Fundinn!

Fundinn!

Símon Jóhannesson gekk fram fyrir Jesú Krist og fékk nýtt nafn sem hefur djúpa merkingu fyrir alla kirkjuna og líf hennar síðan. Þegar við vorum borin fram fyrir frelsarann Jesú Krist í heilagri skírn fengum við nafn, eða það nafn sem við þegar bárum fékk dýpri merkingu. Það varð skírnarnafn.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
11. janúar 2006
Flokkar

Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans. Hann sér Jesú á gangi og segir: Sjá, Guðs lamb. Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú. Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: Hvers leitið þið? Þeir svara: Rabbí það þýðir meistari , hvar dvelst þú? Hann segir: Komið og sjáið. Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis. Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: Við höfum fundið Messías! (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.) Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: ”Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas” (Pétur, það þýðir klettur) . Jh. 1. 35 – 42

Kæri miðvikudagssöfnuður. Þetta er undursamlegur texti. Þetta er frásögn, lifandi frásögn um sögulegan atburð, sem hefur mikil áhrif á sögupersónurnar sem nefndar eru, og getur haft afdrifarík áhrif á heyrendur tvö þúsund árum síðar.

Jóhannes skírari er á ferð með lærisveinum sínum.

Þennan daginn eru þeir bara tveir sem eru með honum. Daginn áður voru þeir fleiri. Og þeir sjá Jesú. Álengdar. Báða dagana.

Það eru tímamót. Þetta er upphaf starfstíma Drottins í jarðneskum skilningi. Stundum er sagt sem svo að hér hefjist saga kirkjunnar.

Jóhannes vísar tveim af lærisveinum sínum á Jesú, trúr því sem hann sagði í annað sinn: Hann á að vaxa, ég að minnka. Hann vísar þeim til hans sem tekur við og fullkomnar verkið.

Við vitum af frásögninni að annar lærisveinninn er Andrés, bróðir Símonar Péturs. En hinn?

Sumir segja að það sé guðspjallamaðurinn sjálfur. Hann verður vitni að því sem er kemur fram í guðspjallinu og er lykilsetning þessa texta.

Það er það sem Andrés segir við bróður sinn:

Við höfum fundið Messías.

Og þessi Messías hefur verið kynntur af Jóhannesi með orðunum : Sjá Guðs lambið. Það er eftirtektarvert og dýrmætt umhugsunarefni að skoða hvernig mismunandi þýðingar Biblíunnar, og mismunandi tungumál miðla þessu. Það sést best á því hvort sagt er: Sjá Guðs lambið sem ber synd heimsins, eða Sjá Guðs lambið sem ber burt synd heimsins, eins og við syngjum í söng kirkjunnar þegar hún gengur innar, til að móttaka heilagt sakramenti líkama Krists og blóðs.

Ekki er nú meiningin að reyna að svara hér fyrir alla, en það er ekki fráleitt að álykta að flestum sé svo farið að þykja mikill munur á.

Það er ekki hinn sami Jesús Kristur sem ber synd heimsins og ber hana burt. Munurinn er hinn sami og þegar sagt er: Ég skal taka undir byrðina með þér, og ég skal taka hana af þér.

* * *

En meginumhugsunarefni okkar er þó fyrst og fremst vitnisburður Andrésar. Það er vegna þess að í þessum heimi er til fólk sem leitar og gerir leitina að inntaki lífsins. Það er til fólk sem leitar og finnur inntak lífsins. Og svo er til fólk sem leitar og er sjálft fundið.

Þetta er umhugsunarefni okkar á þessum morgni. Í hvaða flokki erum við. Og um leið og við hugleiðum það skulum við setja okkur í spor Símonar Péturs þegar Andrés kom til hans og tengdi hann við Krist. Og við skulum spyrja okkur þeirrar spurningar: Hver var það í okkar eigin lífi sem kom á okkar eigin stefnumóti við frelsarann Jesú Krist. Og þegar við höfum fundið svarið við spurningunni, skulum við þakka Guði fyrir þá manneskju sem var Andrés í okkar lífi.

Símon Jóhannesson gekk fram fyrir Jesú Krist og fékk nýtt nafn sem hefur djúpa merkingu fyrir alla kirkjuna og líf hennar síðan. Þegar við vorum borin fram fyrir frelsarann Jesú Krist í heilagri skírn fengum við nafn, eða það nafn sem við þegar bárum fékk dýpri merkingu. Það varð skírnarnafn.

Skírnarnafnið er helgur dómur. Guð gefi að við minnumst þess einnig í hver sinn og við nefnum okkar eigið nafn, að það er skírnarnafn!