Dracula og Jesús!

Dracula og Jesús!

Það er ekki skrýtið að hræðsla hafi gripið um sig hjá konunum og lærisveinunum. Sá sem dó, var ekki dáinn lengur! Slíkt þema hefur verið uppspretta margra kvikmynda á hvíta tjaldinu, margra Hollywood mynda, sem bannaðar eru innan sextán. Dracula og aðrar í þeim flokki skáldskapar og hrollvekju hafa það þema að dauðinn er ekki lengur dauði.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
16. apríl 2006
Flokkar

Kæri söfnuður – Gleðilega páska!

Það er góður siður að safnast til kirkju á páskadagsmorgni, nánast við sólarupprás og minnast upprisu Jesú Krists.

Frásögur þessa morguns eru sigurfrásögur.

Guðspjall Markúsar, sem lesið er í kirkjum landsins á þessum morgni, er talið elst guðspjallanna, og segir frá komu kvennanna að gröfinni. Þær eru fyrstu vottar upprisunnar og fá það hlutverk að segja frá. Þær urðu hræddar, skiljanlega.

Frásögn Lúkasar er sambærileg Markúsarfrásögninni, en þar er tekið fram að konurnar vissu frá föstudeginum langa hvar Jesú var lagður í gröf, en þær hafi þrátt fyrir það ekki séð líkama Jesú í gröfinni. Í guðspjalli Mattheusar segir einnig sömu sögu af konunum. Þar er greint frá því að þær urðu bæði hræddar og glaðar, og á leið frá gröfinni mæta þær Jesú og föðmuðu fætur hans. Í Jóhannesarguðspjalli eru konurnar einnig í framvarðarsveitinni við gröfina, en þar ásamt Símoni Pétri og lærisveininum sem Jesús elskaði.

Í framhaldi af frásögum þessa helga morguns er sagt frá því að Jesús birtist lærisveinum sínum upprisinn. Hann birtist þeim mörgum sinnum og stundum mörgum saman, hann birtist Tómasi, hann birtist tveimur á veginum til Emmaus, hann birtist þeim við Tíberíasvatn, þar sem hann neytti máltíðar með þeim, og á fleiri stöðum birtist hann þeim. Hann hefur á öllum öldum síðan birst lærisveinum sínum, og mun gera það um eilífð.

Jesús frá Nazaret var tekinn af lífi sem bandingi á dögum Pontíusar Pílatusar. Hann var tekinn af lífi frammi fyrir augum fylgjenda sinna, og annarra, á föstudeginum langa.

Þessi frásaga, dymbilviku og páskamorguns, slær mann djúpt í kviku hugsana og tilfinninga.

Það er ekki skrýtið að hræðsla hafi gripið um sig hjá konunum og lærisveinunum.

Sá sem dó, var ekki dáinn lengur!

Slíkt þema hefur verið uppspretta margra kvikmynda á hvíta tjaldinu, margra Hollywood mynda, sem bannaðar eru innan sextán. Dracula og aðrar í þeim flokki skáldskapar og hrollvekju hafa það þema að dauðinn er ekki lengur dauði.

Slíkar hugmyndir vekja með áhorfandanum óhug.

Ég minnist einnig heimsbókmennta sem lýsa lífi án dauða. Þar sem aðalpersónan seldi í reynd sálu sína til að öðlast ódauðleika.

Í þeim skáldskap var það kvöl og pína að njóta ekki þeirra skila sem dauðinn gefur.

Með það allt í huga vaknar spurningin: Hvað er það sem skilur frásögur guðspjallanna af upprisu Jesú, frá slíkum hugmyndum síðari tíma og í nútímanum?

Til þess að skyggnast eilítið að baki þeirri dulúð sem umlykur upprisufrásögur Nýja testamentisins verðum við að huga að þeirri von sem Gamla testamentið geymir.

Spámaðurinn Ezekíel segir frá beinunum í dalnum. Þar er að finna þá von að mennsk strípuð bein öðlist á ný, lífsanda frá Guði. Þar er að finna þá von að grafirnar opnist og hinir látnu muni rísa upp Spámaðurinn horfir fram á veginn, fram í tímann, og segir frá upprisu Ísraelsþjóðarinnar.

Jesaja spámaður boðar þjóðinni aðventu nýrrar sköpunar. Hann spáir fæðingu hins góða hirðis, og þess að réttvísi Guðs og réttlæti muni sigra þrátt fyrir allt. Jesaja talar um friðarhöfðingjann og gleðiboðskap Messíasar. Hann gefur þá von að viðmælendur hans upplifi nýjan himin og nýja jörð.

Flótti og frelsun Hebrea úr þrælahúsi Egypta er tilefni páskahátíðar Ísraelsþjóðarinnar. Í Exodus, annarri Mósebók, býður Móse þjóð sinni, sem voru þrælar Egypta, að rjóða blóði lambs á dyr hýbýla sinna svo tíunda plágan sækti þjóðina ekki heim.

Exodus frásagan er endursögð á páskum gyðinga og er máltíð hátíðarinnar í föstum skorðum. Það er í föstum skorðum hvar hver og einn fjölskyldumeðlimur situr, hvað er borið á borð og hefur hver réttur sitt tákn, þannig er það enn í dag. Exodus frásagan miðlar von frelsunar og handleiðslu Guðs.

Með þennan bakgrunn í huga var Jesú fagnað sem frelsishetjunni og friðarhöfðingjanum, messíasi, er hann kom til páskahátíðarinnar ríðandi á asna.

Jesús var að koma þar á helgasta stað þjóðarinnar, á musterishæðina, og á hann var hlustað, eftir honum var tekið. Von þjóðarinnar var að rætast í honum.

Jesús gekkst við þeirri stöðu, en um leið umbreytti og endurtúlkaði hann hefðina.

Síðasta máltíð Jesú og lærisveinanna var í þessum anda, og samkvæmt strangri formfestu og hefð.

Jesús hins vegar umbreytti viðteknum skilningi á þeirri máltíð er hann samsamaði sjálfan sig páskalambinu. Hann stígur líka niður af þeim stalli sem hefðin setur hann á, sem meistara og læriföður. Hann stígur niður til lærisveinanna og þrífur fætur þeirra og gefur þeim, og okkur, þar með eftirdæmi að fara eftir, að þjóna og hjálpa. Jesús talaði og framkvæmdi eins og sá sem valdið hefur.

Þessu valdi beitir hann á kærleikans máta. Hann notaði ekki það hreyfiafl sem múgurinn átti þarna til að knésetja veraldlega leiðtoga, heldur gekk hann í niðurlæginguna til að verða upphafinn.

Öll tákn þjóðarinnar holdgerfðust í honum. Öll von helgiritanna rættust í honum.

Hinn ógurlegi ósigur föstudagsins langa snérist í sigur páskadagsmorguns.

En hvers konar sigur boða hinir kristnu páskar?

Með Hollywood myndir og draugasögur í huga, hvað er það nákvæmlega sem við fögnum á páskum?

Jesús Kristur er uppfylling fyrirheitanna, og eitt orð gæti fært mig enn nær svari, Guðsríki! Með Jesú, í orði hans og anda, ríkir vilji Guðs.

Myndlíkingar eigum við í hugskoti okkar um hvað handan foldu býður. Margar slíkar myndlíkingar eigum við úr Biblíunni. Svo sem faðmur Guðs, Paradís, Himnaríki, undir vængjum hans má ég hælis leyta, Drottinn er minn hirðir, kærleikur Guðs, himnaríki, lúðrablástur og fögnuður, hásæti Guðs og þannig mætti lengi telja.

Það sem páskarnir og upprisa Jesús Krists boða okkur kannski umfram allt annað er réttlæti Guðs. Það er sú trú að réttlæti Guðs nái fram að ganga. Eins og sálmaskáld Davíðssálma segir: ,,Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottinn!”

Jesús Kristur er þetta hlið, Jesús Kristur er hlið réttlætisins. Þetta er dagurinn sem Drottinn hefur gjört, fögnum, verum glöð á honum, segir einnig á helgum stað.

Þrátt fyrir allt heimsins böl, óveður og náttúruhamfarir, eyðingu regnskóga og ózonlags. Þrátt fyrir erfiðleika og heilsuleysi, sjúkdóma, slys, hrottaleg dæmi ofbeldis og eiturlyfja. Þrátt fyrir það að sum börn alast upp foreldralaus og sum heilsulaus. Þrátt fyrir að fólk deyi, þrátt fyrir ýmsan missi, heilsu, atvinnu, gleði og virðingarmissi. Þrátt fyrir stríð og óeirðir, þrátt fyrir stéttskiptingu og misskiptingu gæðanna, fisksins í sjónum sem og auðlinda heimsins og ágang mannsins í þau, þrátt fyrir á stundum ómögulega baráttu, þá mun réttlæti Guðs sigra að lokum.

Réttlæti hins algóða og kærleiksríka Guðs mun sigra allt hið illa, þrátt fyrir allt.

Það er boðskapur páskanna. Það er sú trú sem páskarnir boða.

Dauðinn er staðreynd. Maðurinn er líkt og blóm vallarins sem blómstrar og lifir í dag en fölnar og deyr á morgun. Maðurinn, við öll, erum hluti þessarar náttúru sem á sér upphaf og endi.

Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Við erum ein af mörgum hér í heimi. Og þær munu halda áfram að búa þessa jörð, þegar við kveðjum.

Kveðjum á vit hins óráðna. Eins og við síðustu kvöldmáltíðina, þegar allt gat gerst, hið óræða framundan og ótti og kvíði í hópnum, við könnumst án efa við það. Eins var hræðsla og ótti sem kviknaði er sannleikurinn mætti konunum með ilmsmyrslin.

Þær komu til að smyrja líkama Jesús, og áttu von á nálykt og dauða. Þær áttu von á því að rotnun heljar mætti þeim á þessum morgni, en í staðinn var líkaminn ekki þar.

Líkaminn var risinn upp, eins og beinin í dalnum. Friðarhöfðinginn hafði sigrað hið illa, með valdi kærleikans, og vonin sem Jesaja boðaði orðin að veruleika.

Í stað nályktar, mætti þeim ilmur nýrrar sköpunar, nýrrar vonar og trúar.

Sigurinn er fólginn í niðurlægingunni og því að Guð kynntist á eigin skinni öllum hörmungum mannsins, og sigrar þær til lífs og upprisu.

Þannig uppfylla hinir kristnu páskar vonina um að réttlæti Guðs sigri allt hið illa. Páskarnir uppfylla von Exodus um frelsun úr ánauð, frelsun frá dauða til lífs, frelsun allra manna og alls heimsins.

Þann veg vill Guð leiða söfnuðinn, og alla trúaða einstaklinga, í samfélagi gleði og hamingju. Sú handleiðsla Guðs gefur fyrirheit þess að maðurinn öðlist hamingju í þessum heimi og læri að njóta dásemda lífsins. Það er svo sannarlega vilji Guðs.

Páskasálmurinn sem sunginn var hér, segir margt í fáum orðum:

Hann hefur sjálfan dauðann deytt, hans dimmu nótt og broddum eytt og krossins þraut í blessun breytt.

Nú fagna þeir, sem þekkja hann, og þakka stríðið sem hann vann til lausnar fyrir fallinn mann.

Í sælli gleði syngjum vér þeim sigri lof, sem fenginn er, og segjum: Drottinn, dýrð sé þér!

(Sigurbj. Einarsson sálmur 577:2-5)

Guð, faðir, sonur og heilagur andi. Amen.