Sjódraugurinn

Sjódraugurinn

Kærleikurinn er ekki aðeins fögur og hlý tilfinning. Kærleikurinn er athöfn. Hann beinist að einhverju ákveðnu. Og það er eðli hans að gefa, hjálpa og þjóna. Þannig erum við hendur Guðs í þessum heimi. Guð gefi okkur náð til þess.

Þú, Drottinn, átt það allt, sem öðlumst vér á jörð. Hver gjöf og fórn, sem færum vér, er fátæk þakkargjörð.  

Vor eign og allt vort lán þér einum heyrir til. Þótt gætum vér það gefið allt, vér gerðum engin skil.  

Hér svíða hjartasár, hér sveltur fátækt barn, og vonarsnauður villist einn um veglaust eyðihjarn.  

Að létta bróður böl og bæta raunir hans, að seðja, gleðja, græða mein sé gleði kristins manns.  

Vér trúum á þitt orð, þótt efi myrkvi jörð, að miskunn við hinn minnsta sé þér, mannsins sonur, gjörð. ( sb 374)  

Höf. Sigurbjörn Einarsson, biskup  

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.  

Það fer vel á því að hefja prédikunina á bænarorðum Sigurbjörns Einarssonar biskups en umræðuefni hennar er fátækt og samstaða með fólki í erfiðleikum.  

 Í dag sunnudaginn 17. október er alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt. Í dag sem fyrr tekur þjóðkirkjan höndum saman með öllum þeim sem vilja berjast gegn fátækt með því að vekja máls á henni en fjölmargir prestar ræða um fátæktina í prédikunum sínum í dag. Og unglingar á landsmóti æskulýðsfélaga á Akureyri hafa vakið athygli á þessum málstað með því að safna peningum til að unnt verði að leysa börn á Indlandi úr skuldaánauð.  

Bænarorð Sigurbjörns biskups eru sem besta útlegging á textunum sem lesnir voru hér fyrr úr Davíðssálmi 104 og öðru Korintubréfi og guðspjalli dagsins.  Þar erum við í fyrsta lagi minnt á það hvaðan fæða okkar og líf er runnið.  Allt á sér upphaf í Guði, föður skapara okkar. Í annan stað minnir postulinn Páll okkur á það hversu mikilvægt það sé fyrir bræður sína og systur í Kristi að auðsýna örlæti í einlægum kærleika gagnvart þeim sem glíma við þrengingar.  Í þriðja lagi bendir Jóhannes skírari í guðspjalli dagsins á mikilvægi þess að auðsýna skilyrðislausan kærleika í verki er hann segir við mannfjöldann: ,,Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur”.   

Sjódraugurinn  

Öll þessi orð tökum við til okkar og íhugum á þessum baráttudegi gegn fátækt þegar okkur finnst við vera ráðþrota gagnvart vandamálum fátæktarinnar, ekki síst sá sem hér talar. Það virðist vera erfitt að hrista hana af sér, losna úr vítahring fátæktarinnar eins og eftirfarandi tilvitnun í Leo Tolstoy ber með sér svohljóðandi: ,,Núverandi aðstöðu okkar sem tilheyrum menntamönnum og efnafólki svipar til aðstöðu sjódraugsins á baki fátæka mannsins. Það sem skilur okkur og drauginn að, er að við kennum ákaflega sárt í brjósti um fátæka manninn, já, alveg átakanlega mikið. Við erum líka fús til að gera næstum allt til léttis fátæka manninum. Okkur finnst ekki aðeins skylt að sjá honum fyrir svo miklu viðurværi að hann haldist á uppréttum fótum, heldur kennum við honum , uppfræðum hann og vekjum athygli hans á fegurð náttúrunnar. Við hellum yfir hann fögru tónaflóði og gefum honum gnægð heilræða. Já, við gerum næstum alla skapaða hluti fyrir fátæklinginn, nema auðvitað það að skríða af baki hans”.  

Kveðum niður sjódrauginn  

Ég er hugsi yfir þessum orðum Tolstoys á þessum örlagaríku tímum í lífi íslensku þjóðarinnar. Skuldir efnaðra íslendinga við bankana hafa í einhverjum tilvikum verið afskrifaðar en skuldaniðurfærsla hjá almenningi hefur ekki komið til greina í tvö ár frá hruni fyrr en nú að rætt er um þennan möguleika. Hverjum er um að kenna nema þeim sem völdin hafa og fjármagnið? Í þeim sjáum við sjódrauginn að verki. Vildarvinum nýju bankanna er boðið fyrst að kjötkötlunum þar sem þeir fá bestu bitana á vildarkjörum, fyrirtæki sem eru talin geta skilað góðum arði, góðri ávöxtun. Svo heyrum við um sæmilega stödd fjölskyldu fyrirtæki í kreppunni  sem rekin eru í þrot af bönkunum sem vilja seilast þar til áhrifa til að geta hrifsað þau til sín og selt hæstbjóðendum úr hópi vildarvina sinna. Hér sjáum við öðru sinni sjódrauginn að verki sem sér hag sínum best borgið með að halda þeim niðri sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér af ýmsum ástæðum, t.a.m. vegna skuldastöðu og svo  fátæktar.  

Og svo hellum við yfir fátæka ,,fögru tónaflóði” úr glæsilegum tónleikahúsum í Reykjavík og á Akureyri sem byggð eru í kreppunni. Ég er nú ekki frá því að forgangsröðunin eigi að vera önnur því að þegar allt kemur til alls þá er mannauðurinn dýrmætastur alls.  

,,Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum”, segir Jóhannes skírari við hermennina sem spurðu hann hvað þeir ættu að gera, í guðspjalli dagsins. Og við tollheimtumennina sem tóku meira til sín af skattpeningum en þeir máttu sagði Jóhannes: ,,Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt”. Í hermönnunum og tollheimtumönnunum sjáum við spegilmynd þeirra sem gerðu landið okkar tæknilega gjaldþrota. Þeir voru sjódraugar síns tíma líkt og valdhafar og fjármagnseigendur nútímans.   

Mælirinn er fullur  

Nú finnst okkur mælirinn vera fullur. Við köllum eftir réttlæti.og leitum sannleikans. Stórfelld bankarán hafa verið framin um hábjartan dag og ræningjarnir virðast ætla að komast upp með það í skjóli áhrifa og fjármagns. Við þurfum að hrista þennan sjódraug aftur okkur og kveða hann niður í eitt skipti fyrir öll.  

Mannleg reisn  

Það gerum við með því að berja tunnur og búsáhöld í stað þess að beita ofbeldi. Það gerum við með því að sýna samstöðu með þeim sem kreppan bitnar hvað harðast á. Það gerum við með því að kalla eftir þjóðarsátt um að koma þeim til hjálpar sem verst eru staddir. Það gerum við með því að endurskoða stjórnarskrána og binda lágmarksframfærslu í lög sem gefur fólki tækifæri að lifa sómasamlegu lífi. Það gerum við með því að halda áfram að gera það sem við höfum gert svo vel fram að þessu í kreppunni: En það er sá stuðningur sem Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn, Sumarhjálpin og Mæðrastyrksnefnd hafa veitt þeim sem verst eru staddir. Svo ber að þakka þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa styrkt þetta fjölþætta hjálparstarf með matargjöfum og fjárframlögum til þessa. Til upplýsingar má nefna að Hjálparstarf kirkjunnar hefur varið 81.4. milljónum til aðstoðar fólki á Íslandi og að auki fengið gefna matvöru sem áætlað er að kosti 6.5 milljónir. Mataraðstoð var veitt 5.074 fjölskyldum í 11.753 úthlutunum. Hjálparstarf kirkjunnar styður einnig hjálparstarf erlendis eins og kynnt hefur verið ríkulega um þessa helgi í fjölmiðlum. Þar hefur einna helst verið vakin athygli á því fyrirmyndarstarfi sem unglingar í æskulýðsfélögum þjóðkirkjunnar hafa unnið að en Landsmót æskulýðsfélaga var sett á Akureyri á föstudagskvöld. Unglingarnir  beina þar kastljósinu sérstaklega að fátækt og að kjörum þrælabarna á Indlandi. Þau ætla að safna peningum til að frelsa þrælabörn úr skuldaánauð. Markið er sett á að frelsa rúmlega 650 þrælabörn, jafn mörg og unglingarnir eru sem sækja landsmótið  

 Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins veita fólki á Íslandi aðstoð í neyð. Hún felst í ráðgjöf, mataraðstoð, greiðslu fyrir lyf og stuðningi við börn og ungmenni vegna skóla og tómstunda. Prestar, félags –og námsráðgjafar úti um land taka við umsóknum þar um. Þannig stendur aðstoðin öllum til boða óháð búsetu.  

Hjálparstarf á Húsavík  

Ég hef á undanförnum árum tekið við umsóknum um mataraðstoð  frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Fyrir nokkrum árum hefði þetta þótt fáheyrt en það líður varla sú vika í dag að ekki sé óskað eftir aðstoð minni í þessum efnum. Það er umhugsunarefni fyrir okkur húsvíkinga.  

Eldri húsvíkingar minnast þess þegar trillusjómenn gáfu þurfandi húsvískum fjölskyldum í soðið þegar þeir komu með aflann að landi hér áður fyrr.  Það fór ekki hátt þá frekar en nú. Þá fór hjálparstarfið fram fyrir neðan bakkann eða heima í eldhúsi en ekki á einhverri skrifstofu.  

 Þegar þrengir að fólki hér á Húsavík þá eru ýmsir reiðubúnir að rétta hjálparhönd, einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og ekki síst Verkalýðsfélagið Framsýn.  Þegar hrunið varð 2008 var haldinn fundur á Húsavík með félagasamtökum, Rauða krossinum og Þjóðkirkjunni. Þá var ákveðið að stofna Velferðasjóð Þingeyinga. Markmiðið með honum er að styðja við bakið á Þingeyingum. Framlög komu frá félagasamtökum og Rauðakrossinum. Í stjórn sjóðsins sitja Félagsmálastjóri Norðurþings, fulltrúi frá Þjóðkirkjunni og fulltrúi Rauða krossins. Stjórnin fundar einu sinni í mánuði árið um kring og afgreiðir umsóknir. Ég hvet einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki hér á staðnum til að gefa fé í sjóðinn. Sjóðnum er ráðstafað með ábyrgum hætti eftir úthlutunarreglum sem stjórnin hefur sett sér.  

Málsvarar hinna beygðu  

Búsáhöldin hafa verið barin og tunnurnar barðar við Alþingishúsið þar sem löggjafarvaldið er til húsa. Skilaboðin eru skýr. Það er kallað eftir efndum um skjaldborgina utan um heimilin.  Ríkisstjórnin má sín lítils andspænis sjódraugunum, þeim sem eiga hagsmuna að gæta í þjóðfélaginu. Þeir njóta góðs af því að einungis 9% landsmanna bera traust til Alþingis um þessar mundir því að þá geta þeir haldið áfram í sín völd. Og ekki eykst traustið í garð Alþingis ef niðurskurðarkröfur fjárlagafrumvarpsins ná fram að ganga. Þá munu margir missa atvinnuna, fara á atvinnuleysisskrá. Þá er hætt við að þeir sem það geti flytji úr landi í ríkari mæli.  

 Það fer ekkert á milli mála að fátæktin er staðreynd í íslensku þjóðfélagi í dag. Hún er ekkert feimnismál lengur sem enginn vill ræða heldur alvörumál sem brennur á fjölmörgum íslendingum, ekki síst þeim sem glíma við hana og fylgifisk hennar sem er félagsleg einangrun. Við þurfum að gerast málsvarar þeirra í auknum mæli og styðja við bakið á þeim með öllum ráðum því að við erum þrátt fyrir allt rík þjóð.  

Mælirinn er troðinn, skekinn og fleytifullur  

,,Mælirinn er troðinn, skekinn og fleytifullur” (2. Makk. 6,14)  Það er til nóg handa öllum en misskipting gæða er alvarlegt vandamál hér á landi. En þetta vandamál er ekki enn orðið svo stórt að ekki sé unnt að leysa það í 330.000 manna þjóðfélagi. Við erum sem ein stór fjölskylda. Ef einhver á við fátækt að stríða þá ber okkur skylda til að gefa viðkomandi með okkur og vera fyrri til þess. Kveðskapur Vatnsenda Rósu kemur til mín í þessu sambandi þar sem hún yrkir:  

,,Augun mín og augun þín Ó þá fögru steina Mitt er þitt og þitt er mitt Þú veist, hvað eg meina”.  

Öryrkjum er þröngur stakkur skorinn í þessum efnum og ungum einstæðum mæðrum sem þurfa að velta hverri krónu fyrir sér og geta vart framfleytt sér milli mánaðamóta nema með aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða krossins, Mæðrastyrksnefndar og annarra hjálparsamtaka.  

Þetta fólk og aðrir sem eiga við erfiðleika að stríða treysta því að þeim verði hjálpað. Og það sem við höfum séð í þessum efnum knýr okkur til að treysta skaparanum í því sem við höfum ekki séð.  

Ef við sjáum erfiðleika bróður okkar og systur og lokum hjörtunum og leggjum ekki lið eftir því sem við höfum tök á þá lokum við hjörtum okkar líka gagnvart Guði. Guð lætur samúð og löngun til að rétta hjálparhönd streyma í hjörtun þegar við sjáum hörmungar annarra. Ef við byrgjum augun fyrir umheiminum lokum við líka fyrir þessa blessunarstrauma frá Guði.  

Hvað eigum við að gera?

Hvað eigum við að gera?, Við spyrjum þessarar spurningar með mannfjöldanum og hermönnunum í guðspjalli dagsins og tökum svar Jóhannesar skírara til okkar þegar hann segir: ,,Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur”.  Þannig getum við með margvíslegum hætti auðsýnt örlæti okkar í verki gagnvart þurfandi fólki um land allt og erlendis. Þannig þjónum við líka Jesú Kristi sem gengur um meðal okkar í dag í hinum minnsta bróður okkar og systur.  Kærleikurinn er ekki aðeins fögur og hlý tilfinning. Kærleikurinn er athöfn. Hann beinist að einhverju ákveðnu. Og það er eðli hans að gefa, hjálpa og þjóna. Þannig erum við hendur Guðs í þessum heimi. Guð gefi okkur náð til þess. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. 

Lexía Sálm.104. 27-28,30.33. Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum. Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til og þú endurnýjar ásjónu jarðar. Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.   

Pistill  2. Kor. 8.1-9 En svo vil ég, bræður mínir og systur skýra ykkur frá þeirri náð sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu. Þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem þeir hafa orðið að reyna hefur hin ríka gleði þeirra leitt í ljós hve örlátir þeir eru þrátt fyrir sára fátækt. Ég get vottað það hversu þeir hafa gefið eftir efnum, já, umfram efni sín. Af eigin hvötum lögðu þeir fast að mér og báðu um að mega taka þátt í samskotunum til hinna heilögu. Og þeir gerðu betur en ég hafði vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni og síðan mér að vilja Guðs. Það varð til þess að ég bað Títus að hann skyldi og leiða til lykta hjá ykkur þessa gjöf eins og hann hefur byrjað. Þið skarið fram úr í öllu, í trú, í mælsku og þekkingu, í allri alúð og í elsku ykkar sem ég hef vakið. Þannig skuluð þið skara fram úr í þessari gjöf.  Ég segi þetta ekki sem skipun heldur er ég að ganga úr skugga um hvort kærleiki ykkar sé einlægur samanborið við ósérplægni annarra. Þið þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gerðist fátækur ykkar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þið auðguðust af fátækt hans.   Guðspjall Lúk. 3.10-14.

 Mannfjöldinn spurði Jóhannes: „Hvað eigum við þá að gera?“ En hann svaraði þeim: „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: „Meistari, hvað eigum við að gera?“ En hann sagði við þá: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“ Hermenn spurðu hann einnig: „En hvað eigum við að gera?“ Hann sagði við þá: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið ykkur nægja mála ykkar.“