Framtakssemi frændanna

Framtakssemi frændanna

Það er von, að nöfn þeirra frænda Guðbrands og Hallgríms séu í heiðri höfð. Báðir áttu sér bjargfastan trúargrundvöll og einskæra löngun til þess að miðla honum, öðrum til blessunar. Hvorugir létu undan ytra áreiti. Báðir skynjuðu þau miklu verðmæti, sem kristindómurinn geymir og þörfina á, að halda boðuninni til haga. Stuðla þannig að heill fólks, við oft erfiðar og hörmulegar aðstæður og fleyta því yfir boða og brimskafla lífsins.

Ég veit minn ljúfur lifir. Lausnarinn himnum á. Hann ræður öllu yfir, einn heitir Jesús sá. Sigrarinn dauðans sanni, sjálfur á krossi dó. Og mér, svo aumum manni, eilíft líf víst til bjó.

Kæru systkin! Við höldum Hólahátíð, - og til hamingju!.

Mér og eiginkonu mikill heiður að fá að deila stund með ykkur hér ekki síst í þessum fagra og gagnmerka helgidómi og kærar þakkir fyrir það. Já, við höldum hátíð innan um allar þær fjölmörgu hátíðir sem haldnar eru víða um land yfir sumartímann. Fólk, í stríðum straumum á faraldsfæti þyrst í að kynna sér háttu, sérkenni, mannlíf og menningu og njóta þess einfaldlega að vera til. Ástæða og innihald oft persónulegt og skilgreint á staðnum.

En nú áð, - á fornhelgum stað, hlaðinn sögu, sem auðgað hefur menningu og trúarlíf þjóðar að mun, m.a. með framtakssemi Guðbrands Þorlákssonar biskups með prentverki sínu og með útgáfu biblíunnar á íslenskri tungu.

Og að þessu sinni sviðsljósinu beint að fyrrum hringjarasyni staðarins, Hallgrími Péturssyni, fjögurra alda afmælis hans og ómetanlegu framlagi. Ekki djúpt í árina tekið, þótt sagt sé að með verkum sínum hafi þeir frændur, trúar- og menningarjöfrar, haft gríðarleg og gagntæk áhrif á ótaldar kynslóðir. Báðir fundið hjá sér köllun og hvöt til þess að setja innihaldsríkt efni í aðgengilegt og skiljanlegra form.

Markmiðið fræðsla um innihald sem miðar að því að rétta úr manninum. Leysa hann úr viðjum hugsýki og úr sálarkröm sektar- og vanmetakenndar. Já! Upp, upp mín sál og allt mitt geð!

Hallgrími mjög í mun að lyfta anda fólks. Láta trúna hefja það upp yfir tímanlegt og veraldlegt vafstur, að það fái speglað sjálft sig í sinni jarðnesku mynd með hjálpræðið að leiðarljósi.

Leitað, í smiðju höfundar 121 Davíðssálms og hvatning hans gerð að sinni, sem hljómar, við nánast hverja Guðsþjónustu hér á landi. "Ég hef augu mín til fjallanna. Hvaðan kemur mér hjálp. Hjálp mín kemur frá Drottni. Skapara himins og jarðar."

Ekki hlaðið undir tíðarandann og sístæða kröfu hans, um að slá takt sinn, vera á tánum og keppast við að halda síg á hans nótum og vera þannig, hipp og kúl. Heldur, án alls slíks tildurs geta staðið uppréttur og keikur með lífsgrundvöll sem ekkert tímanlegt eða veraldlegt fær haggað.

Í dag, á Kristur við okkur erindi. Vill veita okkur fræðslu um okkur sjálf og þar ekkert nýtt. Mannseðlið, samt við sig. Sögumaðurinn mikli málar í hugum áheyrenda sinna, mynd af ráðsmanni er sóar eigum húsbónda síns. Og eftir að húsbóndinn hefur veitt honum ráðningu og sett hann af heldur ráðsmaðurinn áfram uppteknum hætti. Hittir fyrir skuldunauta húsbónda síns og gefur þeim eftir skuldir þeirra að hluta. Einhver hefði túlkað það svo að þar með hefði hann bitið höfuðið af skömminni. En það gerir húsbóndinn ekki. Heldur hrósar svikula ráðsmanninum fyrir hyggindi. Eftirtektarvert að ráðsmaðurinn neitar ekki sekt sinni heldur gengst við henni. Sama auðmýkt hefði ugglaust slegið mjög á uppsafnaða reiði fólks og hneykslan í kjölfar hrunsins. Að gera undanbragðalaust uppgjör er heil afstaða eftir þeim kvörðum sem trúað fólk þekkir og opnar í huga þess leið til endurnýjunar. Þar hreyft við grundvallarþætti í heilsuvernd, altarissakramentinu hinum græðandi smyrslum sáttargjörðar í samfélagi trúaðra. Annað er einnig mikilvægt.

Þegar ráðsmaðurinn gerir sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna leggur hann ekki árar í bát, gefst ekki upp! Uggandi um sinn hag semur hann aðgerðaráætlun sem miðar að því, að létta byrðum af herðum annarra og um leið sínum eigin. Jesús jafnan skyggn á mannlegt eðli. Ráðsmaðurinn gerði þrátt fyrir allt, í sjálfselsku sinni og örvæntingu, - það, sem húsbóndanum hugnaðist. Álpaðist, skulum við segja til að vera skuldunautunum húsbóndans, miskunnsamur og góður.

Það merkir, að augu Jesú sjá svo margt gott í okkur hinum verstu og svo margt vont í okkur hinum bestu. Sérhyggja og aðgreiningarárátta, veraldar- og peningahyggja, er honum þyrnir í augum, og dómsýkin, sem dregur fólk miskunnarlaust í dilka. Jesús hafnar svart/hvítum sjónarmiðum, lífvana fordómum sem loka á alla möguleika. Þegar einn af svonefndum útrásarvíkingum endurgreiðir amk. hluta skulda sinna upp á 1200 milljarða, verðmæti, sem hugur minn að vísu rúmar ekki, - er það hrósunarefni.

Og kænska manna lætur ekki að sér hæða og hún ekki séríslenskt fyrirbrigði, en við íslendingar erum að mínu viti heimsmethafar í björgunaraðgerðum eða reddingum.

Sem er betra en ekki og utanfrá hlotið hrós fyrir. Þegar álverið í Reyðarfirði var í smíðum fór eitthvað mikilvægt í verkferlinu úrskeiðis. Erlendir stjórnendur, töldu þá brýnt, að skipa nefnd til þess að fara yfir málin og láta síðan sérfræðingahóp gera áætlun um lagfæringu. Það var farið í kaffi, en þegar stjórnendur komu úr því og ætluðu að skipa í nefndina höfðu íslenskir verktakar fært allt í lag og bjargað málum. Já, gott ef það lánast en stenst samt ekki samjöfnuð við fyrirhyggju og trúmennsku, - eins og dæmin sanna.

Hæfileikar hinnar hagsýnu húsmóður nýtast til fullnustu á meðan stætt er. Það sýnir sig best, þegar að kirkjunni er þrengt jafnvel með óvægum og ósanngjörnum hætti. Fjárhagslegum, sem öðrum.

Ég, ekki mótfallinn því síður en svo að plötusnúðar útvarps allra landsmanna leiki tónlist linnulítið þótt mér líki hún ekki öll. En að bera því við að stutt og falleg, uppbyggileg bæn, rúmist þar ekki einhvers staðar inn á milli, er mér með öllu óskiljanlegt. Jafnvel, - jafnvel, þótt fáir kunni að meta. En það er einnig mat fagfólks, að allt of fáir kunni að meta hollustufæði og margt það sem heilsusamlegt er.

Eða hvaða dyggð er það, að fylgja ávallt fjöldanum? Og áhyggjuefni þegar þeir sem stjórna ríkisfjölmiðli og ætlað, já, að bera á borð fyrir almenning menningarleg verðmæti, greina ekki lengur þau verðmæti sem kristindómurinn geymir og þá miklu sóun sem fylgir því að kasta þeim með þessum hætti á glæ. Og ný sjónarhorn láta sig ekki vanta.

Frá trúarbragðaráðuneyti Kína berast þær fregnir að nú þurfi að aðlaga kristindóminn stefnumiðum ríkjandi valdhafa.

Hvenær skyldu íslensk stjórnvöld fara fram á það við Þjóðkirkjuna að hún samræmi boðun sína markmiðum þeirra? - Eða mun það ef til vill gerast? Hefði Jesú, nokkru sinni dottið til hugar að aðlaga hjálpræðisverk sitt stefnumiðum andlegra leiðtoga sinnar samtíðar? Trúareigendunum, sem samræmt höfðu guðfræði og helgisiði að hagsmunum sínum.

Það kann að þykja við hæfi að kirkjunnar þjónar elti fólk upp á fjallatinda og jökulsporða til þess að helga og blessa, en það dregur ekki úr þörfinni á að koma kjarna boðunarinnar til skila. Um náðina! Að teysta því að Kristur hafi unnið sigurverkið.

Það er von, að nöfn þeirra frænda Guðbrands og Hallgríms séu í heiðri höfð. Báðir áttu sér bjargfastan trúargrundvöll og einskæra löngun til þess að miðla honum, öðrum til blessunar. Hvorugir létu undan ytra áreiti. Báðir skynjuðu þau miklu verðmæti, sem kristindómurinn geymir og þörfina á, að halda boðuninni til haga. Stuðla þannig að heill fólks, við oft erfiðar og hörmulegar aðstæður og fleyta því yfir boða og brimskafla lífsins.

Ég hlýddi um daginn, á heilbrigðisráðherra ræða málefni Landspítalans, fjöreggs þjóðarinnar, sem er eilífðarmál. Og eilífðarmálin, - víða rædd þessa dagana. Hann nefndi sem dæmi að ná mætti niður kostnaði við heilbrigðiskerfið með öflugum forvörnum. Að fá fólk ofanaf því að neyta alls konar óhollustu og því að temja sér niðurbrjótandi lífsstíl sem elur af sér sjúkdóma. Stemma stigu við aga- og stjórnleysi og koma þannig í veg fyrir sóun á fólki og fjármunum.

Mér hugsað til þess heilsufarslega sparnaðar sem hlotist hefur af framtakssemi áðurnefndra frænda. Hvernig hún hefur ekki síst á tímum þegar búið var við sárasta skort, virkjað hina styrkjandi og græðandi hönd trúarinnar sem fyrir verk þeirra og fyrirhyggju, snart fólk og reisti til andlegrar og líkamlegrar heilsu. Já, - heilsugæsla sem meta mætti sem ígildi landsspítala.

Mörg vers í passíusálmunum, hafa yljað mér um hjartarætur í gegnum tíðina en eitt þó staðið uppúr. Versið: Ég veit minn ljúfur lifir. Lausnarinn himnum á. Þar komið, í trúarþroska Hallgríms, að hann ól af sér vissu. Ekki lengur ég trúi eða treysti, heldur, ég veit! Það er fullvíst, þarf ekki lengur að ræða og út af borðinu.

Nokkuð úr takti við framsetningu á spurningunni, sem borin er upp við fermingu skv. helgisiðabók kirkjunnar.

Viltu leitast við, af fremsta megni...., - fyrir mér, - eins og viðkomandi myndi jafnvel ekki takast það að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins því svo erfitt myndi það reynast í andstreymi líðandi stundar. En Jesús kallaði menn, - ákveðið til þjónustu við sig: Fylg þú mér!

Mér er að lærast að hafa trú á unga fólkinu. Að óhætt sé að treysta því og kalla til ábyrgðar. Gefa því þennan dýrmæta demant trúarinnar eins og Pál postuli orðar það í pistli dagsins: "Ég þakka honum, sem mig styrkan gerði, - Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það, að hann sýndi mér það traust, að fela mér þjónustu,.... Já, sýndi honum það traust, að fela honum þjónustu. Traust Guðs á Páli og að Guð skyldi fela honum ábyrgð, þjónustu, gerði hann styrkan! Kirkjunni ætlað það hlutverk með þessum hætti að styrkja innviði þjóðarinnar, - að mun! Gefa henni traust andlegt bakland - sem brestur ei.

Útsjónarsemin og kænskan birtist helst í því að sýna öðrum traust og fela fólki í auknum mæli, þjónustu og ábyrgð. Það hefur ekki komið mér, og öðru kirkjufólki á óvart hversu opið ungt fólk er fyrir verðmætum trúarinnar og hversu þakklátt það er fyrir hverja þá andlegu næringu sem orð Guðs veitir.

En meir hefur það komið á óvart hversu tilbúið það er og áfram um að eignast hlutdeild í boðunninni og finna að því er treyst fyrir mikilvægu verkefni og fá þannig að vitna um trú sína.

Í gegnum barna- og æskulýðsstarf og helst, leiðtogaþjálfun ungmenna sem vaxið hefur hröðum skrefum innan kirkjunnar, hefur það veitt mér og mörgum öðrum, ómælda gleði að sjá æskufólkið rísa upp og blómstra í þjónustu og hversu mjög það metur það traust sem því er sýnt, - í því, - að vera öðrum fyrirmyndir og leiðtogar.

Tuttugu ungir leiðtogar að meðaltali útskrifast eystra á ári hverju jafn margir og á höfuðborgarsvæðinu. Flest þetta unga fólk hefur gengið til þjónustu í sunnudagaskólum og æskulýðsstarfi stærstu sóknanna í Austurlandsprófastsdæmi.

Og mér til efs að nokkuð annað taki því fram að efla með ungu fólki sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum og þeirri dýrmætu gjöf sem lífið er. Og ég spyr: Hvers virði er það í fjármunum talið svo ekki sé minnst á andlega og líkamlega velferð? Já, - heilsuvernd? Í ólgum og iðum lífsins leitar hinn trúaði eftir þeim, sem styrkir hann. Já, leysir frá ótta, kvíða og angist. Og hann reiknar með Guði sem vill manninum ekkert, - nema gott.

Já, kallar hann til þjónustu við sig. Kristur í lífi sinu, dauða og upprisu mótaði þá hugsun og fól síðan kirkju sinni til að boða og halda til haga til þess að hún fæddi af sér aðgerðir sem styður, styrkir og virðir manninn Það er ríkt tilefni, til að samfagna á hátíð sem þessari og leggur grunn að þeirri innri gleði, sem nærir sálina og veitir hjartanu hamingju og frið. Í Jesú nafni. Amen.