Beckham í Betlehem

Beckham í Betlehem

Í annarri viku aðventu birtist kyndug frétt á sjónvarpsskjánum frá vaxmyndasafni Madame Tussaud í London. Á þeim bænum höfðu menn ákveðið að setja upp fæðingu Jesú í fjárhúsinu á nýstárlegan hátt. Starfsmenn safnsins höfðu fært vaxmyndir af fótboltakappanum David Beckham og konu hans Victoriu, sem áður söng með hinum þekktu "Kryddpíum" ellegar "Spice Girls" í hlutverk og búninga Jósefs og Maríu frá Nasaret.

Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði.Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím, en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast. Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.

Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins.Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: Rabbí, sá sem var hjá þér handan við Jórdan og þú barst vitni um, hann er að skíra, og allir koma til hans.

Jóhannes svaraði þeim: Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni. Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum. Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa, en ég að minnka.

Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans. En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður.Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann. Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum. Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum. Jh 3.22-36

I

Í annarri viku aðventu birtist kyndug frétt á sjónvarpsskjánum frá vaxmyndasafni Madame Tussaud í London. Á þeim bænum höfðu menn ákveðið að setja upp fæðingu Jesú í fjárhúsinu á nýstárlegan hátt. Starfsmenn safnsins höfðu fært vaxmyndir af fótboltakappanum David Beckham og konu hans Victoriu, sem áður söng með hinum þekktu "Kryddpíum" ellegar "Spice Girls" í hlutverk og búninga Jósefs og Maríu frá Nasaret. Og þarna stendur Jósef í fjárhúsinu miðju, aldrei ljóshærðari, íþróttamannslega vaxinn, með glæsilegan sixpakk og horfir haukfránum, karlmannlegum augum út í sal, meðan María hallar sér að brjósti hans með vandlega plokkaðar augabrýr og léttan roða í vöngum, grönn og spengileg í bláum silkikyrtli. Fleiri stórmenni nútímans hafa sótt Jesúbarnið heim í útfærslu Madame Tussaud. Þarna má sjá leikarana Samuel Jackson og Hugh Grant í hlutverki fjárhirðanna ásamt írska grínistanum Graham Norton. Vitringarnir þrír eru engir aðrir en Bandaríkjaforsetinn George Bush, forsætisráðherra Breta, Tony Blair og Filippus prins, hertogi af Edinborg. Yfir þessi stórmenni breiðir sig síðan ástralska diskódísin Kylie Minogue í engilsgervi og svífur í lausu lofti í flegnu dressi.yfir Beckhamhjónunum Jesúbarnið litla sker sig nokkuð úr þessum hóp, enda bara plastdúkka í jötunni, með engin sérstök einkenni nútíma stórstjarna.

Uppátæki safnsins hefur vakið misjafnar undirtektir og verið harðlega mótmælt af Vatíkaninu, jafnt sem ensku biskupakirkjunni og presbyterönsku kirkjunni. "Sjúklegt" segir einn talsmaður, "Smekklaust" segir annar. Í sjónvarpinu um daginn var viðtal við starfsmann vaxmyndasafnsins, sem sagði að þau hefðu viljað draga upp fyndna mynd af fjárhúsinu í Betlehem. "Og rétt eins og María og Jósef voru par síns tíma þá völdum við eitt helsta par okkar tíma," sagði konan. Hún benti einnig á að ekki hafi verið reynt að stæla Jesúbarnið.

Hvað höfum við að segja um uppsetningar á jólaboðskapnum eins og þá sem Madame Tussaud hefur reynt fyrir sér með? Hvar á að draga mörkin milli auglýsinga og helgiboðskapar? Hvar endar heimfærslan og skrumskælingin tekur við? Voru María og Jósef par síns tíma?

II

Eftir fimm daga koma jólin og undirbúningurinn er kominn á fullan skrið. Þeir eru margir sem er glatt í geði á þessari tíð, bægja burtu skammdegi og depurð með ljósunum, önnunum og siðunum. Aðrir eiga erfitt fyrir jólin og þykir umstangið, skrumið og lætin yfirgengileg. Við erum flest á síðustu dropunum, lítill tími, mikið að gera, lítið af peningum, mikið að kaupa, fá úrræði en margar freistingarnar. Það hefur vakið athygli mína á þessari aðventu hversu mikið auglýsingarnar skarta börnum í myndum og myndskeiðum um þessi jól. Annars vegar höfða auglýsingarnar meira til barna og unglinga en áður var. Gert er ráð fyrir því að börn hafi meira um fjármál og innkaup að segja en áður, börnin skoða tilboðsbæklingana sem kyngir inn um lúgurnar, fletta heimasíðum búðanna og sitja dagana langa í verslunarmiðstöðvunum líka. En auglýsingarnar sem ætlaðar eru fullorðna fólkinu eru líka fullar af myndum af börnum, börnum flæktum í uppljómaðar jólaseríur, börnum í englabúningum, hlæjandi, glöðum og uppábúnum börnum sem borða sælgæti og góðan mat og gleðja sig í glerfínum húsum með óaðfinnanlegum fjölskyldum sínum. Ef til vill eru auglýsingarnar að höfða til barnsins í okkur sjálfum. Þær kalla fram minningar af sakleysi, áhyggjuleysi og einfaldleika. Og ekki er ólíklegt að það sé einmitt vegna svipaðs táknmáls, sem jólahátíðin á svo ríkan sess í hjörtum hinna kristnu þjóða. Við biðjum um barn, barn í jötu, frið á jörðu, en ekki síður um frið í sálu, barnið í sjálfum okkur, gamlan hlátur, gamalt öryggi og gleði, sem oft týnist hjá fullorðnu fólki í amstri og sorgum hversdagsins. Þess vegna er það svo óendanlega sterkt að auglýsa glöð börn á aðventunni, þrefaldar tengingar um skyldur við börnin okkar sem við viljum að eigi skemmtileg jól blandast saman við sístæða þrá eftir barninu í sjálfum okkur, og þráin eftir velferð allra þessara barna renna saman við þrána eftir honum sem í jötunni lá forðum tíð í Betlehem. Barn er oss fætt segjum við, bítum á jaxlinn og látum renna visakortinu einu sinni enn í gegnum posann við afgreiðsluborðið.

En barnið fæðist ekki í búðunum. Og María og Jósef voru ekki par ársins í Betlehem. Þau voru fátæk og smá Enginn þekkti þau eða vildi hýsa þetta heimilislausa fólk. Barnið sem María bar undir belti og fæddi í fjárhúsinu bjó við aðrar og erfiðari aðstæður en börn Beckham hjónanna og börn á Íslandi velflest. Jesús varð flóttamaður nokkurra daga gamall Hann þekkti hag fátækra af eigin raun.

Barn er oss fætt á föstudaginn kemur, Ekki til að setja okkur á hausinn fjárhagslega, Heldur til að boða frelsi, fögnuð og frið Sem engin budda eða auglýsing fær höndlað eða túlkað. Verið óhrædd, sagði engillinn, og því skulum við hafa hemil á okkur og kaupfýsninni því að jólin eru ekki þetta, Ekki skrum og skraut Heldur gleði sem kemur innan frá.

Umhverfissinnar hafa hvatt fólk undanfarið til að halda vistvæn jól, nota umhverfisvænan jólapappír, gefa öðruvísi gjafir, eins og gjafamiða fyrir uppvaski og barnapössun í stað hluta. Undir þetta framtak er óhætt að taka! Hjálparstarf kirkjunnar og fleiri líknarsamtök hafa lagt áherslu á að við gefum ekki bara þeim sem allt eiga, heldur minnumst þeirra sem skortir allt. Jólasöfnun 2004 verður ráðstafað til foreldralausra barna í Úganda, til þess að veita þeim reglulega ráðgjöf sjálboðaliða sem hjálpar börnunum að finna leið til að afla tekna, t.d. að útvega þeim fræ að nýrri uppskeru sem þau eiga auðveldara með að sinna, hjálpa með skólabækur, föt, áhöld og auðvitað veita andlegan stuðning og umhyggju. Þetta eru öðruvísi jólagjafir en þær venjulegu og þær gefa gleði, bæði okkur sem gefum nýtar gjafir og einnig jörð og nauðstöddum sem þiggja.

III

Guðspjall dagsins fjallar um gleði og óeigingirni. Guðspjallið sendir okkur aftur til tímans þegar Jesús var að hefja starf sitt. Hann er farinn að skíra og prédika og fólkið flykkist til hans. Ekki langt þar frá sem Jesús dvaldi var Jóhannes skírari í Aínon nálægt Salím. Jóhannes var eins og þið vitið frændi Jesú sem nokkrum mánuðum fyrr hafði hann vatni ausið í ánni Jórdan og eflaust kennt honum margt þarflegt. Og nú koma lærisveinar Jóhannesar blaðskellandi til hans að segja frá þessari hermikráku sem er farin að skíra fær svona mikla athygli. En Jóhannes bregst ekki við á þann hátt sem þeir væntu. Hann minnir þá á, að hann hafi aldrei sagst vera Kristur. Honum er það nóg að vera sá sem gleðst með þeim sem hnossið hlýtur. "Sú gleði er nú mín að fullu" segir Jóhannes. Hann á að vaxa og ég að minnka."

Þetta eru stórmannleg orð hjá Jóhannesi, orð gleði og öryggis, orð laus við öfund. Það er ekkert auðvelt að gleðjast með þeim sem ná að blómstra og mörgum eiginlegra að vilja níða þau niður og ræna vextinum. En Jóhannesi er nóg að sjá Jesú vaxa að visku og náð, fylgjast með því hvernig Jesús snerti við fólki, læknaði það af sjúkdómum og syndum og gaf þeim nýja lífssýn. Það var honum nóg, fögnuður hans var fullkominn.

Og sama boðskap prédikar himingeimurinn núna í svartasta skammdeginu. Það er ekki tilviljun að orð Jóhannesar "Hann á að vaxa og ég að minnka" er okkur sent á fjórða sunnudag í aðventu, þegar birtan er eins lítil og hugsast getur en nóttin óendanlega löng. Vetrarsólstöður eru á næsta leiti og boða okkur umskipti birtu og ljóss. Sólin á að vaxa en myrkrið að minnka. Ljósið á að dafna í hjarta okkar jafnt sem umhverfi. Og þessa dagsbrún, árdagsbirtu, þennan gleðispádóm um ljósið færir Jóhannes okkur vetrarbörnum á dimmasta tíma ársins. Kristur á að vaxa og dafna á meðal okkar með vaxandi sól og vaknandi náttúru.

Jóhannes skírari hafði merkilega skapgerð. Hann var maður tunguhvass og hrjúfur. Hann var meinlætamaður og gerði miklar kröfur til lærisveina sinna. Hann prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda og talaði tæpitungulaust við viðmælendur sína. Í guðspjalli síðasta sunnudags þrumar Jóhannes: "Þér nöðrukyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?"Þessi hryssingslegi spámaður á úlfaldahárskyrtlinum hristir staf sinn framan í okkur á endaspretti aðventunnar og meinar okkur að sökkva niður í of sætar , huggulegar og velinnpakkaðar sætabrauðshugmyndir um jólin. Orðin hans stinga undarlega í stúf við jólaundirbúninginn, mjúkar myndir frá Betlehem, fagra konu með lítið barn í jötu, engla og hirða, vitringa og vegsemdir og blikandi stjörnur. Ég minnist þess ekki að hafa fengið jólakort með tilvitnun í Jóhannes skírara, eða sent svoleiðis kort heldur. Það er eitthvað í fari þessa löngu liðna prédikara sem hristir upp og skekur mann óþægilega í öllu skrautinu og glysinu sem við hrúgum upp fyrir jólin. Og samt átti hann svellandi gleði, fullkominn fögnuð, ró í hjarta þegar sá kom sem honum var fremri. Hann fann að Guð var nærri, Immanúel, svo sem spámaðurinn hafði fyrir mælt.

IV

Við sungum áðan sálminn um Immanúel, einn fallegasta sálm aðventunnar, Sálmurinn sem kunngjörir að Drottinn kemur. Í íslensku þýðingunni er sálmurinn þrjú vers en heil sjö í þeirri latnesku. Þar er sungið um Krist sem koma skal, með margvíslegum myndum úr spádómsbók Jesaja. Frelsarinn er kallaður viska eða speki og kraftur, Drottinn Ísraels, sem færir þeim réttlæti og frelsi sem búa við órétt og kúgun. Við heyrum um rótarkvistinn, angann af stofni Jesse, en Jesse var faðir Davíðs konungs. Í návist angans af Jesse rót blómgast allt og allt ofbeldi verður undan að láta. Immanúel er líkt við lykil að Davíðs húsi, sem lýkur upp dyrunum fyrir þeim sem hann vill og byrgir þær þeim sem hann vill. Við heyrum um konung allra þjóða, sem veitir hrjáðum frið og við heyrum um árdagsbirtu, sem brýst út úr hinu myrkasta skammdegi og lýsir það upp. "Gef dag á dimma jörð" segir íslenska þýðingin.

Ef við hljóðnum og hlustum vel, þá öðlast sálmurinn líf og við heyrum hringlið í lyklinum, sjáum hliðin ljúkast upp Sjáum sprotann blómstra á rótinni Sjáum konunginn koma Sjáum spekina sveipa allt og lífga allt með anda sínum Kom þú, kom vor Immanúel.

Veni O, Sapientia Veni, veni Adonai Veni O Iesse virgula Veni, Clavis Davidica Veni, veni O Oriens Veni, veni Rex Gentium Veni, veni Emmanuel.

Og Immanúel er hér Guð er með oss. Ég hef séð nærveru hans. Ég hef átt þess kost undanfarið að hitta flest börn í Grafarholti, þegar leikskólarnir og grunnskólinn koma í sína árlegu jólaheimsókn. 5 ára börnin léku helgileik á aðventukvöldinu á sunnudaginn. Hvert barn átti sitt hlutverk í helgileiknum, þar sungu englar og hirðar og vitringar um jólastjörnuna sem blikar á himninum. Og engillinn sagði þeim frá því að barnið væri fætt í Betlehem. Síðar í vikunni hitti ég grunnskólabörnin í Ingunnarskóla, þar sem 5. og 6. bekkur léku jólaguðspjallið fyrir foreldra og skólasystkini. Englarnir sungu, María og Jósef vöfðu barnið litla reifum, hirðarnir fundu Jesúbarnið og vitringarnir gáfu sínar dýru gjafir. Börnin léku hlutverk sitt vel og herskarar englanna sungu við raust. Í hvert skipti sem sagan er endurtekin, þá gerist eitthvað nýtt, nýr ljómi, ný gleði, nýr fögnuður. Þetta var góð stund, heilög stund, þar sem Drottinn kemur. Og Betlehemsvellir standa okkur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

V

Ég spurði ykkur áðan hvaða tilfinningar Betlehemssviðið í vaxmyndasafni Madame Tussaud kallaði fram hjá ykkur. Er farið út fyrir velsæmismörk með því að setja fótboltamenn, poppstjörnur, grínista, hefðarmenn og umdeilda stjórnmálaleiðtoga inn í rullur jólaguðspjallsins? Vissulega er það svo. María og Jósef voru ekki par ársins í Jerúsalem, hirðarnir voru almúgamenn sem striðu í sveita síns andlitis og þekktu ekkert til grín eða hasarmynda. Vitringarnir þrír úr austurátt höfðu eflt með sér aðra þekkingu en þá sem hóf Blair og Bush til valda.

Engu að síður finnst mér vaxmyndasýningin hafa haft nokkuð til síns máls og ég er ekki í þeim hópi sem vildi að hún yrði tekin niður. Madame Tussaud sýningin er kannski smekklaus, en við skyldum líka varast það að fella boðskap jólanna um of í smekklegar umbúðir. Stundum kallar oflof fram öfuga merkingu. Stundum kalla óhóf og yfirgengilegheit fram þrá eftir hinu einfalda og tæra. Og gimsteinarnir, skrautið, umbúðirnar, hátískan, ljósið, þekktu andlitin, völdin, frægðin, þessar frosnu vaxdúkkur sem eru svo gjörsamlega úr takt við boðskap jólanna er þarna sett fram í gjörsamlega ómögulega háðsádeilu.

Annars vegar hefur jólaguðspjallið á sér ævintýrablæ, töfraljóma, sem að hver sá eða sú kynnist sem einhvern tímann hefur leikið helgileikinn fagra. Það segir okkur sögu frá annarri vídd, öðru lögmáli, öðru gildismati en því sem að gerist og gengur á meðal okkar. Guð er með oss, stjarnan er nærri, barnið litla brosir í jötunni á móti ástríkum foreldrum.

Hins vegar er virðist okkur flesturm þörf á að fylla þessa jötu af alls kyns skrani og skrauti og ónauðsynjum á aðventunni. Við lýsum upp glugga og gólf með dýrum Betlehemestjörnum, tendrum ljós í gluggum, en gleymum þeim sem er ljós heimsins, gleymum að gefa þeim með okkur sem minnst eiga.

Byggjum við ekki stundum okkar eigin vaxmyndasýningar í brjálæðinu fyrir jólin?

Við eltum uppi barnið í jötunni á heimasíðum og í sölubúðum í stað þess að hverfa inn á við og leyfa hjörtum okkar að vagga því mjúklega og gera gleði okkar fullkomna. Við eyðum mörg hver meiri tíma í að hugleiða ævi og ástir fræga fólksins en okkar nánustu ættingjum og gleypum í okkur helstu blöð og fréttir af högum þeirra. Við hugsum of mikið um hluti, um umbúðir. Við leitum of mikið og finnum of lítið. Skammdegismyrkursins gætir víðar en í háloftunum, það er líka ríkt í brjóstum mannanna.

Inn í þetta myrkur talar Jóhannes skírari í guðspjallinu í dag. Hann talar um fögnuð, gleði sem nú er fullkomin. Hann var tilbúinn til að minnka svo að Kristur mætti vaxa. Hann tók á móti Immanúel og kenndi lærisveinum sínum að gera hið sama.

Kom þú, kom Immanúel. Leys þinn Ísrael frá öllu því sem herjar á hugann og dregur okkur niður nú á aðventunni. Lát okkur gefa þér rúm, lát kærleik þinn vaxa meðal okkar og ryðja því burtu sem ekki skiptir máli.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Sigríður Guðmarsdóttir er sóknarprestur í Grafarholtsprestakalli. Flutt á á fjórða sunnudag í aðventu í Grafarholti, 19. desember 2004. Lestrar: Jesaja 12.2-5; 1. Jóh. 1.1-4; Jóh. 1.22-30.