Trú og kreppa, efnishyggja

Trú og kreppa, efnishyggja

Mér er illa við hvernig öfl í samfélaginu misbeita hugtökum eins og jöfnuður og réttlæti og reyna að beita sér gegn trú. Því miður eru þau að verða háværari. Ég óttast ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Ég óttast hinsvegar boðskap sem talar gegn trú.
fullname - andlitsmynd Vigfús Bjarni Albertsson
19. október 2010

Það sagði við mig útrásarvíkingur einu sinni, reiður: ”Það er ekki til neitt algilt réttlæti, sættu þig við það.” Þannig endaði okkar jafningjatal á förnum vegi. Hvorugur var í vinnunni.

Það er stundum sagt að þegar þrengir að fólk efnahagslega leiti fólk meira í trú, leiti meira inn á við. Það eru mörg dæmi um slíkt, hinsvegar gerist líka að fólk leitar að efnislegum töfralausnum. Kreppur hafa búið til öfganna í mannkynssögunni og oft eru þær afleiðingar öfga, öfganna sem drápu milljónir, tilgangurinn helgaði jú meðalið. Þessar hægri og vinstri öfgar hafa sjaldan hrifist af kristnum boðskap. Hægri öfginn hefur talað um veiklyndan boðskap og sá vinstri um ópíum.

Í góðæri hallast fleiri að frjálshyggjuhugmyndum, einstaklingur verður megnugur alls. Adam Smith útskýrir í 18. aldar riti sínu hvernig kapítalisminn muni verða drifkraftur alls, einstaklingurinn og löngun hans til að eignast er afl allra hluta. Við erum ekki eins jákvæð þessa dagana gagnvart hugmyndum Skotans Smith. Hægri efnishyggjan hræðir okkur. Blind trú á einstaklinginn og getu hans. Við erum búin að sjá og vitum hvernig fór. Uppgjörið hefur því miður talað of mikið um reglur og skort á reglum. Það vantar enn að fólk játi hina blindu trú á efnisleg gæði og gagnrýnisleysi á þau gildi. Það mátti allt og auðurinn var tilgangurinn. Ég held að það sé ekki enn búið að gera upp þann tilvistarlega ótta sem var drifkraftur í þessari græðgi. Er það ekki hinn óttaslegni sem allt þarf að eiga? Var það eitthvað fleira sem gekk kaupum og sölum en hlutabréf, hvernig var manngildinu háttað?

Ég óttast núna aðra efnishyggju, hún er ekkert skárri þótt hún boði félagslegan jöfnuð. Þessari efnishyggju sem ég óttast að eigi meira upp á pallborðið en áður er illa við trú, ekki bara kirkju. Það er vinstri efnishyggjan og hún er ekki betri en hægri efnishyggjan. Það er misskilningur. Mér er illa við hvernig öfl í samfélaginu misbeita hugtökum eins og jöfnuður og réttlæti og reyna að beita sér gegn trú. Því miður eru þau að verða háværari. Ég óttast ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Ég óttast hinsvegar boðskap sem talar gegn trú. Því miður blandast þessi umræða saman þessa dagana. Að fjarlægja siðinn úr samfélaginu mun ekki leiða neitt gott af sér. 1. Mig skortir þá skynsemi að það sé eitthvað framfaraskref að þingheimur taki ekki þátt í messu. Mér finnst það dapurlegt að ráðherrar og þingmenn hlusti á ræður um siðlegt efni í nafni viðsýni og það kynnt þannig. Að mikilvægt sé að aðskilja trú og ríki í nafni jafnréttis. Slíkir gjörningar eru alltaf varðir með hugtökunum réttlæti og jafnrétti. Örfáir þingmenn að hlusta á heimspeki mun ekki breyta neinu. Vonandi höfðu þeir gagn og gaman af. Ég bara vona að þeir hafi ekki haldið að þeir væru víðsýnni en þeir sem fóru í kirkjuna. Er ekki alveg hægt að snúa rökum þeirra á hvolf og spyrja hvort heimspeki og ríki fari saman? Ég er ekki hlynntur slíku tali enda útúrsnúningur. Mér finnst bara ekki gott hvernig trúfrelsið er stundum notað og stundum jafnvel gegn frelsi.

2: Mér var sagt að á leikskóla þar sem ég þarf að nota þjónustu væri ekki lengur farið í kirkjuheimsókn fyrir jól. Það var útskýrt fyrir mér með hugtökunum jafnrétti og réttlæti. Ég átti erfitt með slík rök. Sunnudagaskólinn í hverfinu er vel sóttur svo ég óttast ekki þessa þróun þó mér finnist hún neikvæð. Hver eru rökin að það sé jákvætt að ekki farið sé í heimsókn í kirkjuna. Lýst var angist barna sem ekki máttu fara en allir aðrir fóru. Því vega þessar lífsskoðanir svona miklu hærra en lífsskoðun meirihlutans? Hvers eiga börnin að gjalda? Hversvegna er lífsskoðun trúleysis svona gríðarlega mikilvæg að hún líkist Guðsmynd bókstafstrúar?

3: Of oft hef ég líka heyrt undanfarið talað niðrandi um fagþekkingu starfsfólk kirkju. Því hefur jafnvel verið stillt upp sem andstæðingum fagmennsku. Hér held ég að sé mesta hættan en um leið mesta tækifærið fyrir okkur.

Ég trúi því að við sem kirkja getum algjörlega ráðið hvernig fer með umræðuna trú og þjóð. Aðskilnaður eða ekki aðskilnaður. Versta leiðin væri ef veldum að líta ekki í eigin barm í okkar málum. Það væri sorglegt ef við myndum birtast fólki ófaglega og með litla getu til að líta í eigin barm og að vinna að málum. Það er andlegur þorsti til staðar í samfélaginu. Fólk hefur ekki enn hætt að fæðast og deyja, tilvistarspurningunum hefur ekkert fækkað. Þörfin fyrir samfylgd hefur ekkert horfið og mun aldrei hverfa. Stóra verkefnið er og hefur alltaf verið að mæta fólki. Núna á þessum tímum eigum við að sækja fram, ekki af ákafa heldur af fagmennsku og metnaði. Við eigum að sýna getu til opinna samskipta, eigum að gera tungumálið okkar skiljanlegt, eigum að sýna og skapa vettvang til að hlusta og skilja. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að auka menntun og skilning starfsmanna kirkjunnar á reynsluheim fólks. Það er mikilvægt að auka getu okkar til að mæta einstaklingum. Ég er ekki að segja að við gerum ekki vel en við getum alltaf gert betur. Það er stórt verkefni en algjörlega nauðsynlegt. Ekkert mun stuðla betur að einingu trúar og þjóðar. Það er svo góð tíðindi að ef við ræktum fagmennsku okkar munum við eiga fullan aðgang að fólki óháð einhverjum girðingum efnishyggjunnar.

Ég og útrásarvíkingurinn verðum aldrei sammála. Það er í góðu lagi. Í samtalinu gaf ég ekki eftir grundvallargildi mín, ég var ákveðinn en ég reyndi líka að stuðla að opnu samtali þannig að ég gæti skilið hugrenningar hans, ég var ekki hræddur því ég hafði ekkert að óttast. Ég þurfti ekki að móðga hann eða sýna honum fram á að ég vissi betur, þá hefði ég verið hræddur. Ég þurfti ekki að vinna hann því það verður aldrei leið til iðrunar fyrir mig eða hann. Ég ætla að ganga fram, vonandi upplýstur af hugrekki frelsara míns. Einstaklings Mammon eða félagslegi Mammon skilja alltaf eftir sig rústir. Það er ekki mín skoðun, það eru staðreyndir mannkynssögunnar.