Byggjum upp til hamingju og sáttar

Byggjum upp til hamingju og sáttar

Margir vilja meina að þegar hið meinta góðæri stóð sem hæst hafi verðmætamat brenglast og siðferðisþröskuldar lækkað á kostnað þeirra gömlu siðferðisgilda sem áður voru í heiðri höfð.

[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.

Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. Jóh 16.5-15

Hin árlega prestastefna var haldin í nýliðinni viku. Hún er árlegur fundur vígðra þjóna kirkjunnar þar sem kirkjunnar mál eru rædd og skipst er á skoðunum. Og Guði sé lof að þá rúmar prestastefnan margar ólíkar skoðanir. En þvert á það sem margir halda voru mörg málefni til umfjöllunar og meðal annars var þar rætt um uppgjör og uppbyggingu í samfélaginu okkar í kjölfar alls þess sem á undan er gengið. Ýmislegt hefur verið unnið í átt að uppgjöri í þjóðfélaginu en ennþá er mikið verk óunnið og langt í land svo almenn sátt geti skapast. Margir vilja meina að þegar hið meinta góðæri stóð sem hæst hafi verðmætamat brenglast og siðferðisþröskuldar lækkað á kostnað þeirra gömlu siðferðisgilda sem áður voru í heiðri höfð. Það voru miklir fjármunir í umferð í íslensku efnahagskerfi og margir höfðu meira fé á milli handa en þeir áður þekktu og gátu þar með leyft sér meira. Einhverjir töldu það allt vera skref á leið til aukinnar hamingju og velsældar. En Það hefur sýnt sig að meiri hagsæld sé ekki endilega ávísun á meiri lífshamingju. Bandaríski sálfræðingurinn David G. Myers gerði umfangsmikla könnun á hamingjunni í ólíkum menningarheimum og í stuttu máli sagt var niðurstaða hans sú að mjög lítil fylgni er á milli efnislegra gæða og hamingju, hvar sem fæti er stigið á þessa jörð, nema þó þar sem um var að ræða sára fátækt og grundvallarþarfir voru ekki uppfylltar.

Nei, þar eru það önnur atriði sem vega þyngra til að hækka hamingjustuðulinn og almenna velsæld. Já, margir samverkandi þættir sem þar hafa áhrif og vísa meðal annars til trúar og siðferðis. Og nú er hún hávær krafan að nú skulu hafin upp gömlu siðferðisgildi samfélagsins er við byggjum upp á ný.

Um það verður ekki deilt að kristin trú og kristinn siður hefur mótað íslenskt siðferði og samfélag nánast frá upphafi byggðar í þessu landi. Kristnin hefur reynst þjóðinni sterkt haldreipi á erfiðum tímum í gegnum aldirnar og er sá siðferðisgrunnur sem mörg samfélög í þessum heimi byggja á. Sá grunnur hefur reynst ákaflega vel og þar sem hinn kristni boðskapur hefur náð rótfestu hefur hann blásið jákvæðum áhrifum í líf og samfélag.

Sú saga er til af því þegar hinn þekkti breski náttúrufræðingur Charles Darwin kom heim úr fyrstu ferð sinni til Tierra del Fuego sagði hann svo frá að hvergi á jarðríki væri til eins úrkynjað fólk og það sem þar ætti heima. Hann lýsti því yfir að hann ,,vildi heldur reyna að kenna hundum mannasiði en fólkinu á þessum slóðum.“ Ungur maður, Tom Bridges heyrði þessi ummæli Darwins og bauðst til að gerast kristniboði á þessum slóðum og fór af stað til að setjast að meðal frumstæðustu manna í heimi. Og sögubækurnar segja að til fararinnar hafi hann aðeins tekið einn vermætan hlut með sér. Biblíuna. Tólf árum eftir fyrstu ferð sína til Tierra del Fuego kom Darwin þangað aftur. Þegar hann steig á land heyrði hann undarleg hljóð. Var þá verið að hringja klukkum til morgunguðsþjónustu í þorpinu. Hann tók eftir fólkinu flykkjast til litlu kirkjunnar. Og hann sá að það naut margra gæða siðmenningarinnar. Það er ljóst að þarna hafði Guð starfað og þeir sem bjuggu á þessum litla stað nutu þeirrar blessunar að tileinka sér kristna trú og fylgja Drottins orði. Guð hafði notað mann og Biblíu til þess að vinna þetta máttarverk. Enginn getur séð til fulls hvílíkt gildi Biblían og kristin trú hefur haft fyrir siðmenningu og upplýsingu jarðarbúa. Þar er þó einungis um að ræða einn þáttinn í áhrifum hennar. Meginhlutverk sitt vinnur Biblían í hjörtum einstaklinganna. Í Biblíunni eru allir fjársjóðir spekinnar fólgnir. En hún býr yfir meiru en speki. Hún veitir mönnum kraft til þess að lifa í samræmi við þá speki, í kærleikanum, voninni og þeirri trú að andi Guðs sé yfir og allt um kring. Það er sá andi sem glæðir líf og trú og er alls staðar nærri.

Í guðspjalli þessa Drottins dags, sem birtir okkur hluta úr kveðjuræðu Jesú til lærisveina sinna, þar sem hann er að búa þá undir þá þjáningu og kvöl sem framundan var, nóttina erfiðu og leiðina að krossinum. Eðlilega voru lærisveinarnir kvíðafullir og sorgmæddir yfir því að Jesús væri að kveðja. Það eina sem þeir í raun vissu á þessari stundu var að Jesús yrði ekki lengur með þeim. Þeir höfðu haft Jesú fyrir augunum frá degi til dags í þrjú ár. Þeir höfðu hlustað á hann, horft á hann framkvæma undur og tákn,en þrátt fyrir það skildu þeir einungis brot af því sem hann sagði og gerði. En hann sagði þeim, að það að hann skyldi fara væri öllum fyrir bestu, vegna þess, að þegar hann færi, myndi hinn heilagi andi, hjálparinn koma. Þegar hann gekk um á jörðu, gat hann ekki alls staðar verið. Þá gat hann heldur ekki náð hugum, hjörtum og samvisku fólks hvar sem það gekk um. Honum voru nefnilega settar takmarkanir af tíma og rúmi. En andanum eru engar takmarkanir settar. Hvar sem við erum og hvert sem við förum er andinn helgi nálægur. Koma andans var uppfylling fyrirheitsins mikla sem við þekkjum svo vel og er lesið í hvert sinn þegar barn er borið til skírnar þar sem frelsarinn segir: Ég er með þér, alla daga, allt til enda veraldar (Mt. 28.20). Þetta er stóra loforðið. Jesús leit svo á að heilagur andi sé andi sannleikans og að verkefni hans sé að færa mönnum sannleika Guðs. Jesús er ekki aðeins persóna sem tilheyrir fortíðinni, nei, hann er lifandi persóna í dag og í honum heldur opinberun Guðs áfram er hann starfar í heiminum. Guð er enn að leiða okkur í allan sannleikann um Jesú og það sem hann segir. Það getur stundum verið erfitt að koma orðum að því þegar útskýra á guðdóminn. Það er ekki hægt nema að litlu leyti. En reynsla kynslóðanna sem hafa leyft góðum Guði að leiða sig áfram í lífi og starfi segja meira en mörg orð í þeim efnum. Já reynslusögurnar eru margar og milljarðar manna um gjörvallan heim hafa fengið að njóta þess að fela Drottni vegu sína og treyst honum og fundið það á eigin skinni að hann muni alltaf vel fyrir sjá.

Ein slík reynslusaga segir af manni sem hafði verið mikill drykkjumaður sem með Guðs hjálp hafði snúið við blaðinu, lét af drykkjuskapnum og fór að rækta sína kristna trú. Nokkrum mánuðum síðar hitti hann gamlan félaga sem var ákafur andstöðumaður kristninnar. Jæja, þér hafið tekið sinnaskiptum, sagði félaginn. Þá trúið þér líklega á kraftaverk, sagði hann í hæðnistón. Jú, sagði maðurinn, ég trúi sannarlega á kraftaverk.

Jahá, þér getið þá væntanlega útskýrt fyrir mér hvernig Jesús gat breytt vatni í vín eins og Biblían segir frá sagði félaginn að bragði.

Nei, það get ég ekki útskýrt svaraði hann. En komið endilega með mér heim og þá skal ég sýna yður annað kraftaverk sem Jesús hefur gert þar. Hann hefur breytt öli og brennivíni í húsgögn, góð föt og hamingjusama fjölskyldu.

Staðreyndin er nefnilega sú að Jesús vinnur daglega miklu meiri kraftaverk á meðal okkar en við getum nokkurn tímann gert okkur í hugarlund. Hann reis upp frá dauðum fyrir kraft Guðs. Þess vegna er Drottinn alltaf nærri. Hann er með hvern dag, hvort sem það er bjart yfir og lífið leikur við sem og á þeim stundum þegar á móti blæs og dimmir dalirnir blasa við, þar leiðir hann og styður hvert barn. Það er fyrir verk hins heilaga anda. Hjálparans.

Leyfum þess vegna þeim sama Guði og hans góða boðskap vera ráðandi þegar við byggjum upp nýtt samfélag á gömlum og góðum grunni. Þannig búum við hér gott og réttlátt samfélag, þar sem trú, siður og menning skapa hér þann grundvöll sem gefur af sér bæði hamingju og sátt, þjóðinni til heilla og Guði til dýrðar.