Baggalútur, barnið og þú

Baggalútur, barnið og þú

Það var prestur sem spurði börnin í barnastarfinu: „ Af hverju fæddist Jesúbarnið í fjárhúsi?“ Og barnið svaraði að bragði: „Af því að mamma hans var þar.“ Börnin eru lógísk í hugsun og svara rökrétt. Barnið fæddist þar sem mamma var stödd þegar stundin kom. Það er hárrétt. Flóknara er það ekki. En afhverju fæddist Jesús í fjárhúsinu í Betlehem?
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
25. desember 2006
Flokkar

Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda. Amen. Guð gefi þér frið og birtu og gleðileg jól í Jesú nafni.

Mér finnst undursamlegt að þið skuluð vera hér, ár eftir ár, Hamrahlíðarkórinn og Kór Menntaskólans í Hamrahlíð. Á annað hundrað ungmenni, sem viljið syngja Jesú barninu í jötunni lof og veita því lotningu og lyfta hugum okkar í hæðir. Og gera það með þessum einstæða hætti þar sem gleðin gneistar af ásjónum ykkar og ómar í söng. Guð blessi ykkur fyrir það. Og ekki væruð þið hér nema vegna hennar Þorgerðar, sem með sínum óviðjafnanlega hætti laðar fram tóninn tæra og hreina sem endurómar englasönginn hingað inn til okkar. Einu sinni enn. Guð launi það og blessi. Og hér verður uppljóstað leyndarmáli í nótt! Kórarnir munu flytja jólalag Ríkisútvarpsins, sem alþjóð fær fyrst að heyra í hádeginu á morgun. Það er yndislegt lag eftir eitt yngsta tónskáld okkar, Huga Guðmundsson við texta Steingríms Thorsteinsson. Enn eitt djásnið sem lagt er að jötu Jesúbarnsins.

Um árabil sungu piltar í þessum kór og lögðu ungar raddir sínar að lofgjörð jólanætur. Ég sé þá fyrir mér í þessum fríða hópi Hamrahlíðarkóranna. Nú syngja þeir með Baggalúti og skemmta okkur, með því til dæmis að flytja jólaguðspjallið á fremur óhefðbundinn hátt:

„Það var um þetta leyti, þarna suðurfrá í miðausturlöndum. Þar var ungt par á ferli, konan kasólétt – þeim var vandi á höndum. Öll mótelin voru upptekin og yfirbókuð gistiheimilin. Og þannig byrjar sagan af því þegar hann Jesús kom heiminn í. Þau létu fyrirberast inni í fjárhúsi, með ösnum og kindum. En það var ósköp kósí. Ekki ósvipað gömlum biblíumyndum. Þar kom í heiminn mannkyns von; Hinn kunni Jesús Kr. Jósepsson. Hann endaði í jötunni, Beint undir Betlehemsstjörnunni. Og þannig hljóðar nú sagan af því Þegar hann Jesús kom heiminn í. ....Ó, Jósep sendi SMS. Ó, María var bara furðu hress. Ó, barnið lá og snuðið saug með bros á vör og soldinn geislabaug. Þannig hljómar nú sagan af því Sússi kom heiminn í. Þið ráðið sjálf hvort þið trúið því.“

-þannig hljómar jólaguðspjallið hjá Baggalúti.

Mörgum finnst vafalaust sumt á mörkunum þarna og vart eftir hafandi á helgri jólanótt í sjálfri Dómkirkju landsins! Þó stóðst ég ekki mátið. Það er ekkert nýtt að sagan af Jesú örvi skáld og listamenn til nýtúlkana, og menn leyfa sér jafnvel að verða smá svona prakkaralegir, teygja sig jafnvel út á mörk hins sæmilega. Af því að eiginlega er saga jólaguðspjallsins fráleit, og svo er hún á þessu svæði varnaleysisins þar sem húmorinn og ímyndunaraflið halda sig, hláturinn og gráturinn.

Jólaguðspjallið er partur af okkar farangri, við kunnum það, höfum heyrt það svo ótal sinnum og séð allar biblíumyndirnar og kunnum ljóðin og sálmana og höfum stráð glimmeri og gervisnjó. En Lúkas guðspjallamaður segir þessa sögu í undrun og lotningu. Þó vissi hann vel að í augum samtímamanna sinna var jólaguðspjallið nánast guðlast. Það finnst ýmsum enn í dag. Vinir okkar, múslimarnir, til dæmis hafa svipaða skoðun, finnst það fráleitt að Guð vitji mannkynsins sem barn, fátækt, alsvana barn. Nei, það gengur ekki! Segja þeir. Fjöldi fólks okkar á meðal horfir aðeins á jólaguðspjallið sem fallega mynd úr einhverjum ævintýraheimi, sem annars hefur lítil tengsl við okkar heim og veruleik. Við höfum þess vegna gott af því að leyfa okkur að hrökkva eilítið við og leggja við hlustir og undrast það sem í raun og veru er haldið þarna fram, vegna þess að það er svo yfirgengilegt að engu skáldi, snillingi, listamanni, spekingi -né Baggalúti- fyrr né síðar gæti slíkt til hugar komið. Enda var það Guð sjálfur sem „fattaði upp á því“ eins og unglingarnir segja. Jólaguðspjallið er sannleikur, frelsandi sannleikur um Guð, um heiminn, um þig. En „þið ráðið sjálf hvort þið trúið því“.

Jólaguðspjallið þolir vel að hljóma margradda og jafnvel með yfirröddum húmorsins í bland. Bara að við gleymum ekki virðingunni fyrir hinni heilögu alvöru sem undir býr. Eins og jafnan í návist barns. Á jólum erum við í návist Jesúbarnsins í jötunni. Og í návist þess, í návist barns á kaldhæðni og spé aldrei við, né hinn kaldi hlátur og napra háð. Ég bið þess, kæra unga fólk, já og þið sem eldri eruð, ég bið þess að þið leyfið ætíð lotningunni og friðinum að eiga skjól hjá ykkur. Jólin eru svo dýrmæt og boðskapur þeirra svo undursamlegur, og áhrif þeirra svo mannbætandi og lífseflandi. Við megum ekki glata því í einhvern vitleysisgang.

Það var prestur sem spurði börnin í barnastarfinu: „ Af hverju fæddist Jesúbarnið í fjárhúsi?“ Og barnið svaraði að bragði: „Af því að mamma hans var þar.“

Börnin eru lógísk í hugsun og svara rökrétt. Barnið fæddist þar sem mamma var stödd þegar stundin kom. Það er hárrétt. Flóknara er það ekki. En afhverju fæddist Jesús í fjárhúsinu í Betlehem? Og afhverju erum við hér? Það er spurning sem leitar svara í dýpra samhengi.

Af hverju höldum við jól? Af hverju erum við hér? Um hvað snýst þetta? Um helgi og kyrrð, fegurð, ljós og frið, sem vill fá að ummynda líf og heim og sem við getum þegið í trú og kærleika. Um þetta snúast jólin. Þetta er boðskapurinn sem þau bera, þetta er boðskapurinn sem felst í jólaguðspjallinu. Það fjallar um Jósef og Maríu og barnið sem fæddist í fjárhúsi af því að ekkert rúm var fyrir þau í mannabústöðum Betlehem. Barnið sem er frelsarinn, Kristur Drottinn. Guð með oss.

Hann fæddist í fjárhúsinu í Betlehem af því að mamma hans var þar, mikið rétt, og hún var þar af því að henni var úthýst, þau Jósef og María komu að lokuðum dyrum í mannabústöðum bæjarins, það var ekkert rúm fyrir þau, fremur en einatt fyrir smælingjana, þau breysku og föllnu, þau hógværu og auðmjúku. Það er staðreynd, sorgleg staðreynd í heiminum okkar enn í dag, félagsleg, menningarleg, efnahagsleg staðreynd. En Guð vildi taka sér stöðu með þeim. Vegna þess að hann er frelsarinn, frelsari heimsins, frelsari þinn. „Og þið ráðið sjálf hvort þið trúið því.“ eins og Baggalútur segir. Það er svo satt. Enginn getur krafið annan um trú. Hún er manni gefin, eða ekki, eins og annað sem mikilvægast er og dýrmætast alls, eins og td ástin. Eitthvað sem er gefið, enginn getur krafist hennar, heimtað, hrifsað, tekið eða keypt.

Jólaboðskapurinn bendir á augljósa staðreynd í sögu og samtíð: Heimurinn lokaði dyrum sínum á Guð, en Guð lokar ekki dyrum sínum. Þess vegna höldum við jól! Kærleikur Guðs er að verki. Og eiginlega eru jólin, jólahaldið, jólagjöf kristninnar til heimsins! Af því að jólin gefa innsýn inn í þann heim þar sem vilji Guðs ræður, hið góða, fagra og fullkomna. Jólin sýna það hvernig það er þegar áhrif góðvildar og gleði, trúar og kærleika fá að vinna sitt verk. Jólin segja að góðvildin og friðurinn, ljósið er okkur ætlað og áskapað. Það er góður hugur að baki lífi og tilveru manns og heims, hjarta sem ann, ástúð, sem yfir vakir. Eins og Jesús, sem er návist í ógn og myrkri, Jesús sem nemur staðar hjá þeim vonarsnauðu, hrelldu, hrjáðu. Rís gegn rangindum, gefur gleði, vekur von. Ávarpar okkur og kallar til fylgdar við sig til að vinna verk góðvildar, umhyggju og friðar. Tók á sig synd okkar og sekt er hann var deyddur á krossi. Reis af gröf til að gefa okkur eilíft líf með sér. En við ráðum hvort við þiggjum það. Ef jólin eru hátíð barnanna þá er það vegna þeirrar staðreyndar að sjálfur Guð, hinn æðsti máttur, upphaf og frumrök alls, kom í þennan heim sem varnalaust barn, allsvana smælingi. Fjárhúsjatan var fyrsta hæli hans, hausaskeljastaður hinsta. Jatan og krossinn eru af sama meiði, og eru faðmur Guðs sem hann breiðir mót þessum heimi sem hann elskar, faðmur sem Guð breiðir mót þér, sem hann er að leita til að lækna og frelsa. Af hverju fæddist Jesúbarnið í fjárhúsi?“ „Af því að mamma hans var þar.“ En hvar ert þú? Hvar ert þú þegar mildin og miskunnsemin knýja dyra hjá þér? Hvar ert þú, þegar trúin, vonin og kærleikurinn vilja fá athvarf hjá þér? Hvar ert þú þegar Jesús Kristur kallar á þig? Og hann, barnið í jötunni, meistarinn sem flutti fjallræðuna, og sagði söguna af miskunnsama Samverjanum og týnda syninum, og setti fram fordæmi hins fórnandi og fyrirgefandi kærleika, hann sem dó á krossi og reis af gröf. Þetta barn það vantar hæli í heiminum okkar, kærleikurinn og umhyggjan, mildin og miskunnsemin, trúin á Jesú vantar hæli og skjól í heiminum okkar.

„Förum beint til Betlehem að sjá!“ Sögðu hirðarnir hver við annan. Hér erum við til að sjá. Og hvað sjáum við? Myndina sem jólaguðspjallið dregur upp. Barnið í jötunni, sem er Kristur, frelsari þinn. Þú ræður hvort þú trúir því. Það gerðu hirðarnir líka forðum. Þeir réðu því. En þeir veittu þessu barni í jötunni lotningu. Þó var það ekki með neinn geislabaug, - þar skjátlast Baggalúti. En hirðarnir tóku þá ákvörðun að trúa, að ýta kaldhæðni og vantrú til hliðar og að opna hjarta sitt og huga fyrir þessu undri, frelsaranum, sem er Kristur Drottinn. Ég bið þess að þú gerir það líka, undrist, þakkir, trúir. Og farir með þá jólagjöf héðan út í jólanóttina og heim. Guð blessi jólin þín, og gefi þér og landslýð öllum gleðileg jól.