Þjóðkirkja og stjórnarskrá

Þjóðkirkja og stjórnarskrá

Stjórnlagaráð hefur margt vel gert en í meðhöndlun sinni á þjóðkirkjunni hafa ráðinu verið mislagðar hendur. Þær tillögur eru óásættanlegar og um þær skapast enginn friður og samstaða.
fullname - andlitsmynd Pétur Kristján Hafstein
28. febrúar 2012

Stjórnarskrá sem rís undir nafni er í eðli sínu samfélagssáttmáli. Þess vegna á að ríkja um hana sátt og samstaða og hún á ekki að taka breytingum nema brýna nauðsyn beri til. Í stjórnarskrá ber að mæla fyrir um meginstoðir í skipun samfélagsins, svo sem skilgreiningu ríkisvalds og mannréttindi, þar á meðal trúfrelsi. Ef þjóð kýs að búa við þjóðkirkju, sem heldur úti kirkjulegri þjónustu á landinu öllu og tryggir að allir landsmenn geti átt kost á henni, er um slíkan grundvallarþátt í mannlegu félagi að ræða að hann hlýtur að réttu lagi að vera einn þráður í stjórnarskrá.

Í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er íslenska þjóðkirkjan hreinlega fjarlægð úr þeim samfélagssáttmála, sem stjórnarskrá verður að vera. Um þjóðkirkju hefur þó verið mælt í stjórnarskrá allt frá árinu 1874. Í 19. gr. tillögu stjórnlagaráðs segir einungis að í lögum megi kveða á um „kirkjuskipan ríkisins.” Síðan er sagt að samþykki Alþingi breytingu á „kirkjuskipan ríkisins” skuli leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Síðarnefnda ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 79. gr. núgildandi stjórnarskrár, sem vísar í 62. gr. um þjóðkirkjuna. Þetta nýja ákvæði lýtur hins vegar að framtíðarskipan mála eftir að ný stjórnarskrá – án ákvæðis um þjóðkirkju – hefur leyst lýðveldisstjórnarskrána af hólmi. Þá er rangt að tala um „kirkjuskipan ríkisins“ þegar fyrir liggur að eftir gildistöku laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og þróun mála á kirkjulegum vettvangi undangengna áratugi að þjóðkirkjan íslenska er ekki lengur ríkiskirkja heldur sjálfstæð stofnun, sem ber réttindi og skyldur að lögum.

Í núgildandi stjórnarskrá, sem að sjálfsögðu verður að halda í heiðri þar til ný stjórnarskrá hefur komið í hennar stað, er tvennt sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 79. gr. Annars vegar þurfa breytingar á stjórnarskránni almennt að ganga í gegnum það nálarauga að þær kalla á þingrof og samþykki tveggja löggjafarþinga, fyrir og eftir almennar alþingiskosningar. Hins vegar er þjóðkirkjuskipanin í 62. gr. varin á þann hátt að Alþingi þarf að taka skýra ákvörðun um afnám hennar með sérstökum lögum og þjóðin því næst að greiða atkvæði um þá ákvörðun sérstaklega. Það nægir að mínum dómi ekki að leggja fram tillögu að nýrri stjórnarskrá þar sem engu er slegið föstu um þjóðkirkju á Íslandi, eins og stjórnlagaráð leggur til. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka tillögu að stjórnarskrá væri að sjálfsögðu ekki verið að kjósa um þjóðkirkjuna sérstaklega. Það er hins vegar stjórnarskrárvarinn réttur þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort þjóðkirkja skuli afnumin úr stjórnarskrá eða ekki.

Í athugasemdum stjórnlagaráðs með 19. gr. frumvarpsins kemur fram að ráðið telji sig ekki vera að leggja til afnám þjóðkirkju með því að nefna hana ekki sérstaklega heldur aðeins að fela hinum almenna löggjafa ákvörðunarvald um það hvort hér verði þjóðkirkja eða ekki. Rökstuðningur fyrir þessari afstöðu er þokukenndur og ófullnægjandi. Vísað er til mismunandi sjónarmiða sérfræðinga, sem þó eru engin frekari skil gerð. Hins vegar viðurkennir stjórnlagaráð að „samkvæmt núgildandi stjórnarskrá má ekki afnema þjóðkirkjufyrirkomulagið nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.”

Alþingi Íslendinga fer ekki aðeins með almennt löggjafarvald heldur einnig vald til að setja landinu stjórnarskrá – er stjórnarskrárgjafi sem svo er kallað. Þetta vald verður ekki framselt til annarra, hvorki til þjóðarinnar sjálfrar né stjórnsýslunefndar á borð við stjórnlagaráð. Ef vilji er til þess á Alþingi að ryðja þjóðkirkjunni úr stjórnarskrá verður þingið að fara þá leið, sem stjórnarskráin sjálf býður. Til þess dugar ekki að fara bakdyramegin.

Stjórnlagaráð hefur margt vel gert en í meðhöndlun sinni á þjóðkirkjunni hafa ráðinu verið mislagðar hendur. Þær tillögur eru óásættanlegar og um þær skapast enginn friður og samstaða. Eins og málum er nú komið væri langfarsælast að taka ákvæði um þjóðkirkjuna að nýju inn í tillögur eða frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í því ákvæði er engin þörf á að áskilja þjóðkirkjunni einhverja óskilgreinda vernd umfram önnur trúfélög enda er slík framsetning arfur frá þeirri tíð er þjóðkirkjan var ríkiskirkja. Sú leið yrði síðan áfram opin fyrir Alþingi að taka sérstaka ákvörðun með lögum um afnám þjóðkirkju úr stjórnarskrá. Þá kæmi þjóðin sjálf til skjalanna eins og hún á skýlausan rétt til og tæki um það fullnaðarákvörðun – að vandlega athuguðu máli eftir ítarlegar umræður í samfélaginu – hvort hér á landi eigi áfram að vera sú samfylgd þjóðar og kirkju, sem verið hefur einn af grundvallarþáttum í menningu og siðferði þjóðarinnar um aldabil.