Jón & Jesús: Beðið eftir þjóðmenningu

Jón & Jesús: Beðið eftir þjóðmenningu

Fagnaðarerindi dagsins er um túlkun á menningararfi, þjóð-menningu, sið og inntaki gilda í menningu ákveðins lands á ákveðnum tíma. Síðan þá hefur sá siður og þessi túlkun sem Kristur býður okkur upp á, átt sér stað í menningu heimsins, fyrst hinum vestræna, eftir því sem kristindómurinn breiddist út.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum skapara, þeim sem vakir í fjöllum og fossum á þessum heilaga stað; frá syninum Jesú Kristi, frelsara vorum, hinum upprisna og heilögum anda, sem þeir ríkja í sameinaðir og okkur til blessunar, söfnuðinum sem hingað er saman kominn á hátíðisdegi.

Ég bið um einingu og bið um frið, um dáð og dyggð og drauma sem geta ræzt, um kjark og þor og visku. Og að við getum skilið hvað bænin er, að við getum beðið án þess að biðja um eitthvað.

Að við kunnum að bíða, á réttan hátt og þekkjum mörk þess vilja sem er okkar og vilja Guðs. Okkur er öllum ætlað hlutverk og hlutskipti og við bregðumst öll á mismunandi hátt við þessari tilætlunarsemi sköpunarinnar, að við sættum okkur við örlög okkar og hlutverk. Að sumir draumar eru byggðir á sandi en aðrir, kannski ekki endilega á hugsjón, heldur bjargi sem í er falið kynngimagn réttlætis, sanngirni, hugdirfsku. Hinn hátíðlegi dagur sem við njótum hér saman er þessu fólgin. Hann er ekki bara djúpstæður þáttur í sögu þjóðar, þjóðmenningunni, heldur hverfipunktur, tileinkaður hverfipunkti í íslensku menningarsögunni.

Lyftum hugum okkar af því tilefni, leggjum af illdeilur og ágreining. Fögnum.

Fagnaðarerindi dagsins er um túlkun á menningararfi, þjóð-menningu, sið og inntaki gilda í menningu ákveðins lands á ákveðnum tíma. Síðan þá hefur sá siður og þessi túlkun sem Kristur býður okkur upp á, átt sér stað í menningu heimsins, fyrst hinum vestræna, eftir því sem kristindómurinn breiddist út, og í framhaldinu, enn þann dag í dag, út um allan heiminn. Jesús býður okkur í dag og segir: “Menningararf okkar og sögu – lögmálið og spámennina – má túlka í þennan kjarna: Komdu fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig.” Þarna er um einfalt siðboð að ræða, boðskap sem er heimspekilegur og alls ekki sérkristinn; því þarna er á ferð einfalda útgáfan, ef svo má kalla.

Tvöfalda kærleiksboðorðið tekur dýpra í árinni og má túlkast sem sérkristnara, hlaðið sínum gyðinglegu og austrænu manngildis áhrifum þar sem segir: Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllum huga þínum, hjarta, sálu þinni og vilja þínum, og náungann - eins og sjálfan þig.

Fagnaðarerindi dagsins fjallar þó ekki sérstaklega um þennan siðaboðskap heldur er hvatning og brýning um það, hvers við megum vænta: ef við erum trú, hvernig okkur verður launað, ef við erum heil, Að við uppskerum eins og við sáum. Biðjið og yður mun gefast. Knýið á og fyrir ykkur mun upp lokið verða. Minnið á ykkur, og ykkar verður minnst. - Í einhverjum samtíma og margs konar túlkun gæti sá sem meðtekur þennan boðskap misskilið hann hrapalega, og þannig hefur ímynd föðurins á himnum sem gefur góðar gjafir ef hann er um það beðinn verið skilin: Að Guð sé góður og gefi ekki höggorm þegar beðið er um fisk. Í þessu virðist það liggja að maður fái það sem maður biður um! Ef maður er góður. Og í hlutarins eðli liggur þá, að fái maður það ekki þá hafi maður ekki verið nógu góður. Þarna liggur lögmálið og spámennirnir.

Hversu oft höfum við ekki knúið á, sem manneskjur – sem þjóð – sem samfélag, án þess að upp sé lokið dyrunum að farsæld og vegferð. Hvað er að knýja á, og hvað er að biðja? Hvað er að kalla til Guðs – og hvernig er að kalla veruleika Guðdómsins yfir sig? OG þjóðmenning, hvernig köllum við hana fram, hvernig höfum við hana í hávegum?

Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skulið þér og þeim gjöra. Biblían er uppspretta margra merkilegra nálgana og hefur verið drifkraftur þjóðfélagslegrar baráttu fyrir réttlæti og jöfnuði sem og reglugerðarverk íhaldssamrar menningar og útilokandi, verkfæri kúgunarvalds og refsivöndur, sem og múrbrjótur mestu hafta. Það ber því margs að minnast þegar við túlkum hana; veldur sá sem á heldur – venjur og siðir spretta ekki uppúr tómarúmi, heldur taktföstum framgangi lífsins. Hefðin er ávöxtur hagnýtisins, ekki hentugleikans, hún lýtur ekki hentistefnu stjórnvalda og sagnfræðin ekki heldur: Sagan er eins og sagan er og þegar blásið er í lúðra og boðuð þjóðmenning þá verðum við að hafa varann á, rétt eins og þegar Bíblían er keyrð á loft. Að túlka lögmálið og spámennina í einn kjarna, kjarna sem stenst skoðun, er verkefni okkar sem látum okkur samtímann varða, þegar “þjóðmenning og þjóðararfur Íslendinga” skal túlkaður, með slíkri áherslu jafnvel að manni líður eins og hin svokallaða þjóðmenning hafi legið í láginni og hljóti að hafa gleymst, fyrst það á allt í einu að hefja hana til vegs og virðingar “á ný” ... Hún hefur ekki gleymst.

Hún er ný. Hún er ung og djörf og fersk og margbreytileg.

Hún er íslensk. Hún virðir gildi – og þessvegna fæðir hún líka af sér nýja siði.

Hvað er menning annað en afurðir samfélags, táknmynd andlegrar starfsemi þess, hugmynda og gilda? Hvað er kristin menning, og hver voru áhrif hennar á Íslendinga í gegnum árhundruðin, og að sama skapi hver voru áhrif danskrar menningar, hver eru áhrif lúterskrar menningar? Þegar við stöndum skyndilega frammi fyrir þessu erfiða orði, dettur okkur þá í hug að til sé menning sem sé séríslensk og því íslensk þjóðmenning? Íslendingar eiga sér sérstaka sögu, sérstaka arfleifð og sögupersónur en það er erfitt að greina íslenska menningu sem sérstakt mengi óháð annarri menningu.

Þjóðfrelsisbarátta Íslendinga hófst ekki með Jóni Sigurðssyni og hún endaði ekki með fullnaðarsigri hans. Kveikurinn að einhverjum þætti sem okkur stendur efst í huga þegar við minnumst Jóns, þjóðfundinum, og kröfugerðinni sem þar var sett fram var pólítískt umrót og ástand í heiminum; kveikurinn var jú menntastéttin á Íslandi sem skiptist í tvö horn með og á móti dönskum áhrifum en það var presturinn Ólafur á Stað sem sendi Jóni í bréfi vorið 1848, þegar þeldökkir íbúar Karíbaeyjarinnar St. Croix gerðu uppreisn gegn dönskum yfirvöldum, hvatningu þess efnis að nú ættu Íslendingar kannski lag. Að krefjast sjálstæðis, frelsis, sjálfsvirðingar.

Á uppgangur Jóns og íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu rót í frelsisbaráttu svertingja á 19.öld ? ! – gæti nú einhver spurt – og annar gæti sagt að nú færi prédikarinn út fyrir efnið, og siðgæðismörkin: Jón Sigurðsson sé sjálfsköpuð ofurhetja Íslandssögunnar, rétt eins og Jesú Kristur sé sjálfsprottinn úr tóminu, gersigrandi aflgjafi og orsök kristinnar menningar, kjarni hins vestræna hugsunarháttar sem fremstur er á meðal samfélaga heimsmenningarinnar. Jón Sigurðsson sé kjarni íslenskrar sjálfsvitundar. Með öðrum orðum: Ein gáskafull túlkun sem varpar öðru ljósi á viðteknar staðreyndir getur kallað fram viðbrögð einhlítrar skoðunnar, einfaldaðrar myndar; stundum heyra menn ekki þegar öðru er haldið fram en því sem þeir sjálfir vita. Og dæma. Og dæma. Eins og þeir dæmdu Krist.

Hvað væri Jesú Kristur ef ekki hefði verið fyrir upprisuna? Aðeins enn einn guðlastarinn? Maður á mörkum tveggja heima sem túlkaði ritninguna upp á nýtt?

Og hver væri Jón Sigurðsson og arfur hans í íslenskri þjóðmenningu ef ekki væri fyrir sjálfstæði Íslendinga? Danskur erindreki í fjárkláðamálinu? Menningarviti í Kaupmannahöfn sem reyndi að þröngva evrópskum stöðlum uppá Íslands lýð? – Nei, það er nú ekki svo og þegar, áður en heimastjórn fékkst til landsins og fullveldi og lýðveldi þá var Jón Sigurðsson viðmið, gildi í sjálfum sér eins og sjá má í uppfræðsluriti Ólafs Ólafssonar prests í Arnarbæli þar sem segir:

Vestur í Arnarfirði stóðu árið 1811 tvær vöggur; í hvorri vöggunni fyrir sig lá drengur í reifum. Úr annarri kom þjóðmæringurinn Jón Sigurðsson, en úr hinni óbreyttur bóndi sem tók engum fram í neinu. – Ólafur tekur það nú ekki fram, en eins var í Betlehem. Og hvað vitum við um upplagið og uppeldið, og örlögin, og hvað vitum við um það sem gerir okkur sjálf að okkur sjálfum? Er það einstaklingseðlið? Trúin? Trúleysið kannski?

Hvernig getum við borið þessa tvo menn saman, íkon hvoran um sig, Jesús og Jón? Er sá samanburður ekki óþarfur per se: en um leið áhugaverður að því leyti að við sjáum gegn heilt vald sannfæringar. Þeir trúa því sem þeir segja. Það er hreinskiptni sem gildir, að hafa vald á hugsun sinni og hömlur á gagnrýninni, láta hana ekki brjótast út í reiði. Þá er heldur á mann hlustað. Uppeldisrit Ólafs, Foreldrar og börn frá 1894 er fjársjóður þegar kemur að því að skilja hugmyndaheim aldamótakynslóðarinnar. Við getum ekki skilið hvað það er sem þá felst í orðunum að fylgja Kristi. Það þarf ekki að útlista uppeldisfræðin, kosti ákveðinna reglna og hrópandi ósamræmi annarra (reglna) við samtímann til að ritið njóti sannmælis; það þarf bara að draga fram dæmi sem minna okkur á að láta ekki blekkjast þegar vísanir stjórnmálamanna til gullaldar íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu fara að hljóma, því tímarnir eru nýjir. Við getum ekki af þvermóðsku tekið upp bók Ólafs og fylgt reglum eins og þessari um það hvað sé algjörlega ólíðandi: “Hvað vér megum aldregi hlusta á, að sé hallmælt eða borið lastmælum í návist vorri. Það er: foreldrar vorir, trúarbrögð vor og ættjörð.” Það er því miður bara ekki hægt. Því gildi okkar hafa fætt af sér nýja siði. Og það er í lúterskum anda.

Við lifum í samfélagi sem er ungt í sjálfu sér en á sér þó sérkenni eins og friðsæld og sköpunarkraft og leitar jafnvægis á milli margra póla fjölmenningar. Samfélagið sem var fyrir 120 árum, 80 árum og jafnvel 60, var hið gamla samfélag og hefðbundna, sem var að ganga sér til húðar, og er ekki sjálfkrafa dæmi um “þjóðmenningu”.

Og höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg: Upp þúsund ára þjóð með þúsund ára ljóð?

Er enn til staðar hugmyndin um hjálpsemina; um að við stefnum enn að einhverju leyti sameinuð, að settu marki? Sem þjóð? Hvers vegna glymja bjöllur menntastéttarinnar og þjóðfélagsrýna samtímans þegar forsætisráðherra landsins kallar á dyggðir og dáð, og þor og kjark og þjóðmenningu? Haldiði að það sé því:

Boðskapur frelsarans Jesú Krists var ekki afmarkaður við landamæri og þjóðir, ekki í eðli sínu, og postulinn Páll vissi það í hjarta sínu gerði Krist að ástmögri alþýðunnar. Þeir voru gyðingar.

Þeir vissu að Guð Ísraels var samur og einn, handan hinnar stríðandi mannlegu myndar sem birtist í gamla testamentinu; Guð er Guð sköpunarinnar, viskan á bak við allt og hann er afstaða kærleikans, gegnumlýstur sannleikur, og þú ert ljós af hans ljósi. Dyggðirnar sem nú dynja á okkur – í orði – eru ekki neinar séríslenskar dyggðir, ef þið hélduð það: Dyggðin að borða slátur eða dyggðin að ganga í lopapeysu.

Þegar barnið er upp alið þá á það að vera sjálf fært, og það á að hafa það veganesti að vera heiðarlegt og skynsamt og gott foreldri sínum börnum. Að gefa börnum sínum góðar gjafir, það er listin, og það er fína línan, og í henni felst að hafa verið góð fyrirmynd – og að kunna að sleppa hendinni. Treysta. Og þannig er Guð, hann hefur sleppt af okkur hendinni, og hann treystir okkur sjálfum til að finna útúr því hvað þetta er, þessi þjóðmenning. Guði skapara og frelsara er nokk sama þó við fíflumst sem sæhetjur og víkingar og miklum okkur af strandhöggum, morðum og skáldmálum, það er fallvalt og enginn trúir á það. En fórnfús, hjálpsöm og trygg vill hann að við séum, svo við sjáum eininguna, samheldnina, tengingarnar.

Ef það er okkar, hvers og eins að lifa eftir fordæmi Krists, þá er það og okkar að eiga kjark, visku og þor til að túlka þjóðmenningu okkar og arf. Við eigum ekki að standa í því einu að þrátta um hvað aðrir segja þjóðmenningu eða íslenskt, við eigum að halda því á lofti sem okkur finnst þess vert í sögu og menningu þjóðarinnar að sé til eftirbreytni. Hvað gerir okkur Íslendinga íslensk? Hvað gerir þjóðbúning þjóðlegan?

Hvað gerir kirkju að þjóðkirkju?

Gagnrýnin á að vera til gagns en ekki niðurrifs.

Ég leyfi mér að ímynda mér að þannig hafi verið tekist málefnalega á um hlutina á gullöld þjóðfrelsisbaráttunnar. Menn rifu ekki niður af einni saman öfundinni, heldur lögðu þeir til um leið aðra lausn málsins sem mótmælt var. Og það er þjóðmenning, málefnaleg umræða. En hún getur tekið tíma. Tímum við því? Má bíða eftir framförum í ungmennafélaginu? Ég elska ungmennafélögin og verkalýðsfélögin og sóknarnefndirnar og ímynd hins þroskaða þjóðlífs í sveit, en ég veit ekki hvort ég sakna í raun nokkurs frá gullöld þjóðfrelsisbaráttunnar, eins langt og sú hugmynd nær. Nema ræðutíma prestanna auðvitað, það var almennilegt, það var þjóðmenning!

Og jú hugsjónarinnar um einingu íslensku þjóðarinnar í því baráttumáli sem uppi var, sú hugsjón yfirskyggði karp um hvað ætti heima hvar. Hver væri vinur hvers. Hvern mætti eða ætti að koma fram við eins og hann ætti virðingu skilið. Það var “maxím” – æðst gildi að við hjálpuðumst öll að á réttri braut.

Til frelsis, til sjálfsvirðingar.

OG hvað segir Kristur mér þegar ég bið hann um frelsi og sjálfsvirðingu?

Fylgdu mér. Auðmýktu sjálfan þig og deyðu hinum gamla manni. Rístu upp.

Ekki í hroka.

Ekki í eigin vilja. Ekki í lögspeki um túlkun á ritningu og venju.

Vittu að í mér, segir Kristur, þar fyrst færðu orðið þú sjálfur, ekki aðeins sá sem aðrir vilja að þú sért eða sá sem þú ert í augum annarra. Þú færð að vera sá sem þú ert – frammi fyrir augliti Guðs.

Gangtu veginn. Sannleikans og lífsins.

Biddu þinnar bænar, í auðmýkt og í hljóði. Hinnar sönnu bænar.

“Leyfðu mér að fylgja þér.”

Guðspjall: Mt. 7 7-12. Prédikun flutt að Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní 2013 af tilefni Þjóðhátíðardagsins. Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir þjónaði fyrir altari, kór Þingeyrarkirkju söng.