Sigrún og skip hennar Skaftfellingur

Sigrún og skip hennar Skaftfellingur

Svo sem vel hefur komið fram á heimasíðu Þjóðkirkjunnar stendur nú yfir sýning á völdum verkum Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu í Seltjarnarkirkju í tilefni af aldarafmæli hennar 19. ágúst sl.
Mynd
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
07. september 2021

Svo sem vel hefur komið fram á heimasíðu Þjóðkirkjunnar stendur nú yfir sýning á völdum verkum Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu í Seltjarnarkirkju í tilefni af aldarafmæli hennar 19. ágúst sl. Fyrir tuttugu árum var haldið veglega upp á 80 ára afmæli hennar í heimabæ hennar Vík í Mýrdal. Jafnframt var því fagnað að vöruflutningaskipið Skaftfellingur VE 33, sem í meira en fjóra áratugi var helsta samgöngutæki byggðarinnar í Vík og sveitanna þar nærri við umheiminn, var komið aftur heim í Vík. Sigrún hafði mjög beitt sér fyrir því. Skipið var illa farið en til stóð að endurbyggja það.

Í lok ávarps, sem séra Gunnþór Þ. Ingason flutti í fjölsóttri afmælisveislunni, fór hann með eftirfarandi ljóð er hann nefndi: Sigrún og skip hennar Skaftfellingur.           

Öruggt skipið öldur hafsins klýfur

og ákaft gleður fólk við Vík og sand,

því einangrun við umheiminn það rýfur

er akkerið það festir nær við land.

Með skipsins vörum skapast strandafjör

því Skaftfellingur bætir mannlífskjör.

 

Varningurinn vekur þökk og gleði

er verður síðar minning fáu lík,

því Skaftfellingur lífsins láni réði

sem lífæð strandabyggðum gæfurík.

Þú Sigrún færð þitt fleyið jafnan séð

er fagnar því sem auðnu þinni réð.

 

Er hafið gerðu vígvélar og vargar 

að varasamri heimstyrjaldarslóð,

það kafbátsverjum varð til lífs og bjargar    

þótt væri lítils metið þýskra blóð.

Því kærleikurinn lífi gefur lit

þótt lygi stríðsins myrkvi skyn og vit.

 

Litbrigði og lífsins sögu þræða

við lágan sand og glæsta fjallasýn

verkin þín og vefnað birtu glæða,

er vitna um horfnu bernskusporin þín.

Varð þér opin leið um höf og lönd,

er leist þú skipið góða sigla að strönd.

 

Trúarkenndin varð þér leiðar vísir

og veg þinn greiddi inn á listabraut.

En ævisagan átökunum lýsir

er áttir þú við tíðarandans þraut,

en samt þú hugrökk hjartans fylgdir þrá

svo heillamiðum tókst þér oft að ná.

 

Þín listaköpun leiftrar fram í myndum

er leika nál og tvinni sporin sín.

Úr trúargeymd og landsins sögulindum

þú leitar fanga og sækir efnin þín.

Kirkjumunir, líf og listaverk

lýsa því hve sönn þú ert og sterk.

 

Stýr mínu fari heilu heim að ströndum

höklar þínir auðmjúkt bæn þá tjá,

og verk þín líkt og lyfta bænar höndum

og lofa Guð er svalar dýpstu þrá.

Hann nærir lífið, ljósi, trú og ást,

sú list er sönn ef sporin hans þar sjást.

 

Hér fagnar þú nú ævileið og árum 

og áttræð berðu gleðisvip af þeim. 

En skipið þitt er fyrrum flaut á bárum

er feyskið nú en samt þó komið heim.

Skaftfellingi verður enn í Vík                             

virðing sýnd og gjörð þín heillarík.