Fyrirgefning

Fyrirgefning

Í dag á fyrsta sunnudegi í vetri eru ritningarlestrar dagsins með þeim hætti að fyrirgefningin myndar einskonar yfirskrift dagsins. Guðspjallið hefur þrjú megin stef. Þau eru öll með vísan til einhverskonar valds. Hið fyrsta er um agavald safnaðarins þegar einn brýtur af sér gagnvart öðrum, annað er um vald fyrirgefningarinnar til að binda og leysa og þriðja er um vald bænarinnar.

Predikun í Þingvallakirkju í vetrarbyrjun.

Ef bróðir þinn syndgar gegn þér , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna. Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.

Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.

Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra. Mt 18.15-20

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Kominn er veturinn, kærasti faðir á hæðum. kvíða vér mættum ef ei undir vernd þinni stæðum.

Þannig orti Brynjólfur á Minnanúpi.

Kæri söfnuður.

Það fer ekki hjá því að maðurinn gangi til fundar við veturinn með öðru hugarfari en þegar hann mætir sumri. Eitthvað sérstakt býr að baki því að engum virðist detta í hug að óska gleðilegs vetrar, þótt það sé sjálfsagt að óska gleðilegs sumars. Það er eins og einhversstaðar blundi í okkur enn áhyggjur kynslóðanna sem lifðu af því sem landið gaf og lögurinn, en ekki hver á öðrum.

Og nú erum við hér í Þingvallakirkju á frostköldum vetrardegi eins og kynslóðirnar hafa gert, og getum þakkað þessa góðu kirkjusókn einum af fyrri organistum þessarar kirkju sem gegnin er á vit kynslóðanna, Guðbjörgu Einarsdóttur frá Kárastöðum.

Það fallegt sem Sigurður Árni segir í minningarorðum sínum um Guðbjörgu:

“Grannir fingurnir liðu yfir hljómborðið. Svolítill glímuskjálfti fór um organistann, sem steig belginn og lagði upp í ferð guðsþjónustunnar. Harmóníum Þingvallakirkju lifnaði og prelúdían hljómaði. Kirkjan varð eins og stór hljómbotn, sem brást feimnislega við músíkinni. Þau voru þarna öll frá Kárastöðum og svo voru auðvitað hinir sveitungarnir líka; Heiðarbæjarfólkið, Skálabrekkufjölskyldan og af bæjunum austan við vatn. Jú, Þingvellingar hafa sótt sína kirkju. Meðan Jesús hélt áfram að líkna hinum blinda á málverki Anker Lund yfir altarinu hafa kynslóðir komið og farið og Guðbjörg var ein þeirra. … . Guðbjörgu var falið að spila við messur í æsku. Svo voru jólin komin, stóri skaflinn líka við heimreiðina, klakabrynja á eini og lyngi við Nikulásargjá og djúp frostþögn utandyra. Nótnablöðin skrjáfuðu af kuldanum, fingurnir fóru af stað að nýju. Söfnuðurinn söng, allir með sínu nefi. Jólasálmurinn hljómaði: “Sjá himins opnast hlið, heilagt englalið. Fylking sú hin fríða...” Opin hlið himins – hátíð ljóssins. Þar sem landið er langsprungið og bláminn er dýpstur á Íslandi opnaðist leiðin upp. Yfir Þingvallaskálina stóru, þetta magnaða jarðfræðiundur, þar sem vatnið streymir í iðrum sem lífsblóð, var enn aukið á ævintýrið. Ofan fóru englar, tónlistin í kirkjunni fléttaðist inn í söng náttúru og síðan inn í máttuga sálma yfirskilvitlegra vera handan og ofan við þennan heim. Guðbjörg Einarsdóttir þandi orgelið - fylking sú hin fríða. Þingvellir voru í Paradís.”

Þannig mæltist prestinum við útförina.

Kæri söfnuður. Ekkert annað erindi er dýrmætara til kirkju hverju sinni en að koma til að dvelja við dyr himinsins, og leyfa himninum að varpa bjarma sínum inn í kirkjuna. Og himininn er ekki bara staður hins eilífa ljóss og dýrðar, heldur staður tónanna. Allar myndir himinsins, öll tákn hins guðdómlega eru umvafin tónlist. Kirkjustarf og kirkjulíf er óhugsandi án tónlistar. Þess vegna er tónlistarfólkið okkur svo dýrmætt þegar það leggur trúarlífinu lið með list sinni.

Þorsteinn Gylfason, heitinn, lét sér detta í hug að tónlistin væri sjálfstætt tungumál. Ef það er svo þá vitum við líka hvaða tungumál er talað á himnum.

Tónlistin segir hið ósegjanlega. Þess vegna er hún hluti af verki Guðs og aðferð hans til að gera vart við sig og tjá kærleika sinn, þegar hún lýtur honum, tónmeistaranum mikla sem leikur voldugustu hljómkviðu allra tíma á sköpun sína með vindi, stormi og logni, með fuglasöng og jarmi, með þyt í laufi og regndropum á polli.

Tónlistin í kirkjunni sem lýtur honum er eins og græðismyrsl, og hún þjónar fyrirgefningunni. Nema þegar hún fer að snúast bara um sjálfa sig, þá þarf að fyrirgefa henni.

Í dag á fyrsta sunnudegi í vetri eru ritningarlestrar dagsins með þeim hætti að fyrirgefningin myndar einskonar yfirskrift dagsins. Guðspjallið hefur þrjú megin stef. Þau eru öll með vísan til einhverskonar valds. Hið fyrsta er um agavald safnaðarins þegar einn brýtur af sér gagnvart öðrum, annað er um vald fyrirgefningarinnar til að binda og leysa og þriðja er um vald bænarinnar. Þetta er náttúrulega ekki vald í venjulegum veraldlegum skilningi.

Vald að skilningi guðspjallsins er annað en það sem við venjulega eigum við með hugtakinu. Þó hafa samskipti ríkis og kirkju í sögulegu samhengi stundum leitt til þess að kirkjan hafi í raun orðið að tæki ríkisins til þess að framfylgja valdinu, - sérstaklega refsingavaldinu. Og hefur með því villst frá sínu upphaflega erindi. Spámennirnir hefði orðað það þannig að kirkjan hafi þar með haldið framhjá unnusta sínum Jesú Kristi.

Hér á Þingvöllum fer ekki hjá því að manni verði tíðhugsað til þessa tíma. Og stundum er maður ekki alveg viss um hvort hann er liðinn. Allavega skyldum við prestar gæta vandlega að því sem við segjum í predikunarstólnum. Það er okkur kannski til happs að það er ekki eins spennandi að skoða það eins og tölvupóst.

En ríki og kirkja, sem enn eru í sambúð, hafa átt erfið tímabil, og dapurlega sögu. Ekki eru heimildir fyrir því að gapastokkur hafi verið hér við kirkjuna, en sjálfsagt hafa hér eins og við aðrar kirkjudyr í þessu landi, sakamenn á sínum tíma orðið að bíða útifyrir hvern sunnudag, þar til refsing þeirra var afplánuð og þeir voru leiddir inn, stóðu opinberar skriftir og voru formlega teknir aftur inn í söfnuðinn með því að ganga til altaris. Að vissu leyti byggði það á þessu guðspjalli.

Það var ekki sú aðferð sem guðspjallið upphaflega meinti. Það sést á samhenginu. Samhengið svarar spurningunni:

Er unnt að eignast fyrirgefningu á jörðu, eða verður maður að bíða þar til maður fær að ganga fram fyrir Guð á himnum? Kannski er þetta nú ekki spurning sem veldur mörgum óróa, en hún er allavega ekki alveg gleymd. Ekki heldur fyrirgefningin og þörfin fyrir hana, þótt allskonar fræðingar séu tilbúinir að segja okkur að hún sé jafn ástæðulaus eins og tilefnið sem leitar að henni.

Merking guðspjallsins er þessi. Það er hér sem fyrirgefningin fæst. Milli einstaklinga og milli manns og Guðs. Þjónustan í kirkjunni er til að fullkomna það sem söfnuðurinn og einstaklingar gera sín á milli úti á akrinum. Þeir horfast í augu við sjálfa sig og viðurkenna það sem þeir sjá. Og þegar þeir sjá órétt gagnvart öðrum, sjá þeir eftir því og iðrast. Að iðrast felur í sér göngu til þess sem óréttinum var beittur, með bæn um fyrirgefningu. Sæstu við mótstöðumann þinn, áður en þú kemur til kirkjunnar, segir Jesús. Fyrirgefningarbæn Faðirvorsins skilyrðir í raun fyrirgefningu Guðs við fyrirgefningu manna: Svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Og þessi fyrirgefning gildir bæði á jörðu og himni. Það sem þér bindið á jörðu skal bundið á himni og það sem þér leysið á jörðu skal leyst á himni, segir Jesús.

Hér vakna óhjákvæmilega bæði hugleiðingar og spurningar. Lausin felst í síðasta stefi guðspjallsins. Jesús er sjálfur í kirkju sinni, og hvarvetna þar sem fólk kemur saman í hans nafni. Tveir eða þrír. Strangt til tekið geta það aldrei orðið færri en tveir. Sá eða sú sem biður, og Jesús sjálfur.

Það er hann sem kallar til stefnumóts í kirkju sinni. Rödd hans hljómar í kalli klukkunnnar, eins og í orði hans sem lesið er. Og hann er sjálfur áheyrandi þegar við tölum, lesum, syngjum, biðjum, og leikum. Það er hann sem gerir samkomuna sjálfa himneska og Þingvallakirkju að hliði himinsins, og í honum eignust við fyrirgefningu himinsins hér á jörðu.

Gjör við oss faðir sem gæska þín hollast os metur gef oss upp sakir og hjálp oss að þóknast þér betur Að þér oss tak yfir oss hverja stund vak. Blessa hinn byrjaða vetur. Amen

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.