Kröfuhörð en þakklát æska

Kröfuhörð en þakklát æska

Börn og unglinga þyrstir í uppbyggjandi viðmót og umhverfi þar sem allir fá að njóta sín. Um leið og þau gera miklar kröfur til okkar sem störfum í æskulýðsstarfi er vandfundinn jafn þakklátur og skemmtilegur hópur. Þau biðja um einlægni hjartans og frábiðja sér hverskyns sýndarmennsku.

IMG_5135Það er ótrúlegt að fá aftur og aftur að upplifa þann kraft og sköpunargleði sem fylgir því að starfa með börnum og unglingum. Sú mýta er algeng að til þess að geta starfað í barna og unglingastarfi þurfi starfsmaðurinn að kunna allar hundakúnstir og ef að viðkomandi kýs að taka ekki næturvaktir á mótum og sjái til þess að einhver annar sé valinn sem kötturinn í köttur og mús (nema um sé að ræða örstutt skemmtiatriði) sé hans/hennar tími kominn.

Það er ekki skortur á skemmtiefni sem íslenskum börnum vanhagar um. Það sem þau vilja er uppbyggjandi viðmót og öruggt umhverfi þar sem allir fá að njóta sín. Það er vonlaust að ætla að keppa við sjónvarpið og tölvuleikina í hraða og spennu. Það sem við höfum fram að færa er samfélag sem fræðir börnin um Jesú Krist. Við getum boðið nærveru þar sem einstaklingurinn fær að upplifa að hann skiptir máli. Markmið starfsins er ekki að börnin keppi í einhverju, ekki að unglingurinn sé betri en einhver annar, heldur að barnið, unglingurinn, unga manneskjan fái að vera til og upplifa kærleiksríkt samfélag trúaðra.

Þeir leiðtogar sem höfðu mótandi áhrif á okkur voru ekki sérfræðingar í hástökki né frægir fyrir orðsnilld. Þau áttu öll sameiginlegt að vera fólk sem af hjartans einlægni gáfu okkur tíma og athygli. Þau voru ekki fullkomin, en þau kunnu að biðjast fyrirgefningar þegar þeim varð á. Þau áttu bros á vör, tár í augum, hjartahlýju og drauma um stefnumót æskunnar við Jesú Krist.

Í íslensku kirkjunni hefur verið við lýði sú hugmynd að kjörtími fólks til starfa í þessum geira sé háskólaárin og nokkur til viðbótar, síðan geti fólk fengið sér alvöru vinnu. Það er alveg rétt að það að starfa með börnum getur sogið orkuna úr körlum og konum á öllum aldri, en það er líka ótrúlegt hvað börnin gefa af sér. Það er rétt að börnin eru kröfuhörðustu áhorfendur sem hægt er að hugsa sér, en frá þeim koma oft einlægustu hrós sem nokkur getur óskað sér. Það eru til endalaus gullkorn úr barnastarfinu eins og barnið sem gekk upp að leiðtoganum og sagði á leiðinni út:

Þetta var skemmtilegt, ég man samt ekki allt með Jesúgaurinn og þú ert í ljótri peysu, sjáumst í næstu viku.
Við þurfum ekki að setja okkur á sama þrep og börnin til þess að ná til þeirra. Enda er ekkert eins ósannfærandi og miðaldra fólk sem hlustar aðallega á sálmasöng en þykist vita allt um rapptónlist. Einlægur áhugi okkar á áhugamálum þeirra skiptir þau hins vegar máli. Eitt mikilvægasta verkfærið sem æskulýðsleiðtoginn þarf því að vopna sig með, er það að kunna að hlusta og spyrja af áhuga. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir máli að þátttakendurnir í æskulýðsstarfinu fái notið sín. Okkar er að gleðjast yfir að þau blómstri.

Það væri óskandi að sem flestir starfsmenn kirkjunnar fengu að upplifa kraftinn og gleðina sem fylgir unga fólkinu okkar. Kirkjan ætti markvisst að stefna að því að fleiri og fleiri sem sinna verkefnum innan kirkjunnar læri að meta börnin og unglingana okkar af verðleikum og hlakki til að leyfa þeim að nota safnaðarheimilið, vera með hávaða í kirkjunni, gleyma að raða skónum, hlaupa yfir grasið fyrir utan kirkjuna og vera fyrst í röðinni í safnaðarkaffinu.