Mannssonurinn

Mannssonurinn

Mannssonurinn táknar einfaldlega þann sem tilheyrir mannkyninu – mannsbarn. Þegar Jesús notaði hugtakið hafði það líkast til nokkuð formlegan eða jafnvel hátíðlegan tón, En þau voru ekki mörg sem skyldu til fulls það að baki þessu orði hjá Jesú var leyndardómsfullur messíasartitill. Jesús vísar til sjálfs síns sem Mannssonarins í þriðju persónu svo að þeir sem heyrðu þurfti jafnvel að spyrja: "Hver er þessi Mannssonur?"

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.


Hvað þjálfarinn segir við leikmenn sína í búningsklefanum fyrir leik vitum við ekki nákvæmlega en við förum þó sennilega oft nokkuð nærri sannleikanum því við vitum út á hvað leikurinn gengur sem er að hefjast. Líklegt er að orð þjálfarans fjalli um að standa saman. Að allir í liðinu séu jafn mikilvægir. Að leikurinn verði erfiður og mótlætið megi ekki trufla og að allir verði nú að gera sitt besta. Jesús gerði eitthvað svipað og góður þjálfari gerir þegar hann tók lærisveinana “til sín” eins og segir í guðspjalli dagsins. Það voru erfiðir tímar í nánd fyrir lærisveinana og meistara þeirra. Tap og erfiðleikar framundan en líka möguleikar á stórum sigrum eftir tapið – krossfestinguna. Krossdauði Jesú yrði ekki ósigur eins og lærisveinarnir gætu heldið heldur byrjun á nýrri sigurgöngu. Jesús "þéttir hópinn" og byggir hann upp til að standa saman.


Í lífi okkar er oft þörf fyrir samstöðu og að við þéttum okkar raðir líkt og þjálfarar gera og Jesú gerði löngu áður en helstu kappleikir nútímans urðu til. Það er þörf á samstöðu víða. Að sveitin okkar, þorpið og bærinn standi saman. Líka vinnustaðurinn okkar og að maður tali nú ekki um vinahóp okkar og fjölskyldu. Samstaða er ákjósanleg því hún kemur svo mörgu góðu til leiðar.


Leið Jesú og lærisveinanna liggur til Jerúsalem. Þar munu senn miklir atburðir verða því þar var stóri þjóðarleikvangurinn. Hátíð páskanna var stundin þar sem hinn mikli atburður dauða og upprisu myndi eiga sér stað. Þetta vissi Jesú. Hann þekkti örlög sín og að hann væri leið inn á “stóra völlinn.” Ekkert yrði þar umflúið og engu yrði breytt í þeirri hjálpræðisáætlun sem honum var ætluð. Leikurinn myndi fara fram. Hann var á leið til Jerúsalem til að vera svikinn, pyntaður og hæddur og síðan að lokum líflátinn. Hann þekkti leiðina að krossinum á Golgatahæð þar sem lífi hans myndi ljúka. Hann þekkti svikinn, plottið og dóminn sem hann fengi. En Jesús sá líka lengra en þetta.


Lærisveinarnir þekktu ekki örlögin. Þeim var leiðin ókunnug og leikurinn óþekktur. Þeir voru eins og við, - óvitandi um um framtíðina og hvað hún muni færa. En eins og við og fólk á öllum tímum þá voru þeir ferðalangar á leiðinni á vit sinna örlaga og skapadægurs. Við þekkjum auðvitað sögu okkar og atburði sem eru fortíð okkar. Margt er þar gott vonandi og góðar minningar um atburði og fólk. En sumt er slæmt og jafnvel óendanlega sárt. Stundum svo sárt að það særir enn í dag og við viljum helst ekki muna það.


Áföll og erfiðleikar setja oft mark sitt á okkur. En framtíðin er óráðin og þó fer það oft svo að allt sem við höfum séð og reynt mótar val okkur í núinu. Oft veljum við vitlausa leið af því að eitthvað úr fyrri reynslu teymir okkur þangað. Iðulega jafnvel gegn betri vitund. Stundum er okkur um megn að gera það sem er gott af því að við vorum særð og erum enn reið yfir gömlum hlutum. Jesús var ekki svona. Hann vissi að erfiða leiðin beið hans og hann reyndi ekki að víkja frá henni. Hann mætti ásamt lærisveinunum til að “spila” úrslitaleikinn.


Því hafði verið spáð og sú von lifði meðal Gyðinga að þeim myndi fæðast nýr spámaður eða Messías. Frelsari er myndi breyta ástandi og stöðu fólksins til betri vegar. Þegar sá Messías kom í Jesú Kristi þekktu þeir hann ekki og tóku ekki við honum.


Mannssonurinn er orð sem Jesús notar um sjálfan sig oft og iðulega samkvæmt guðspjöllum Nýja testamentisins. Aðrir kalla hann ekki þessu nafni og engin hefð er fyrir að ræða um Jesú sem Mannssoninn sem auðvitað er merkilegt í sjálfu sér. Mannssonurinn er þýðing hebresku ben-adam og arameíska, bar-nascha, á grísku Nýja testamenntisins verður þetta að ho hyos tou anthropou.


Mannssonurinn“ táknar einfaldlega þann sem tilheyrir mannkyninu – mannsbarn. Þegar Jesús notaði hugtakið hafði það líkast til nokkuð formlegan eða jafnvel hátíðlegan tón, En þau voru ekki mörg sem skyldu til fulls það að baki þessu orði hjá Jesú var leyndardómsfullur messíasartitill. Jesús vísar til sjálfs síns sem Mannssonarins í þriðju persónu svo að þeir sem heyrðu þurfti jafnvel að spyrja:"Hver er þessi Mannssonur?" Jesús kallaði sig góða hirðinn, það hafa lærisveinarnir skilið vel. Það hefði líka verið auðskiljanlegra okkur ef Jesús hefði kallað sig þjálfara. Já, coach eða þjálfi jafnvel, það hefðum við skilið. En verst er að þau orð hefðu aðeins náð hluta af því sem hann var og gerði.

Í Nýja testamentinu er orðið Mannssonur notað einkum með þrennum hætti: Mannssonurinn á við um Jesú og samskipti hans við fólk,og þá einkanlega vald hans til að fyrirgefa (Matteus 9: 6; Lúkas 19:10) Það er um Mannssoninn sem að mun verða hafnað, hann mun þjást og deyja (til dæmis Matteus 17:12; 20: 18-19; Joh 3:14). Hugtakið tengist líka þjáningu þjóns Drottins í Jesaja 53 og minnir þar á gamla spádóma. Mannssonurinn vísar einnig til framtíðarinnar um það himneska hjálpræði sem verður opinberað er Mannssonurinn mun koma til að halda dóm yfir öllum. (Matt. 24: 23–44; Lúkas 17:24). Þannig er Jesús margt í senn, hann þjálfar og kennir, hann dæmir líka og hann fyrirgefur og allt af því að hann er Mannssonur. Guð í manni og maður í Guði.


Sonur Guðs gerðist maður í Jesú Kristi. Hann hafði mannlegar grunnþarfir. Hann upplifði m.a. hungur, þorsta, þreytu og þjáningu. Hann var sannarlega tilfinningaríkur. Hann gat elskað, reiddist, varð hryggur og hann grét líka. Hann tjáði tilfinningar sínar og sýndi öll merki þess að vera manneskja. Hann var því á allan hátt eins mannlegur og sönn manneskja getur orðið og einmitt þess vegna gat hann með sönnu kallað sig Mannssoninn. En það hvernig Jesús notar þetta orð um sjálfan sig vísar með sérstökum hætti til hlutverks hans. Hann sagði t.d. Mannsonurinn er ekki kominn til að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga. Mannssonurinn er því ekki aðeins maður heldur sonur Guðs fæddur sem maður til að deyja fyrir syndir mannkyns og rísa upp frá dauðum og taka stöðu við hlið Guðs föður og skapara alls.


Orðið Mannsonur er töluvert algengt og birtist alls 84 sinnum í guðspjöllunum fjórum og þá er það ætíð Jesús sem ræðir um sjálfan sig. Í Postulasögunum kemur orðið fyrir þegar sagt var frá lífláti Stefáns píslarvotts og þar segir hann skömmu áður en þeir grýttu hann til dauða. “Ég sé himnana opna og mannsoninn standa til hægri handar Guði.” Mannssonur til hægri handar vísar til stöðu Jesú sem frelsara og um leið dómara sem allt vald hafi til að framfylgja rættlæti í heiminum. Þeir er grýttu Stefán skyldu einnig fá sinn dóm á hinum efsta degi.


Hjá guðspjallamanninum Markúsi í kafla 8 versi 38 segir Jesús: Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð föður síns með heilögum englum mun hann blygðast sín fyrir hvern þann sem blygðast sín fyrir mig hjá þessari ótrúu og syndugu kynslóð.“ Í sama guðspjalli segir í kafla 13 versi 26 „Og þá munu þeir sjá Mannsoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð.“ - og hjá Markúsi í 14: 61-62 segir: „Æðsti presturinn spurði hann aftur:„ Ertu Kristur, sonur hins blessaða? “Jesús svaraði:„ Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar Máttarins hins og koma í skýjum himins. "


Þegar Jesús lýsti sjálfum sér sem Mannssyninum þá vísar það til að Jesús sá sjálfan sig sem uppfyllingu spádóma gamla testamentis t.d. Daníels sem segir svo í 7 kafla.

Ég horfði á í nætursýnum og sá þá einhvern koma á skýjum himins, áþekkan mannssyni. Hann kom til Hins aldna og var leiddur fyrir hann. Honum var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum.Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir.


Þess vegna sagði Jesús í fullri djörfung við Pílatus á föstudaginn langa: „Ríki mitt er ekki af þessum heimi“ (Jóh. 18:36). Þegar Jesús stóð fyrir æðsta prestinum spurði hann: „ Ég særi þig við lifanda Guð, segðu okkur: Ertu Kristur, sonur Guðs?“ Jesús svarar: Það voru þín orð. En ég segi ykkur: Upp frá þessu munuð þið sjá Mannssoninn sitja til hægri handar Hinum almáttuga og koma á skýjum himins.“ (Matt. 26.64)


Lærisveinarnir í guðspjallstexta dagsins skyldu ekkert hvað Jesús var að fara. Þeim var allt hulið eins og okkur stundum. Hversu oft heyrum við illa eða alls ekkert í Guði, í öðru fólki, í maka, í vinum o.s.frv. Oft erum við einstaklega skilningslaus á atburði og hluti sem eru bara rétt við nefið á okkur. Við erum líka svo oft ótrúlega vanhæf að setja okkur í annarra spor, sjálflægni er inngróin í okkur. Við ættum sem oftast að reyna að skoða allt í kringum okkur út frá nýju sjónarhorni því það myndi bæta skilning okkar og þá gæti það bætt framkomu okkar og um leið líðan fólks í kringum okkur. Það væri nú ekki svo lítill árangur satt að segja ef aðrir upplifðu okkur skilningsríkari og umhyggjusamari. Þá yrðu líklega dómarnir yfir okkur mildari á öllum sviðum. Sem væri gott.


Veruleikinn er þessi að Jesús dó og reis upp fyrir syndir allra manna. “Steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, situr við hægri hönd föður Guðs almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða” þetta játum við í hinni postullegu trúarjátningu. Hér kemur fram hvað Mannssonurinn gerði og hvað hann muni gera. Við leggum oft litla áherslu á þetta framtíðarhlutverk Jesú. Að hann muni koma til að dæma.


Nú á dögunum voru skipaðir tveir nýjir dómarar í Landsrétt. En mikið er nú búið að fjalla í fréttum um dómaraskipan þar og enn í gangi málarekstur vegna dómaramála réttarins. Af þessu hafa margir haft áhyggjur. Öll ættum við þó að hafa meiri áhyggjur af þeim dómi sem líf okkar hlýtur við leikslok. Þegar hinn mikli dómari lífsins “flautar leikinn” okkar af. Þá mun verða spurt hvernig við fórum að reglum leiksins. Hvernig okkur gekk í mótlætinu og hve flink við vorum að þétta raðirnar og styrkja liðsheildina okkar og hvort við höfum gert okkar allra besta. Já vonandi getum við svarað að svo hafi verið oftast nær því auðvitað erum við ekki fullkomnir leikmenn.


Páll postuli var einn af bestu leikmönnum Jesú Krist, bæði í sókn og vörn, á stóra leikvangi lífsins. Hann færir okkur alltaf góð orð inn í “leikinn” úr síðari lestri dagsins vil ég vitna til orða hans: "Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs." Megi krafur Guðs verka í okkur til allra góðra hluta á vegferðinni gegnum lífið.Dýrð sé Guði föður …..


Prédikun flutt 23. febrúar 2020 í Eyrarbakkakirkju.