Er einelti félagslegt lögmál?

Er einelti félagslegt lögmál?

Þolendur eineltis hafa því miður flestir upplifað að þurfa að biðja gerendur sína afsökunar frammi fyrir skólastjóra, byggða á þeirri hugmyndafræði að það sé sjaldan einum að kenna þegar tveir deila. Sé hægt að finna sekt hjá eineltisþolenda, sem oftar en ekki er ofbeldisréttlæting hópsins, er hún í engu samræmi við sekt þess sem beitir eineltisofbeldi.

Guðspjall: Matt 18.21-35

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö. Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum. Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“

Þann 8. nóvember n.k. verður í annað sinn haldinn dagur gegn einelti en sambærilegir dagar og vikur hafa náð fótfestu í Bandaríkjunum, Kanada og í Bretlandi. Það er mikið gleðiefni að þessi vitundarvakning um útbreiðslu og afleiðingar eineltis sé að eiga sér stað en einelti er samfélagslegt mein sem einungis er hægt að sporna við með samstilltu átaki og hugarfarsbreytingu.

Margt hefur unnist í baráttunni gegn einelti og skólar landsins starfa nú margir eftir aðgerðaráætlunum sem ætlað er að koma í veg fyrir einelti. Í Nessókn starfa allir skólar eftir Olweusaráætlun gegn einelti og það verður seint þakkað sá árangur sem sú aðferðafræði hefur leitt af sér. Frístundavettvangurinn er ekki síður mikilvægur í baráttunni gegn einelti og tryggja þarf að einelti fái hvergi að vera óáreitt í umhverfi barna og unglinga sem alast upp í hverfinu. Þar skipta þjálfun starfsfólks og eineltisáætlanir mestu, til að tryggja að þegar ungmenni leita til þess fullorðna fólks sem það treystir með vanda sinn, að tekið sé á honum á réttan hátt.

Einelti er félagslegt fyrirbæri og fylgir sem slíkt ákveðnum félagslegum lögmálum. Eineltisgerandi sækir vald sitt til hópsins sem veitir honum samþykki sitt til að leggja þolandann í einelti með því að taka undir ofbeldið eða með því að bregðast ekki við því. Þeir fáu sem hafa hugrekki til að mótmæla ofbeldinu eru settir á pláss af hópnum og gera það meðvitandi um að eiga á hættu að verða sjálfir fyrir ofbeldi fyrir vikið. Jafningjum tekst sjaldan að stöðva eineltishegðun heldur verður að koma til íhlutun fullorðinna sem hafa völd til að ná utan um ofbeldið og stöðva það í krafti þess valds sem þeim er veitt.

Einelti er alvarlegt og aðkallandi vandamál meðal íslenskra ungmenna en einelti meðal barna og unglinga er afleiðing af þeirri valda- og ofbeldismenningu sem við búum við í samfélagi fullorðinna. Einelti er ekki síður stórt vandamál á vinnustöðum og í félagasamtökum fullorðinna og þar er vandinn mikið til falinn. Félagslegu lögmálin eru þau sömu en birtingarmyndir þess er mun erfiðara að greina vegna þess að fullorðnir hafa meiri getu til að dylja og réttlæta ofbeldishegðun sína. Líkt og í samfélagi barna upphefja gerendur sig á kostnað annarra og fá til þess samþykki hópsins, sem annaðhvort taka undir illt umtal eða láta það óáreitt. Þeir sem mótmæla ofbeldinu og verja þolendur eru settir á pláss af hópnum og eiga á hættu að verða sjálfir fyrir ofbeldi. Kirkjan er þar engin undantekning.

Sagan af Jesú er í eðli sínu eineltissaga og dæmisögu dagsins hafa ótal eineltisþolendur upplifað á eigin skinni. Jesú sveið samfélagslegt ofbeldi samferðamanna sinna, var óþreytandi í að benda trúarlegum og veraldlegum yfirvöldum síns tíma á hegðun sína og gald fyrir það með lífi sínu. Jesús var fyrirmynd þeirra sem rjúfa þögnina og standa gegn ofbeldi og með þeim sem órétti eru beittir.

Franski hugsuðurinn René Girard setti fram hugmyndir um að í öllum samfélögum væri tilhneiging til að leysa óleysanlegan ágreining og vinna úr áföllum í gegnum blóraböggla. Ferlið sem hann kallar scapegoating á sér stað meðal smærri hópa, þar sem einstaklingar eru lagðir í einelti, og í samfélögum þar sem jaðarhópar eða minnihlutahópar sæta ofbeldi sem blórabögglar fyrir samfélagsvanda. Þannig kenndi Neró keisari kristnum mönnum um brunann í Róm árið 64, gyðingum var kennt um að hafa ollið Svarta Dauða í Evrópu á 14. öld og þær fjölmörgu tilraunir til þjóðarmorðs sem áttu sér stað á 20. öld byggja á sömu lögmálum.

Í bók sinni Things Hidden Since the Foundation of the World heldur Girard því fram að sagan af Jesú svipti hulunni af þessum ofbeldisþræði sem innbyggður er í mannlegt samfélag. Stefið um hinn seka sem er fórnað fyrir meinta hagsmuni heildarinnar er algengt í goðsögnum heimsins en sagan af Jesú er að hans áliti einstök. Píslarsagan berar þá hjarðofbeldishegðun sem einelti er og kippir stoðunum undan hinni fornu fórnarmýtu að öðlast megi frið og helgi í gegnum ofbeldi. Á krossinum rýfur kristur vítahring hefnda og ofbeldis með orðunum ,,Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera.” Krossinn, hryllilegasta aftökutæki síns tíma, verður í kristnum átrúnaði að táknmynd fyrir sigur kærleikans yfir þeim vítahring ofbeldis sem kallar á fórnarlömb.

Sagan af Jesú fjallar, líkt og guðspjall dagsins, um hvernig vinna megi úr ofbeldi og um mátt fyrirgefningarinnar. Þolendur hverskyns ofbeldis glíma við vanda þess að fyrirgefa þeim sem meiddu þau, án þess að viðurkenna með því að ofbeldið hafi verið ásættanlegt eða að gerandinn eigi ekki að láta af hegðun sinni.

Ef dæmisaga dagsins er sett í samhengi skóla eða vinnustaðar þá verður hún auðskiljanleg. Þolendur eineltis hafa því miður flestir upplifað að þurfa að biðja gerendur sína afsökunar frammi fyrir skólastjóra, byggða á þeirri hugmyndafræði að það sé sjaldan einum að kenna þegar tveir deila. Sé hægt að finna sekt hjá eineltisþolenda, sem oftar en ekki er ofbeldisréttlæting hópsins, er hún í engu samræmi við sekt þess sem beitir eineltisofbeldi. Þjónarnir tveir í dæmisögu guðspjallsins skulda mjög ólíka upphæð og þegar konungurinn hefur gefið fyrri þjóninum upp skuld sem er 60.000 sinnum stærri en hins þjónsins, sé reiknað með genginu 6000 denarar á talentu, rukkar hann samþjón sinn með ofbeldi. Sú aðferðafræði í skólum og á vinnustöðum sem reynir að sætta geranda og þolanda á þeim grundvelli að báðir eigi sök að máli og sú trú að málið sé leyst með þvingaðri fyrirgefningu af hálfu beggja, er uppskrift að því að ofbeldið haldi áfram strax og stigið er út af skrifstofu skólastjóra eða yfirmanns.

Niðurlag dæmisögunnar lýsir því að jafningjar þjónsins sem beittur er eineltisofbeldi rísa loks upp og krefjast þess að ofbeldið hætti og komið sé taumhaldi á gerandann.

Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum. Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.

Krafa Jesú krists um fyrirgefningu er algild, okkur ber að nálgast í lífi okkar þá náð að fyrirgefa að fullu þeim sem gert hafa á okkar hlut. En sú fyrirgefning er sett í það samhengi að hún breiði ekki yfir ofbeldi, réttlæti það ekki og stuðli ekki að frekara ofbeldi.

Einelti er samfélagsmein sem virðist svo samofið ofbeldismenningu okkar að nær ómögulegt virðist að uppræta tærandi þræði þess. Það er af þeirri ástæðu sem að hápunktur hins kristna átrúnaðar og helgihalds er altari Jesú Krists.

Við altarið er síðustu kvöldmáltíð Jesú minnst og við sem deilum hinni heilögu máltíð eignumst hlutdeild í því jafningjasamfélagi sem Jesús og vinir hans og vinkonur áttu. Viðstaddur máltíðina er sá sem sveik og sá sem brást og ofbeldi aftökunnar blasir við þegar við þiggjum líkama og blóð Jesú. Eineltið og ofbeldið er sett á hinn helgasta stað, ekki til að upphefja það eða réttlæta, heldur til að viðurkenna að einungis með því að segja satt um hvað hefur gerst og borða sáttarmáltíð með Guði og jafningjum okkar geta sárin byrjað að gróa.