Kirkja kvödd

Kirkja kvödd

Þeir, sem endurheimta líf sitt úr dauðans háska, líta lífið eftir það eins og allt öðrum augum en áður. Þá verður margt, sem fyrrum batt huga, áhyggju og eftirtekt, harla lítils virði, og glöggt kemur í ljós hvað gerir lífið þess virði að lifa því.

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“

En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ Lk. 10.38-42

Guðs kirkja er byggð á bjargi/ en bjargið Jesús er. Með þessum hætti og í fylgjandi hendingum sálmsins, sem við vorum að syngja játar sr. Friðrik Friðriksson, æsku- og trúarleiðtoginn merki, sem þjónaði Hafnarfjarðarkirkju um tíma, trú sína á frelsarann og kirkju hans og tekur undir með liðnum og lifandi kynslóðum, sem mynda kirkju Krists. Hún er ekki byggð úr timbri eða steini heldur af holdi og blóði, þótt helgidómarnir sem sameiginlegt heimili og skjól safnaðanna mörgu séu líka nefndar kirkjur og hver með sínu sniði og svip eins og Hafnarfjarðarkirkja. Guðs kirkja sem fólk og söfnuður á leið með Jesú Kristi að Guðsríkinu öðlast nýtt líf af því vatni, orði og anda sem eru farvegir frelsandi áhrifa Guðs í Jesú nafni.

„ Ef við leitum Guðs af öllu hjarta og sálu finnum við hann, “segir í lexíunni úr Mósebók,- finnum við hann í Jesú Kristi, getum við bætt við, sem eigum aðgang að sáttmálanum nýja sem er vígður fórnarblóði hans og elsku. ,,Blessaði Jesús úr himninum háum,/hingað til mannanna líttu í náð. /Veit að þig tignað og tilbeðið fáum. /Tak oss að þér og blessa vort ráð “, segir sr. Árni Björnsson prófastur og fyrsti sóknarprestur þessarar kirkju í sálmi sínum fagra ,,Lífsorðið huggar.“ ( sunginn í messunni) Bæn hans á jafn vel við nú og fyrrum og líka þróttmikil prédikun hans í ársbyrjun 1922. Þar segir hann m.a: „ Það er talað mikið um bjargráð fyrir þjóð vora um þessar mundir. ..En hvað sem í þeim efnum gjörist, mun allt fánýtt reynast, ef hjörtu vor verða ekki snortin af brennandi löngun til að gjöra Guðs vilja í öllum greinum.“

Augljóst er af vitnisburði sr. Garðars Þorsteinssonar, sem söng sig inn í hjörtu Hafnfirðinga og tók við sóknar-prestsembættinu af sr. Árna, að hann hefur metið mikils forvera sinn. Í prédikun á tuttugu ára afmæli kirkjunnar 1934 segir sr. Garðar: ,, Vér minnumst þeirra manna , sem ötulegast gengu fram til stuðnings því, að þetta Guðshús yrði reist með þakklátum huga. - En sérstaklega verður oss að minnast sr. Árna prófasts Björnssonar, sem hér tók við störfum í hinni nývígðu kirkju og helgaði krafta sína í þágu þessa safnaðar til að boða konung lífsins. Og þakkir fyrir hvert það spor, sem hann gekk inn í heimili hinna sjúku og sorgmæddu, fyrir hvert hughreystandi bros og hvert vingjarnlegt orð, hverja huggun, er hann flutti nauðstöddum og einmana bræðrum og systrum. Slíkur maður lifir eftir þeirri hugsjón, sem hann boðar.”

Sr. Garðar fylgdi þeim sporum og fordæmi í langri prestsþjónustu sinni. Hann miðlaði ljósi Guðs og líkn á krepputíð, sem var að því leyti erfiðari en sú, sem við glímum við, að innri stoðir samfélagsins voru þá mun óburðugri en nú. Styrkri röddu boðaði hann trúarvon, frið og styrk Guðs á styrjaldarárum, þegar siglt var á háskaslóð og óvíst um afdrif, og þurfti iðulega að flytja döpur sorgartíðindi, og líka síðar, þegar úthafsalda og ísing drógu fiskiskip í djúpin köldu. Hann bjó augljóslega að innri styrk í raunum, sem byggðist á bjarginu trausta og gat því líka glætt gleðistundir hjartans fögnuði og blessun Guðs.

Þegar grafið var fyrir safnaðarheimili kirkjunnar og tónlistarskóla bæjarins þurfti grunnt að fara, því að rétt undir yfirborði er steinsylla, sem gengur fram af Hamrinum. Hún nær þó aðeins rétt út fyrir byggingarnar, því að sé lengra farið er komið á gljúpan sjávarbotn. Þeir sem reistu kirkjuna vissu, að hún hvíldi á traustum grunni í margs konar skilningi og það reyndu forverar mínir.

Ég hef lesið nokkrar prédikanir sr. Garðars. Þær bera vott um mikið trúartraust, innri styrk og hlýju. ,,Það er gömul og ný reynsla, segir hann í prédikun á þessum degi kirkjuárs fyrir 50 árum, að menn eiga oft undarlega erfitt með að gjöra sér grein fyrir samtíð sinni og helstu einkennum hennar. Það er sem nokkur tími þurfi að líða þar til að ljóst verður hvað einkenndi ákveðið tímabil í sögu mannkyns líkt og með listaverk, sem ekki verður skoðað í heildarmynd sinni nema úr ákveðinni fjarlægð.

Þegar ég nú horfi yfir þrjátíu og tveggja ára sóknarprestsþjónustu mína við Hafnarfjarðarkirkju, sé ég heildarmyndina enn ekki skýrt þótt frá mörgu geti greint. Mér þótti kirkjan voldug og yfirþyrmandi við fyrstu kynni enda Suðureyrarkirkja, sem ég fyrr hafði þjónað ólíkt minni. Viðamikil og kröfuhörð verkefni biðu mín, þegar ég 28 ára gamall kom til starfa hér í stórum söfnuði, er var um 5500 sálir. Ég hef reynt að nálgast þau í þeirri auðmýkt, er leitar lifanda Guðs og felur sig forsjá hans. Og á líkan veg sem skip og bátar hafa róið út héðan frá Firði og ýmist siglt í blíðum byr eða gegn stormi og stríðum öldum en samt aflað vel, hefur mér þótt sem vel hafi tekist að sækja afla í mannlífshafið í Drottins nafni og búa svo í haginn að enn betur takist til í framtíðinni.

Best hefur gengið, þegar þeir, sem réru með mér og ruddu nýjar brautir, tóku samtaka á með mér og auðsýndu mér einlægt trúnaðartraust og mikla hlýju. Því var sannarlega að heilsa, þegar ráðist var í byggingu glæsts safnaðarheimilis, sem tengdist tónlistarskóla bæjarins. Þá varð sú hugmynd að veruleika, sem ég hafði gert að umræðuefni við forystumenn í bæjarstjórn löngu áður að tengja þannig trú og list. Margs þurfti að gæta svo að vel færi, en mér var unun að því að fylgjast með verkunum dag frá degi og eiga dýrmæt samskipti við arkitekta, verktaka og verkmenn og sjá heimilið vaxa fram af kirkjunni sem fagra og gróskumikla grein og fá nafnið Strandberg, er valið var úr tillögum fermingarbarna.

Aukið og þróttmikið safnaðarstarf fylgdi heimilinu nýja. Fyrr hafði þó verið fitjað upp á margvíslegu starfi, sem tekist hafði vel þrátt fyrir bágborna aðstöðu. Strax frá komu minni var messað í kirkjunni alla helgidaga kirkjuársins, er nýmæli var að enda hafði forveri minn fleiri kirkjum að sinna auk prófastsstarfa sinna. Barnakór setti fljótlega fagran svip á helgihaldið auk söngs kirkjukórsins. Heimili okkar Þórhildar gegndi að vissu leyti hlutverki safnaðarheimilis fyrstu árin. Oft var þar margmenni einkum eftir jóla og föstuvökur og mánaðarlegar fjölskylduguðsþjónustur. Þórhildur liðsinnti mér við sunnudagaskóla, barna -og æskulýðsstarf og fermingarfræðslu og tók virkan þátt í starfi kvenfélagsins löngu áður en hún vígðist til prests við Hafnarfjarðarkirkju. Hún ávann sér mikið traust sem sálnahirðir og sóknarbörn hafa saknað þjónustu hennar. Dvergasteinn litla húsið, sem stóð austan megin við kirkjuna, iðaði oft af lífi og einnig vistarverur í Dvergi og síðar í sýslumannshúsinu gamla, þar sem safnaðarathvarf var áður en Strandberg var byggt. Biblíulestrar og fræðsluerindi um Guðfræði og siðfræðileg álitaefni fengu góðan hljómgrunn enda oft í umsjá kennara Guðfræðideildar Háskólans auk okkar prestanna.

Margs er að minnast og þakka frá liðinni tíð og leitar á huga. Ég sé fyrir mér messur og kyrrðarstundir, fólk sem sótti vel kirkju sína en hefur lokið ævigöngu sinni Guði falið. Ég sé fyrir mér skírnir, giftingar og útfarir, góð og gefandi samskipti við sóknarbörnin í blíðu og stríðu í ólgusjóum lífsins, þar sem orð Guðs var styrkur og leiðarljós. Ánægjulegt er að hafa getað fylgst með skírnarbörnum og fermingarbörnum vaxa úr grasi og láta vel að sér kveða sem fulltíða fólk, er fært hefur börn sín til skírnar í kirkjunni og sótt hana síðar með þeim sem fermingar-börnum. Ég sé fyrir mér fræðslustundir með fermingar-börnum og ferðalög í Skálholt og Vatnaskóg og einnig endurnýjandi messuheimsóknir eldri fermingarárganga kirkjunnar. Ég sé vísítasíur prófasta og biskups, sem heimsótti klaustur og álver, skóla og togara. Ég horfi til sóknarnefndarfunda. Mismunandi sjónarmið komu fram en góðri stefnu var fram haldið.

Ég sé fyrir mér samskipti við listamenn og stefnumót trúar og listar, er merki sjást um í Strandbergi í myndverkum, sem þar eru á veggjum. Ég sé fræðslustundir sem við sr. Þórhallur stóðum saman að og voru mér mikils virði. Ég minnist fjölsóttra kvöldguðsþjónusta og dægurlagamessa, þar sem bryddað var upp á nýjungum í tónlistarvali og messuformi.

Ég sé fyrir mér burtreiðar Riddara Strandbergs á reitum taflborðsins og Strandbergsskákmót Æsku og elli, og gefandi samskipti við æskulýðsfélagið, kvenfélag og kóra.

Ég lít í huga helgar hátíðarstundir á stórafmælum kirkjunnar, vígslu Stafns, kapellu Strandbergs, prestastefnu í enn ekki fullgerðum Hásölum, og blessun þeirra stuttu síðar. Ég minnist kristnihátíðar á Þingvöllum í glampandi sól og sumaryl, þar sem forystulið og sóknarbörn Hafnarfjarðarkirkju voru í breiðfylkingu íslenskrar kristni, sem neytti helgra sakramenta og endurnýjaði tryggðarböndin við Guð í Jesú nafni. Ég lít líka 150 ára afmælishátíð Krýsuvíkurkirkju og helgigöngur á Helgafell. Ég sé fyrir mér afhjúpun og blessun íslenska og þýska minnismerkisins við Háagranda um fyrstu lútersku kirkjuna á Íslandi.

Ég minnist veglegrar aldarminningar sr. Garðars og að sjálfsögðu endurbyggingar kirkjunnar að innverðu, gapandi grunnsins áður en nýtt gólf hennar var lagt, niðurtöku Walcker - orgelsins og uppsetningu Sauer -Scheffler orgelsins nýja, sem hefur enn fyllri rómantískan hljóm en það fyrra. Og ég horfi til þess með tilhlökkun að Barokk orgelið fyrirhugaða verði nú brátt komið í kirkjuna og auki enn hljómmagn hennar og fegurð.

Mikið þakkar -og fagnaðarefni er að hafa séð langþráðar óskir og hugsjónir verða að raunveruleika á vettvangi kirkjunnar. Þær hafa miðað að því að glæða trúarsamfélag hennar Guðs anda og eldi. Ég get um margt tekið undir orð postulans í pistli dagsins. „ Ég tel mig vera fullreyndan“, að minnsta kosti í prestsþjónustu og hef megnað að leysa þau verkefni, sem vandasömust hafa verið „ með hjálp hans sem styrkan gerir.“ Þótt ég hafi oft staðið í kór og á sviði í ýmsum skilningi, hefur persóna mín aldrei átt að vera í aðalhlutverki. Mestu varðar að trúarnæmi og Guðsvitund hafi glæðst, vegna vitnisburðar míns, svo að greina megi að frelsarinn krossfesti og upprisni sé nærri í orði og anda og á ferð í kirkju og söfnuði og vilji sækja hann heim.

,,Eitt er nausynlegt “, segir Jesús, án þess þó að tilgreina það sérstaklega, í heimsókn sinni til systranna Mörtu og Maríu, en Lasarus var bróðir þeirra. Í Jóhannesar-guðspjalli kemur fram, að þau áttu heima í Betaníu, er var skammt frá Jerúsalem. Þar segir líka að María var bersynduga konan, sem smurði Jesú með dýrum smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Orð frelsarans hreinsuðu hana af sálarkvöl og syndum svo að hún gat endurnærst af lífsins lindum. Hvorki amstur né áhyggjur mega hindra virkni og áhrif þeirra. Þótt vel fari á því að gera vel við gesti í mat og drykk, má það ekki vera á kostnað þess að hlýða á og reyna hvað þeir hafi að segja og gefa. Allra síst ef sá er kominn sem talar og er lífsins orð.

Marta sýnir síðar, að hún hefur líka höndlast af því orði. Hún fer út til móts við Jesú, þegar Lasarus er dáinn en María er þá eftir heima. Og Marta heyrir Jesú mæla orðin til sín, sem eru greipt í bríkina undir altaristöflu Hafnarfjarðarkirkju: ,, Ég er upprisan og lífið, Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyji.“ „Trúir þú þessu?,“ spyr hann og hún svarar: ,, Já, Drottinn, ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ Marta verður síðan ásamt Maríu og fleirum vitni að því undri, að Jesús kallar Lasarus aftur til lífsins.

Þeir, sem endurheimta líf sitt úr dauðans háska, líta lífið eftir það eins og allt öðrum augum en áður. Þá verður margt, sem fyrrum batt huga, áhyggju og eftirtekt, harla lítils virði, og glöggt kemur í ljós hvað gerir lífið þess virði að lifa því. Ást og kærleikur, heimilishlýja og vinabönd verða þá efst á blaði en ekki ytri auður í gylltri velsæld og verðbréfum.

Við efnahagshrunið er sem öll íslensk þjóð hafi orðið fyrir dauðareynslu, segir Joseph Stiglitz, nóbelsverð-launhafi í hagfræði, og sjái nú í gegnum hyllingarnar, sem hún ginntist af. Hún reynir hörmulegar afleiðingar af feigðaflaninu en greinir í rústunum raunveruleg þjóðarverðmæti sín og menningargildi sem hún verður að varðveita og nýta auðlindir og landsgæði til endurreisnar og sameiginlegra heilla. Páll Skúlason, fyrrum háskólarektor, tekur í sama streng og heldur því fram að samheldni og samkennd séu burðarásar í farsælu samfélagi fremur en samkeppni og átök eftir forskriftum gróðahyggju og óvæginna viðskipta.

Kristinni kirkju er ætlað að vera fyrirmynd farsæls samfélags þar sem umhyggja, hvatning og hlýja eru ekki aðeins á yfirborðinu en koma frá kærleiksríku hjarta, vegna þess að Jesús Kristur er þar á ferð. Í lífandi trú og fórnfúsri fylgd við hann bera menn hvers annars byrðar af gangkvæmri virðingu og samkennd og uppfylla þannig kærleikslögmál hans og byggja líf sitt á því bjargi, sem er lífsins Orðið hans. Það er hið eina nauðsynlega, og að hlýða á það Orð og höndlast af því er hlutskiptið góða, því að það skapar og viðheldur lífi í trú, von og elsku, sem varir og endurspeglar veru hans og mynd.

Fagurt helgihald í Hafnarfjarðarkirkju og hverjum kristnum helgidómi er skjól og var í lífsins ólgusjó og farvegur nándar hans og náðar í heilögum anda. Og hver fjölskylda, hús og heimili, sem tekur við Jesú Kristi, á ferð hans um heim og sögu, sem krossfestum og upprisnum Drottni og frelsara, með trú- og bænrækni dag frá degi, þiggur ljós hans, styrk og leiðsögn. Jesús Kristur léttir af mæðu, áhyggju og amstri og gerir lífsleiðina að ferð með sér að komanda ríki sínu. Guð gefi að mér hafi tekist líkt og forverum mínum að koma þeim boðskap og fagnaðarerindi vel til skila í þjónustu minni sem sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, og svo verði um þá sem á eftir koma.