Lífið er yndislegt

Lífið er yndislegt

Ég gleðst yfir jöfnu kynjahlutfalli á æskulýðsmóti. Ég gleðst yfir prestum, djáknum, æskulýðsfulltrúum, starfsfólki í mötuneyti ... En fyrst og fremst gleðst ég yfir Drottni mínum sem segir: ,,Náð mín nægir þér".
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
27. febrúar 2012

IMG_4951

Í dag er einn af þessum dögum þegar ég gleðst yfir kirkjunni minni. Við erum stödd á Hrafnagili í Eyjafirði nokkrir prestar, djáknar, æskulýðsfulltrúar, æskulýðsleiðtogar og unglingar úr æskulýðsstarfi kirkjunnar, alls um 80 manns. Ég gleðst sérstaklega yfir því að kynjahlutfallið er mjög jafnt - já hvort sem þið trúið því eða ekki, það eru ekki nokkrir strákar og fullt af stelpum á mótinu eins og stundum vill verða. Kynjahlutfallið er eiginlega hnífjafnt.

Ég gleðst yfir prestunum sem leggja mikinn tíma og fyrirhöfn á sig til þess að gera það mögulegt að mót sem þetta er haldið. Þeir hvetja unglingana sína áfram, standa fyrir fjársöfnunum heima í héraði og mæta svo gallvaskir á staðinn, vitandi að næturnar verða stuttar og dagarnir verkefnaríkir.

Ég gleðst yfir æskulýðsfulltrúum og æskulýðsleiðtogum sem mæta á mótið. Án þeirra væri mót sem þetta ógerningur. Þau skapa tenginguna milli ungmenna og kirkju, milli kristni og þjóðar, milli daglegs lífs og hins kristna boðskapar sem settur er fram. Hvernig? Jú, því þau eru ekki bara stundum til staðar fyrir krakkana, heldur hafa þau í allan vetur, viku eftir viku, mætt á æskulýðsfélagsfundi og sýnt krökkunum að áhugi þeirra á þeim er ekta.

Ég gleðst yfir skólastjórum og kennurum sem lána okkur heilu skólana fyrir svona viðburði, gleðst yfir kokkum og starfsfólki mötuneyta sem kann að matreiða ofan í unglingahóp, gleðst yfir rútubílstjórum, sundlaugavörðum, húsvörðum, tæknimönnum, hverjum þeim sem styður við slíka viðburði. Þau gera hugmyndir okkar að veruleika.

En fyrst og fremst gleðst ég yfir Drottni mínum sem segir: ,,Náð mín nægir þér".

Takk Jesús.

(Ritað laugardaginn 25. febrúar 2012.)