Krulluforeldrar

Krulluforeldrar

Kunnum við að taka mótlæti? Kunnum við að hafa allsnægtir og líða skort? Kunnum við að vera mett og hungruð? Nú get ég ímyndað mér að þarna sé munur á milli ykkar sem eldri eruð, og ykkar sem eruð yngri. Þið sem eruð eldri, eigið örugglega reynslu af mótlæti, jafnvel skorti og hungri, og því miður virðumst við enn þann dag í dag bjóða gamla fólkinu og veika fólkinu upp á þann raunveruleika. En þið sem yngri eruð? Sum ykkar hafið áreiðanlega mætt mótlæti í lífinu, kannski ekki öll. En flestir lenda í því einhvern tíma á lífsleiðinni. Og þá er svo mikilvægt að vita hvert við getum sótt styrk til að takast á við erfiðleikana og andstreymið. Og það kann Páll postuli. ,,Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir”, segir hann.

Ég las grein á netinu í vikunni. Hún fjallaði um svokallaða krulluforeldra, eða curling parents. Ég get ímyndað mér að þið veltið fyrir ykkur hvað það er? Krulluforeldrar eru ekki foreldrar sem skutla börnum sínum á krulluæfingar, svona eins og fótboltamömmur. Krulluforeldrar eru foreldrar sem líta á það sem hlutverk sitt, (meðvitað eða ómeðvitað) að ryðja burtu öllum hindrunum úr vegi barna sinna, Þau eru svona eins og ,,sópararnir”, fara á undan barninu og gera brautina eisn slétta og hægt er svo að barnið komist nú sem lengst í lífinu. Þau vilja hlífa börnunum sínum við öllu mótlæti og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess. Og auðvitað viljum við ekki að barnið okkar þurfi að upplifa áföll. Sorg, erfiðleika, andstreymi. En þannig er nú lífið samt, að enginn sleppur við það. Og okkar hlutverk sem foreldrar er ekki að hlífa börnunum við því, heldur að hjálpa þeim að takast á við mótlætið. Finna sinn innri styrk, og vita hvert hægt er að leita eftir þeim styrk.

Ég veit ekki hversu mikið þið vitið um Pál postula. Hann var einn af fyrstu kristniboðunum, fyrir utan lærisveinana sjálfa, og hann hóf feril sinn með því að ofsækja kristna menn. Hann var framámaður í samfélaginu, sem hét áður Sál, og gekk svo langt að láta taka kristið fólk af lífi fyrir trú sína. Hann varð svo fyrir vitrun, Jesús mætti honum og hann varð kristinn, og einn öflugasti kristniboði frumkirkjunnar. Hann fór um löndin í kringum Miðjarðarhafið, boðaði trú og stofnaði söfnuði. Í Nýja testamentinu er fullt af bréfum, nánar tiltekið 14, sem hann skrifaði söfnuðunum í ýmsum aðstæðum. Filippíbréfið, sem þið heyrðuð lesið úr áðan, þar sem Páll er að skrifa söfnuðinum í Filippí, sem var borg í Grikklandi, er oft kallað bréf gleðinnar. Í því leggur Páll áherslu á að það sé hægt að finna gleði, bæði í velgengni og í mótlæti, og að Guð gefi okkur styrk til að takast á við allt sem við mætum. Og hann ætti að vita það, hann var nefnilega í fangelsi þegar hann skrifaði þetta.

Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.

Páll þekkir allar aðstæður lífsins, og að lokum var hann tekinn af lífi í Róm, og varð þannig einn af píslarvottum kristinnar trúar. En eftir að hann kynnist Kristi lætur hann ekkert stoppa sig í að ferðast um og breiða út fagnaðarerindið. Hann lendir í sjávarháska oftar en einu sinni, hann lendir í fangelsi oftar en einu sinni, og allskyns hættulegum aðstæðum. Það er eins og besta spennusaga að lesa Postulasöguna, sem er í Biblíunni, og segir frá ævintýrum hans og félaga hans á ferð í kringum Miðjarðarhafið.

Kunnum við að taka mótlæti? Kunnum við að hafa allsnægtir og líða skort? Kunnum við að vera mett og hungruð? Nú get ég ímyndað mér að þarna sé munur á milli ykkar sem eldri eruð, og ykkar sem eruð yngri. Þið sem eruð eldri, eigið örugglega reynslu af mótlæti, jafnvel skorti og hungri, og því miður virðumst við enn þann dag í dag bjóða gamla fólkinu og veika fólkinu upp á þann raunveruleika. En þið sem yngri eruð? Sum ykkar hafið áreiðanlega mætt mótlæti í lífinu, kannski ekki öll. En flestir lenda í því einhvern tíma á lífsleiðinni. Og þá er svo mikilvægt að vita hvert við getum sótt styrk til að takast á við erfiðleikana og andstreymið. Og það kann Páll postuli. ,,Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir”, segir hann.

Ástæðan fyrir því að Páll skrifar Filippímönnum bréfið úr fangelsi, er til að þakka þeim fyrir gjöf sem þau sendu honum. Hann segir: Ég gleðst mjög og þakka Drottni fyrir að hagur ykkar hefur loks batnað svo aftur að þið gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þið hugsað til mín en gátuð ekki sýnt það í verki. Þau voru semsagt á einhverjum tímapunkti það fátæk að þau gátu ekki styrkt hann, þau voru ekki aflögufær, en þau eru orðin það þgear hann skrifar bréfið, og hafa sent honum eitthvað, mjög líklega peninga.

Og í bréfinu hvetur Páll einmitt þau kristnu til að líta ekki aðeins á eigin hag, hann segir: Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. 5Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Erum við aflögufær? Höfum við efni á að hjálpa öðrum? Hvað með fólk sem hefur mætt mótlæti sem er svo gríðarlegt að okkar eigin vandkvæði blikna í samanburðinum? Hvað með fólk sem á hvergi höfði sínu að halla, hefur þurft að flýja heimili sín, skilja allt eftir og hætta lífi sínu í þeirri von að það komist í öryggi og skjól? Getum við hjálpað þeim? Eða erum við svo upptekin af eigin mótlæti að við sjáum ekki hversu rík við erum í raun og veru? Nú er ég ekki að segja að við sem hér erum séum endilega öll svo rík eða vel sett, en við sem samfélag erum það. Við eigum að geta aðstoðað bæði þau sem eru virkilega hungruð og líða skort hér á meðal okkar, og líka þau sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Það gæti kostað okkur, það gæti verið óþægilegt fyrir okkur, við gætum þurft að gefa eftir af okkar eigin þægindum, en ef við viljum vera með sama hugarfari og Jesús Kristur var, þá horfum við ekki framhjá neyð náungans.

Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Hamingjan í lífinu felst ekki í því að komast hjá mótlæti og erfiðleikum. Það er gott fyrir okkur öll að muna það. Hamingjan felst í því að takast á við erfiðleikana og hamingjan felst í því að líta á annað fólk sem fjölskyldu okkar, sem við höfum skyldur gagnvart, sem við erum bundin kærleiksböndum. Og alveg eins og Páll fékk styrk til að upplifa gleði jafnvel í fangelsi, þá gefur Guð okkur styrk til þess að takast á við hvað sem kemur fyrir í lífinu. Við þurfum ekki að ganga ein, við þurfum ekki að berjast ein við mótlætið, því að Guð er með okkur, Guð greiðir okkur leið.

Dýrð sé Guði, sem gefur okkur styrk í öllum aðstæðum lífsins.