Lát mig heyra miskunn þína að morgni dags ...

Lát mig heyra miskunn þína að morgni dags ...

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og  Drottni Jesú Kristi. Amen   Jesús kom til Betaníu samkvæmt guðspjalli dagsins sem við íhugum í dag. Honum hafði áður verið ógnað. Hann hafði verið í felum. Hann hafði verið yfirheyrður af öryggissveitunum. Hann var hvergi velkominn lengur Löghlýðnir borgarar forðuðust hann.  

Þegar hann kom inn í þorpið voru margir gluggar lokaðir og hvergi virtust vera opnar dyr. Börnin voru kölluð heim og foreldrar þeirra fylgdust með honum bak við gluggatjöldin.  

En Marta kom út úr húsi sínu til að hitta hann. Hún bauð hann velkominn. Hún bauð honum að setjast, þvoði fætur hans, bauð honum vatn til að hann gæti þvegið andlit sitt og hendur. Hún gaf honum hressingardrykk og sagði: ,,Þú ert velkominn”. Jesús settist niður, tók við drykknum og slakaði á. Hann var ánægður að vera boðið inn á fallegt og notalegt heimili um stund.  

Marta fór í eldhúsið og tilreyddi mat. Það klingdi í pottum og pönnum, ilmur bakaðs brauðs, ávaxta, grænmetis og víns lá í lofti. Eldurinn snarkaði í eldstæðinu og vatnið sauð í potti. Andrúmsloftið var heimilislegt, kötturinn malaði í horninu.  

Marta hafði í nógu að snúast. María hafði líka nóg að gera. Þær langaði báðar að taka eins vel á móti Jesú og hægt var. Báðar voru þær líkar miskunnsama Samverjanum í garð Jesú.  

Samkvæmt gömlum handritum, að undanteknu einu versi, þá segir þar að María hafi ,,einnig” sest niður við fætur Jesú.   En þessu versi er sleppt í þeirri þýðingu sem við notumst við í dag en mér finnst að það hefði átt að vera þar. Samkvæmt því má gera því skóna að Marta hafi gefið sér tíma til að setjast niður við fætur Jesú.  

Jesús lét þær fara sínu fram. Hann kunni að meta vinnuframlag Mörtu þar sem hún gekk um beina. Það bar vott um elsku hennar í garð hans, um trúfesti hennar og von í hans garð. Án efa á Marta hluta af hjarta hans en þegar hún fór að kvarta við hann um það að systir sín léti sig eina um að þjóna honum þá sagði hann að María hefði valið góða hlutskiptið með því að hlusta á sig, hlusta á Drottinn, hlusta á Guð.   Við ættum öll að líkjast miskunnsama Samverjanum en við ættum ekki að gleyma þvi að þá sögu undirstrkaði Jesú með kærleiksboðorði sínu þar sem hann segir: ,,Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, af allri sáu þinni, af öllum mætti þínum, af öllum huga þínum og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig”.  

Við ættum öll að fylgja dæmi Maríu sem uppfyllti það sem systir hennar gerði með þvi að gefa sér tíma til að gefa gaum að orði Drottins. Við ættum einnig að fylgja dæmi Mörtu sem gekk um beina.  

Trúnni fylgja verk. Við þurfum kannski á því að halda í kreppunni, að fara upp úr hjólförunum og hjálpa öðrum sem aldrei fyrr, fara í kröfugöngur og mótmæla, hlusta og starfa í þágu þeirra sem eru hjálpar þurfi. Það ríkir svo mikil óvissa um þessar mundir í þjóðfélaginu og tortryggni. Allir virðast halda að sér höndum. Það skortir forystuafl, afl sem þjóðin getur sameinast um að treysta í orrahríðinni.  

Ég tel að þrátt fyrir ágjafirnar þá njóti kirkjan trausts hjá þjóðinni. Þó að þjónar hennar séu misjafnir eins og mennirnir eru margir þá leitast þeir við að reka erindi Jesú Krists í þessum heimi sem er höfundur trúar okkar, meðalgangari milli okkar og Guðs. Hann er oft nefndur huggarinn og hjálparinn. Hjá honum er enga synd að finna líkt og hjá okkur mannanna börnum. Því er íslenskri þjóð óhætt að sameinast um Jesú Krist á erfiðum tímum. Hann getur gefið okkur svör við því hvernig best er að sætta íslenska þjóð.  

Synd, iðrun, fyrirgefning, réttlæti, náð. Þetta eru mikilvæg hugtök sem lifa í vitund okkar sem kristið fólk. Þau eru mikilvæg verkfæri í þeirri sáttargjörð sem þarf að eiga sér stað í þjóðfélaginu.  

Við þurfum á því að halda að feta í fótspor Maríu og hlusta á Guð í kreppunni og biðja um  að þjónusta okkar verði í þágu vilja hans.  

Kirkjusóknin í kirkjum landsins gefur tilefni til að halda að það séu fleiri ,,Mörtur” en ,,Maríur” í þjóðfélaginu. Í  kirkjum landsins er Guðs orð lesið. Þar sitjum við, við fætur Drottins og hlýðum á hann líkt og María gerði. Það gerum við líka heima hjá okkur þegar við hlustum á útvarpsmessuna eða lesum Guðs orð í einrúmi eða saman. Það hlýtur líka að vekja lotningu hjá okkur að ganga úti í náttúrunni, virða fyrir okkur öll þau undur blasa við okkur yfir og allt um kring. Þannig getur náttúran vakið okkur til trúar á skaparann. En málið vandast fyrir mörgum þegar kemur að því að Guð hafi gerst maður í Jesú Kristi sem dó fyrir syndir mannanna á krossi og reis síðan upp frá dauðum. Það verður ekki vandamál fyrir þau sem trúa þessu heldur gleðiefni í dagsins önn.  

Það er stundum sagt að trúin sé einkamál og að þeir sem sæki kirkju hljóti að eiga við eitthvert vandamál að stríða. Það er auðveldara að benda á aðra en sjálfan sig líkt og Marta gerði. En við getum lært það af guðspjalli dagsins að trúin er ekki síður málefni safnaðarins því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir þar er Drottinn mitt á meðal. Við komum því saman til að uppbyggjast fyrir orð Guðs og sakramentin, ekki síst fyrir samfélagið hvert við annað hér innan veggja kirkjunnar og í safnaðarheimilinu eftir messu. Við horfum til Bjarnahúss við Húsavíkurkirkju að þessu leyti með tilhlökkun í vetur. Tilefnið er jafnan gleðilegt því að það styrkir samfélag okkar, gefur okkur styrk út í lífið sem við þurfum að sönnu á að halda þar sem við stritum í sveita okkar andlits við æði misjafnar undirtektir. Það er stundum alltof mikill jarðarfarabragur á okkur í kirkjunni.  Það sést varla bros á nokkrum manni nema þegar sóknarpresturinn segir brandara. Ég sagði kollega mínum nýverið að ég væri farinn að heyra betur í Drottni eftir að ég fór að nota eyrnapinna reglulega.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort það hafi verið jarðarfararbragur á Maríu þar sem hún sat við fætur Jesú og hlýddi á hann á heimili sínu: Ég sé hana frekar fyrir mér með brosið á milli eyrnanna því að sjálfur Drottinn var kominn inn á heimili hennar og blessaði það og þær systur með nærveru sinni. Án efa hafði þessi heimsókn mikil áhrif á þær, kannski tóku hjörtu þeirra að brenna. En af hverju íhugum við þetta guðspjall í dag?

Við þekkjum það hversu mikilvægt það er að geta brauðfætt sig með vinnuframlagi. Þess vegna er atvinnuleysið alvarlegt vandamál um þessar mundir. Íslendingar eru þekktir fyrir það að leggja mikið á sig og unna sér vart hvíldar. Fyrir suma virðast vera of fáar klukkustundir í sólarhingnum. Vissulega þarf að bjarga verðmætum. Sjómaðurinn þekkir það og fiskverkafólk sem og aðrir. Í guðspjallinu kemur Jesús með nýja sýn á vinnuframlagið með því að benda okkur á hvernig því sé háttað í ríki sínu þar sem hann er konungur. Hann segir að það sé ekki mest um vert að afkasta miklu og koma víða við.  Mestu varði að hafa hann með sér á vaktinni í sérhverju verki. Sjómennirnir þekktu það sem signdu sig áður en þeir héldu úr vör. Og margir gera þetta í dag, fela Drottni daginn og verkin og uppgötva þá að ríki Guðs er innra með því. Þetta er að sönnu leyndardómsfullt en satt. Í hjörtum okkar vill hann ríkja okkur til blessunar og gæfu í lífi og starfi.  

Ef við vinnum á eigin vegum og í eigin krafti er hætt við að starf okkar verði fánýtt strit, sneytt anda og lífi. Það er Drottinn sem glætt getur vinnuframlag okkar lífi og anda. Þá finnum við síður fyrir kulnun í störfum okkar.   

Það er mikilvægt að við leitumst við að vera þar sem Guð vill að við séum og við gerum einmitt það sem Guð vill að sé gert, einmitt á þeim tíma sem Guð vill.  Ef við leitumst við að vera hljóð fyrir Drottni að morgni sem að kvöldi þá aukast líkurnar á því að okkur blessist störfin. Ég finn þetta á eigin skinni.

 Ég fer stundum niður í fjöru og fleyti kerlingar. Þá myndast hver hringurinn af öðrum. Þannig getur eitt orð frá Drottni verið neistinn sem tendrar eld eilífs lífs í mannshjarta. Við eigum ekki að vera feiminn að bera trú okkar vitni gagnvart ættingjum okkar og vinum og samfélaginu hér á Húsavík. Ef það er eitthvað sem íslensk þjóð þarfnast meira en annað á þessum tímum þá eru það kristin gildi, réttlæti, iðrun og fyrirgefning, sáttfýsi, trú, von og kærleikur. Guð gefi okkur náð til þess að leggja við hlustir eftir orði Drottins svo að sáttargjörð geti átt sér stað í íslensku þjóðfélagi í náinni framtíð.