Prédikun í Reykholtskirkju

Prédikun í Reykholtskirkju

„Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.“ Þetta skrifar fyrir þúsund árum einn hinna miklu frumvotta kristinnar trúar, höfundur Hebreabréfsins í Nýja testamentinu. Þessi játning er heilög sameign allra kristinna manna fyrr og síðar, jafn dýrmæt á björtum hátíðum sem á dimmum og erfiðum stundum.

„Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.“ Þetta skrifar fyrir þúsund árum einn hinna miklu frumvotta kristinnar trúar, höfundur Hebreabréfsins í Nýja testamentinu. Þessi játning er heilög sameign allra kristinna manna fyrr og síðar, jafn dýrmæt á björtum hátíðum sem á dimmum og erfiðum stundum. Mér þótti gott, eins og oftar, að hafa þessi orð yfir í morgun, þegar ég hugsaði hingað. Jesús Kristur var hér fyrir, hinn sami Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann. Honum sé þökk og lof fyrir alla þá blessun, sem hann heufr fyrr og síðar gefið öllum, sem á þessum tigna stað hafa komið til móts við hann og lokið sér upp fyrir heilögum anda hans. Ég þakka prestinum, séra Geir, fyrir að bjóða mér hingað í dag. Og ég samfagna honum og frú Dagnýju og Reykholtssöfnuði og kristni landsins með þessa nýju, veglegu kirkju og með allt annað, sem á undanförnum árum hefur verið unnið þessum helgistað til vegsauka. Séra Geir á 30 ára vígsluafmæli á þessu ári. Blessunaróskir fær hann hér ítrekaðar frá vígsluföður sínum.

Margt breytist og umbyltist á skemmri tíma en 30 árum. Jesús Kristur er hinn sami. Hann hefur átt sinn helgidóm hér í þúsund ár og í skjóli þess helgidóms og út frá honum reis og efldist þessi staður og varð meðal hinna mestu hér á landi. Margir mikilhæfir prestar hafa þjónað kirkjunni hér. Sá merki fræðimaður, Kristleifur Þorsteinsson, hefur í ritgerð sagt deili á því skv sínu trausta minni og reynslu. Sú ritgerð er sérstæð, ef ekki einstæð heimild um prestssetur hér á landi. En enginn þeirra presta, sem lifðu og dóu hér, fékk slík eftirmæli sem séra Þorsteinn Helgason. Það var vinur hans, Jónas Hallgrímsson, sem kvaddi hann þannig, að það snart þjóðina alla og lætur engan ósnortinn, sem hefur íslenskar tilfinningar. Séra Þorsteinn dó ungur og voveiflega, drukknaði í Reykjadalsá, þar missti Ísland mikið, fannst Fjölnismönnum og öðrum, sem þekktu hann. En stórbrotið harmljóð Jónasar í minningu hans snýst upp í voldug sigurmál, þar sem saman fer heill og skýr kristinn trúarvitnisburður og vekjandi, bjartsýnn boðskapur um framtíð Íslands:

„Veit þá engi að Eyjan hvíta á sér enn vor ef fólkið þorir Guði að treysta, hlekki hrista, hlýða réttu, góðs að bíða.... Guð er á himni heima faðir og hrelldra barna, hvað sem veldur.“

Þetta ljóð lærði ég, lítill drengur í litlum bæ í sveit langt austur héðan. Ég vona að börnin hér í Borgarfirði og í öðrum byggðum landsins eigi eins gott núna að þessu leyti en mikill er munurinn á ytri högum nú og þá.

Já, Jónas og önnur þau stórmenni íslenskrar sögu, sem við eigum mest að þakka, kunnu ða meta þá örvun til góðs, þáu heilnæmu áhrif, þá blessun, sem kristin trú býr yfir og gefur. Þeir vildu leggja rækt við helgustu arfleifð og dýrmætustu eign þjóðarinnar. Þetta nærði og styrkti þá ættjarðarást, þá þjóðarvakningu, sem færði okkur frelsi og fullveldi á sínum tíma, en hófst með þeirri vakningu um íslenska tungu, sem við höfum búið að síðan, það hefur verið samstaða um það hér á landi til þessa að vaka yfir tungunni sem sjálfu því fjöreggi,sem sjálfstætt Ísland á líf sitt undir. Þessa íslensku lífsvitund mega engar veiðivonir á alþjóðamiðum né neinn velsældardoði fá að slæva né kæfa.

Hér í Reykholti sat Snorri, einn af höfuðsnillingum íslenskrar tungu. Sú ógæfa sem sótti að landinu á hans tíð, bitnaði illa á honum. En hann lét eftir sig dýrmætan arf. Vek hans eru kunn og ytri örlög hans. En hvar komumst við næst honum sjálfum? Hvað hugsaði hann um Ísland og afdrif þess, hvernig hugsaði hann til Guðs síns á þeim viðsjála háskatíma, sem hann var að lifa? Margt bendir til þess að Snorri sé höfundur Egilssögu. Egill var forfaðir Snorra í 8. lið og Snorri eignaðist Borg, öndvegi ættarinnar, sat þar um hróð og efldist þar mjög að auði og völdum. Efalaust hafa sagnir um Egil lifað fjörugu lífi meðal niðja hans og þr arfsagnir hafa verið áleitnar við ungan mann með mikið skáldlegt innsæi. En eitt auðkennir Egilssögu framar öðru: Höfundur hennar er að tlejs sjáfum sér og öðrum trú um það, að Íslendingar séu færir um að bjarga sér undan norsku konungsvaldi.

Við skulum minnast þess, að Snorri varð fyrstur íslenskra höfðingja til þess að ánetjast því valdi, þiggja jarlstign af því og lofa að koma Íslandi í greipar þess. En það loftð var örþrifaráð Snorra til þess að afstýra því að Norðmenn færu með her á hendur Íslendingum. Það var Skúli hertogi, sem hafði ákveðið þessa herferð, hann deildi völdum með Hákoni konungi, en þeir voru engir vinir, þrátt fyrir mægðir, og fóru síðast með her hvor gegn öðrum og Skúli féll fyrir vopnum konungs. Þess vegna missti Snorri höfuð sitt hér í Reykholti, að hann hafði veðjað á rangan hest í örlagaríkri valdakeppni. Ef þessari svæsnu norsku valdabaráttu hefði lyktað á hinn veginn og Hákon fallið fyrir tendaföður sínum, Skúla, er eins líklegt að Gissur hefði fallið fyrir tengdaföður sínum, Snorra. Engu hefði það breytt um afdrif Íslands, eins og á stóð. En líklega var enginn Íslendingur þá fær um að semja slíkt pólitískt meistarastykki sem Gamli sáttmáli er nema Gissur Þorvaldsson. Sagan býr yfir margri dul. Við skulum ekki fella svæsna dóma um liðna menn. En til þess eru vítin að varast þau og mættum við hafa vit og giptu til að taka það alvarlega. En sem sagt: Egilssaga snýst um það, að íslenskur kjarkur, íslensk árvekni, vitsmunir og skáldgáfa geti bjargað íslenskum mönnum undarn ásælnu, erlendu valdir. Og þetta er líka áberandi atriði í Heimskringlu, sem við vitum að Snorri samdi. Þar er sú ræða, sem Einar Þveræingur flutti á Alþingi, þegar Ólafur kóngur Haraldsson seildist til ítaka hér á landi og hafði valdamikla höfðingja landsins á sínu bandi um það. Þeirri ræðu hefur Snorri skilað til okkar og fært í stílinn amk svo ekki sé meira sagt um það, hvað hann kunni að eiga í þessum sterku varnaðarorðum. Þegar Snorri skráir hana eru 200 ár síðan hún var flutt. Snorri segir líka frá því í Heimskringlu, að landvættir snerust til varnar Íslandi, þegar danskur kóngshrammur ætlaði að seilast hingað með hervaldi. Snorri er einn til frásagnar um þessa æðri íhlutun í málefni Íslands, eins og hann er einn til frásagnar um ræðu Einars. Þær verndarverur Íslands, sem Snorri leiðir fram og gerðu ill áform gegn landinu að engu, þær prýða nú skjaldarmerki íslenska lýðveldisins, en Snorri sótti þær í Biblíuna. Eigum við svo að gleyma öllu, sem Ísland hefur þegið af Biblíunni? Hún kenndi Snorra m.a. það, að til eru verndarenglar, sem þjóna þeim Guði, sem er skapari himins og jarðar, faðir Drottins Jesú, vörður og verndari allra, sem honum treysta. Minnumst þess, að Ísland er honum vígt og helgað. Hann bregst aldrei neinum, hvernig sem mennirnir bregðast honum. Snorri er í frásögn sinni að heita á þann Guð að verja Ísland, bjarga því.

Það gæti hugsast, að sú höfuðlausn Egils, sem bjargaði lífi hans þegar hann hafði hrakist í greiparnar á Eiríki blóðöx, hafi verið skráð á skinn hér í Reykholti sem dulbúin bæn og von um það, að Ísland missti ekki höfuð sitt á höggstokki norsku krúnunnar. En það fór nú samt svo illa. Römm öfl og vond ollu því. Það kemur fyrir að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun. Verst fer þeim ævinlega, þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér – ég er ekki viss nema einhverjir sperrtir hanar á tildurshaugum samtímans mættu taka þetta til sín. Og það er ekki hættulaust að seiljast undir framandi íhlutanir og yfirráð. Hákon konungur reyndist Íslandi óehillavaldur.En verri en Hákon eru þeau máttarvöld sum, sem menn eru svo aumlega flatir fyrir nú á dögum. Ég nefni aðeins það sjúka yfirlæti, sem þykist upp úr því vaxið að gera ráð fyrir neinu æðra sjálfum sér í alheimi, og þann gráðuga Mammon, sem virðir ekkert, enga helgidóma, engar hugsjónir, engin gildi.

En Jesús Kristur er hinn sami. Það er dýrmætust sameign okkar með kynslóðum liðinna alda og örugglega liggur þeim öllum í eilífð sinni það þyngst á hjarta, að við bregðum ekki trúnaði við hann, konunginn eina sanna. Kirkjan hans á mikla fortíð í þessu landi. En hún er engin fortíð Hinn upprisni Jesús Kristur er framtíðin, hann er sá dagboði, sem kunngjörir það , að Guð kærleikans hefur fyrsta og síðasta orðið í tilverunni allri. Hann sigrar allt um síðir. Ferill hans, samleið hans með þessari brestóttu, blessuðu þjóð og öllu mannkyni er pislarganga, krossferill. En hann er upprisinn og stefnir með allt inn í ljóma upprisunnar, endurfæddrar tilveru. Fögnum því og þökkum það að mega fylgja honum, stríða með honum, sigra með honum, sakir eilfrar miskunnar hans.