Umburðarlyndi eða píslarvætti

Umburðarlyndi eða píslarvætti

Trú er veruleiki sem er hvarvetna í kringum okkur. Trú er mörgum jafn mikilvæg og fæða er okkur til að lifa. Því þarf að fræða um trú í skólum. Láta þar allt njóta sannmælis og fræða um þær skoðanir sem finnast í samfélögum heimsins. Boð og bönn færa okkur iðulega inn á hættulegar brautir. Þá er stutt í nasisma, fasisma eða alræði kommúnisma. Þá fara einhverjir að skilgreina góða trú og vonda trú, góða list og vonda, réttar skoðanir og rangar skoðanir o.s.fr.v. Stutt er þá oft í ofsóknirnar og píslarvættið þegar fólk sem ekki vill beygja sig fyrir ranglæti og kúgun missir líf sitt.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Umburðarlyndi í trúmálum er talsvert mikið á Íslandi. Að breyta um sið frá heiðni til Kristni gekk nokkuð átakalítið. Siðbót Lúthers kostaði að vísu líf þeirra Jóns Arasonar biskups og sona hans. En annars hefur trúin ekki verið okkur sá harði húsbóndi sem hún er meðal sumra þjóða. Okkar kristna trú hefur svip mildi og mannúðar öðru fremur. Innan veggja íslensku kirkjunnar hefur verið mikið rými fyrir ólíkar skoðanir. Íslendingum sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni hefur líka fjölgað. Hefur það orðið árekstralaust. Hér á landi máttu menn blóta á laun í hinum gamla sið ef ekki yrði opinbert eða í vitna viðurvist. Í því fólst frjálslynd afstaða. Það er því okkur flestum framandi að fólk skuli vera ofsótt og líflátið fyrir það eitt að aðhyllast tiltekna trú. Píslarvætti nefnist það að deyja fyrir trú sína og hafa margir átt slík örlög gegnum aldirnar. En þó þetta sé með þessum hætti hjá okkur á Íslandi þá er það undantekning á meginreglu þess sem er meðal þjóða heimsins.
Trúarafstaða er grundvallarafstaða til lífsins. Sem slík hefur hún afgerandi áhrif á viðhorf og sýn fólks á líf og samfélag. Hin ólíka sýn skapar átök. Víða er fólk ofsótt fyrir trú sína. Meirihlutahópar amast við minnihluta og í mörgum löndum er trú lífshættulegt fyrirbæri. Einkanlega er varasamt að trúa á það sem meirihlutanum er ekki þóknanlegt. Flestum okkar þykir furðulegt að fólk skuli fremur kjósa að deyja en að afneita trú sinni. Píslarvættið sýnir betur en nokkuð annað hvað trúin er heilög og mikilvæg þeim sem hana eiga. Þeir geta tekið undir orð Páls postula: "Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur."
Ein helsta breyting meðal okkar á Vesturlöndum hin síðari er minnkandi trúarhneigð. Yngra fólk hefur ekki áhuga á trúmálum og trúarþörf er víða þverrandi. Virðist þetta vera afleiðing aukinnar velsældar. Fólk sem lifir og hrærist í tæknisamfélögum þar sem nóg er af öllu trúir síður en fólk í fátækari löndum sem á í harðri lífsbaráttu við að komast af. Því meiri og harðari sem lífsbaráttan er því meiri verður trúarþörfin. Kristnin breiddist hratt út um Rómarveldið þrátt fyrir miklar ofsóknir og þaðan barst hún víðar um Evrópu. Oft kostaði það fórnir og blóð píslarvotta. Það má jafnvel segja að því meira afli sem var beitt til að bæla niður kristna trú, því hraðar breiddist hún út. Má vel halda fram að blóð píslarvottanna hafi verið eins og árstraumur er breiddi úr sér yfir allt og bar með sér trú á hinn krossfesta og upprisna Jesú Krist. Þannig jók blóð og barátta útbreiðslu kirkjunnar um Rómarveldið. Eins skelfilegt og það er þá er þetta staðreynd.
Hinn fyrsti hópur kristins fólks fékk sinn skerf af ofsóknum. Eitt rita Biblíunnar, Postulasagan, greinir frá upphafi kirkjustafs. Þar er sagt frá Stefáni píslarvotti. Hann var sá fyrsti sem lét lífið fyrir það að vera kristinn. Dagurinn í dag, annar jóladagur er honum helgaður og nefndur Stefánsdagur. Um hann er sagt að hann hafi verið fullur af trú og heilögum anda, náð og krafti og gert undur og tákn meðal fólksins. Múgæsing varð og tók fólkið til við að kasta að honum steinum og lauk hann þannig ævi sinni, grýttur til bana fyrir trú á Jesú Krist.
Fyrstu þrjár aldirnar eftir krossdauða Jesú urðu með reglulegu millibili ofsóknir á hendur kristnu fólki í Rómarveldi. Margir létu lífið í hinu mikla hringleikahúsi í Róm lýðnum til skemmtunar. Voru rifnir í sig af villidýrum eða brytjaðir niður í sviðsettum orrustum sem voru engin leikur. Margir urðu að flýja þangað sem skjól var og fóru fjöldamargir I felur í katakombunum, hinu mikla gangakerfi grafanna undir Róm.
Blóð kristinna píslarvotta hefur reyndar einnig runnið hér á Íslandi. Jón Þorsteinsson var prestur og sálmaskáld á Kirkjubæ í Vestmannaeyjum og var drepinn þann 17. júlí 1627 í Tyrkjaráninu, sem svo er nefnt. En þar voru ekki Tyrkir á ferð heldur sjóræningjar frá Alsír.
Séra Jón faldi sig ásamt með fólkinu sínu í helli niður við sjó, austan Kirkjubæjar. Sá staður fór undir hraun í gosinu 1973 og sömuleiðis gröf Jóns. Legsteini hans var þó bjargað áður en hraunið huldi þar allt. Í Íslenskum sagnaþáttum, 1. bindi, er sagt frá aftöku sr. Jóns píslarvotts. Séra Jón prédikaði fyrir sínu fólki í hellinum og hughreysti. Síðast las hann litaniuna, bænasöng prests og safnaðar. En þá fundu ránsmennirnir fólkið í hellinum. Í för með þeim var íslenskur maður, er Þorsteinn hét. Hafði hann verið vinnumaður séra Jóns en sinnast við hann. Sagt er að hann hafi mælt er hann kom í hellin : "Því ertu hér séra Jón? Skyldir þú nú ekki vera heima í kirkju þinni?" Prestur svaraði þá: "Ég hefi verið þar í morgun." Þá er mælt að Þorsteinn hafi sagt: "Þú skalt ekki vera þar á morgun." Kom þá að einn ránsmanna og hjó í höfuð séra Jóni. Breiddi þá sr. Jón út hendurnar og mælti: "Ég befala mig mínum guði, þú mátt gera það frekasta." Hjó ræninginn þá umsvifalaust annað högg, en séra Jón mælti: "Ég befala mig mínum herra Jesu Christo." Margrét kona hans skreið þá að fótum illvirkjans og greip um fót hans grátandi. En það kom ekki að gagni þvi hann hjó þriðja höggið og klauf höfuð séra Jóns. Lokaorð sr. Jóns urðu: "Það er nóg. Herra Jesú! Meðtak þú minn anda." Kona Jóns og börn voru tekin höndum og flutt í þrældóm í Barbaríinu en svo var heimahöfn ránsmanna nefnd.
Þrælahald virðist hafa fylgt mannkyni frá öndverðu. Það tíðkaðist á sögutíma Biblíunnar og allt fram á okkar daga. Við tengjum gjarnan þrælahald við bómullarekrur í Ameríku en því miður er það aðeins hluti þeirrar skelfingar sem þrælahald hefur haft í för með sér. Meðal fornþjóða voru þrælar. Hertekið fólk úr styjöldum hlaut gjarnan þau örlög. Norrænir menn er sigldu til Íslands sóttu sér þræla á Írlandi. Austurlenskir sjóræningjar eins og þeir er hingað komu á 17.du öld rændu fjölda sjófarenda frá Evrópu og seldur til Austurlanda. Oft var það fólk keypt til baka með lausnargjöldum.
Þrælahald í dag tíðkast víða. Það eru minnihlutahópar sem verða fyrir slíku og fátækir. Á Indlandi og víðar hafa börn verið seld í þrældóm. Fyrir nokkrum árum stóð Hjálparstarf kirkjunnar að miklu átaki til að safna fé til að kaupa þrælabörnum frelsi og koma þeim til mennta. Nýlega var sagt í fréttum frá jólakorti sem stórfyrirtæki hafði látið framleiða í Kína. Á einu korti fannst ákall fanga sem voru í nauðungarvinnu við að framleiða kortin. Báðu þeir um að mannréttindasamtök væru látin vita af þeim. Krafa okkar í neyslusamfélögum heimsins er stöðug um ódýrari vörur. Þeirri kröfu er helst mætt með þrælahaldi fólks í Asíu og Afríku. Sú staða kallar á stöðuga árvekni okkar sem neytenda og vörukaupenda að fylgjast með hvaðan vörur koma. Við verðum að leitast við að beina viðskiptum okkar til þeirra sem hafa viðskiptasiðferði í lagi og hlunnfara ekki framleiðendur eða ástunda einhverskonar þrælahald.
Eitt alvarlegast þrælahald samtímans er mansal það sem á sér stað innan kynlífsiðnaðar. Stúlkur og drengir eru tæld í ánauð þar sem þau selja aðgang að líkama sínum öðrum til ávinnings. Frá Austur Evrópu hafa ungar stúlkur leitað betra lífs í vesturhlutanum en oft hlotið ill örlög í höndum misyndismanna. Í Asíu og Afríku og raunar um heim allan er misnotkunin stöðug og viðhaldið af gróðafíkn glæpamanna er einskis svífast. Mansal er tengt eiturlyfjaneyslu en þar verða konur og karlar þrælar eigin neyslu og selja sig og eru seld öðrum eins og hver önnur vara. Það er ótrúleg illska og mannfyrirlitning sem felst í þessu öllu saman. En allt þrífst það vegna þess að einhver er svo galinn að vilja kaupa aðgang að annarri manneskju.
Fíkn er sjúkdómur og það þarf að veita meiri fjármunum til lækninga í okkar landi. Við eigum ekki að þurfa að búa við að íslensk börn og ungmenni séu þrælar eins eða neins. Ég hef trú á menntun og fræðslu. Ég veit að það er hægt að kenna gott siðferði. Það er hægt að kenna hvað sé rétt og rangt, hvað sé siðferðilega rétt og siðferðilega óásættanlegt. Það þarf að vera stöðugt siðferðilegt átak meðal okkar að við kaupum ekki aðgang að öðru fólki. - Við líðum ekki þrælahald.
Kristið fólk líður enn píslarvætti og sætir ofsóknum víða um heim. Kristnum er víða bannað að eiga og eignast Biblíur, koma saman til að iðka trú sína. Til að sjá sönnun þessa þarf aðeins að sjá fréttir samtímans eða að leita á netinu. Víða eru fréttir af trúarofsóknum. Á Íslandi teljumst við til umbyrðarlyndustu samfélaga heims. Það er jákvætt og stöðugt þarf að huga að réttindum fólks. Réttlátt samfélag og friðsælt er okkur öllum mikilvægt. Í þessu efni þarf þó að varast allar öfgar. Stundum getur krafa um einhverskonar trúarlegt hlutleysi leitt til undarlegra ákvarðana. Ég heyrði af grunnskóla sem var svo umhugað um “hlutleysi” skólans. Að þar var búið að banna að minnast fullveldisdagsins 1. desember og annarra viðlíka hátíða því í skólanum voru börn er vegna trúarskoðana halda ekki upp á afmæli eða hátíðir. Líka hátíðir sem hér hafa tíðkast og tengjast ekki trú á nokkurn hátt. Þá var brýnt fyrir börnum í skólanum að tala ekki opinberlega um afmæli eða bjóða í þau á skólatíma. Jólasöngvar og jólasögur lentu á bannlista sem og allt sem tengdist páskum. Skólinn átti að verða einhverskonar trúarlegt tómarúm eða eyland sem ósnortið væri af trúarlegum hefðum og veruleika. Auðvitað er þessi skólastefna öfgafull og í besta falli heimskuleg ef ekki bara skaðleg. Miklu nær er að leyfa sem mesta fræðslu um hvaðeina. Sannast oft hið fornkveðna “að best sé meðalhófið.”
Trú er veruleiki sem er hvarvetna í kringum okkur. Trú er mörgum jafn mikilvæg og fæða er okkur til að lifa. Því þarf að fræða um trú í skólum. Láta þar allt njóta sannmælis og fræða um þær skoðanir sem finnast í samfélögum heimsins. Boð og bönn færa okkur iðulega inn á hættulegar brautir. Þá er stutt í nasisma. fasisma eða alræði kommúnisma. Þá fara einhverjir að skilgreina góða trú og vonda trú, góða list og vonda, réttar skoðanir og rangar skoðanir o.s.fr.v. Stutt er þá oft í ofsóknirnar og píslarvættið þegar fólk sem ekki vill beygja sig fyrir ranglæti og kúgun missir líf sitt.
Mikið þætti okkur miður ef okkur væri bannað að borða vinsælasta jólamat Íslendinga hamborgarhrygg af því að það væri andstætt trú einhverra að neyta svínakjöts. Rjúpa mætti ekki heldur vera á borðum, lamb eða annað úr dýraríkinu því það samræmdis ekki lífssýn einhvers. Forsjárhyggja er böl sem hefur leitt af sér miklar hörmungar. Hún má ekki ríkja meðal okkur. Fræðsla og menntun eru lykilhugtök í að uppræta fordóma og efla skilning milli menningar, hópa og einstaklinga. Megi Guð gefa okkur umburðarlyndi og kærleika til að mæta öðru fólki af virðingu og skilningi. Megi jólahátíðin verða okkur tími jákvæðrar uppbyggingar í því sem gott er.Amen.