Hátíð fer að höndum ein

Hátíð fer að höndum ein

Það er hreyfing í myndunum sem Jóhannes úr Kötlum dregur upp með orðum sínum, hreyfing alls þess sem opnast, og dillar og geislar á jólum í náttmyrkrinu miðju.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hátíð fer að höndum ein

Gleðileg jól öll sömul, gleðilega hátíð ástar, friðar og gleði! Gleðilega og hlýja hátíð, þótt úti sé kalt og hráslagalegt, þótt veðrin geisi og kuldaboli hátt við hlægi og máninn hrín. Það eru jól og jól eru undarleg hátíð sem stundum á það til að koma aftan að manni gera mann furðulega meyran og tilfinningaríkan og kalla fram sættir, viðsnúning og fyrirgefningu á óvæntum stöðum.

Já það eru jól, gamalkunnug lykt, hefðir og tilfinning sem samt er ný á hverju ári. Í ár finnst mér hátíð ljóssins hafa átt erfiðar uppdráttar heldur en oft áður. Það er eins og að í ár hafi svo margir verið reiðir, myrkir, kaldranalegir og þreyttir á aðventunni. Og hafi átt lítið rúm fyrir fallegt barn í jötu. Það er erfiður tími í þjóðmálunum og á mörgu heimilinu líka og margur hefur fundið til meiri samhljóms með hrossahlátrinum í hellinum hjá Grýlu gömlu, heldur en í ró og friði Jesúbarnsins. Fjárhúsið í vestrænu myndmáli er svo undurfallegt og bjart, litla barnið er svo hreint og tært og við erum svo mörg full af angist, myrkri og óró sem okkur finnst eiga svo illa heima í þessu húsi. Hvernig tekur hjarta þitt móti jólum kæra Krists barn sem komst í kirkju í kvöld? Hefurðu siglt í gegnum þetta allt saman á friðnum, tilhlökkuninni og hægðinni eða þurftir þú að fara yfir marga þröskulda og hindranir til að hlýða kalli klukkunnar og nema það sem þær segja? Já það eru jól, hátíð fer að höndum ein, eins og segir í sálminum góða og þessi hátíð sækir heim hvert og eitt okkar í lífi okkar miðju og steypir sér á kaf í reynslu okkar alveg eins og í fyrra og öll hin árin. og samt svo ólík hvert sinn.

Hátíð fer að höndum ein hana vér allir prýðum.

Gamalt viðlag hljómar um baðstofuna. Við skulum nema staðar við lítinn sveitabæ í Jökulfjörðum fyrir löngu síðan. Það heyrist ekki í klukkum því bærinn er lengst úti í sveit undir háum fjöllum. En heimilisfólkið veit að jólin eru að koma. Þau hafa verið reiknuð út frá fingurrími og sólargangi. Í dag er búið að sandskúra gólfið, það verður hangikjöt og harðfiskur í askinum í kvöld og brátt líður að því að jólaljósin sjálf verða tendruð. lýðurinn tendri ljósin hrein líður að tíðum líður að helgum tíðum.

“Hátíð fer að höndum ein” er gömul þjóðvísa, sem varðveitt er í riti eftir Jón Ólafsson frá Grunnavík. Jón var einn afkastamesti fræðimaður 18. aldar, aðstoðarmaður Árna Magnússonar og fyrirmynd Jóns Grindvicensis sem margir kannast við úr Íslandsklukkunni. Litla viðlagið um hátíðina sem að höndum fer ritaði Jón í orðabók sína um miðja 18. öld. Enginn veit hvaðan af Íslandi vísan um ljósin hrein er komin. Kannski hefur Jón numið hana við móðurkné í Grunnavík á Jökulfjörðum þar sem veturinn er svo grimmur og nóttin svo dimm um vetrarsólstöður. Kannski er baðstofan sem ég nefndi einmitt bær hans bernskujóla þegar hápunktur jólahátíðarinnar var þegar kveikt var á jólaljósunum. Forna viðlagið sem aðeins er varðveitt hjá Jóni í einni óaðgengilegustu orðabók fyrri aldar er dæmi um dýrmæti úr fortíðinni sem til okkar hafa ratað fyrir nákvæmni hins forna skrásetjara. líður að tíðum.

Lúkas læknir og guðspjallamaður segir líka frá helgum tíðum, heilagri nóttu. Þar er sagt frá barni sem var fæddist í fjárhúsi af því að það átti ekki þak yfir höfuð sér og foreldrar þess voru á ferð. Og rétt eins og á sveitabænum íslenska þar sem forðum voru tendruð ljós og brauð og ket sett í aska þá var þessi nótt ólík öðrum nóttum.

Sveitabærinn sem ég sagði ykkur frá er ekki byggður á neinum heimildum. Ég ímyndaði mér hann, en hann hefði vel getað verið til. Ekki vitum við heldur hvort sagan sem Lúkas greinir okkur frá byggir á sögulegum staðreyndum. Fæddist Jesús frá Nasaret í fjárhúsi? Var það í Betlehem? Hvergi er sagt frá því í guðspjallinu hvenær árs gangan langa til Betlehem á að hafa átt sér stað. Það er hvergi talað um þessa skrásetningu Ágústínusar nema í Biblíunni. Fæddist Jesús í desember eða mars? Betlehem eða Nasaret? Skiptir það máli hvort hlutirnir gerðust nákvæmlega svona eða voru tengdir enn fornari minnum úr sagna- og guðfræðiarfi Mið-Austurlanda? Endurtekning eða nýgerving, nýtt eða gamalt, tákn eða sagnfræði, þurfum við að velja? Gildi guðspjallssögunnar liggur ekki að mínu viti í því hvort mér tekst að finna sveitabæinn á korti eða sanna fyrir ykkur guðspjallasöguna heldur þeim táknum mannlegrar tilvistar og lífsbaráttu sem þessar myndir miðla.

Við heyrum söguna um barnið litla í jötunni á hverjum jólum Hún er lesin upp á sama hátt og forðum í baðstofunni jökulfirsku. Enn hafa helgar tíðir sótt okkur heim með ljósið sitt hreina. Og þessi endurtekning, hrynjandi, þessi stöðugi taktur af sögu sem allir vita hvernig endar en er ný á hverjum degi er okkar í kvöld þegar lýðurinn tendrar ljósin hrein eins og forðum og líður að tíðum. Magnaðar og merkingarþrungnar sögur berast áfram með hverri kynslóð. Og stundum bæta þær við sig. Það gera líka þjóðlögin okkar og þjóðvísurnar. Þær koma taktfast upp í hugann í desember, eins og inngrónar venjur og lykt af hangikjöti. Viðlagið um hátíðina sem að höndum fer varð að heilu helgikvæði í lok sjöunda áratugs síðustu aldar. Þá bað Sigursveinn D. Kristinsson vin sinn Jóhannes úr Kötlum um að bæta við vísuna og orti Jóhannes fjögur ný vers.

Gerast mun nú brautin bein bjart í geiminum víðum ljómandi kerti á lágri grein líður að tíðum líður að helgum tíðum Sæl mun dilla silkirein syninum undurfríðum leið ei verður þá lundin nein líður að tíðum líður að helgum tíðum Stjarnan á sinn augastein anda mun geislum blíðum loga fyrir hinn litla svein líður að tíðum líður að helgum tíðum Í kvæðinu heyrum af vegi í gegnum heiminn sem loks er orðin greiður. Og í sama mund víkkar annar vegur af holdi og blóði. Fæðingarvegur hinnar ungu konu opnast, hún elur barn í fyrsta sinn og leggur það við brjóst sér. Við heyrum af konu, silkireininni sem dillar barni sínu og hlær við því. Við heyrum af himinstjörnu sem að sendir út geisla sína móti barninu litla, brennur og bálar fyrir hinn litla svein í fjárhúsinu. Það er hreyfing í myndunum sem Jóhannes úr Kötlum dregur upp með orðum sínum, hreyfing alls þess sem opnast, og dillar og geislar á jólum í náttmyrkrinu miðju. Í kvæðinu fléttar Jóhannes hið forna viðlag saman við söguna af fæðingu frelsarans í Betlehem. Sama rímið gengur í gegnum allt kvæðið bein, grein, rein, stein, víðum, fríðum, blíðum og alltaf heyrum við sömu hrynjandina, taktinn frá fornri tíð, endurtekningu sem er alltaf eins og alltaf ný. Líður að tíðum. Og það er mál að við tendrum ljósin okkar.

Jóhannes lætur sér ekki nægja að tengja saman hið forna viðlag og guðspjallssöguna. Í þessu kvæði er einhvern veginn pláss fyrir okkur líka, okkur þessa hryssingslegu gesti sem ekki pössum inn í fjárhúsið og komum inn hrímug eftir átakahaust og vetur. Þar horfir enginn á kaldrana okkar, kuldaglott og klakabrynjur, heldur eru dregnir af okkur hettur og skór og okkur boðið að ylja okkur við jötuna. Okkur að boðið í kvöld að ganga inn í söguna, gera hana að okkar sögu, koma lúin með skattbyrði og skrásetningar á bakinu og dilla barni um jólin. Friðarbarni. Barni sáttar og fyrirgefningar. Barni hvíldar. Barni kærleika. Barni hláturs, léttleika og síbreytileika sem ekki verður séður fyrir. Barni sem er sent öllum börnum jarðar, hinum glöðu og þriflegu, hinum hræddu og kvíðandi, hinum hraustu og deyjandi. Gatan sem rudd hefur verið er á milli okkar og barnsins. Stjarnan andar blíðum geislum til okkar. Og einhvers staðar er Guð sem breiðir sig yfir allt, dillar þessum selskap öllum og brosir til okkar á jólum, líka þegar við höfum engan kraft til að brosa á móti. Heimsins þagna harmakvein hörðum er linnir stríðum læknast og þá hin leyndu mein líður að tíðum líður að helgum tíðum. Megi stríðum heimsins linna. Megi hin leyndu mein læknast. Megi harmakveinin þagna. Og megir þú eiga friðar og gleðijól þar sem lýðurinn tendrar ljósin hrein þar sem brautir verða greiðar og móðurlíf opnast þar sem stjarnan skín við þér og þar sem silkireinin dillar barni sínu í fjárhúsinu þar sem endurtekningin og nýgervingin verða eitt og orðið verður hold.

Og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.