Immanúel

Immanúel

„Nafn hans mun vera Immanúel það þýðir: Guð með oss.“ Þessi orð eru nálega fremst í Nýja testamentinu (Matt 1.23). Með þeim má segja, að fyrsta nótan sé slegin í gleðiboðskap hinnar helgu bókar. Þau eru frumnótan, grunnstefið.
fullname - andlitsmynd Sigurbjörn Einarsson
10. desember 2002

Nafn hans mun vera Immanúel það þýðir: Guð með oss.

Þessi orð eru nálega fremst í Nýja testamentinu (Matt 1.23).

Með þeim má segja, að fyrsta nótan sé slegin í gleðiboðskap hinnar helgu bókar. Þau eru frumnótan, grunnstefið.

Það ómar síðan í fjölþættum tilbrigðum. Þú heyrir það í englasöng hinnar fyrstu jólanætur. Það heyrist bak við hvern þátt guðspjallanna, er skýrir frá gjörðum og orðum Jesú Krists. Það hljómar á köflum í hrikalega stríðri spennu, sem nær hámarki kringum Golgata. Þaðan af brýst það fram í ósegjanlega auðugri fyllingu, ekki án mótstæðra fylgitóna, en allsráðandi, í guðdómlega björtum og tærum fögnuði.

En þessi orð voru ekki ný, þegar guðspjallamaðurinn festi þau á blað sitt. Þau eru tilvitnun í Gamla testamentið: Allt varð þetta til þess að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins.

Höfundur guðspjallsins horfir um öxl, yfir aldaraðir, vegu margra kynslóða. Og hann sér bjarma yfir þeim vegi, samfellt ljósblik. Hann sér guðlega forsjá og stefnu að einu marki, heilagan náðarvilja, óbrigðulan trúnað Guðs við mannkyn, trúfesti kærleika hans, sem spámenn þjóðar hans höfðu borið vitni um og í fyllingu tímans skyldi opinberast með komu Guðs Smurða. Inntak allrar þeirrar sögu, sem þjóð hans hafði lifað og var túlkuð í helgum ritningum hennar, rakin allt til upptaka mannkynssögunnar, var staðreyndin: Guð með oss.

Sérstæð útvalning Ísraels fól í sér mannkyn allt, allt hið skapaða, fallna kyn Adams. Og þessi staðreynd skyldi á sínum tíma afhjúpast með komu einhvers, er væri sömu veru og sjálfur Guð, nafn hans væri jafngilt nafni Guðs, persóna hans, gerð hans öll og allar gjörðir væru Guðs ættar alls kostar, hann meðal vor væri Guð með oss, og þess vegna væri hann réttnefndur sonur hins eilífa föður.

Þetta var komið fram. Í þeirri vissu skírskotar Matteus til orða spámannsins. Í þeirri vissu vitnar hann um líf og starf Jesú frá Nasaret. Af þeirri sannfæringu er Nýja testamentið sprottið. Og framhald þess er kirkjan, kirkja aldanna og dagsins í dag, kirkja mín og þín (Ef 2.20). Hún hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. Hún rís á grunni þeirrar köllunar Guðs og fyrirheita hans, sem er uppistaðan í lífi og reynslu Ísraels forna. Hún stendur á grundvelli þeirra, sem sáu fyrirheitin rætast, voru vottar að lífi, dauða og upprisu Jesú Krists. En hann sjálfur er hyrningarsteinninn.

Trú vor er fædd af trú hans, af vitund hans um það, að hann væri sá, sem koma skyldi, hinn himneski Maður, Mannssonur, sem birtist í vitrun Daníels, hinn smurði Sonur, sem samkvæmt Sálmunum skyldi erfa hásæti Davíðs, hinn líðandi, fórnandi þjónn Jesajabókar, konungurinn í ríkinu, sem er ekki af þessum heimi, ríki Guðs.

Jesús bar sér vitni í verki og orði. Heitið, sem hann valdi sér, Mannssonur, fól í sér vitnisburð um guðlegan uppruna og æðsta vald (Dan 7.1-14). Því að það var tilvísun til ummæla spámannsins um þá veru í mynd manns, sem kemur að ofan og tekur völdin, þegar allt hið dýrslega vald, sem kemur að neðan, hverfur í hafdjúp aldanna: Honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.

En jafnframt var þetta heiti til þess fallið að tjá það, að hann hefði að fullu stigið niður á þrepið til mannanna, að hann hefði afklæðst Guðs mynd, er hann tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur (Fil 2.6-7). Hann sagði: Ég er á meðal yðar eins og þjónninn (Lúk 22.27). Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga (Mark 10.45).

Með þessum og öðrum orðum um þjónsstöðu sína skírskotar Jesús til ummæla Jesaja um þann þjón, sem ber þjáningar og harmkvæli annarra, er særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða (Jes 53).

Myndin af þeim þjóni samrýmdist ekki hugmyndum manna um hinn fyrirheitna konung. Sú braut, sem Jesús varð að ganga, var önnur en nokkur maður hafði gert sér í hugarlund um Guðs útvalda. Fjöldinn sá hann ekki í því ljósi fyrirheitanna, sem hann lifði í. Hann geymdi leyndarmál veru sinnar með sér í baráttu, freistni og raun. Guð myndi sjálfur opinbera leyndardóminn. Í því trausti flutti Jesús boðskap sinn og vann verk sín. Í því trausti gekk hann í dauðann.

En hann eignaðist sína litlu hjörð, sem föðurnum þóknaðist að gefa ríkið. Hún var gleði hans og sigurgjöf (Lúk 12.32).

Þegar lærisveinninn játaði: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs, sagði Jesús: Sæll ert þú, því að menn hafa ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn í himnunum. Og á kletti þessarar játningar (Matt 16.16-18), þessa skilnings á sér, sagðist hann mundu byggja kirkju sína og hana skyldi Helja aldrei ná að yfirstíga. Glaður í heilögum anda sagði hann: Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Sæl eru þau augu, sem sjá það, sem þér sjáið. Því að ég segi yður, að margir spámenn og konungar hafa viljað sjá það, sem þér sjáið, og sáu það ekki og heyra það, sem þér heyrið og heyrðu það ekki (Lúk 10.21-24).

Með kórónu af þyrnum gekk hann til þess hásætis, sem var kross. Og hjörðin tvístraðist. En hann reis upp af gröfinni, opinberaður af almætti Guðs sem hinn sanni erfingi og uppfylling allra fyrirheita hans. Páskarnir brutu innsigli hins mannlega dauðadóms og þrýstu óafmáanlegu innsigli lifanda Guðs á verk hans og vitnisburð:

Hann var sonurinn, sem opinberar nafn, veru föðurins eilífa og vinnur hans verk til lausnar og bjargar.

Síðan rann hvítasunnan upp. Máttur hins uppstigna Drottins hratt fram þeirri gjörtæku nýsköpun, sem gerði fámenna liðssveit hans að ómótstæðilega sókndjörfum sigurher. Þá spratt sá sproti upp, sem hann hafði gróðursett, kirkjan fæddist, þjóð hins nýja sáttmála af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.

Líf kirkjunnar er sá veruleiki, sem felst í nafninu Immanúel, Guð með oss. Með oss í Jesú Kristi, hinum upprisna. Hún er fyrirheitið í framkvæmd: Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar (Matt 28.20).

Því er kirkjan til í dag, að þetta er satt í dag.

Því er kirkjan hér, á þessum endimörkum heimsbyggðar, á landinu yst við heimsskaut norður. Hér hefur hún verið í þúsund ár, af því að Jesús Kristur var með oss. Og hún er hér nú sakir þess, að Jesús Kristur hefur ekki yfirgefið oss, þrátt fyrir öll vor brigð.

Nafn hans mun vera Immanúel, Guð með oss. Og ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? Hann, sem ekki þyrmdi sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum? (Róm 8.31-32).

Allt með honum. Þú átt þann Guð, sem vill gefa þér allt. Kristur hefur “boðið og skipað þetta evangelíum eftir dauða sinn út að kalla um allan heim og þar með öllum þeim, er trúa, til eignar gefið alla eign sína" (Lúther).

Þessi ósýnilegi, himneski Drottinn hefur gefið þér pant návistar sinnar, afmarkað ákveðið svið þíns jarðneska veruleiks, þar sem hann stefnir þér með skýrum hætti til móts við sig, þar sem þú getur heyrt orðið, sem tjáir þér kærleikshug hans, þar sem þú getur séð ímynd návistar hans, þar sem hann hefur búið anda sínum farveg að hjarta þínu.

Þetta svið er kirkjan þín, samfélag Krists játenda í þessu landi.

Hvað sem þú annars kannt að sjá eða halda um kirkju þína, þá máttu ekki missa sjónar af þessu.

Að sjá hana í sönnu ljósi, að finna hana eins og hún er, það er að sjá og finna þann Drottin, sem að baki henni stendur og í henni er.

Dr. Sigurbjörn Einarsson er biskup. Þessi pistill birtist fyrst í hirðisbréfi hans, Ljós yfir land, sem kom út árið árið 1960. Hann var endurprentaður í bókinni Sókn og vörn. Kristin viðhorf kynnt og skýrð sem Skálholtsútgáfan gaf út í desember 2002.