Fagna, Guð þér frelsi gefur!

Fagna, Guð þér frelsi gefur!

Til forna var talað um “páskahláturinn” Á páskadagsmorgni var að sögn farið með gamanmál í kirkjunni og hlegið dátt, hlegið og kæst yfir því sem er ótrúlegast alls: Að hinn krossfesti Kristur er upprisinn, lífið hefur sigrað dauðann. Hann dó vegna vorra synda, hann dó fyrir þig, til fyrirgefningar syndanna. Guð sneri illu til góðs, dauða til lífs. Já, Guð lék á djöfulinn, felldi hann á eigin bragði.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
16. apríl 2006
Flokkar

Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.Amen. Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Á ótal tungum heimskringlunnar ómar þessi kveðja páskanna. Látum nú þá játningu og lofgjörð fylla hugi okkar og hjörtu. Gleðilega páska.

Það er auðveldara að syngja um upprisu Jesú og eilífðarvonina, en játa hana og útlista í mæltu máli og rökstyðja fyrir öðrum. Upprisutrúin er alltaf játuð og borin uppi af lofgjörð og bæn, ljóði og söng, - og umhyggju um lífið og náungann. Trúarjátning er nefnilega ekki skoðun á kennisetningum, þó að það sé þáttur í henni, heldur kærleikstjáning og þakklætis sem orðin ein ná aldrei að tjá til fulls. Játning upprisutrúarinnar er svar, andsvar við ávarpi: “Skelfist eigi! Hinn krossfesti er upprisinn!” Og svarið við þessu ótrúlega, undursamlega, þarfnast hljóma og hrynjandi svo það endurómi í sálinni og hræri hjarta og tungu, taug og æð. Og það þarfnast andsvars bænarinnar, þar sem orð og andi grípa á strengjum leyndardómanna, og það þarfnast andsvars umhyggjunnar og kærleikans, af því að þetta snertir líf manns og heim, vonbrigði og áföll, þraut og þjáning, söknuð og sorg. Vegna þess að sá sem er upprisinn, er sá sem sagði: “Syndir þínar eru fyrirgefnar!” Og sem sagði: “Komið til mín... ég mun veita yður hvíld.” Og: “Ég lifi og þér munuð lifa.” Páskarnir segja: Þetta allt er vissulega satt! Því máttu treysta.

“Sigurhátíð sæl og blíð ljómar nú og gleði gefur.”

Gleði er grunnstef kristinnar trúar. “Fagnaðarerindi,” gleðiboðskap, kallar Jesús boðskap sinn – einn allra trúarbragðahöfunda gefur hann boðskap sínum nafn sem bendir til slíkrar áttar. “Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé hjá yður og fögnuður yðar sé fullkominn,” segir hann, og: “Farið og prédikið gleðiboðskapinn allri skepnu…” Hægt er að nálgast öll meginstef boðskapar hans með þetta orð að leiðarljósi: Gleði. Við erum sem kirkja kölluð til að tjá þá gleði, bera fram þann fögnuð sem er rauði þráðurinn og uppistaðan í kristinni trú.

Til forna var talað um “páskahláturinn” Á páskadagsmorgni var að sögn farið með gamanmál í kirkjunni og hlegið dátt, hlegið og kæst yfir því sem er ótrúlegast alls: Að hinn krossfesti Kristur er upprisinn, lífið hefur sigrað dauðann. Hann dó vegna vorra synda, hann dó fyrir þig, til fyrirgefningar syndanna. Guð sneri illu til góðs, dauða til lífs. Já, Guð lék á djöfulinn, felldi hann á eigin bragði. Það er hið hlægilegasta af öllu hlægilegu, ótrúlegasta af öllu ótrúlegu, gleðilegast allra gleðiefna. Að vissu leyti eru páskarnir því alltaf og ævinlega brandari Guðs sem hlær að hiki og efa og hálfvelgju kirkju sem fremur vill trúa á föstudaginn langa en páska, sem fremur vill sleikja sár uppgjafar og vonleysis en syngja sigursöngva og þakkargjörðar.

Fermingarfaðir minn, séra Jakob Jónsson, blessuð sé minning hans, hann ritaði merka doktorsritgerð um kímni og hæðni í Nýja testamentinu. Í guðspjöllunum er etv ekki marga brandara að finna, en kímnin er samt augljós sé að gáð. Kímnin er nefnilega hið óvænta sjónarhorn á hið hversdagslega. Dæmisögur Jesú eru einskonar skrítlur, leifturmyndir sem varpað er upp og sýna veruleikann í nýju ljósi, og fela í sér vissa tvíræðni. Kímnin gerir auðmjúka fjarlægð mögulega og ver gegn hroka þess sem þykist hafa allt á hreinu, lífið, náungann, Guð.

Kímni er að taka sjálfan sig mátulega hátíðlega, að skynja hve fólk er undursamlega margvíslegt og lífið auðugt og litríkt. Hin græskulausa kímni, er gleðibros Guðs á jörðu, sem vekur hamingjuhláturinn sem bræðir ísa og leysir fjötra. Fyrirgefning og kímni eru nánir ættingjar, kímnin er nákomin náðinni, af því að hún er gjöf, óvænt, góð og yndisleg.

Dostojevski segir að ef við þyrðum að vera svolítið hlægilegri þá þætti okkur vænna hvert um annað. Ætli það sé ekki bara rétt hjá honum? Hláturinn fellir grímu fyrirvaranna og leysir viðjar sjálfhverfunnar. Hláturinn, kímnin - á sínum stað og í sínu samhengi. Það er nefnilega tími til að hlæja, en líka tíma til að gráta. Og tími til að þegja. Alla þá tíma umvefur iðkun kirkjunnar, hinn helgi tími, hin helga stund, hátíðin í helgidóminum og heimilum í gleði og sorg. Skírnin og útförin. Föstudagurinn langi og páskadagsmorgun.

Við erum dauðans og duftsins börn. Og oft erum við minnt á það. Oft er lífið sem táradalur, þjáninga og harma, við þurfum að vera minnt á, við þurfum að minna okkur á, að Guð er að verki, að lífið er í innsta grunni gleði, fegurð og friður. Eins og Jesús hinn krossfesti og upprisni birtir og boðar.

Sunnudagurinn er upprisudagur lausnarans. Drottins dagur. Með Drottins degi, páskadegi, hefst sérhver vinnuvika. Er ekki undursamlegt að við fáum að ganga til móts við hverja nýja viku, verkefni hversdagsins og átök, önn sem yndi, í birtu vonarinnar, upprisu og eilífs lífs? Sú milda morgunbirta fylgir okkur til móts við lífið, daginn og veginn.

Almannarómur heldur því fram, að kirkjan sé drepleiðinleg. Ljótt ef satt er. Leiðinlegt er það sem snertir mann ekki, hrærir ekki við strengjum sálar og anda. Samtíminn leitast við að meta flest allt á mælikvarða skemmtanagildisins. Allt á að vera svo fyndið, bara grín, bara djók, af því að það selur. Allir eiga að vera svo hressir, og öll alvara útlæg með öllu. Og því miður reynir kirkjan á stundum að reka af sér slyðruorð leiðindanna. Með tívolisering trúarlífsins, útlegð andaktar og virðingar og alvöru. Og þá týnir kirkjan sjálfri sér í buslugangi yfirborðsmennskunnar. Kirkjubrúðkaup eru æ meir ofurseld þessu. Þar á allt að vera, eins og séra Hjálmar Jónsson dómkirkjupresturinn varpaði fram á góðri stundu og hitti eins og iðulega naglann á höfuðið: “Flottur prestur, fyndin ræða,/ fjörugt popp sem hressir geð. Ástarfaðir himinhæða,- hann er ekki lengur með.“

Lotningin og virðingin eru mannssálinni nauðsynleg, ekki síður en hlátur, leikur og gleði. Lotning og virðing í samfylgd með gleðinni vekja og næra góðvild, væntumþykju, já, og umburðarlyndi.

Þegar deilurnar um skopmyndirnar af Múhameð spámanni voru í algleymi heyrðist því haldið fram að æsingurinn vegna myndanna opinberi húmorsleysi og heiftarhug múslima. Mér finnst hann opinbera umfram allt hve tortryggni, vænisýki á báða bóga, hroki og hleypidómar grafa um sig. Og hve auðvelt það er allrahanda ofstopamönnum að virkja það til óhæfuverka.

Frelsið er dýrmætt og heilagt í hugum okkar. En skyldi vera að mesti óvinur frelsisins sé einmitt frelsið, það er frelsi án taumhalds virðingar og siðgæðis? Svo margt í okkar samtíð ber keim af umburðarlausum hroka sem áskilur sér frelsi til að virða engin mörk og ögra allri heilbrigðri blygðunarsemi og tilfinningum sem ærlegu fólki er heilagt. Gullna reglan, sú góða regla sem Jesús gefur okkur til viðmiðunar siðgæði og samvisku, “allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra,” hvetur til virðingar fyrir öðrum. Sérhver siðuð manneskja temur sér tilfinningu fyrir mörkum sem ekki má rjúfa, og samvisku sem minnir mann á að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

“Fagna, Guð þér frelsi gefur fyrir Drottin Jesú Krist!”

Fögnuður páskanna er fregn sem er uppspretta vonar, frelsis og friðar. Fagnaðarerindið um krossinn og upprisuna afhjúpar vanmátt haturs, hleypidóma og mannfyrirlitningar sem fjötrar og deyðir, upprisuboðskapurinn er öflug andmæli gegn sigurvissum hroka og sjálfbirgingsskap hverrar ættar sem hann er. Og meir en það: Hinn krossfesti og upprisni Kristur er að verki, afl og áhrif ljóssins og lífsins er að verki, afl og áhrif fyrirgefningar, miskunnsemi, friðar og frelsis er að ryðja sér braut, og kallar þig til fylgdar við sig á þeirri sigurför. Miskunn hans sefar mæðu og neyð. Krafur kærleika hans ber sigurorð af hatri, sannleikurinn sigrar lygi, lífið sigrar dauðann. “Sigur þinn oss sigur gefi, sigurhetjan Jesús minn.”

Sól rís að liðinni nóttu, árroði hennar merlar himinn og heim og vitnar um hann sem er upprisan og lífið. Óttumst ekki afl forgengileika og hrörnunar, hræðumst ekki húmið heljar og dauðans nótt og dimmar grafir! Hið forgengilega mun íklæðast óforgengileikanum. Hatur og Hel eru sigruð, að eilífu. Því Kristur er upprisinn! Já, hann er sannarlega upprisinn! Gleðilega páska í Jesú blessaða nafni.