Prédikun flutt í sjónvarpi á aðfangadagskvöld 2021

Prédikun flutt í sjónvarpi á aðfangadagskvöld 2021

Hið heilaga kvöld, aðfangadagskvöld jóla árið 2021 er upp runnið. Fjölskyldur hafa komið saman og hin fullorðnu leggja sig fram um að skapa góðar minningar fyrir börnin.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
24. desember 2021
Flokkar

Prédikun flutt í sjónvarpi á aðfangadagskvöld 2021.  Míka 5:1-4a; Lúk. 2:1-14.

 

Við skulum biðja: 

 

Guð, þú sem varðst eins og við, lát okkur verða eins og þú.  Amen. 

 

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Krist.  Amen. 

 

Gleðilega hátíð 

 

Hið heilaga kvöld, aðfangadagskvöld jóla árið 2021 er upp runnið.  Fjölskyldur hafa komið saman og hin fullorðnu leggja sig fram um að skapa góðar minningar fyrir börnin.  Hefðir halda sér og þekkt er sagan af því þegar hækillinn er skorinn af lambalærinu áður en það fer í ofnpottinn.  Hvers vegna, jú vegna þess að mamma hafði þann háttinn á og mamma hennar og jafnvel mamma ömmu og þar með var þetta orðin hefð í fjölskyldunni að skera hækilinn af fyrir steikingu.  Þegar farið var að athuga málið nánar kom í ljós að hjá langömmu var ofnpotturinn of lítill fyrir lærið og því þurfti að finna ráð til að koma lærinu fyrir í pottinum. 

 

Þannig verða hefðir stundum til af hagkvæmnisástæðum en hefðir eru mikilvægar og algengar í sambandi við jólahald og matarvenjur um jól.  Þær ganga frá einni kynslóð til annarrar og mörgum þykir gott að hvíla í hefðunum sérstaklega um jólin. 

 

Um víða veröld heldur kristið fólk helga jólahátíð.  Hverfa frá vana hversdagsins, njóta samvista ástvina og hugsa um líf okkar.  Á þessu helga kvöldi viljum við helst af öllu leggja vandamálin til hliðar um stund og finna hvað það er sem mestu máli skiptir, gerir okkur sæl og lætur okkur líða vel.  Jólin minna okkur á að Guð kom í heiminn í barninu Jesú.   Kom til jarðarinnar sem einn af okkur, maður meðal manna, Guð og maður í senn. 

 

Hann kom ekki í heiminn í stórri höll eða hátæknisjúkrahúsi heldur í gripahúsi en væntanlega hefur einhver móðir ljóssins verið Maríu til aðstoðar við fæðinguna og rétt henni barnið litla áður en hún vafði það reifum. 

 

Frá hinu smáa kemur hið stóra og mikla.  Af því sem við teljum lítið og áhrifalaust getur sprottið eitthvað mikið með mikil áhrif og miklar afleiðingar.  Við þekkjum vel hvernig eldgos á Íslandi getur haft afleiðingar fyrir flugsamgöngur í Evrópu og jafnvel víðar um heim.  Við þekkjum hvernig bráðnun jöklanna á eyjunni okkar litlu norður í höfum hefur áhrif á sjávarstöðu sunnar á hnettinum.  Við þekkjum hvernig lítil ósýnileg veira olli heimsfaraldri.  Við þekkjum hvernig fæðing drengsins hennar Maríu markar upphaf tímatals okkar og hvernig líf hans, dauði og upprisa hafa mótað líf milljarða manna. 

 

Náttúran hefur sinn takt og eldgos verða hér á landi sem og annars staðar þar sem þannig háttar til.  Vísindamenn okkar vita margt um eldfjöllin en samt svo lítið um nákvæma hegðun þeirra þegar þau gjósa. 

 

Vísindamenn vita líka margt um veiruna sem veldur covid 19 sjúkdómnum en samt svo lítið um nákvæma hegðun hennar þegar hún stökkbreytir sér trekk í trekk.  Svo sannarlega komu engin himnesk boð um þennan gest sem bauð sér sjálfur í líkama manna fyrir nærri tveimur árum.  Veiran er af þessum heimi og er í þessum heimi og vera hennar og þær afleiðingar sem hún hefur haft eru svo sannarlega ekki í anda þeirra himnesku boða sem hátíð ljóss og friðar byggist á. 

 

Þegar frásaga Lúkasar læknis og guðspjallamanns er skoðuð finnast margar tengingar við þann jarðveg sem sögur guðspjallanna byggjast á.  Við heyrðum áðan lesið úr bók Míka spámanns þar sem hann segir:  “En þú, Betlehem Efrata, ein minnsta ættborgin í Júda, frá þér læt ég þann koma er drottna skal í Ísrael.“ Margir fræðimenn hafa velt fyrir sér hvers vegna María hafi þurft að ferðast til Betlehem frá Nasaret kasólétt til að láta skrá nafnið sitt í skattbók Ágústusar keisara því ekki var ætt hennar þaðan.  Það var hins vegar Jósef sem átti ættir sínar að rekja þangað.  En auðvitað fann Guð leið til þess að spádómur Míka rættist.  Þess vegna fæddist Jesús í Betlehem en ekki í heimabæ sínum Nasaret. 

 

Hann fæddist í gripahúsi, fjárhúsi segjum við gjarnan.  Niðurlægingin var algjör fyrir hina ungu frumbyrju.  Sonur hennar samsamaði sig frá upphafi þeim fátæku og smáu og varnarlausum dýrunum sem eiga allt undir því komið að vel sé farið með þau af mönnunum.  Í kristinni trú er lögð áhersla á það að vel sé farið með dýr því kærleikurinn á að ná til alls þess sem skapað er, dýra, manna og gróðurs jarðar. 

 

Það fór ekki mikið fyrir gestrisninni þegar barnið hennar Maríu fæddist.  Ekki var laust pláss í gistihúsinu eins og textinn segir og spurning hvort svo sé enn í dag.  Gistihús dagsins í dag er ekki af mönnum byggt þegar barnið knýr dyra og beiðist inngöngu.  Gistihúsið er hjarta okkar hvers og eins.  Í ritum Biblíunnar er hjartað   aðsetur sálarlífsins, bæði hugsunar, skilnings og tilfinninga. 

 

Hjartahúsin okkar sem við veljum hvort við opnum, opnum við ekki aðeins fyrir trúnni heldur einnig fyrir hverjum þeim sem á knýr eins og fram kemur í hinni helgu bók.

Fyrstu tíðindi þess fagnaðarerindis að barnið væri fætt í Betlehem komu ekki frá þessum heimi, heldur af himnum ofan.  Engill Drottins birtist með þessi himnesku boð.  Hann áræddi ekki að færa boðin fyrst til þess mannfjölda sem í Betlehem dvaldist heldur fann hann nokkra hirða sem vöktu yfir hjörð sinni og vernduðu hana fyrir rándýrum og öðrum hættum.  Aftur erum við minnt á mikilvægi þess að vernda dýrin og fara vel með þau.  Hirðarnir tilheyrðu ekki tiginni stétt eða valdastétt en engillinn trúði þeim fyrstum manna fyrir fagnaðarerindinu.  Það er líka eftirtektarvert að þegar engillinn sá hvað hirðarnir urðu hræddir við komu hans bað hann þá um að láta af ótta sínum áður en hann tilkynnti þeim hin miklu tíðindi, fagnaðarerindið um fæðingu frelsarans.   Flutti þeim boðskapinn um persónulegan frelsara.  Og strax í þessari fyrstu guðsþjónustu þessa fámenna safnaðar á Betlehemsvöllum er Guði sungið lof og dýrð eins og í guðsþjónustum dagsins í dag.  Í hverri guðsþjónustu nema á páskaföstu og jólaföstu er dýrðarsöngurinn sunginn. „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörður og velþóknun Guðs yfir mönnum.“  Dýrðarsöngurinn var ekki ókunnugur samtíðarmönnum Jesú því hann var sunginn í musteri Salómons.

 

Það sem er á sér grundvöll í því sem var og nútíminn er grundvöllur þess sem verður.  Þannig heldur sagan áfram kynslóð eftir kynslóð.  Jólin eru hátíð þar sem kynslóðirnar koma saman, allt frá smábörnum til hinna öldruðu.  Þar sem hver fjölskylda heldur í sínar hefðir og gerir ráð fyrir að hittast heil og fagna samvistunum.  Ef til vill vantar einhvern í ár sem horfinn er og saknað eða er fjarverandi af einhverjum ástæðum.  Þess vegna eru jólin líka tími saknaðar og sársauka fyrir suma þó gleðileg eigi að vera.  Við erum stödd á mismunandi stöðum í lífinu.  „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ sagði hinn nýfæddi Jesús síðar þegar hann ræddi við lærisveina sína. 

 

Á þeim vegi býðst okkur að ganga lífsins leið og getum gert þegar við höfum opnað hjarta okkar fyrir honum sem fæddist í Betlehem og er frelsari okkar og leiðtogi. 

 

Skilaboð engilsins eru ætluð öllum þeim sem heyra og hlusta, hvar sem við fæðumst og hvar sem við búum.  Skilaboðin um þann sem frelsar okkur frá villu og byrðum þessa heims til friðar og jafnvægis í lífi okkar.  Skilaboðin um frið á jörðu sem okkur ber að vinna að sleitulaust enda ekki vanþörf á.  Þá mun „sú þjóð, sem í myrkri gengur“ sjá „mikið ljós“.  „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn“ eins og Jesaja spámaður sagði mörgum öldum fyrir fæðingu drengsins hennar Maríu. 

 

Fyrir það skulum við vera þakklát og þakklætið brýst fram í lofgjörð til Guðs sem við tjáum í öllum fallegu jólasálmunum sem við heyrum og syngjum.  „Gloria in excelsis Deo“  Dýrð sé Guði í upphæðum.  Gleðilega hátíð, í Jesú nafni.  Amen.