Mikilvægi augnabliksins

Mikilvægi augnabliksins

Ég verð seint þreyttur á því að hvetja fólk til að lifa í núinu. Þ.e.a.s. ekki í gærdeginum sem búin er að gera sitt og eða morgundeginum sem kann að gera þetta eða hitt. Ég er nefnilega sannfærður um að óhamingja og depurð er raunveruleiki svo margra vegna þess að lifað og hrærst er í því sem er og væntingu þess sem gæti verið framundan. Ég ætla að útskýra þetta betur.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
07. nóvember 2004
Flokkar

Ég verð seint þreyttur á því að hvetja fólk til að lifa í núinu. Þ.e.a.s. ekki í gærdeginum sem búin er að gera sitt og eða morgundeginum sem kann að gera þetta eða hitt. Ég er nefnilega sannfærður um að óhamingja og depurð er raunveruleiki svo margra vegna þess að lifað og hrærst er í því sem er og væntingu þess sem gæti verið framundan. Ég ætla að útskýra þetta betur. Við vitum hvað við höfum í núinu, en við vitum ekki hvað við gætum haft á morgun, það er almenn vitneskja. Við stöldrum sjaldnast í núinu í því sem við höfum. Við dveljumst heldur einhverstaðar mitt á milli þess sem við höfum og væntum af framtíðinni. Segja má að við svífum í lausu lofti og náum ekki fótfestu. Við könnumst við það að vita ekki í hvorn fótinn eigi að stíga. Það veldur vanlíðan sem síðan gæti umbreyst í ótta.

Ég hitti ágætan kunningja minn um daginn. Ég hafði ekki heyrt eða séð hann í nokkurn tíma - svipur eða ásjóna hans var dimm. Þegar hann sá mig og ég sá hann sagði hann án nokkurs formála. “Ég vissi það og ég sagði það” sagði hann með þunga í röddinni. Þar sem ég vissi ekki og augljóslega hafði ekki verið til staðar þegar hann sagði það spurði ég hann hvað hann vissi sem ég vissi ekki og hvað hafði hann sagt. “Veðrið” sagði hann og horfði í kringum sig. Eins og hann ætti von á að einhver eða eitthvað kæmi honum að óvörum. “Veðrið” hváði ég... ég komst ekki lengra. “Já” sagði hann eins og það væri sjálfsagt að ég væri einhverju nær.

“Veðrið, það hefur nefnilega verið allveg ótrúlegt manstu þegar við vorum yngri vorum við að renna okkar á sleðum eða búa til snjóhús og eða teika bíla á þessum árstíma. Ég vissi að þetta mundi gerast.” Það var farið að síga í mig og ég - kannski höstulega spurði hann hvað það væri sem væri farið að gerast. “Gosið maður, gosið hefurðu ekki heyrt um gosið í Grímsvötnum.” “Eh, jú” sagði ég og skildi ekki nákvæmlega hvert hann væri að fara með þessu. “Veðrið, það er ekki eðlilegt hvað það hefur verið skrýtið – þetta er fyrirboði um eitthvað annað og meira, skal ég segja þér sagði hann í véfréttastíl. Þegar þarna var komið var ég líka farin að líta í kringum mig á svipin eins og eitthver óværa lægi í leyni tilbúin að hremma mig og nema mig á brott með sér í ystu myrkur. Við þögðum stutta stund eins og sannir karlmenn gera - þaga saman! Segja ekki neitt. “Ég er sannfærður um að þetta er fyrirboði að einhverju meira.” Sagði kunningi minn. “Áttu við gosið í Vatnajökli?” sagði ég og fannst ég vera komin á slóðina. En ekki lengi. “Nei veðrið maður skilurðu ekki. Veðrið, gott sumar og haust og... þetta er einfaldlega fyrirboði um eitthvað annað og meira. Hvað næst Katla?” Ef ég á að vera hreinskilin þá leist mér ekki á þetta tal okkar og reyndi að færa samtalið yfir á léttari nótur en ekkert gekk svo að ég skyldi kunningja minn eftir með áhyggjur af morgundeginum-því sem þá gæti mögulega gerst. Það fór ekki sæluhrollur um mig þegar ég yfirgaf hann, en hvað gat ég gert? Ég hefði getað staðið þarna á horninu á Laugavegi og Klapparstíg á hrollköldum þriðjudeginum og eða haldið för minni áfram og ég valdi síðari kostinn eftir að hafa kvatt þennan kunningja minn með þeim orðum að gera ekki veður úr þessu. Það var komið að honum að skilja ekki allveg hvert ég var að fara með þessari kveðju minni. Lífið er þannig. Við höfum ekki fullan skilning á lífinu, en við höldum áfram vegin í stað þess að standa á götuhorni lífs okkar og fara ekki þaðan af ótta við hvað gæti tekið við.

Ég talaði um núið áðan og lifa í því og hversu öflugur ég væri í því að huga að núinu og því sem það ber í fangi sér. Þá verð ég að viðurkenna að ég á ekkert auðvelt með það heldur. Sem aftur veldur vanlíðan og ótta um það sem gæti mætt mér og mínum á næsta götuhorni. Ég vil halda að það sé sammannlegt að hugsa svona. Vissulega er þörf á að gera áætlanir um framtíðina og eftir efnum að missa ekki sjónar á því, en um leið verðum við að sætta okkur við að þær væntingar þurfa ekki endilega hitta okkur á förnum vegi lífs okkar. Heilsa okkur með virktum eins og gömlum kunningja. Við verðum að hafa augun hjá okkur til þess að sjá og skynja nærveru nú- sins. Vegna þess að núið er svo mikill og stór hluti af okkur, að okkur oftar en ekki yfirsést sú staðreynd að það er okkar að staldra við. Það er svo margt og mikið sem við viljum forðast í lífinu að lendi ekki á okkur sem snögg vindhviða þegar gengið er fyrir hin mörgu horn lífs okkar.

En hvað kemur þetta guðspjalli dagsins við – upphaf hinnar frægu fjallræðu Jesú sem hefst á sæluboðunum. Sæl/ll vertu í hinum og þessum aðstæðum lífs þíns og sum hver út úr korti að hálfa væri nóg. Hver getur verið sæll af því að vera ofsóttur. Sælir eru hjartahreinir því þeir munu Guð sjá o.s.frv.

Það er reyndar hægt að finna sæluna í því að vera ofsóttur eða finna sæluna í aðstæðum ofsókna. Það kann að hljóma surrelískt og er það í raun. Fyrir einhverjum árum síðan las ég greim um prest sem var sæll af því að vera ofsóttur. Það var á tímum menningarbyltingarinnar í Kina að presturinn var hnepptur í 20 ára þrælkunarbúðir. Numin á brott frá konu og tveimur ungum börnum sem hann sá ekki næstu 20 árin. Hans helsti starfi í fangabúðunum var að standa upp í mitti í saur og annar mannlegs úrgangs og losa um stíflur sem oft og iðulega myndaðist. Hann var alsæll vegna þess að þar fékk hann að vera óáreittur biðja og hugsa um sinn Guð því verðirnir gátu ekki hugsað sér að koma nálægt honum vegna fnyks. Það sem manni gæti ekki hugnast fékk aðra merkingu með þessum endurminningum prestsins. Og eða þegar Gagrín fór fyrstur manna út í geiminn og sagði hverjum sem vildi heyra að hann hafi ekki séð Guð. Þá varð barni að orði sem heyrði þessi orð Gagaríns “ætli hann hafi ekki haft hreint hjarta” með vísan til sæluboðanna.

Í dag er allra heilagra messa. Í dag er minnst í kirkjum landsins þeirra sem látnir eru. Fyrir mörgum er það erfitt sama hversu stutt eða langt síðan að ástvinur, eða einhver sem staðið hefur nærri og er ekki lengur til staðar að leggja hug að því. Í morgun brast einhverjum kjark að koma og rifja upp með sjálfum sér líf þess sem var. Við flest erum góð í því að tala ekki um þann sem látin er við ástvin eða vini hins látna. Því það gæti verið að gömul sár verða rifin upp svo að undan blæðir. Það gæti verið að bent sé á ör á sálu sem aldrei hverfur og okkur gengur misvel að dylja fyrir sjálfum okkur og hvað þá öðrum. Bara ekki benda á og ekki tala um því þá getur verið að núið verði bærilegt hvað sem morgundagurinn hefur að segja.

Við erum tilbúin að leggja ýmislegt á okkur að forðast t.d. sorgina og hennar mörgu systur. Sorgin klæðir lífið og tilveruna marvíslegum klæðnaði sem við tökum misvel eftir eða viðurkennum að sé hluti af okkar daglega lífi. Sorgin er klæskerasaumuð. Hún hefur ekki verið og verður ekki sett í fjölaframleiðslu þótt hún hylur margan hugan og þyngir lund er hún aldrei eins og sú næsta. Andlit sorgarinnar er ungt og slétt sem og rúnum ristað.

Íslenska orðið að vera “sorgbitin” er lýsandi fyrir þann ótta sem við flest burðumst með allt lífið en það er að vera “bitin” af sorginni og takast á við þann sársauka sem því biti fylgir. Eins og ég kom inná þá getur sorgin verið með mörg andlit. Andlit sem við meðvitað og oft ómeðvitað viljum ekki horfast í augu við.

Eitt er t.d. það að óttast morgundaginn og það sem hann ber með sér. Að vera sagt upp vinnu, að skipta um vinnu. Flytja í annað hverfi að byrja í nýjum skóla að eignast nýja vini að vera svikin af vinkonu eða vini allt þetta kallar fram sorg í einhverri mynd sem við tökumst á við. Oftar en ekki ómeðvitað að við erum að glíma við sorg og hennar mörgu ásjónur. Meðvitað og ómeðvitað tökumst við á við hana og eða forðumst hana eins og gamlan kunningja.

Sorgin andar ofan í hálsmál okkar hvern dag. Sorginni skiptir engu hvað núinu finnst þótt að núið segir að það er ekki pláss fyrir leiða. Allir eiga að vera hressir og líta vel út. Þegar við lendum í þeim hörmung að missa ástvin er hollara að vera sorgmædd/ur og sýna það heldur en að láta sem ekkert væri. Flest okkar erum alin upp við það viðhorf að það sé best að harka af sér. Þetta lagast og þú þarft bara að koma þér yfir þennan hjalla (sem við köllum sorg) og þá gleymist þetta. Þegar tekist er á við sorgina er það styrkleikamerki að þora að sýna mannlega veikleika. Rithöfundurinn Margaret Mead hittir naglann á höfuðið eða pennan á blaðið þegar hún skrifaði einhverju sinni. “Þegar barn fæðist, gleðjumst við, þegar það giftir sig sláum við upp veislu, þegar það deyr, látum við sem ekkert hafi í skorist.”

Hvað sem núið segir og hvað sem núinu finnst um háttu okkar þá er það svo að við lifum í því og hrærumst og hræðumst og óttumst og gleðjumst, elskumst og rífumst og við því er ekkert að segja en að taka því sem að okkur beri í andvara daga þeirra sem við göngum í.

Teigum í okkur anda lífsins sem okkur er gefin þrátt fyrir að við vitum að við vitum ekki hvað gerist á morgun í trausti þess sem okkur er fyrirmunað að skilja ekki ósvipað því að hitta gamlan kunningja á margförnum vegi á uppteknu götuhorni í Reykjavík eða Osló og hlusta á skilningsvana og reyna eftir mætti að fylla upp í eyðu manns eigin huga. Því hann veit - ekki kunningi minn heldur höfundur þessa lífs veit og ég þarf ekki að vita allt. Því hann veit það. Í þeirri vitneskju get ég óhindrað hvílt huga, mætt sorginni, mætt núinu, staldrað við, hlusta á minn eigin hjartslátt því hann vill segja mér eitthvað. Eitthvað sem ég skil ekki núna. En það er allt í lagi, því að ekki er hægt að núa mér um nasir að ég reyni ekki hvað ég get að standa í sporum þeim sem ég skil eftir á ferð minni um lífið í þeirri sælu vissu að vel verði fyrir séð. Þótt stundum flögri að eins og létt gola að lífið sé of gott til að vera og þess vegna er ekki hvort heldur hvenær það verði breyting á. Þess vegna er núið okkur gefið til þess að hvíla huga í þeirri sælu vissu að hvað sem gerist verði vel fyrir séð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.