Ein grein á ári

Ein grein á ári

Einstaka sóknir eru okkur hinum til fyrirmyndar í því hvernig þær nota fjölmiðla í sinni fyllstu breidd. Á þessum vettvangi eru mikil tækifæri fyrir kirkju í sókn. Með nýjan biskup við stýrið hljótum við að horfa til þess að segja frá öllu því góða starfi sem fram fer í kirkjunni.

Biskupsv�gsla 2012

Ímyndaðu þér landslagið á Íslandi ef hver prestur, djákni, organisti, æskulýðsfulltrúi ... hefði það fyrir vana að skrifa að minnsta kosti eina grein á ári í dagblað eða á þokkalega mikið lesna vefsíðu. Þess á milli hefðum við það fyrir vana að koma okkur reglulega á framfæri í sjónvarpi eða útvarpi, jafnvel sem viðmælendur í tímaritum. Ekki væri það verra ef við þetta bættist að sóknarnefndir hefðu það fyrir reglu að senda fréttatilkynningar í tengslum við aðalsafnaðarfundi til helstu fjölmiðla með upplýsingum um hvernig fjármunum sóknarinnar er varið.

Við höfum frá svo mörgu að segja, því við erum að gera góða hluti í kirkjunni og það er oft svo gaman í kirkjunni. En það er ekki bara þess vegna sem ég vil sjá meira um kirkjustarfið í fjölmiðlum. Ég tel að okkur beri skylda til þess að efla gegnsæi í vinnubrögðum okkar. Þau sem borga félagsgjöld til kirkjunnar eiga rétt á því að lesa og heyra um það hvernig peningarnir eru notaðir.

Einstaka sóknir (og jafnvel stöku prófstsdæmi) eru okkur hinum til fyrirmyndar í því hvernig þær nota fjölmiðla í sinni fyllstu breidd. Á þessum vettvangi eru mikil tækifæri fyrir kirkju í sókn. Með nýjan biskup við stýrið hljótum við að horfa til þess að segja frá öllu því góða starfi sem fram fer í kirkjunni.

Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Gefur notkun á fjölmiðlum, stórum og smáum, okkur ekki ýmiss tækifæri? Í gegnum fjölmiðla getum við sagt sögur. Sagan verður áhugaverð þegar það er mynd og manneskja á bak við söguna. Fólkið sem starfar í kirkjunni, ekki einhver fjölmiðlafulltrúi. Getur það ekki verið að ef við sýnum fjölmiðlum áhuga og göngum til samstarfs við þá af opnum hug að nýjar leiðir opnist fyrir kirkjuna?

Má ekki líta svo á að í hvert sinn sem við komum kirkju og kristni á framfæri í fjölmiðlum þá opnist ný tækifæri til að ná til nýrra markhópa? Er ekki líklegt að umfjöllun á okkar forsendum um trú og kirkjustarf vekji fólk til umhugsunar um kirkjuna? Sjáum við ekki fjölmörg tækifæri í notkun netmiðla til þess að ná samtali við fólk? Og má ekki jafnvel gera ráð fyrir því að fólk borgi kirkjuskattinn sinn með glöðu geði þegar það veit hvað það fær mikið fyrir peninginn?

Ég held að svörin séu öll á einn veg: Jú, engin spurning!