Ofurkrafturinn á aðventunni

Ofurkrafturinn á aðventunni

Liðböndin og trúin. Enska orðið yfir liðband er ligament, sem dregið er af latneska orðinu, ligamentum, sem þýðir samkvæmt orðanna hljóðan: „Að tengja saman“. Þaðan er dregið enska hugtakið religion, sem við þýðum á okkar ilhýra: „Trú eða trúarbrögð“.

Prédikun í Grensáskirkju 28. nóvember 2021 kl. 11 Fyrsti sd. í aðventu

Lexía:  Jes. 62:10-12
Pistill:  Rm. 13:11-14
Guðspjall:  Mt. 21:1-11

Biðjum:

Kenn mér Jesús, þér að þakka,

þína trú og bænargjörð

Yfir mér og í mér vaki,

elskan þín á himni og jörð. Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Liðböndin

 

Í líkama fullorðins manns eru 206 bein. Sinar tengja bein við vöðva og liðbönd tengja bein við bein. Þetta eru kannski fræði sem maður lærir frekar í námi í sjúkraþjálfun, heldur en í guðfræðinni.

 

Enska orðið yfir liðband er ligament, sem dregið er af latneska orðinu, ligamentum, sem þýðir samkvæmt orðanna hljóðan: „Að tengja saman“. Liðbönd líkamans eru fleiri hundruð, ef ég þekki rétt. Liðböndin halda líkamanum því saman, tengja bein við bein.

 

Íþróttafólk lendir stundum í því, eins og við þekkjum, að rífa liðbönd eða slíta, þá þarf stundum aðgerð, þar sem liðbönd eru tengd á ný og saumuð saman.

 

Ef við leikum okkur aðeins meira með þessi erlendu hugtök, þá þýðir latneska orðið religamentum: „bindiefni eða það að tengja saman á ný“.

 

Þaðan er dregið enska hugtakið religion, sem við þýðum á okkar ilhýra: „Trú eða trúarbrögð“.

 

Liðböndin og trúin

 

Trúin, okkar kristna trú, er því viðleitni okkar til að tengjast á ný.

Já, tengjast hverju?

 

Stundum er talað um þrenns konar mikilvægar tengingar sem manneskjunni eru nauðsynlegar til að lifa heilbrigðu lífi.

 

Það eru tengsl við sjálfan sig. Hver er ég? Hvaðan er ég? Hver eru hlutverk mín í heiminum? O.s.frv.

 

Það eru síðan tengsl manneskjunnar við náunga sinn. Það er að segja tengsl okkar við samferðarfólk, ættingja, vini, samstarfsfólk, alla sem verða á vegi okkar á lífsleiðinni.

 

Í þriðja lagi eru það síðan tengsl okkar við okkar æðri mátt. Tengsl við Guð.

 

Kirkjan er vettvangur þessara tengsla. Kirkjan er vettvangur þess að við fáum tækifæri til að rækta þessi þrennskonar tengsl og þá fyrst og fremst kannski þau síðastnefndu. Tengsl okkar við Guð.

 

Trúin er þá kannski samkvæmt hinum fornu hugtökum leið okkar til að endurnýja tengslin við frumkraft tilverunnar.

 

Að koma á tengslum á ný við uppsprettu lífsins, að tengjast á ný því sem er æðra okkur, sem við nefnum á tungutaki kirkjunnar, skapara, frelsara og helgara lífsins, Guð.

 

Eins og liðbönd líkamans halda honum saman, þá má segja að það sé eitthvað andlegt, eitthvað samfélagslegt, eitthvað utan við okkur sjálf, sem heldur okkur einnig saman, sem heild, sem heilbrigðum manneskjum, sem samfélagi.

 

Golf, Rotary eða tónlistarskólinn

 

Kannski getur það verið ýmislegt sem tengt er áhugamálum. Golfarar sem leika sér á hinum grænu grundum, virðast á stundum, í iðkun sinni og íþrótt, verða tengdir einhverju æðra, einhverju meiru en bara þeim sjálfum. Eins getur ýmis félagsskapur verið vettvangur þess að fólk finnur merkingarfullar tengingar og lífið verður ríkara, eins og til dæmis þátttaka í Rótarý, Oddfellow, Lions eða Frímúrarareglunni, svo eitthvað sé nefnt.

 

Iðkun tónlistar getur einnig virkjað svona helga krafta, sem glæða ýmsar tengingar í okkar lífi og gera lífið ríkara.

 

Hinir fornu textar

 

Hinir fornu textar sem við lesum í dag á fyrsta sunnudegi í aðventu, miðla okkur því að Guð vill einnig vera í tengslum. Það er ekki bara maðurinn og þörf okkar, sem ræður ferðinni, heldur vill Guð einnig eiga frumkvæði að slíku.

 

Þessir textar hafa um langan aldur verið þeir textar sem ávallt eru lesnir á þessum degi kirkjuársins.

 

Hver helgur dagur hefur sína texta, þ.e.a.s. alltaf eru nýir og nýir textar lesnir á hverjum sunnudegi, og í kirkjum landsins er lagt upp með sömu textana hvern helgan dag.

Textar Biblíunnar, þótt skrifaðir séu af yfir 40 höfundum á 1500 ára tímabili í þremur heimsálfum, eru síðan tengdir á óendanlega fjölbreyttan og flókin máta. Ef það væri svona „hyperlinkur“ eins og við þekkjum á netinu, sem tengdi eitt vers við annað, þá væru bækurnar og boðskapurinn tengdur þvers og kruss í allar áttir, því þannig eru þær í raun, tengjast innbyrðis líkt og æðakerfi líkamans.

Konungur þinn kemur til þín

 

Í texta dagsins er talað um konunginn sem kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna fola undan áburðargrip.

 

Það er einhver þverstæða fólgin í því að tala um Guð og hógværð, í sömu setningu. En þó, það er einmitt það sem Jesús boðar með verkum sínum: Hógværð, lítillæti, en um leið, hugrekki og dirfsku.

 

Í þessum árþúsunda texta úr Mattheusarguðspjalli er teiknuð upp þessi fallega mynd af fjöldanum sem tekur á móti Jesú í Jerúsalem. Klæði lögð á veginn og pálmagreinar.

 

Pálminn hafði táknræna merkingu fyrir gyðinga þess tíma. Þannig var döðlupálminn tákn á myntum. Pálmagreinarnar vísuðu til bæði sigurs en einnig friðar. Hósíanna hrópið, er einnig nátengt pálmagreinunum.

 

Pálmagreinarnar eru tákn fyrir Jesús, sem konung, sigurtákn, sem undirstrikar hver hann er, sem Messías og frelsari þín og mín, frelsari heimsins.

 

Þessi tími ársins

Þessi tími ársins, aðventan og jólin fjalla einmitt svo mikið um það að virkja ofurkraftinn sem býr í samfélaginu. Þann ofurkraft sem leysist úr læðingi er við hugsum um aðra, gleðjum aðra, og leggjum okkar að mörkum sem enginn finni sig út undan, allir séu með, allir fái að eiga glaðan dag.

Í dag er einmitt upphafsdagur jólasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar. Skrifstofa Hjálparstarfsins er nú einmitt hér í þessu húsi, Grensáskirkju, eins og þið þekkið. Stuðningur við starf Hjálparstarfsins, er stuðningur við alla þá sem eru hjálparþurfi. Hjálparstarf kirkjunnar er farvegur fyrir fjármuni og krafta til þeirra sem á þurfa að halda.

Öll erum við einhvern tímann í þeirri stöðu í lífinu að þurfa að aðstoð að halda, öll þurfum við á öðrum að halda.

Allir geta líka lagt að mörkum, enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.

Hjálparstarf kirkjunnar sinnir margvíslegu starfi og þjónustu hér innanlands, eins og neyðaraðstoð, valdeflingu, málsvarastarfi, og síðan rekur Hjálparstarf kirkjunnar Skjólið, sem er dagsetur fyrir heimilislausar konur. Hjálparstarfið veitir ríka jólaaðstoð núna fyrir jólin og eru barnafjölskyldur þar í forgangi, ef ég þekki rétt.

Í fyrra fengu 1707 fjölskyldur um land allt inneignarkort fyrir matvöru og fleira, fyrir jólin, og er búist við svipuðum fjölda umsókna nú í ár. Auk inneignarkorta fær fólk í brýnni þörf notaðan sparifatnað og foreldrar fá m.a. aðstoð svo börnin fái jóla- og skógjafir. Aðstoðin er veitt í góðri samvinnu við Hjálpræðisherinn, Rauða krossinn, Mæðrastyrksnefndir og kirkjusóknir vítt um landið og með frábærum stuðningi frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum.

Við skulum styðja Hjálparstarfið til góðra verka.

Merki Hjálparstarfs kirkjunnar er kross, fiskur og skál. Krossinn er þungamiðja merkisins. Fiskurinn sem er honum samofinn er eitt af elstu táknum kristinna manna. Á grísku er orðið fiskur stafað IKÞYS; Það er einnig skammstöfun á orðunum Jesús Kristur Guðs Son Frelsari. Fiskurinn er því frá öndverðu tákn um Krist sem frelsara mannanna. Að auki vísar fiskurinn á kraftaverkið sem guðspjöllin greina frá, er Jesús mettar mannfjöldann með fimm brauðum og tveimur fiskum. Fiskurinn á merki Hjálparstarfsins er þá einnig tákn um viðleitni stofnunarinnar að gefa hungruðum heimi fæðu og þeirri hugsun tilheyrir einnig skálin sem undirstrikar merkið.

Frásögur aðventunnar og jólanna eru eins og hvatningarfrásögur þess efnis að við eigum að virkja ofurkraftinn í samfélaginu öllum til heilla.

Leggjum okkar að mörkum svo að það megi verða.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.