Þögn er ekki svar

Þögn er ekki svar

Við erum kölluð til ábyrgðar. Ábyrgðin felur í sér að við leitum að leiðum til að gera börn öruggari meðal fólks, gefumst ekki upp. Lausnamiðað skref getur verið þátttaka í námskeiðinu ,,Verndarar barnanna“ sem Blátt áfram stendur fyrir. Ég hvet sóknir landsins til þess að halda slík námskeið fyrir sitt starfsfólk.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
22. september 2010

Freistingin er stór að segja ekki neitt. Bara þegja! Sennilegast er líka auðveldast að þegja. Þá segir maður ekkert sem maður hefði betur ekki sagt. En í mínum huga er þögnin ekkert svar. Og sársauki minn, ef ég yrði skammaður fyrir að nota vitlaus orð eða hlegið að mér fyrir vanþekkingu mína, er afskaplega smár ef hægt væri að bera hann saman við þjáningu þeirra sem hafa orðið fyrir áreitni, misnotkun eða ofbeldi.

Öll erum við slegin í hvert sinn sem við heyrum fréttir um kynferðisbrot. Sjálfur verð ég oftast reiður. Það er sárara en orðum taki að heyra um slík brot. Og ég græt yfir því hversu vanmáttugur mér finnst við öll vera sem kirkja og sem þjóðfélag þó ég sé mjög þakklátur fyrir mörg framfaraskref sem tekin hafa verið á þessum vettvangi. í nokkur ár höfum við haft siðareglur og heilræði sem starfsfólk í barna- og unglingastarfi hefur haft að leiðarljósi. Það er gott. Og við erum heppin að hafa fagráð sem tekur vel á málunum. Það er til fyrirmyndar. En sérstaklega græt ég yfir eigin vanmætti því mér finnst að við hljótum að geta gert betur sem þjóðfélag. Og ég vil ekki þegja.

Ég var svo heppinn nýverið að fá að taka þátt í námskeiðinu  ,,Verndarar barnanna“. Leiðbeinandi á vegum Blátt áfram fór með okkur þátttakendurna í gegnum sársaukafullt ferðalag þar sem að við hlustuðum á frásagnir fórnarlamba af myndbandi. Í tengslum við þessar frásagnir unnum við verkefni og svöruðum ýmsum spurningum. Námskeiðið snérist um 7 skref til verndar börnunum okkar. Skilaboðin á námskeiðinu voru skýr: Það er fullorðna fólkið sem þarf að taka málin í sínar hendur og breyta viðhorfunum í samfélaginu. Forvarnir gegn kynferðislegri misnotkun á börnum og viðbrögð við henni eru á þeirra höndum. Á námskeiðinu voru líka dregnar upp myndir af gerendum og hversu auðvelt þeir virðast eiga með að skapa sér ímynd sem allir treysta. Það er þessi ímynd sem mér þykir hættuleg og því þarf ég að læra að gerendur koma úr öllum hópum samfélagsins!

Á markvissan hátt er þátttakendum á námskeiðinu hjá Blátt áfram gerð grein fyrir ábyrgð sinni og hvernig hægt er að bregðast á virkan hátt við ábyrgðinni. Þeir eru minntir á mikilvægi þess að vera meðvituð um líf sitt og annarra á þann hátt að gjörðir þeirra séu í samræmi við áform um heim sem verndar börn. Áhersla er lögð á að þátttakendur geri sér grein fyrir því að þeir eiga val um að ráðast í það verkefni af ástríðu og eldmóði að gera umhverfi barna öruggt. Um leið er þátttakendum gert ljóst að slíkt næst aðeins með því að byggja upp eigið sjálfstraust, treysta sjálfum sér til dáða og vinna að uppbyggingu á samfélagi sem sé mótað af óþrjótandi samhygð og umhyggju.

Í mínum augum er kynferðisleg misnotkun á börnum hryllingur, synd, smánarblettur á samfélaginu okkar. Vandamálið er ekki aðeins yfirþyrmandi vegna þess hversu útbreitt það er, né vegna þess óbærilega sársauka sem því fylgir fyrir þolendurna. Þetta er líka stórt vandamál vegna þess að það eru engar auðveldar, öruggar lausnir til þegar kynferðisleg misnotkun á börnum er annars vegar. Og sjálfum þykir mér ég lítið vita. En ég reyni að læra. Á námskeiðinu var sett fram eftirfarandi skilgreining:

Kynferðisleg misnotkun á börnum er hvers kyns kynferðisathöfn milli fullorðins einstaklings og ólögráða einstaklings eða milli tveggja ólögráða einstaklinga þar sem annar aðilinn hefur vald yfir hinum. Þegar fullorðinn einstaklingur eða eldra barn, neyðir, þvingar, sannfærir eða hvetur barn til að taka þátt í hvers kyns kynferðislegri snertingu – þá er það kynferðisleg misnotkun. Kynferðislegt ofbeldi getur verið einn einstakur atburður eða viðvarandi ástand sem varir í mánuði eða ár.
Við erum kölluð til ábyrgðar. Ábyrgðin felur í sér að við leitum að leiðum til að gera börn öruggari meðal fólks, gefumst ekki upp. Lausnamiðað skref getur verið þátttaka í námskeiðinu ,,Verndarar barnanna“ sem Blátt áfram stendur fyrir. Ég hvet sóknir landsins til þess að halda slík námskeið fyrir sitt starfsfólk. Það er þörf viðbót við námskeiðið ,,Verndum þau“ og önnur námskeið sem kirkjan hefur staðið fyrir á undanförnum misserum. Einnig leyfi ég mér að benda á mjög góða glærukynningu á vef Blátt áfram þar sem foreldrar eru beðnir að skoða ýmsa þætti varðandi það æskulýðsstarf sem þeir velja fyrir börnin sín.

Stöndum upp og tökum sjö skref til verndar börnunum okkar:

  1. Gerðu þér grein fyrir staðreyndum og áhættuþáttunum. Staðreyndir - ekki traust - eiga að hafa áhrif á ákvarðanir þínar varðandi barnið þitt.
  2. Fækkaðu tækifærunum. Ef þú kemur í veg fyrir eða fækkar þeim kringumstæðum þar sem barn er eitt með einum fullorðnum - þá dregur þú verulega úr hættunni á að barn þitt verði fyrir kynferðislegri misnotkun.
  3. Talaðu um það. Börn halda oft misnotkuninni leyndri - en hægt er að fá þau til að rjúfa þögnina með því að tala opinskátt um málefni.
  4. Vertu vakandi. Ekki búast við að merkin séu augljós hjá barni sem sætir kynferðislegri misnotkun. Merkin eru oft til staðar en þú þarft að koma auga á þau.
  5. Búðu þér til áætlun. Kynntu þér hvert þú átt að leita, í hvern þú átt að hringja og hvernig þú átt að bregðast við.
  6. Fylgdu grunsemdum eftir. Framtíðarvelferð barns er í húfi.
  7. Gerðu eitthvað í málinu!