Fjötrar og frelsi

Fjötrar og frelsi

,,Frelsarinn er fæddur. Hann hjálpar þér.” Var þessu hvíslað að honum? Svipuð orð þessum læddust í huga hans og vonarbjarmar lifnuðu í augum hans. Það voru jól. Hann varð að vera glaður. Mamma hans leit oft til hans þetta aðfangadagskvöld. Hún hugsaði með sér að jólaenglarnir höfðu ekki sneitt hjá híbýlunum hennar, þrátt fyrir allt."

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól

Sonarfórn ,,Einmana og ráðþrota og óttasleginn gekk fanginn um gólf í klefa sínum. Hann var fangi vegna þess að hann hafði brotið af sér. Hann þurfti því að taka út sinn dóm. Hann var líka fjötraður af rimlum hugans. Nú var fokið í flest öll skjól. Heima var angistarfull fjölskyldan sem hugsaði til hans á hverjum degi, eiginkonan og sonurinn, hann Sveinn litli.

Skyndilega barst skær klukknahljómur að eyrum fangans í gegnum múrana, gegnum allar gættir. Jólin! Hann var búnn að gleyma jólunum. Hann fylltist sorgartrega eins og barn sem hefur óyndi og langar heim. Hann þráði lausn og frið. Og ósjálfrátt, knúður af innri þörf og andlegri neyð og dýrmætum minningum úr æsku þá féll hann á kné hjá rúminu sínu í fangaklefanum. Hann bað: ,,Þú nýfæddi konungur dýrðar og almættis, veittu mér vanmegna, syndugum manni þína náð! Gefðu mér þrótt gegn freistingum og synd. Hjálpa mér eilífi Guð, sakir Jesú Krists.“

Og barnið í jötunni, hinn krossfesti sem dó fyrir syndir mannkynsins, hinn upprisni Jesús Kristur, sem kom í heiminn til að leita að hinu týnda og frelsa það, hann er jafnan nálægur hugarhrelldum manni sem flýr á náðir hans. Það voru jól í fangaklefanum.

Á sama tíma var mamma Sveins litla nýbúin að lesa jólaguðspjallið fyrir sig og hann og með einföldum orðum sagði hún honum hvers vegna frelsarinn hefði þurft að koma í heiminn. ,,Hann kom til þess að borga skuldasektina okkar,” sagði hún. ,,Hann kom til þess að losa okkur við þjáningar og eymd sem af syndinni leiðir og hann gerði það með því að þola dauðann fyrir okkur.” Sveinn litli skildi það tæplega til fulls en þegar hún minntist á sekt sem þurfti að gjalda flaug honum óðara í hug sektin sem hélt honum pabba hans í fangelsinu. ,,Ég vildi að einhver vildi borga hana fyrir hann!” Vonir hans voru orðnar afskaplega daufar. Sveinn litli leit úrræðalaus í kringum sig og horfði á bryddaða sauðskinnsskóna sína sem góðfús nágrannakona hafði gefið honum í jólagjöf. Hann stundi þungan og reyndi af öllum mætti að harka af sér af því að hann vildi ekki bæta á hryggð mömmu sinnar með því að bera sig illa. Hann þóttist vita það fyrir víst að hún fór fram í eldhúsið einungis til að gráta. Sveinn leit út um hrímaðan gluggann. Yndisleg jólabirta ljómaði víðs vegar um heiminn. Hún hrakti burt skuggana og gladdi óteljandi sálir sem höfðu búið í myrkrinu og hún gægðist einnig inn í stúrið barnshjarta Sveins litla líkt og hún vildi segja við hann: ,,Frelsarinn er fæddur. Hann hjálpar þér.”

Var þessu hvíslað að honum? Svipuð orð þessum læddust í huga hans og vonarbjarmar lifnuðu í augum hans. Það voru jól. Hann varð að vera glaður. Mamma hans leit oft til hans þetta aðfangadagskvöld. Hún hugsaði með sér að jólaenglarnir höfðu ekki sneitt hjá híbýlunum hennar, þrátt fyrir allt.

Dyrunum var lokið upp og þegar Sveinn leit við ætlaði hann ekki að trúa sínum eigin augum því að í dyrunum stóð pabbi hans og sjálfur lögreglustjórinn sem gekk brosleitur inn í herbergið og bauð gott kvöld. ,,Og hér færi ég þér ofurlitla jólagjöf,” sagði hann við Svein um leið og hann leiddi drenginn til föður sins. ,,Pabbi þinn er alkominn heim. Sektin er goldin að fullu.”

Mæðginin störðu frá sér numin á lögreglustjórann og komu ekki upp nokkru orði um tíma. Loks gekk Sveinn litli til lögreglustjórans og hvíslaði í eyra hans: ,,Á ég ekki að fara í staðinn hans þegar jólin eru búin?”

,,Nei, nei, góði drengurinn minn,” sagði lögreglustjórinn og klappaði vingjarnlega á koll drengsins. ,,Ég gef þér pabba þinn lausan í jólagjöf. Njótið jólanna heilögum friði,” hélt hann áfram og snéri máli sínu til hjónanna sem héldust þegjandi í hendur og horfðu hvort á annað með tárin í augunum. ,,Þér skuldið þessu barni ást og umhyggju heillar ævi. Gleymið því ekki að það var sonarfórn sem leysti ykkur úr varðhaldinu.,,Það er allt þér að þakka, Sveinn minn,” sagði faðir hans og þrýsti drengnum að brjósti sér. ,,Nei, pabbi, það er Guði að þakka,” sagði Sveinn litli. ,,Nú eru jólin komin fyrir alvöru, mamma,” sagði hann og leit brosandi til mömmu sinnar.”

Þetta eru falleg stef úr jólasögu eftir Guðrúnu Lárusdóttur sem heitir Sonarfórn. Við finnum til með persónum sögunnar vegna þess að allt sem í okkur býr, allar óskir og þrár og vonir sem við finnum hrærast með okkur skipa sér um jólahátíðina. Sagan fjallar um náungakærleika sem leitar ekki sins eigin heldur er gefinn af fúsum og frjálsum vilja en höfuðdyggð kristindómsins er kærleikurinn. Allar aðrar dygðir sem prýða eiga kristið fólk eiga rætur sína að rekja til kærleikans sem leitar ekki sins eigin.

Ábyrgðin

Við kristið fólk berum ábyrgð á hvert öðru og okkur ber að sjá til þess að allir fái notið sín á sérhverju æviskeiði fram í andlátið. Í þessu skyni eru skólastofnanir reknar fyrir alla aldurshópa og fólki er gert kleift að mennta sig til þess að sjá sér og sínum farborða þar til börnin geta staðið á eigin fótum. Í þessu velferðarkerfi rekum við sjúkrahús í öllum landsfjórðungum þar sem kærleiksþjónusta er innt af hendi í garð sjúkra og vandamanna þeirra í anda jólaboðskaparins.Og við viljum búa svo um öryrkja að þeir geti notið þjónustu hvar sem þeir vilja búa hér á landi. Þegar framlög til velferðakerfisins eru skorin niður þá mótmælum við vegna þess að okkur finnst óréttlátt að það sé skorið niður, ekki síst hjá þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Við viljum búa í réttlátu norrænu velferðar þjóðfélagi sem stendur undir nafni þar sem öllum er gert jafnt undir höfði. Allt kostar þetta sitt en það kostar ekkert að auðsýna kærleika, umhyggju,tillitssemi, virðingu fyrir öllu sem lifir, fólki sem málleysingjum. Skeytingarleysi fyrir hag náungans stríðir gegn þessu.

Fjötrar og frelsi

Boðskapur sögunnar er hlýr og fagur og snertir við strengjum í hjörtum okkar, ekki síst á jólunum þegar áhrifa jólaboðskaparins gætir sterkt í samskiptum innbyrðis og út á við þegar hjálparhöndin er vís þeim sem eru fangar hugans vegna sjúkdóma eða margvíslegra fíkna sem fólk glímir við frá degi til dags. Hjálparhöndin er líka vís þeim sem sitja í fangelsum og afplána dóma vegna afbrota sem fólkið framdi. Það er skiljanlegt hvers vegna boðskapur jólanna nær svo vel til þeirra sem fjötraðir eru af ýmsum ástæðum. Það er vegna þess að jólaboðskapurinn boðar frelsi undan fjötrum. Margir hafa vitnað um það að sér hafi þótt sem farg hafi fallið af sér eftir að hafa opnað dyr hjartna sinna fyrir konungi dýrðarinnar. Lífið hafi síðan tekið stakkaskiptum í kjölfarið þegar kjölfestan var komin með öllu því góða, fagra og fullkomna sem Jesús stendur fyrir. Það er í anda jólaboðskaparins að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda og hugga þá sem hafa sundurmarið hjarta. Við sem elskum barnið í jötunni vegna þess sem hann gerði fyrir okkur og vegna þeirra áhrifa sem hann hefur haft á þjóðir heimsins megum ekki gleyma því að miðla trúnni, voninni og kærleikanum í orði og verki. Trúin er gjöf frá Guði. Við nærum trúna ekki síst með því að hafa bænaversin yfir sem við lærðum í æsku við móður eða föðurkné. Þegar við biðjum til Guðs þá skynjum við ljósið bjarta og hreina og skæra en þá óma hin duldu sár innra með okkur. Þá skynjum við orð engilsins í jólaguðspjallinu sem sagði við skelfingu lostna hirðana: ,,Verið óhræddir, yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs, Betlehem.

Múrinn og hjartað

Enda þótt Ísraelsmenn hafi reist háa múra á landamærum ríkis sins sem þeir virðast komast upp með þrátt fyrir mótmæli Palestínumanna og heimsbyggðarinnar þá þurfa kristnir Palestínumenn ekki endilega að fara til Betlehem til að sjá staðinn í fæðingarkirkjunni sem reist var sem næst fjárhúsinu þar sem lausnari heimsins fæddist. Því að enginn getur reist múra umhverfis hjarta sérhvers manns en frá hjartanu stafar hið leyndardómsfulla andvarp sem við nefnum bæn sem kristið fólk um allan heim notar til að heilsa skapara sínum og lausnara sem hvílir í stalli lágum á jólum. Hann er kominn til að hugga þá sem syrgja og hafa sundurmarið hjarta. Hann er kominn til að boða fjötruðum frelsi og bandingjum lausn. Hann er kominn til að breyta skortinum í allsnægtir. Hann er kominn til að lærisveinar sínir geti lifað lífinu í fullri gnægð. Hann sundurbrýtur sérhvert ok, sérhvern múrvegg til að fólk geti lifað í sátt og samlyndi með hvert öðru. Þetta er ærið verkefni fyrir einn mann en þegar allir leggjast á eitt undir merki Krists þá gerast kraftaverkin.

Jesú barnið guðdómlega var reifað klæði og lagt í jötu til að ylja því. Ef til vill má segja að þetta hafi einnig verið fyrstu jarðnesku fjötrarnir sem hann kynntist því að það er ekki hægt að segja að mótttökurnar hafi verið góðar nema fyrst í fjárhúsinu Jesús glímdi síðar við þyngri fjötra en lagt hefur verið á nokkurn einstakling en hann sigraði dauðans vald að lokum. Postularnir glímdu við sína jarðnesku fjötra, einn þeirra lét bugast en hinir upplifðu hvernig fjötrarnir losnuðu einn af öðrum og þeir frelsuðust til lifandi trúar þar sem hjörtu þeirra brunnu af gleði og trúartrausti meðan þeir héldu sig nálægt Jesú og notuðu bænina frá degi til dags þegar þeir fetuðu í fótspor Jesú Krists.

Gjöf trúarinnar

Við höfum heyrt söguna um barnið í jötunni. Sjáum við ekki hörmungar heimsins, heyrum við ekki kveinstafi mannanna þegar við horfum í jötuna? Nei, við sjáum son lifanda Guðs, endurlausnara heimsins. Það er undursamlegt. Og hann ber kveinstafi mannanna og hörmungar heimsins. Þessi furðulegi boðskapur, þessi fráleiti barnaskapur er ekki ævintýri líkt og segja mætti kannski um sögu Guðrúnar Lárusdóttur, Sonarfórn. Við vísum hvorki boðskap þeirrar sögu né frásögu Lúkasar guðspjallamanns á bug sem ævintýri sem eigi ekki rétt á sér. Við spyrjum frekar hvort við megnum að trúa þessum boðskap, að hér sé okkur frelsari fæddur, að kærleikur Guðs hafi birst með þeim hætti á meðal okkar á þessari jörð? Hvort endurskin þeirrar elsku sé mælanlegt í fari ættingja okkar og vina og náunga okkar á jólum og árið um kring? Hér er um það að ræða hvort við trúum? Í barnslegri einlægni segi ég, já.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.