Guð og mamma

Guð og mamma

Það eru gömul sannindi og ný að trúarþörf manneskjunnar er eins rótlæg og leitin að móðurbrjósti. Þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar styðji barnið sitt til þess að fá þessari þörf fullnægt. Til þess þurfa þau hvatningu og stuðning kirkjunnar og þeirra sem eldri og reyndari eru.

Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað. Jóh 15.12-17

Stýrikraftur allrar tilveru er kærleikur Guðs. Guð skaltu elska svo að allt sem þú hugsar og gerir þjóni honum. Aðrar manneskjur skaltu elska svo að þér sé eins annt um þau og sjálfan þig. Þetta er það hlutverk sem Guð fól okkur hér á jörðu. Að útbreiða elsku hans til allra manna og láta elskuna einnig umhverfast í virðingu okkar fyrir öllu lífi.

Allir textar þessa sunnudags fjalla um elsku og kærleika Guðs. Allir styðja þeir hver annan og hvetja okkur til að elska, elska Guð, elska hvert annað.

Guð er kærleikur og allt sem hann er og gerir er sprottið af þessum sama kærleika. Af einskærri elsku sinni sendi hann son sinn í heiminn til þess að hjálpa okkur að horfast í augu við Guð, þekkja Guð og elska Guð. Fyrir dauða Jesú á krossi og upprisu á Páskadegi eigum við fullvissu um kærleika Guðs, elsku, náð og umhyggju. Hann segir: dyrnar mínar standa þér opnar, hjarta mitt og faðmur bíða þín. Ég er faðir þinn, móðir þín, systir og bróðir. Ég er vinur þinn. En í sömu andrá spyr hann: Vilt þú vera minn, vilt þú vera mín?

Þú ert þegar í hjarta Guðs, en ert þú tilbúinn að bjóða honum að búa í þínu hjarta? Hann gengur ætíð við þína hlið, hann er nær þér en þú ert sjálfum þér og hann er í hverjum andardrætti þínum. Vel má vera að þú finnir ekki nærveru hans en hann er þarna samt. Hann er hjá þér hverja stund og hlustar ef þú vilt við hann tala. En Guð ryðst ekki inn í hjarta þitt, hann stendur við það og bíður þess að þú finnir honum þar stað og meðtakir orð hans, meðtakir kærleika hans. Að þú takir á móti honum með opnum huga, hjarta og sál. Ég er þinn um aldur og ævi, segir Guð. Ég mun leiða þig þegar þér finnst þú ekki geta haldið áfram, ég mun bera þig á örmum mér því þú ert mitt elskaða barn og ég sleppi þér aldrei úr mínum örugga faðmi.

Það er kannski ekki tilviljun að textar sunnudagins um elskuna bera upp á mæðradaginn. Það er margt líkt með elsku Guðs og elsku móðurs til barnsins síns. Það eru ófáar myndir í texta heilagrar Ritningar sem lýsa Guði sem foreldri sem ber umhyggju fyrir okkur, börnunum sínum. Það er því ekki að ófyrirsynju að börn hafi oft á tíðum tengt Guðsmynd sína við móðurmyndina. Ég man eftir bænastund við rúm annars drengsins míns þar sem við áttum okkar daglega spjall að kvöldi dags. Hnokkinn minn hefur verið á þriðja eða fjórða ári. Eftir að hann hafði beðið fyrir öllum sem hann þekkti bætti hann venjulega við... ,,og góði Guð, blessaðu líka alla sem ég þekki ekki” þetta fannst honum mikilvægt því vel gat verið að einhver sem hann ekki þekkti þyrfti bænar við. Að bænastund lokinni var venja mín að signa yfir hann og bjóða honum góða nótt með kossi. En nú sá ég að honum lá eitthvað meira á hjarta svo ég beið eftir því sem koma skyldi. Eftir smá stund leit hann á mig og sagði: ,, mamma ég veit alveg” svo kom ekkert meira þannig að ég spurði: ,, hvað veistu” og þá kom það... ,, Ég veit alveg að þú ert Guð!”

Ég átti erfitt með að halda aftur af brosinu en um leið áttaði ég mig á því að þetta er einmitt það sem börnum er svo eðlilegt. Mamma eða pabbi eru eins og Guð. Þau gæta barnanna sinna, leiða þau um rétta vegu og ala önn fyrir þeim. Þau styðja, styrkja, aga og síðast en ekki síst, þau elska. Það sama má segja um Guð og þess vegna er tengingin þeim svo eðlileg. Drengurinn minn er nú búinn að átta sig á því að ég er ekki Guð en ég bið þess og vona að sú Guðsmynd sem hann sá þá fylgi honum um ókomna tíð verði honum til blessunar í lífinu öllu. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að vera foreldri og þess vegna eru það algjör mannréttindi að stjórnvöld í landi hverju, í samfélagi manna, geri allt sitt til þess að styrkja foreldra til að hlúa að börnum sínum bæði til lífs og sálar. Að koma barni til manns er ekki auðvelt verk. Oft á tíðum harla vonlaust í heimi þar sem tilboðin eru endalaus og áreitin mikil. Þar sem hörð krafa er um að foreldrar verði báðir að vinna hörðum höndum til að missa ekki þakið yfir höfði sér. Jafnvel til þess eins að halda sjó í því skelfilega ölduróti sem skekur hvert heimili í þessu landi. Sjaldan ef ekki aldrei hefur verið lífsnauðsynlegt að hlúa að hinum innri vörnum hvers heimilis í landinu okkar. Að staðið sé vörð um kærleikann, vonina og kristna trú í brjósti landsmanna.

Þess vegna er dagurinn í dag, mæðradagurinn líkt og geislar sólar sem ylja og gefa dug og þor. Dagurinn gefur okkur tóm til þess að hugsa til allra þeirra mæðra sem komið hafa börnum sín til manns í þessu landi. Sem borið hafa þau á bænarörmum, styrkt þau til trúar og gefið þeim af öllu sínu. Fyrir það er af hjarta þakkað og megi Drottinn Guð blessa allar mæður þessa lands, styrkja þær og styðja í því erfiða verkefni sem þeim er falið.

Það eru gömul sannindi og ný að trúarþörf manneskjunnar er eins rótlæg og leitin að móðurbrjósti. Þess vegna er svo mikilvægt að foreldrar styðji barnið sitt til þess að fá þessari þörf fullnægt. Til þess þurfa þau hvatningu og stuðning kirkjunnar og þeirra sem eldri og reyndari eru. Að biðja yfir barni sínu ómálga og síðan með því um leið og hugur barnsins fer að vakna er ómetanleg gjöf. Sú rósemi sem fylgir bænastund og sú helgi sem þar er yfir og allt um kring nærir barnið og nestar það til þeirra lífsgöngu sem bíður þess.

Dr. Sigurbjörn Einarsson segir í bók sinni ,, Um landið hér” ,,Kristin trú er traust á algóðum Guði. Hún er að því leyti skyld tilfinningu barnsins, sem lifir í öryggi visssunnar um það, hver á það, hvar það á heima, hvar það athvarf er, hver sá hugur, hönd, hjarta og vilji er, sem allt er til að sækja og getur ekki brugðist. Ósjálfrátt kallar hvert barn á bæn. Það er sjálft ákall, bæn til þeirra sem hafa eignast það, og það á. Það ákall og bæn vekur hamingju, ef allt er með felldu. En líka áhyggju, vitund um vanda og ábyrgð. Þessar kenndir, hver með annari, leita í einn farveg, hvort sem mönnum er það ljóst eða ekki: Guð einn gefur svo mikið. Guð einn hjálpar. Þannig verður barnið engill frá Guði, sem réttir mömmu og pabba hönd sína og laðar þau með sér á vit birtunnar sem er á bak við blikið í augum þess og kemur frá uppsprettu alls ljóss og lífs, Guði Jesú Krists” (Um landið hér bls. 224 -225)

Í dag á ég að teljast fullorðin en ég verð það aldrei alveg í augunum hennar mömmu. Ég verð alltaf litla stúlkan hennar og þannig ávarpar hún mig þó svo að ég hafi hlotið ýmsar gráður um ævina og sé sjálf móðir þriggja barna. Hún er sífellt að reyna að siða mig til, passa upp á mig, jafnvel þó höf og lönd hafi á stundum skilið okkur að. Ég veit að hún er stolt af mér og ræðir við mig sem jafningja sinn. Engu að síður er stutt í það að hún segi mér til, minnir mig á að borða betur, borða meira, hvíla mig meira, vinna minna og muna að signa yfir börnin mín áður en ég fer að sofa. Allt þetta veit ég að hún segir vegna þess að hún elskar mig, lætur sér annt um mig og ég veit líka að nafnið mitt og minna hefur verið á bænarvörum hennar frá þeim degi sem við litum fyrst dagsins ljós.

Ég man þegar ég flutti að heiman fyrir um aldarfjórðungi síðan. Man hvað það var erfitt að fara að sofa vitandi það að mamma myndi ekki koma inn í herbergið og signa yfir mig fyrir svefninn. Ég held að þetta hafi verið það erfiðasta við að flytja úr foreldrahúsum, að eiga ekki signinguna vísa. Hins vegar lærðist mér fljótt að þó svo að höf og lönd skilji að megnar máttur Guðs og kærleikur hans að sameina allt í þeim sama kærleika og hann gefur. Í því trausti gat ég sofið þó svo að ég væri fjarri bernskuheimilinu og signingu mömmu minnar. Ég vissi að hún bæri mig á bænarörmum sínum hvar sem ég væri og ég vissi líka að Guð heyrir allar bænir. Þá vissu hafði ég verið svo lánsöm að drekka með móðurmjólkinni. Ég var þess reyndar fullviss sem barn að Guð heyrði alveg örugglega langbest í öllum mömmum í heiminum. Maður á nefnilega alltaf að hlusta á mömmu sína og Guð var örugglega engin undantekning á því.

Það traust sem börn bera til foreldra sinna er vandmeð farið, því það er svo samofið trausti barnsins til Guðs. Hins vegar er það stórkostleg gjöf að eiga slíkt traust, að alast upp við slíkt traust. Þetta traust til Guðs, trú á hann og kærleikskraftinn góða gaf hún mamma mér og öllum mínum systkinum. Þetta sama traust hlaut hún að gjöf frá móður sinni og hún amma mín fékk þá sömu gjöf frá móður sinni. Öld af öld hafa mæður þessa lands gefið af þeim kærleika sem Guð þeirra, Guð okkar gaf þeim. Í guðspjalli dagsins okkar í dag standa upp úr áminningarorð Krists er hann segir: ,,Elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður”. Hvergi á jörðu má sjá myndbirtingu þessara orða í skýrari mynd en í samskiptum móðurs og barns. Kærleikur, trú og traust.

Það er margt sem við megum þakka mæðrum okkar, allt það veganesti sem þær af kærleika sínum og ást hafa gefið okkur. En um leið og við þökkum af hjarta erum við kölluð til þeirrar ábyrgðar að bera það veganesti sem okkur var gefið til barna okkar, að þau læri að þekkja Guð, treysta Guði, treysta honum fyrir lífi sínu öllu, líkt og mæður okkar og formæður allar hafa gert frá ómuna tíð. Með trú sinni á Guð, styrk hans í hjarta og kærleika hans að leiðarljósi, lifðu þessar konur, til þess eins að börn þeirra og niðjar allir mættu lifa, lifa til þess að bera Guði, lífs- og kærleiksgjafa sínum vitni um aldur og ævi. Guð blessi mæður þessa lands, megum við öll bera gæfu til þess að ávaxta kærleika þeirra og um leið kærleika Guðs til allra manna.