Að hlusta, þiggja og gefa

Að hlusta, þiggja og gefa

Í sál og hjarta áttu viðtæki til að taka við þeim boðum, orði, mynd þar sem Guð er að blessa þig og senda þig áfram með blessunina til annarra.

Blessa, Drottinn, jólagleði og jólafrið og signdu jólasorg allra þinna barn í Jesú nafni. Amen

Gleðileg jól!

Jólamessa Sjónvarpsins er að þessu sinni tekin upp í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Helgidómurinn ómar af söng og tónlist þeirra dásamlegu kóra og tónlistarmanna sem hér iðka list sína á helgum og hátíðum um ársins hring, Guði til dýrðar, einstaklingum og samfélagi til uppbyggingar og blessunar. Eins og gerist í kirkjum landsins þar sem fjöldi fólks leggur fram góða krafta og náðargáfur í þjónustu við Guð og menn. Guð launi það og blessi allt sem lagt er að mörkum til að lofa Guð og fegra og bæta lífið. Þegar orð Guðs og helgur söngur fyllir kirkjuna og snertir hjörtu mannanna þá er Guð að blessa og lækna þennan heim.

Ríkisútvarpið hefur minnst áttræðisafmælis síns með margvíslegu móti á þessu ári. Íslendingar samfagna því svo samofið sem það hefur verið lífi og samfélagi okkar, samkomustaður, skóli, já og heimilisvinur. Ég nefni til dæmis klukkur Dómkirkjunnar sem hljóma í útvarpinu og hringja jólin, ég nefni þýðar raddir þulanna sem fluttu okkur jólakveðjurnar sem okkur eru svo hjartfólgnar og kærkomnar.

Ári áður en Ríkisútvarpið var stofnað þá var efnt til hugmyndasamkeppni um höfuðkirkju hér á Skólavörðuhæð. Í forsendum samkeppninnar voru sett þau skilyrði að turn kirkjunnar væri svo hár að þjónað gæti væntanlegu útvarpi á Íslandi! Hallgrímskirkja var sem sagt meðal annars hugsuð til að þjóna hinni nýju tækni útvarpsins. Það er alls ekki langsótt. Helgidómurinn er eins konar senditæki boðmiðlunar, kirkjan er send, hún er útsending. Reyndar merkir orðið messa útsending.

Í sál og hjarta áttu viðtæki til að taka við þeim boðum, orði, mynd þar sem Guð er að blessa þig og senda þig áfram með blessunina til annarra. Það er nefnilega umfram allt í þeim tilgangi sem Guð sendir engla sína, sendiboða sína, og gefur gjafir sínar til að þau sem heyra og þiggja gefi það áfram, miðli því áfram til annarra.

* * *

Árdagsljós um lágan kofa leiftri slær

blika augu blá og skær vekur fögnuð veikra handa fálm:

lífsins rós og lögð að vanda í hálm.

Svona tjáir skáldið Einar Bragi fegurð hins hljóðláta, látlausa og hógværa veruleika sem jólaguðspjallið lýsir. Lágur kofi, lítið barn sem lagt er í hálm. Þar með hófst sú „útsending“ sem markað hefur dýpri heillaspor en nokkuð annað.

* * *

Fátækir hirðar sem vöktu yfir hjörð sinni um myrka nótt fengufyrstir allra að heyra gleðifréttina. Samt voru fjárhirðar svo lítils metnir í samtíð sinni að þeir máttu ekki bera vitni fyrir rétti. Sama átti við um konur. Er ekki merkilegt að Guð velur hirða til að votta fæðingu frelsarans og konur til að votta upprisu hans frá dauðum? Svona snýr Guð einatt við gildismati heimsins!

Hvers vegna birtist jólaengillinn ekki hirðmönnum Heródesar eða æðstaprestinum og fræðimönnunum? Vissi Guð kannski að þeir myndu aldrei heyra? Hroki auðs og valda kæfir einatt þau boð sem Guð vill bera mannheimi. Hann vill ná undir yfirborð og umbúðir og snerta hjarta manns. Þess vegna birtist hann sem lítið barn, og þau sem hann kallar til vitnis eru hversdagsmanneskjur í hörðum heimi. Það sem þarf eru nefnilega manneskjur sem eru opnar fyrir undrinu og leyndardóminum og fögnuðinum sem sprettur úr djúpum tilverunnar. Þær lúta lágt við lága jötu og skynja þann sannleika sem mun breyta rás heimsins, lækna líf og heim.

Engillinn birtist hirðunum vegna þess að þeir voru í kyrrð, á eyðilegri heiði um hljóða nótt, þessvegna gat Guð náð til þeirra. Þeir hafa þekkt kvíða og myrkfælni, óreiðu og streitu ekki síður en við. En þeir hafa lært að hlusta.

Vilji maður heyra og skynja það sem er mælt hljóðlega og af hógværð verður að hlusta vel. Og sumt verður ekki tjáð, kemst aldrei til skila nema í kyrrð, sem gefur færi á umhugsun og skerpir athyglina fyrir því ósagða og orðlausa. Bæn er að stilla huga og vitund inn á bylgjulengd þeirrar kyrrðar.

* * *

vekur fögnuð veikra handa fálm:

Manneskjan hefur í aldanna rás gert sér alls konar hugmyndir um Guð. En það var kristnin sem fyrst kynnir heiminum Guð í mynd ungbarns, Guð á jörðu sem varnalaust ungbarn, algerlega öðrum háð um allt. Svona vildi Guð sýna ásjónu sína í heiminum okkar, svona vildi Guð sýna mannkyni hvað það er sem máli skiptir. Mannlegt allt vill hann helga návist sinni, veikleiki og varnaleysi manneskjunnar er óendanlega dýrmætt og mikilvægt í augum hans. Í heimi sem dýrkar valdið og auðinn er svo mikilvægt að sagan sé sögð og söngvarnir sungnir, bænin iðkuð og hefðir ræktar sem halda á lofti mætti hins varnalausa kærleika. Guð gaf sig í okkar hendur, það hefur breytt lífi mínu og svo ótal, ótal margra. Með komu hans rann upp hamingju og heillastund í heiminum, hinn einstæði vitjunartími í sögu mannkyns. Hann kom með birtu og frið, en menn vildu ekki þiggja, vildu ekki taka á móti honum, úthýstu og deyddu hann á krossi. Og enn er sú sorgarsaga að gerast, enn sækir myrkrið að. En Drottinn opnaði veg, ljóssins leið út úr vítahring haturs og ofbeldis, veg til lífsins, hins sanna lífs: Jesús.

Drottinn birtist sem „veikra handa fálm“ barnsins í jötunni, sem hrífur hjörtun svo að þau ljúkast upp í umhyggju, trú, von og kærleika. Það sýna jólin enn og aftur, þegar allt virðist leggjast á eitt að gleðja og gleðjast, rétta út hendur sátta og fyrirgefningar, endurnýja rofin tengsl og lækna það sem illska og hatur hefur spillt og sundrað, þetta er hinn virki læknismáttur og sigurafl kærleikans.

* * *

Sem betur fer heyra flest börn á Íslandi söguna af Jesú og læra að biðja, þökk sé foreldrum og ömmum og öfum þessa lands. Ung móðir sagði einhverju sinni að þegar hún fór að kenna barninu sínu „Ó, Jesús, bróðir besti,“ hafi henni fundist hún eignast barnið sitt að nýju.

Sem barn naut ég þeirrar gæfu að læra bænir og vers og sálma, eins og jólasálmana sem maður fékk inn í sig áreynslulaust. Ég skildi bara sumt og misskildi margt - ég man td að mér stóð stuggur af þessari meinvillu kind sem í myrkrunum lá! En eins og vitur maður sagði: „Skelfing er það fólk fátækt sem ekkert hefur í höfðinu nema það sem er skiljanlegt!“

Guði sé lof fyrir að við fengum að læra eitt og annað sem við ekki skildum! Hjartað skildi bænaversin og sálmana og það var nóg, mál og rómur fékk að tjá það. Svo kom skilningurinn smám saman, á sumu af því máske aldrei – fyrr en í eilífðinni. Þá lýkst allt upp.

Guð birtir vilja sinn og veru í Jesú Kristi, í lífi hans, orðum og verkum, í dauða hans á krossi og upprisu hans frá dauðum. Við skiljum það ekki en í nótt fáum við að hvílast í undrun og þökk, lotning og bæn andspænis þeim leyndardómi, þiggja og þakka.

* * *

Árdagsljós um lágan kofa leiftri slær

Stundum blikar það gegnum tár vonbrigða, sorgar og saknaðar. Þú sem ert í þeim aðstæðum horfðu til jólaljósanna. Í söng og boðskap jóla stendur engill Drottins hjá þér nú, blik og endurómur frá þeim veruleika þar sem ástin og náðin umvefja allt, og engin sorg er framar til, engin tár, nema gleðitár endurfundanna. Eins og við munum syngja á eftir: „Í myrkrum ljómar lífsins sól. Þér Guð sé lof fyrir gleðileg jól!“

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen