þeir gleymt að Guð og Orð hans er lifandi og kröftugt [[Heb 4.12] og starfar án afláts [Jóh 5.17].

„þetta Orð sem er lifandi, hvernig dettur mönnum í hug að þeir geti jarðað Orð Mitt? TRÚIN hefur verið afbökuð þannig að hún líti út eins og ískyggileg örkumla skepna, þannig láta menn hana líta út, allt það sem er guðlegt og lifandi í dag hefur verið afbakað á þennan hátt til að láta þig flýja það, óttast það; hvers vegna viltu að Guð þinn sé þögull og dauður? Ég er lifandi og lifandi mun Ég starfa.“ 4.5.88

Frá því að við vorum sköpuð hefur Guð allsherjar sýnt okkur Óendanlega Ást sína og miskunn. En maðurinn hefur aldrei látið af að búa til heim án Guðs, hunsa Guð. Heimurinn er blindaður af framförum tækni og vísinda og varð sjálfum sér nógur, tók sér sæti Guðs, hunsaði hann og henti honum frá sér. Eitt sinn, í byrjun, sagði Faðirinn með hryggð: „Vandlát ert þú orðin, kynslóð.“

Siðferðisvitun og reisn mannsins er glötuð. Drottinn Jesús lítur á hjörtun með hryggð. Hver verða viðbrögð hans við þessu? Viðbrögð hans eru að hann heldur áfram að leita að hjörtum okkar til að frelsa okkar vegna þess mikla kærleika sem hann ber til okkar.

Nánd „Elskar þú Mig?“ spurði Guð mig eitt sinn. „Elskaðu Mig meira...en til þess að læra að elska Mig máttu ekki halda áfram að vera fjarri Mér, komdu nær Mér, hlauptu eins og barn til föður síns og talaðu við Mig frá hjarta þínu.“

Guð vill að við verðum náin honum en á sama tíma megum við ekki gleyma að hann er heilagur. Í dag, á síðustu tímum, stígur Guð niður til að minna okkur á grundvöll okkar og hver uppruni okkar er og hverjum við tilheyrum.

Guð minnir okkur á við tilheyrum honum, konungi konunganna [Dan 2.47, 1Tím 6.15], og við, við eigum uppruna okkar í konunglegri hátign [1Pét 2.9, Post 17.29] og einn daginn, segir Guð, munum við ganga í konunglegum forgörðum himna [Sálm 84.3, 96.8, 100.4] með englum Hans. Þess vegna kallar Guð okkur til að minna okkur á hverjum við tilheyrum og býður okkur öllum inn í ríki sitt.

Þrenningin

„gerðu heiminum kunnugt um Okkur og minntu þau á að Orð Guðs er lifandi og virkt; boðaðu Upprisinn Krist, sem er æðstur á alla vegu og yfir öllu, og að Hann mun koma á ykkar dögum til að minna ykkur á Vonina og Fyrirheitið; boðaðu upprisinn Krist sem er nálægur á öllum tímum og er meðal ykkar en líka innra með ykkur; upprisinn Krist, sem er ríkur af náð og verður meira en veldissprotar og hásæti, og að í Guðdómi Hans er að finna vald sem er einstakt að hreinleika og óflekkað, almáttugt og kærleiksríkt gagnvart manninum; leiðbeindu þeim um leyndardómana sem er að finna í Mér en hvernig Ég opinbera þá til þeirra sem eru fátæk í anda og þeirra sem nálgast Mig með hreinleika hjartans; allt sem Ég vil opinbera mun verða opinberað fyrir Minn Heilaga Anda og þá munu þau þekkja Okkur sem Þríhelgan Guð í Heilögum Anda.“ 9.9.97
Blíðlyndi Föðurins
„segðu þeim að Ég sé Blíðasti Faðir; segðu þeim; segðu þeim hvernig Ég legg Mig fram við að ná til þeirra, núna; Kærleikur og Trúfesti stíga niður til að umfaðma ykkur öll, til að endurnýja ykkur, endurlífga ykkur, og lyfta ykkur upp úr sinnuleysinu sem þekur þessa jörð;

segið ekki að Ég sé of fjarlægur til að nálgast, ósnortinn af eymd ykkar og ómóttækilegur fyrir hrópum ykkar (...) Ég er reiðubúinn að fyrirgefa ykkur fyrir Blóðið sem Sonur Minn úthellti og fyrir Fórn Hans, ef þið leyfið Orðum Mínum að ná til hjartans; Ég sem skapaði ykkur í kærleika spyr ykkur: mun Ég heyra iðrunarhróp ykkar? ...“ 7.12.92

En þrátt fyrir brýnt kall miskunnar Guðs sem býður manninum að snúa aftur til sín, heldur heimurinn í sinnuleysi sínu og tómlæti áfram að ganga fram í eigin mætti og hunsa Guð. Sumir eru jafnvel hræddir við að nálgast Guð. Drottinn hrópar til allra að iðrast:

„Hver sá sem hefur gert rangt, komdu! Komdu og auðmýktu þig og iðrast, svo að Augu Mín megi gleðjast yfir þér; hver sá sem ekki lifir helguðu lífi, komdu! Komdu til mín og iðrast! Ég mun gefa þér nýtt hjarta [Esk 18.31, 36.26]; hver sem enn er bundinn heiminum, hrópaðu til Mín og biddu Mig um að losa hlekki þína!“ 4.8.96

Samt hunsar fólk þessi hróp Drottins okkar með vantrú. Drottinn er sannarlega reiðubúinn að hjálpa okkur. En maðurinn er í dýpst í sjálfum sér óhamingjusöm vera sem leitast við að fylla sjálfan sig með sífellt fleiri efnislegum hlutum en sama hve mikið hann fyllir sig með veraldlegum hlutum fyllir hann sjálfan sig tilgangsleysi, tómleika á meðan sál hans skrælnar hægt og hægt.

Jesús sagði: “þú verður að lifa einlægu, sönnu lífi í Guði; láttu sérhverja hugsun þína snúast um himneska hluti; kenndu öðrum að hugsa um Guð, að tala um Guð og að þrá Guð, þá munu þau komast að raun um að Guð er Líf, Gleði og Himneskur Friður.“ 18.8.94

Eitt sinn gaf Faðirinn þennan boðskap: „Án Mín er borð þitt tómt en með Mér er borð þitt fullt.“

Og Jesús sagði: „Án Mín munt þú lifa eins og heimurinn; með Mér munt þú lifa eins og á Himnum, án Mín verða eiginleikar þínir heimsins en með Mér verða eðlisþættir þínir Mínir; vertu í Mér, vertu rótföst [Ef 3.17, Kól 2.7] í Mér, settu mig í fyrsta sæti og gefðu mér tíma þinn.“ 30.5.95

Iðrun og fyrirgefning Í boðskapnum frá Kristi kemur oft fram ákall til þessarar kynslóðar um að iðrast. Iðrun, segir Drottinn, er að afneita syndinni; að sættast við Guð eftir tímabil uppreisnar og misgjörða; iðrun er hliðið sem leiðir sálina frá myrkri til ljóss, segir Drottinn.

Því einlægari iðrun, því meiri er vinátta Guðs. Og í einum skilaboðum segir Drottinn að hvert orð sem við segjum við hann í trúnaðartrausti dregur vináttu hans nær okkur því að vinátta hans fylgir í kjölfarið í réttu hlutfalli við iðrunina. Þegar við erum einlæg og reiðubúin að iðrast mun Kristur sem er Óendanleg Ást fyrirgefa fyrirvaralaust.

Hér er einn boðskapur af mörgum sem fjallar um hve fljótur hann er að fyrirgefa og reiðubúinn að réttlæta okkur ef að við erum reiðubúin að iðrast:

„hvers vegna óttast þú að horfast í augu við Mig? Mín elskaða, Ég mun ekki áfellast þig vegna synda þinna; Ég fyrirgef þér núna; Ég mun ekki loka dyrunum á þig; sannarlega segi Ég þér að Ég get fyrirgefið milljón sinnum og stend fyrir framan þig með opinn faðminn og býð þér að koma til Mín og finna ástina sem Ég á til handa þér, leyfðu mér að vekja hjarta þitt; komdu og kynnstu Mér; komið, öll þið sem forðist Mig og óttist Mig; öll þið sem þekkið mig ekki; komið nær Mér og þið munið skilja að Ég er Guð Kærleikans, fullur af umhyggju og miskunn." 18.3.87

Eins og ég sagði áðan er Jesús mildur og góðviljaður og hann mun ávallt leitast við að réttlæta okkur, sama hversu vansæl og óverðug við erum; jafnvel þó að við eigum það ekki skilið mun Jesús alltaf leitast við að gefa okkur annað tækifæri, hann sest niður með þeim sem síst eiga það skilið og þeim vansælu og minnir þau á hvaðan þau koma í einfaldleik, auðmýkt og ást og hann mun kenna þeim og upplýsa hjörtu þeirra og gefa þeim von. Hér eru orð hans um þetta efni:

„nei, Ég mun ekki vanrækja neinn; Ég mun sitja með þeim sem finna til undan byrði sinni [þau vansælu, fyrirlitlegu] og þau munu ekki vera hrædd við Mig; Ég mun verða vinur þeirra, berfættur, og segja þeim að allt frá upphafi hafi þau ekki verið föðurlaus og ef þau hafi aldrei skilið lögmál himnanna sé það vegna þess að enginn var til staðar til að segja þeim frá; enginn sagði þeim heldur að þau eru niðjar hins Almáttuga; þá mun Ég safna þeim í kring um Mig eins og lömbum, þétt við Hjarta Mitt og Ég mun næra þau frá Vörum Mínum, líkt og ég væri að hvísla leyndarmáli: FAÐIR VOR; þá mun Ég segja þeim að KÆRLEIKUR er fyrir augum þeirra; Brauðið Lifandi er einmitt Sá sem situr meðal þeirra, Sá sem lifði og dó fyrir þau er að tala við þau núna; Sá sem upplýsti Himnana með Anda sínum og allir hlutir urðu til fyrir Hann [Róm 11.36] er einmitt þarna beint fyrir framan þau; Ég mun rétta út hönd mína til allra sem ganga fram hjá: „hver er fyrirlitinn og lítilsvirtur af samfélagi ykkar? komi hann hingað þessa leið;“ Ég mun ekki láta neina hungraða, neina fátæka fram hjá mér fara, því að Blessanir Mínar eru auðugar [Orðskv 10.22] og Ást Mín fullnægjandi; Mínir vegir eru yndislegir vegir og allar götur Mínar leiða til eilífs Lífs [Orðskv 3.17].“ 11.10.93

Að elska Drottinn segir að á dómsdegi munum við öll verða dæmd eftir mæli kærleikans sem við höfðum hér á jörðu. Að elska er að gera vilja Guðs.

„segðu þeim og komdu þeim í skilning um að kærleikur er vegurinn til himins; kærleikur sigrar hjörtu og stækkar Ríki Mitt; kærleikur er lykilinn að því að binda endi á þetta fráfall; kærleikur er gefinn ykkur fúslega; biðjið um gjöf kærleikans og Ég mun gefa ykkur hann; Kærleiksstef Mitt gef Ég öllum þjóðum og þeim sem vilja heyra munu heyra;

(Jesús) Komið aftur til Mín af öllu hjarta og látið bænir ykkar ná Mér [2Kron 30.27] því að það er ekki sá sem segir við Mig: Drottinn, Drottinn! sem mun ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja Föður Míns sem er á Himnum [Matt 7.21]. Talið því með Kærleika og Ég mun heyra! gefið með kærleika og Ég mun þekkja ykkur; biðjið með kærleika og dyr ríkis míns munu ljúkast upp fyrir ykkur til að taka á móti ykkur! [ Matt 7.7-8] starfið í kærleika [Míka 6.8, 1Jóh 3.8] svo að Ég geti sagt við ykkur dag einn: „Þið eruð Mín [Jes 43.1], þið eruð niðjar Mínir, komið til Föður ykkar!“ 12.5.90

Heilagur andi Það er fyrir Heilagan anda sem við getum fengið gjöf Kærleikans og þekkt vilja Guðs. Drottinn segir að við verðum að deyja sjálfum okkur, deyja vilja okkar og iðrast og síðan getum við gefið Heilögum anda rúm í sálu okkar til að leggja okkur undir sig og gagntaka okkur og við verðum gagntekin af Heilögum anda og Heilagur andi mun fylla okkur gjöf kærleikans. En ef við iðrumst ekki, deyjum egóinu, eiginhagsmunum, og erum skuldug syndinni, þá mun Heilagur andi fælast frá okkur.

Glas fullt af stöðnuðu vatni tekur ekki við fersku vatni. Við verðum fyrst að losa okkur við fúla vatnið. Á sama hátt verðum við að tæma okkur af synd – iðrast með Guðs hjálp – til að Guð geti fyllt okkur af anda sínum.

Hér eru orð frá Guði um heilagan anda:

„Heilögum anda mínum má líkja við brúðguma sem birtist á ykkar tímum til að biðla til ykkar, laða ykkur til sín og ganga að eiga ykkur. Heilagur andi minn er lagður eins og dýrmætur hornsteinn í hjarta ykkar, til að vera hornsteinn trúar ykkar, vonar ykkar, kærleika ykkar og þrár ykkar til mín sem er Guð ykkar. Já, Heilagur andi minn er lífgefandi uppspretta: hann er innri kraftur ríkis míns og reisir upp lærisveina viskunnar.“ 23.12.93

„Komið nær mér og ég mun blása ykkur ódauðleika í brjóst [1Mós 2.7, Esek 37.9, Jóh 20.22], endurlífga sál ykkar að hún verði snortin af dýrð minni, sækist eftir henni og andi henni að sér til þess að þið tilheyrið ekki framar sjálfum ykkur heldur honum sem færir ykkur til einingar við einingu okkar [ Jóh 17.20-23]. Segðu ekki: „Á ég, syndarinn, að þora að sækjast eftir ljósinu sem enginn hefur aðgang að nema dýrlingarnir?“ Ef þú trúir því í alvöru að þú sért syndari, eins og þú segir, og óverðug gjafa minna, mun það sem er ómögulegt verða mögulegt. Ég mun tendra í þér bál án tafar sem gagntekur þig og brennir til grunna allt sem ekki er af mér. Síðan mun ég skipta út öllu því sem hindraði aðgengi mitt að þér fyrir Hann sem þú hélst að væri ómögulegt að nálgast. Hann mun vera ljós augna þinna, hvati veru þinnar, hreyfiafl hjarta þíns, tjáning orða þinna, hlátur þinn og gleði, konunglegt skart sálar þinnar, vörður anda þíns; Hann mun vera bróðir þinn, systir þín og þinn trúfasti vinur. Hann mun vera veisla þín, hlaðborð þitt, falinn fjársjóður, perlan, lofsöngur þinn til lofsöngsins, amen þitt við ameninu, fyrirheitna landið og grundvöllur allra dyggða sem Hann mun greypa sitt heilaga nafn á.“ 9.1.96

Stöðug bæn Þegar Guð sagði við mig að ég ætti að biðja án afláts [1Þess 5.17] hló ég bara og sagði: „Ég þarf nú líka að sinna fjölskyldunni, elda og fara í búðina, hvernig á ég að geta legið stanslaust á bæn?“ Þá gaf Guð mér skilning á því að stöðug bæn merkir ekki að vera á hnjánum allan sólarhringinn heldur að finna þessa þrá í hjarta sínu, þrá og löngun eftir nærveru Guðs.

Við erum öll kölluð til að biðja. Heilög Guðsmóðir biður okkur um að auka bænir okkar fyrir sinnaskiptum þessa heims.

Bæn sem kemur frá hjarta okkar, segir Drottinn, ber strauma trúnaðartrausts og hana heyrir Guð. Þegar við biðjum fyrir fólki sem við þekkjum ekki einu sinni jafngildir það því að þú úthellir þínu eigin blóði því að slík bæn líkist kærleika Krists sem var án nokkurra eiginhagsmuna. Þess vegna er mesta þjónusta sem þú getur veitt Guði að færa honum aftur eina sál.

„biðjið án afláts; Ég þekki þarfir þínar jafnvel betur en þú sjálf og jafnvel áður en þú biður Mig þekki Ég hjarta þitt; komdu fram fyrir mig í bæn í öllum aðstæðum, biddu um að bætt verði fyrir skort á bænum á þessari jörð; láttu bænir þínar vera alvæpni [Ef 6.11] þitt sem skýlir þér frá öllu því illa sem reikar um [Job 1.7, 2.2] í kring um þig, afvopnaðu illa andann með ást, lát kærleika vera vopn þitt, láttu frið vera ritaðan á enni [2Mós 28.36-38] þitt svo að allir geti séð það.“ 5.4.89

Að biðja án afláts er að vera í fullkominni einingu við Guð, það er að lifa ævarandi í Guði og að Guð lifir ævarandi í þér. Það er þegar þú þráir Guð, þig lengir og þyrstir eftir Guði allan daginn. Það er þegar sál þín er laus undan öllu sem heimurinn hefur að bjóða og hugur þinn, hjarta þitt og sál þín leita og þrá aðeins himneskan veruleika. Bæn án afláts er þögul bæn, hún er samtal hjarta við hjarta án orða eða orðræðu, um er að ræða er íhugandi bæn og á sama tíma að lifa æðsta boðorð Guðs [Matt 22.34-40].

Heilög Guðsmóðir sagði við mig: „Svörin við vandamálum þínum er að finna í stöðugri bæn [Kól 4.2]; láttu hana vera vopn þitt, biddu með hjarta þínu, talaðu við Guð á þennan hátt, Satan flýr í hvert sinn sem þú kallar á Guð með ást.“ 2.8.91

Uppgötvaðu Guð í þögn Guð þarfnast þess að við séum hljóð og auðmjúk og við þörfnumst þagnar til að mæta Guði, því við njótum nærveru Guðs í þögninni. Já, Guð kallar okkur með ákefð að finna hann að nýju í þögninni, eins og Jesús sagði við mig í byrjun:

„drekktu í þig Frið Minn og mettaðu hjarta þitt í þessari þögn, njóttu þessara náðarstunda [Sálm 69.14, 2Kor 6.2] og drekktu í þig sætleikann sem Drottinn þinn býður þér.” 2.11.97

Við verðum að læra að vera hljóð og taka okkur hvíld í Guði. Í þeirri þögn munum við eiga persónulegt stefnumót við Guð og sál okkar mun njóta gleði í návist Drottins [Sálm 37.4, Post 2.28] og við tjáum ást okkar til hans með aðdáun sem dætur og synir. Það er því ekki í gegn um stofnanir og stjórnsýslu sem Guð opinberar okkur sjálfan sig, en aðeins fyrir nálgun í þögn og íhugun sem hann opinberar Óendanlega Ást sína til okkar.

Að þekkja og skilja Guð Guð vill að við þekkjum hann og skiljum hann og finnum eða smökkum, brögðum á, sætleika hans [Sálm 34.9, 119.103]. Það er eitt að trúa á Guð og annað að þekkja Guð. Margir trúa á Guð en jafnvel illir andar trúa á Guð en elska hann ekki; Svo margir tala um Guð en aðeins mjög fáir þekkja hann og skilja hann.

„Þá spyrð þú: og hvað er að skilja Guð? Að skilja Mig er grundvallarregla Viskunnar; það er að viðurkenna Mig sem Guð þinn og óttast Mig... að óttast Mig er að forðast allt illt og einnig að sjá Mig með þínum andlegu augum á meðan þú ert enn á jörðinni. Það er grundvallaratriði fyrir ykkur öll að hafa fundið Mig [bragðað á Mér] á meðan þið eruð á jörðinni.“ 20.1.2001

Skortur á Guðsþekkingu er synd. Þegar við þekkjum Guð vitum við það vegna þess að það verður umbreyting innra með okkur og það er engu líkara en að við lifum nú þegar á himnum þó við séum enn á jörðinni.

Hjá Jeremía spámanni segir (9.22-23):

Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig.

Drottinn segir um þetta efni í boðskap sínum til okkar:

„komdu og lærðu um merkingu þessara orða: „það sem ég vil er kærleikur, ekki fórnir; það sem ég vil er þekking á sjálfum Mér, ekki brennifórnir [Míka 6.6-8]; Ég mun ekki vera strangur við neinn ef Ég finn hjá þeim fúsleika; hefur þú ekki heyrt: „maður er tekinn gildur með því sem hann hefur fram að færa;“ þannig að þið sem lesið Mig og eru verk handa Minna, komið til Mín eins og þið eruð og Ég mun fullkomna ykkur í fullkomnum Kærleika mínum [Matt 5.48].“ 25.9.97

Ég mun gagntaka hjarta þitt svo að Ég geti fengið frá því sjaldgæfasta og fíngerðasta ilm sem hugsast getur; síðan mun Ég, til að gefa Heilagleika Mínum angan, eins og einhver væri með gullskál fulla af reykelsi í útréttum höndum, lyfta hjarta þínu upp og láta þessi sjaldgæfu ilmefni þyrlast yfir jörðina og dreifa sætum ilmi þínum allt í kring um Mig, Mér til gleði, og til að gleðja alla heilaga og englana á himnum; gleði Mín mun verða slík að henni verður helst líkt við brúðkaupsdans; munnur engla Minna mun verða fylltur hlátri og varir þeirra söng; og Ég mun, í fagnandi gleði, breyta hjarta þínu, sem ekkert ert, í gimstein, og smyrja þig, gimsteininn minn, og blessa þig með hendur Mínar hátt upp hafnar og hjarta þitt í þeim...“ 25.9.97

Við saman: Ég í þér og þú í mér Eitt af því allra mikilvægasta sem Guð hefur lagt mér á hjarta er eining sálarinnar við skapara sinn og frelsara. Þannig er Jesús Kristur í mér og ég í honum eins og grein á vínviðinum sem ekki getur lifað án þess að vera á stofninum [Jóh 15.1-10]. Guð er ekki bara með mér þegar ég sit við að skrifa boðskapinn sem ég heyri með mínum innri eyrum. Jesús fer með mér að sinna eldhúsverkunum. Hann er með okkur við matarborðið og situr við hlið mér í strætó. Og þannig talar hann til okkar allra: Elskaðu mig, elskaðu náunga þinn því ég elska þig – eins og þú ert.

Útdráttur úr prédikun Vassulu Rydén í Háteigskirkju 6. júní 2017 í endursögn og þýðingu Maríu Ágústsdóttur. Ritningarvers eru innskot þýðanda.