Nægjusemi

Nægjusemi

Við þörfnumst þess mörg svo sárlega að einfalda líf okkar, minnka flækjustigið, og þar er nægjusemin höfuðdyggð. Þurfum við til dæmis virkilega á öllum þessum fötum að halda sem fataskáparnir okkar eru fullir af? Þurfum við allan þennan mat? Þurfum við að eiga meira en tvenn rúmföt á mann? Nú er bylgja nægjuseminnar og einfaldleikans; að kaupa minna og nýta betur. Það er vel. Getum við lært að láta okkur nægja það sem við höfum, jafnvel búa við lítinn kost?

Eitt er nauðsynlegt. Eitt er nauðsynlegt. Eitt.

Við lifum á tímum hraða. Flækjustigið er hátt. Verkefnalistinn langur, væntingarnar miklar. Við þróum með okkur streitu og erum stundum að kikna undan álagi; erum áhyggjufull og mæðumst í mörgu. Til hvers? Viljum við hafa þetta svona? Hverju erum við bættari? Hvert okkar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn (sbr. orð Jesú í Matt 6.27)? Nútímarannsóknir leiða í ljós að það getum við einmitt ekki. Streitufylltur lífsmáti er ávísun á styttri lífaldur. Við þurfum að staldra við af og til og taka stöðuna, spyrja okkur spurninga: Hver gerir þær kröfur til okkar að við séum á sífelldum þönum? Hvaðan koma allar þessar væntingar? Hvernig langar okkur raunverulega að verja dögunum okkar?

Gaman og alvara Sumt er bara svo gaman. Ég hef t.d. óstjórnlega gaman af því að læra og á mjög erfitt með að hemja mig í þeim efnum, er sífellt að bæta við mig og hungrar í meiri fróðleik. En jafnvel það sem er skemmtilegt getur verið streituvaldandi ef við setjum því ekki mörk.

Svo er annað sem við bara verðum að gera. Við verðum t.d. að hafa tekjur. Flest okkar eru í vinnu í þeim tilgangi. Og við viljum vanda okkur í vinnunni, annars verðum við fljótt óánægð – og vinnuveitandinnn líka! Sum okkar eiga líka fólk heima sem treystir á okkur, maka, börn eða aðra ættingja. Þau þurfa að fá mat á borðið og hrein föt og vonandi hjálpast heimilisfólkið að við það allt saman. Við fáum líka stundum gesti og þeim þarf að þjóna, undirbúa og bera mat á borð og hafa allt þrifið og strokið.

Í þeirri aðstöðu var Marta í guðspjalli dagsins, Lúk 10.38-42. Hún var húsmóðir af Guðs náð og vildi taka vel á móti sínum gestum. Þú getur rétt ímyndað þér hvort þú myndir ekki leggja þig sérstaklega fram ef sjálfur frelsari þinn, fyrirmynd og leiðtogi, kæmi heim til þín! Aðeins það besta væri nógu gott: humar og lax og súkkulaðimús með þeyttum rjóma. Til dæmis. Slík máltíð undirbýr sig ekki sjálf.

Við getum vel sett okkur í spor Mörtu þegar hún hleypur þarna um sveitt og streitt í miklu annríki. Á meðan situr systir hennar í ró og næði, í andríkinu við fætur Jesú. Það er auðvitað ekkert réttlæti í því! Og til að kóróna allt ver Jesús Maríu og segir að það megi bara alveg sitja og drekka í sig nærveru Guðs þó verkin séu mörg sem vinna þarf.

Jesús spyr að hugarfarinu Hér, eins og svo oft áður, þurfum við að fara á bak við frásöguna til að finna kjarnann. Jesús er ekki að skamma Mörtu fyrir að vilja gera allt sem fínast. En hann spyr að hugarfarinu. Hver segir að allt þurfi að vera svona flott? Hver segir að Marta þurfi að hugsa um það eitt að veita sem mesta þjónustu? Hver hefur komið því inn hjá henni að hún þurfi að vera áhyggjufull og mæðast í mörgu í stað þess að njóta þess sem hún gerir og vera glöð með sitt hlutskipti og sitt val?

Auðvitað þurfa ferðalangar að fá að borða og þiggja gjarna fótaþvott eftir göngu á rykugum strætum, svo við tökum mið af aðstæðum frásögunnar. En það er lítið varið í að þiggja þjónustu sem veitt er með hálfgerðri ólund og mæðu. Ef Marta getur ekki gert það sem hún þarf að gera með gleði ætti hún að finna sér leiðir til að breyta og einfalda. Þannig gæti líka hún fundið næði og hugarró við fætur Meistarans. Það var val Maríu og það var gott val.

Ef við hins vegar höfum ánægju af því að útbúa flóknar máltíðir og hafa allt sem flottast og fínast þá er það allt í lagi. Hér er spurt að hugarfari og hvernig við getum framkvæmt með gleði, bæði það sem við veljum meðvitað og líka hitt sem fylgir barasta lífinu og verður ekki hjá komist. Höfum í huga, við sem höfum valið og átt þess kost að eignast maka og börn, að því vali fylgja alls kyns verk sem verður að inna af hendi. Við getum hins vegar valið að einhverju leyti hvernig við sinnum þeirri þjónustu, og hugarfarið að baki er sannarlega á okkar eigin ábyrgð.

Í liðinni viku sat ég ásamt öðrum foreldrum í skólastofu einnar dóttur minnar og kennarinn lýsti því með látbragði hvernig hún á hverjum morgni velur að koma inn í bekkinn í gleði. „Þegar ég geng hérna inn um dyrnar hef ég meðvitað valið að vera glöð. Og þannig á það að vera,“ sagði þessi skemmtilegi og jákvæði kennari.

Að láta sér nægja Í pistli dagsins, Fil. 4.11-13, er talað um nægjusemi:

Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.

Nægjusemi verður ekki nógsamlega undirstrikuð. Við þörfnumst þess mörg svo sárlega að einfalda líf okkar, minnka flækjustigið, og þar er nægjusemin höfuðdyggð. Þurfum við til dæmis virkilega á öllum þessum fötum að halda sem fataskáparnir okkar eru fullir af? Þurfum við allan þennan mat? Þurfum við að eiga meira en tvenn rúmföt á mann? Nú er bylgja nægjuseminnar og einfaldleikans; að kaupa minna og nýta betur. Það er vel. Getum við lært að láta okkur nægja það sem við höfum, jafnvel búa við lítinn kost?

Við sjáum myndir utan úr heimi af fólki sem ekkert á; flýr heimilis sín til að halda lífi og getur ekkert tekið með sér. Brauði er kastað til þeirra eins og kvikfénaðar, slegið er til barna á flótta og sum láta lífið. Að hafa áhyggjur og mæðast í mörgu í þeim allsnægtum sem við búum við verður harla lítilfjörlegt í samanburði við það sem er að gerast úti í Evrópu þessar vikurnar. Sárast þykir mér að vita til þess að fólkið sem hrökklast frá heimilum sínum, flest vegna borgarastyrjaldar og beinna lífsógna, heldur að Góða, kristna Evrópa verði þeim hæli og skjól. Þvílík vonbrigði að leggja líf sitt að veði og líf barna sinna á stórhættulegum flóttanum og vera svo mætt með barsmíðum og berangri. Að elska og leita af öllu hjarta En vonandi er ráðandi fólk í Evrópu að gera sitt besta. Vonandi hafa þau í huga þann arf sem við höfum þegið, að við eigum að elska og leita Guðs af öllu hjarta og allri sálu (5Mós 4.29) og máttur og hugur þarf að fylgja með (Lúk 10.27). Að elska Guð af öllum mætti þýðir að vera tilbúin að gefa Guði krafta sína í þjónustu við náungann. Og munum að boðorðið um að elska náunga okkar eins og okkur sjálf stendur jafnfætis boðinu um að elska Guð. Algjörlega óháð því hvort aðrar þjóðir vilji leggja sitt af mörkum til að bæta hag fólks á vergangi, algjörlega óháð þeim ástæðum sem að baki liggja, algjörlega óháð hugarfari ráðamanna í heimalöndum flóttafólksins, algjörlega óháð öllu ber okkur skylda til að hjálpa náunga í neyð. Að hýsa bágstadda og hælislausa (Jes. 58.7) er skylda okkar sem kristins fólks.

Sú skylda kann að kosta okkur eitt og annað, til dæmis skerðingu á því sem við höfum kallað lífsgæði en ristir oft ekki djúpt. Og þá verður annríkið, áhyggjurnar og mæðan einhvern vegin afstæð, lúxusvandamál jafnvel. Ekkert er varanlegt í henni veröld og því ekkert nauðsynlegt. Nema eitt: Að dvelja við fætur Jesú, bæði bókstaflega og í yfirfærðri merkingu, leita Guðs af öllu hjarta og allri sálu, að drekka í okkur í þá ást sem faðmar allt, marinera okkur í henni svo að fram spretti hugarfar kærleika og vilja til að vera framréttur armur Krists inn í hrjáðan heim.